Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Vitund um verð
Leiðari 10. september 2015

Vitund um verð

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Hér á þessum stað var fjallað nokkuð um afurðaverð í síðasta blaði. Sú umræða er langt því frá tæmd, því eðlilega er alltaf áhugi á því hvað nauðsynjavörur kosta.
 
Draga má fram margar tölur um þetta efni, enda mælir Hagstofan verðþróun flestra hluta hérlendis. Þar má til dæmis sjá að frá 2008 hefur almennt verðlag hækkað um 39%, en matur og drykkjarvörur í heild um 46%. Hækkun er þó afar misjöfn eftir vöruflokkum. 
 
Hækkun lambakjöts á tímabilinu er til dæmis 30% – sem er talsverð raunlækkun. Sett í annað samhengi þá var hægt að kaupa 9 kíló af heilhveitibrauði fyrir meðallambalæri 2008, en núna bara sex. Fyrir lærið fæst nú hálfu kílói minna af ýsuflökum, 1,7 kg minna af kaffi og svo framvegis. Grænmeti (innlent og innflutt) hefur hækkað um 37% sem er svipað og almennt verðlag. Hins vegar hefur fiskur hækkað um 63%, ávextir, brauð og kornvörur um 54%.  
 
Verðlækkun skilaði sér ekki til neytenda
 
Fleiri dæmi má nefna. Fram kom í grein formanns Svínaræktarfélagsins í Fréttablaðinu á dögunum að frá ársbyrjun 2013 hefur verð til svínabænda lækkað verulega á sama tíma og það hefur hækkað út úr búð. Íslenskir neytendur græddu ekki á þessari lækkun, ekki frekar en þær fjölskyldur sem stunda svínabúskap á Íslandi. Það hafa hins vegar stór fyrirtæki í verslunarrekstri gert, en í nýlegri skýrslu
Samkeppniseftirlitsins um dagvörumarkaðinn kemur fram að arðsemi þeirra er margföld á við það sem þekkist hjá sambærilegum fyrirtækjum beggja vegna Atlantshafsins.
 
Sauðfjárbændur sem þessa dagana eru að senda frá sér sláturfé eru ósáttir við að fá enga hækkun á afurðir sínar nú í haust, en verðþróunin á innanlandsmarkaði hefur ekki verið því hagfelld eins og að framan greinir. Undanfarið hafa hækkanir til sauðfjárbænda byggst á góðum árangri í útflutningi en þeir markaðir hafa gefið nokkuð eftir í haust miðað við síðustu ár. Sumir kjósa að hnýta í þessa erlendu markaðssókn og vilja helst að lokað sé á útflutning. Um það má hafa mörg orð en rifja má upp að til 2009 var sauðfjárbændum skylt að flytja út. Síðustu þrjú ár hafa sauðfjárafurðir skilað árlega 3–3,5 milljörðum í gjaldeyristekjur á ári, auk þess að sjá innlendum neytendum fyrir einu ódýrasta lambakjöti í Evrópu. Bara gjaldeyristekjurnar á þessum tíma eru um það bil 2/3 af ríkisframlögum til greinarinnar.
 
Afurðastöðvarnar eru vissulega ekki ofaldar af sínu og þurfa að slást við smásala sem eru fáir og gríðarstórir. Eftir sem áður eru það neytendur sem ráða mestu, þegar til kastanna kemur. Einhvers staðar í þeirra vitund verður til viðmið um hvað þeir telja dýrt og hvað ekki. Það myndast þrýstingur á lækkun eða verðstöðvun á vörum sem neytendur telja of dýrar en þeir gefa versluninni aftur á móti miklu meira svigrúm annars staðar. Verðlagningin getur því verið algerlega ótengt því hvað viðkomandi vara kostar raunverulega. Rannsóknir sýna til dæmis að matvörur hérlendis eru ódýrari en í nágrannalöndum, en raftæki eru miklum mun dýrari. Það er þó mun algengara að matvælaverð sé til umræðu en raftækjaverð. Að sumu leyti er það eðlilegt – allir þurfa að borða – en það leiðir líka í ljós að íslenskir neytendur eru af einhverjum ástæðum reiðubúnari að greiða meira fyrir raftæki en neytendur í nágrannalöndunum. 
 
