Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Séð yfir sunnanvert Miklavatn sem flæddi yfir bakka sína og kaffærði
ræktarland á jörð Brúnastaða.
Séð yfir sunnanvert Miklavatn sem flæddi yfir bakka sína og kaffærði ræktarland á jörð Brúnastaða.
Mynd / Halldór Gunnar Hálfdánsson
Fréttir 13. júní 2025

Vorhretið vægara en í fyrra

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Tjón varð víða á Norðurlandi í norðanáhlaupi í byrjun júní. Annað árið í röð þurftu bændur að smala lambám og koma þeim í skjól. Bóndi segir marga daga af vorhreti óvanalegt en fagstjóri hjá Veðurstofunni telur það ekki vísbendingu um að slík veður verði algengari á komandi árum.

Þann 3. júní sl. gekk yfir landið óveður með ofankomu og hvassvirði. Í aðdraganda þess voru bæði gular og appelsínugular veðurviðvaranir gefnar út fyrir alla landshluta og almannavarnir lýstu yfir óvissustigi á hluta landsins.

Varað var við veðurofsanum, til dæmis hvöttu Bændasamtök Íslands bændur um allt land til að fylgjast náið með veðurþróun og vera undirbúnir til að bregðast við. Þeim var ráðlagt að koma fé í þurrt skjól og huga sérstaklega að lambám með nýfædd lömb og folaldahryssum.

Bændur á Norðurlandi voru því flestir betur undirbúnir fyrir áhlaupið og nýttu reynslu síðasta árs, þegar mikið illviðri skall á í byrjun júlí. Góð tíð í maímánuði mun einnig hafa gert gæfumun. Einhverjir urðu þó fyrir tjóni.

Þannig kom björgunarsveitin Dalvík bændum á Hnjúki í Skíðadal til aðstoðar við að koma sauðfé, sem hafði verið sleppt á fjall, niður á láglendi, en einhver afföll urðu. Þá má búast við að afleiðingar óveðursins hafi haft slæm áhrif á fuglastofna, enda hefur töluverður fjöldi fugla glatað hreiðrum sínum í vatnavöxtum sem fylgdu áhlaupinu.

Snjóþungt var um tíma á Norðurlandinu. Hér er Einar Þórarinn Númason í eftirlitsferð í Fljótunum.

Flóð í Fljótum

Í Fljótum á Tröllaskaga var mikil veðurhæð, aftakaúrkoma og rok sem varði í talsverðan tíma. Bændur höfðu gert ráðstafanir og fært skepnur heim. Þó misstu einhverjir bæði kindur og lömb og innivera í nokkra daga hafði slæm áhrif á skepnurnar. „Það tekur á skepnurnar að vera settar inn í einhverja fjóra, fimm daga eftir að hafa verið úti í gróðri,“ segir Jóhannes H. Ríkharðsson, bóndi á Brúnastöðum. „En munurinn núna miðað við í fyrra er að gróður er sterkur og vorið var gott. Ef þær fá frið núna fram undan þá ættu þær að spjara sig.“

Þá varð töluvert af ræktarlandi Brúnastaða undir í flóði í kjölfar óveðursins. Hraunaós, sem leiðir vatn af landi á haf út, nær ekki að skila nægu vatnsmagni til sjávar vegna sandburðar svo Miklavatn flæðir yfir bakka sína og á ræktarland Brúnastaða. Jóhannes segir ósinn hafa verið til vandræða síðustu þrjú árin. Í ár voru þau búin að sá bæði grasi, byggi og höfrum á tún sem fóru undir. „Vatnsstaðan hér er allt of há og það er skelfing að horfa upp á land sem er að verða ónýtt. Um leið og það kemur einhver úrkoma eða brim þá fer allt á bólakaf. Það hefur gengið illa að fá aðgerðir til að laga þetta. Ég fór hérna á milli Pontíusar og Heródesar í fyrra til þess að reyna að fá leyfi til að gera nýjan ós eða eitthvað slíkt. En það er eins og að berjast við vindmyllur,“ segir Jóhannes. Hann segir aðgerðir við að moka sandi úr ósnum duga skammt en telur varanlega lausn felast í því að gera nýjan ós svo vatnið flæði út á fleiri stöðum. „Enginn virðist hins vegar vilja taka ábyrgð á þessu.“

