Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Ingvi Stefánsson, formaður Félags svínabænda.
Ingvi Stefánsson, formaður Félags svínabænda.
Fréttir 21. nóvember 2019

Vitum ekki hvaðan höggið kemur næst

Höfundur: Vilmundur Hansen

Svínabændur eru mjög ósáttir við frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á búvöru- og tollalögum um breyt­ingar á tollkvóta og innflutningi á kjöti og segja að skilja megi frumvarpið þannig að ráðherra geti opnað tollkvóta og auka innflutning á kjöti að vild.

Ingvi Stefánsson, formaður Félags svínabænda, segir af og frá að svínabændur séu sáttir við frumvarp sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra um breytingar á búvöru- og tollalögum þar sem lagt er til að gefinn verði út 400 tonna tollkvóti fyrir svínasíður.

„Þegar tollasamningur við ESB er gerður árið 2015 voru tollkvótar á svínakjöti auknir úr 200 tonnum í 700 tonn. Þáverandi landbúnaðarráðherra sagði að ætlunin hafi verið að ná yfir þann mikla innflutning sem orðið hafði á svínasíðum. Nú er enn bætt við. Ég minnist þess ekki að nefndin sem var að störfum og lagði til breytt fyrirkomulag við útboð á tollkvótum hafi lagt þessa aukningu til. Í milliríkjasamningum er almennt samið um að samningsaðilar gefi eftir á ýmsum sviðum og fái eitthvað í staðinn, en nú á bara að auka þetta einhliða án þess að nokkuð komi í staðinn, svona vinnubrögð dæma sig sjálf.

Ég á sæti í samninganefnd bænda um endurskoðun á búvörusamningum og hef ítrekað bent á að búvörusamningar án skýrrar stefnu um tollamál sé ekki pappírsins virði. Nú fáum við enn og aftur staðfestingu á því. Má íslenskur landbúnaður við því að auka enn frekar á innflutning til landsins? Ég bara spyr.“

Algert samráðsleysi

„Annað sem stendur upp á ráðherra er algert samráðsleysi við okkur sem að greininni stöndum. Ef ég man rétt er starfandi hópur á vegum ráðherra í tengslum við 15 liða aðgerðaáætlun vegna innflutnings á hráu kjöti til landsins. Eitt af verkefnum hópsins er að meta þróun tollverndar og því furðulegt að leggja fram breytingar á tollverndinni meðan á þeirri vinnu stendur.“

Ingvi segir furðulegt að þrátt fyrir að hópurinn hafi ekki skilað áliti sínu eigi að rjúka til og auka innflutning á svínasíðum um 400 tonn sem sé klár viðbót við það sem þegar er flutt inn. „Megnið að þessum síðum kemur til landsins úrbeinað og því um gríðarlegt magn að ræða. Við erum að tala um aukningu á tollkvótum upp á 57% á svínakjöti.“

Óstöðugt rekstrarumhverfi

„Málið snýst einfaldlega um það að greinin getur ekki búið við geðþóttaákvarðanir ráðherra á hverjum tíma. Það er sífellt verið að auka kröfurnar um bættan aðbúnað á svínabúum og bændum hafa staðið til boða fjárfestingastyrkir til þessara breytinga í þrjú ár. Þrátt fyrir það standa þessir styrkir nánast óhreyfðir þar sem svínabændur treysta sér ekki til að skuldsetja búin vegna óvissu með reksturinn. Tollverndin er sífellt að veikjast, ekki bara út af samningum sem gera ráð fyrir auknum innflutningi heldur líka vegna þess að tollverndin er fest við krónutölur frá árinu 1995 að mig minnir og rýrnar því sífellt. Við eigum einfaldlega ekki möguleika í að keppa við kollega okkar erlendis sem nota jafnvel tugfalt meira af sýklalyfjum og þurfa að uppfylla minni kröfur varðandi dýravelferð.

Ástæður óvissunnar eru meðal annars tollasamningurinn frá 2015, breytingar á lögum um innflutning á hráu kjöti, breytt fyrirkomulag á útboði á tollkvótum og rúsínan í pylsuendanum er leyfi til innflutnings á 400 tonnum á svínasíðum sem nú er verið að leggja til og er nýjasta útspil ráðherra. Þetta er í raun sorgleg staða enda skynjum við vaxandi eftirspurn eftir íslensku svínakjöti og höfum metnað til að svara þeirri eftirspurn.“

Ytra umhverfi ótryggt

„Allt ytra umhverfi greinarinnar er einfaldlega svo ótryggt að bændur vita stundum hreinlega ekki hvað mun gerast næst eða hvaðan höggið kemur. Fram til þessa hafa flestar breytingar orðið til þess að veikja afkomu innlendrar framleiðslu en ekki styðja við bakið á henni eins og segir að til standi í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og menn slá um sig með á tyllidögum,“ segir Ingvi Stefánsson, formaður Félags svínabænda.

Mest aukning í svínakjöti
Fréttir 11. október 2024

Mest aukning í svínakjöti

Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um þrjú...

Um 30% samdráttur á hverja framleidda einingu
Fréttir 11. október 2024

Um 30% samdráttur á hverja framleidda einingu

Bændasamtök Íslands hafa lagt umsögn sína um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum inn ...

Vambir liðnar undir lok
Fréttir 11. október 2024

Vambir liðnar undir lok

Ekki fást lengur vambir með slátri frá SS. Neytendur sakna þeirra.

Beint: Dagur landbúnaðar á Suðurlandi
Fréttir 11. október 2024

Beint: Dagur landbúnaðar á Suðurlandi

Bændasamtök Íslands og Samtök fyrirtækja í landbúnaði standa fyrir málþingi á Hó...

Stýrihópur greiðir úr misfellum
Fréttir 11. október 2024

Stýrihópur greiðir úr misfellum

Fyrir liggur að matvælaeftirlit hér á landi er óskilvirkt og nýr stýrihópur hefu...

Arfgerðargreindir gripir standast ekki villupróf
Fréttir 10. október 2024

Arfgerðargreindir gripir standast ekki villupróf

Mikill gangur hefur verið í arfgerðargreiningum í sauðfé frá áramótum.

Upplýsa þarf um smithættu af vanelduðum hamborgurum
Fréttir 10. október 2024

Upplýsa þarf um smithættu af vanelduðum hamborgurum

Tvær nýlegar hópsýkingar hafa orðið í Noregi sem raktar voru til hamborgarakjöts...

Afkomutjón blasir við
Fréttir 10. október 2024

Afkomutjón blasir við

Forsendur ylræktar bresta augljóslega ef ekki er tryggt aðgengi að grunnþáttum f...