Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Mynd/ Birta Rán
Mynd/ Birta Rán
Líf og starf 5. október 2016

Vögguvísa í Hel

Höfundur: Vilmundur Hansen

Þungarokkshljómsveitin Skál­möld var að senda frá sér sína fjórðu hljóðversplötu sem kom formlega út 30. september síðast liðinn. Hljómsveitin hefur einnig gefið út tónleikaplötu með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Þráinn Árni Baldvinsson, gítarleikari sveitarinnar, segir að nýja platan heiti Vögguvísur Yggdrasils og sé gefin út af austurríska útgáfufyrirtækinu Napalm Records.

„Á plötunni, eins og fyrri plötunum okkar, erum við að vinna með heim sem er að hluta til ímyndaður en byggður á norrænni goðafræði. Eftir síðustu, Með vættum, spratt upp sú hugmynd að gera plötu með vögguvísum. Við veltum talsvert fyrir okkur hvernig við gætum tæklað verkefnið. Ein hugmyndin var að senda frá okkur rólega fjögurra laga plötu en útkoman er níu laga kraftmikil og hröð plata.

Þema plötunnar eru vögguvísur fyrir alla níu heima norrænnar goðafræði og í framhaldi af því er gaman að velta fyrir sér hvernig vögguvísa í Hel hljómar svo dæmi sé tekið.

Öll lög og allir textar plötunnar eru frumsamdir en minnin og hugmyndafræði þeirra eru tekin úr goðafræðinni,“ segir Þráinn. 

Gulur vínyll fyrir Ísland

„Útgáfa plötunnar er ólík því sem áður hefur verið því að hún er eingöngu gefin út af Napalm Records en Sena sér um að dreifa henni hér á landi. Platan verður gefin út bæði á CD og vínyl og er um þrjár mismunandi liti á vínylnum að ræða. Litirnir eru rauður, appelsínugulur og gulur og verður gula útgáfan eingöngu seld á Íslandi. Þetta gleður vínyl­safnarann mig gríðarlega mikið, ég hlusta nær eingöngu á vínyl.“

Þráinn segir að Naplam Records komi til með að dreifa plötunni um allan heim nema í Asíu. „Fyrirtækið er með dreifingarsamning við Universal í Bandaríkjunum en ég veit satt að segja ekki hvort búið er að semja um dreifinguna í Asíu.“

Tónleikar og gott partí

Skálmöld verður með stóra útgáfutónleika á Íslandi eftir áramótin en verður þó með ferna tónleika í tengslum við útgáfu plötunnar strax í október á Gauknum og Græna hattinum. Þráinn segir að það séu ekki beinlínis útgáfutónleikar heldur frekar gott partí þar sem þeir ætla að spila.

„Skömmu eftir miðjan október tekur svo við tónleikaferð um Evrópu fram í miðjan nóvember. Fyrst tónleikarnir verða í Póllandi, sem er orðinn okkar annar heimavöllur, og við verðum í viku þar. Eftir það förum við svo til nokkurra landa í Evrópu en mest í henni austanverðri.“

Saumaklúbburinn Skálmöld

Skálmöld samanstendur af gítarleikurunum Baldri Ragnarssyni, Björgvini Sigurðssyni og Þráni Árna, Gunnari Ben, sem leikur á hljómborð, Jóni Geir Jóhannssyni á trommur og Snæbirni Ragnarssyni á bassa. Allir meðlimir syngja.

Þráinn segir að saumaklúbburinn Skálmöld hafi orðið til þegar nokkrir áhugamenn um þungarokk hafi ákveðið að stofna hljómsveit og spila tónlist sem þeir hefðu gaman af. „Hugmyndin var alltaf að gera þetta fyrir okkur sjálfa en ekki endilega til að heilla aðra með. Þegar við ákváðum að gera fyrstu plötuna var ég sannfærður um að ég kæmi til með að eiga 250 eintök undir rúmi um ókomna framtíð og lauma eintökum í afmælispakka ættingja minna um ókomna tíð. Raunin var aftur á móti sú að platan seldist upp á nokkrum dögum og eftir það fór allt af stað og og hefur eiginlega rúllað glórulaust síðan.“

Þungarokk og norræn goðafræði

Textar Skálmaldar fylgja fornum íslenskum bragarháttum og yrkisefni þeirra eru bardagar og goðafræði. Þegar Þráinn er spurður hvers vegna norræn goðafræði sé vinsælt umfjöllunarefni þungarokkshljómsveita og aðdáenda þeirra segir hann að það liggi í augum uppi. „Áhugi fyrir víkingum og víkingatímanum er mikill eins og sást þegar sverðið fannst í Skaftárhreppi fyrir skömmu. Það er eitthvað svalt við hugmyndina um víkingaskip og allt það og aðvitað er heilmikið rokk í goðafræðinni.“

Iron Maiden í sveitinni

Þráinn Árni ólst upp í Kinn, við bakka Skjálfandafljóts. „Ég er sveitapiltur að upplagi og enda vonandi sem fjárbóndi. Ég man vel þegar ég sat á garðabandi í fjárhúsinu með afa, hann tók í nefið og mig dreymdi um að spila í þungarokkshljómsveit, núna stefnir hugurinn aftur í sveitina. Ég var því mjög glaður í sumar þegar við tókum kynningarmyndir og heilt myndband fyrir nýju plötuna við ósinn Bjargarkrók þar sem Skjálfandafljót rennur út í Skjálfandaflóa en Hlöðver, bóndi á Björgum, leyfði okkur að fara á þetta mikla orkusvæði enda er hann þungarokkari sjálfur,“ segir Þráinn að lokum.
     

Skylt efni: tónlist | Skálmöld | þungarokk

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...