Ólíku saman að jafna
 
Okkur bændum finnst oft ósanngjarnt undir hvaða mæliker landbúnaðarvörur eru settar í þessu samhengi. Eitt dæmi þess fylgir þessum leiðara. Í síðasta mánuði voru keyptir einn lítri af vatni og einn lítri af mjólk í einni af verslunum Haga. Hvort tveggja gæðavörur en vatnið kostar 23 krónum meira. 
 
Nú kann einhver að segja mjólkin sé þegar niðurgreidd sem er rétt. Ef við gerum ráð fyrir að allar beingreiðslur til kúabænda nýtist til að lækka verð til neytenda, en verði ekki eftir hjá bændum eru það tæpar 40 kr. á lítrann. Eftir sem áður er munurinn sláandi.
 
Það er ekki flókið mál á Íslandi að tappa vatni á flöskur. Það er auðvitað ekki fyrirhafnarlaust, en við eigum sem betur fer gnægð af vatni. Til samanburðar tekur nærri 30 mánuði að rækta upp mjólkurkú, frá því að móðirin er sædd og þar til að afkvæmi hennar fer sjálf að mjólka. Allan þennan tíma þarf að huga að þörfum gripanna upp á hvern einasta dag, afla fóðurs og tryggja viðunandi húsakost og beitiland. Það verður því ekki dregið í efa að framleiðsla á einum lítra af mjólk kostar talsvert meiri vinnu og fyrirhöfn en að tappa einum lítra af vatni á flösku. Samt virðast neytendur tilbúnir að borga meira fyrir vatnið en mjólkina.
 
Í bandarískri skýrslu um vatnsfótspor vegna athafna mannsins kemur fram að vatn í eins lítra plastflösku til neytenda er í raun 300 til 500 sinnum dýrara en greiða þarf fyrir sama vatnsmagn úr krana. Þetta er sannarlega umhugsunarefni bæði fyrir bændur og neytendur.

2 myndir:

Skylt efni: verðlagsmál

Tíu ára starfsafmæli
Fréttir 3. febrúar 2023

Tíu ára starfsafmæli

Tíu ár eru síðan Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) var sett á laggirnar. Af ...

Innlend fóðurframleiðsla gæti nýtt jarðhita sem fer til spillis
Fréttir 3. febrúar 2023

Innlend fóðurframleiðsla gæti nýtt jarðhita sem fer til spillis

Fjárfestingafélag Þingeyinga hf. hefur unnið að skýrslu í samstarfi við verkfræð...

Markaðssetning utan hefðbundins sláturtíma
Fréttir 2. febrúar 2023

Markaðssetning utan hefðbundins sláturtíma

Nýlega var Sláturhúsi Vesturlands í Borgarnesi veittur styrkur úr markaðssjóði s...

Úrskurður MAST felldur úr gildi
Fréttir 1. febrúar 2023

Úrskurður MAST felldur úr gildi

Matvælaráðuneytið hefur fellt úr gildi úrskurð Matvælastofnunar sem hafði stöðva...

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa
Fréttir 31. janúar 2023

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur lokið við greiningu á rekstri 154 kú...

Skordýr sem fóður og fæða
Fréttir 31. janúar 2023

Skordýr sem fóður og fæða

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er unnið verkefni sem snýr að því að koma upp sko...

Arabískt fyrirtæki fjárfestir í Atmonia
Fréttir 30. janúar 2023

Arabískt fyrirtæki fjárfestir í Atmonia

Efnafyrirtækið Sabic Agri-Nutrients hefur keypt einkarétt á notkun tækni Atmonia...

35 kindur drápust í bruna
Fréttir 30. janúar 2023

35 kindur drápust í bruna

„Aðkoman var óhugnanleg og þetta er mikið áfall,“ segir Guðjón Björnsson, bóndi ...