Jóhannes ólst upp á Brúnastöðum en man ekki eftir að vorhret stæðu yfir svo dögum skiptir. „Sem krakki man ég eftir vorhretum, en þá gengu þau yfir á einum sólarhring. En núna og í fyrra hefur þetta verið óvanalegt. Þetta er meiri úrkoma og meiri hiti og meiri veðurhæð. Við erum farin að sjá þessa öfga í veðurfarinu og verðum að vera á varðbergi fyrir því,“ segir hann.

Jóhannes H. Ríkharðsson og Stefanía Hjördís Leifsdóttir, bændur á Brúnastöðum. Myndin er tekin í október 2024. Mynd / ghp

Ekki vísbending um að áhlaup verði algengari

Á sama tíma í fyrra gekk yfir mikið illviðri og nokkuð langt norðanhret sem hafði víðtæk áhrif á ræktarland og búfé. Óvenjumikið snjóaði þá á norðanverðu landinu miðað við árstíma sem olli töluverðum vandræðum. Matvælaráðherra setti á laggirnar starfshóp sem fór yfir tjón bænda og varði nokkur hundruð milljónum króna til stuðnings þeim sem urðu fyrir verulegu tjóni.

Samkvæmt Halldóri Björnssyni, fagstjóra veðurs og loftslags hjá Veðurstofu Íslands, eru þessi kuldaköst tvö ár í röð ekki vísbending um að slíkt áhlaup geti orðið algengara hér á landi á komandi árum. Alltaf megi búast við vorhreti af þessu tagi, kuldaköstin nú og í fyrra séu bæði innan marka.

Þvert á móti segir Halldór að haldi áfram að hlýna verði slík hret að öðru óbreyttu bæði grynnri og fágætari, en hitabylgjur muni hins vegar vera tíðari og heitari. Það séu hins vegar gögn og líkanreikningar sem sýni að búast megi við aukningu í aftakaúrkomu.

Snjóþungi að loknu óveðri. Fagstjóri veðurs og loftslags hjá Veðurstofu Íslands segir að alltaf megi búast við vorhreti en að öðru óbreyttu megi búast við að þau verði grynnri og fágætari.

Skylt efni: óveður

Bændur harka af sér
Fréttir 16. júlí 2025

Bændur harka af sér

Ný rannsókn bendir til þess að fólk sem starfar í landbúnaði sé ólíklegt til að ...

Getur leyst plast af hólmi
Fréttir 16. júlí 2025

Getur leyst plast af hólmi

Frumkvöðlafyrirtækið Marea Iceland hyggst setja á markað umhverfisvænt húðunaref...

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar
Fréttir 16. júlí 2025

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar

Verslunin Hugur Studio, sem rekin er af Hemmet ehf., hefur verið kærð fyrir afdr...

Átak um öryggi barna í sundi
Fréttir 16. júlí 2025

Átak um öryggi barna í sundi

Rauði krossinn á Íslandi hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um...

Pöddur í hundamat
Fréttir 15. júlí 2025

Pöddur í hundamat

Fyrirtæki hafa sett á markað hundamat úr skordýrum. Slíkt fæði hefur minna kolef...

Orkuskipti í Flatey
Fréttir 15. júlí 2025

Orkuskipti í Flatey

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Elías Jónatans...

Landeldi við Hauganes
Fréttir 15. júlí 2025

Landeldi við Hauganes

Laxós ehf. áformar uppbyggingu og rekstur fiskeldisstöðvar norðan Hauganess, þar...

Endurskoðuð landsáætlun um útrýmingu á riðu
Fréttir 14. júlí 2025

Endurskoðuð landsáætlun um útrýmingu á riðu

Landsáætlun stjórnvalda og bænda um útrýmingu á sauðfjárriðu var nýlega endurútg...