Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Rafn og Majken Jørgensen kynntust fljótlega eftir að hún flutti til Íslands frá Danmörku árið 1999. Majken hvatti Rafn til að gerast bóndi, en hann hafði alltaf stefnt að bifvélavirkjun. Hún starfar sem brúðkaupsráðgjafi meðfram búskap.
Rafn og Majken Jørgensen kynntust fljótlega eftir að hún flutti til Íslands frá Danmörku árið 1999. Majken hvatti Rafn til að gerast bóndi, en hann hafði alltaf stefnt að bifvélavirkjun. Hún starfar sem brúðkaupsráðgjafi meðfram búskap.
Mynd / ÁL
Viðtal 10. mars 2023

Vill treysta fjárhagsgrunn bænda

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Rafn Bergsson frá Hólmahjáleigu í Austur-Landeyjum var kosinn formaður deildar nautgripabænda á nýliðnu búgreinaþingi. Hann segir síðustu misseri sýna hversu mikilvægt er hverri þjóð að framleiða eigin matvæli.

Foreldrar Rafns fluttu á Hólmahjáleigu árið 1976 og fæddist hann ári síðar, og er því 46 ára. Rafn stefndi ekki að því að verða bóndi, heldur menntaði hann sig sem bifvélavirki. Foreldrar Rafns lögðu niður búskapinn árið 2003 og fóru að sækja vinnu á Hvolsvöll. Majken Jørgensen, eiginkona Rafns, var helsti hvatinn fyrir því að þau færu í búskap og endurvöktu þau kúabúið á Hólmahjáleigu árið 2005. Rafn starfaði þá sem bifvélavirki og við járnsmíði á Hvolsvelli og voru hjónin búin að byggja sér hús í þorpinu. „Svo skiptum við árið 2005. Foreldrar mínir fóru í húsið okkar á Hvolsvelli og við fluttum hingað,“ segir Rafn. Nú segist hann ekki sjá fyrir sér annað starf en að vera kúabóndi.

Á Hólmahjáleigu eru 55 mjólkurkýr og kvíguuppeldi sem því fylgir. Ekki er aðstaða til að ala nautkálfa og eru þeir seldir ungir til áframhaldandi eldis. Einnig eru 20 kindur, 50 hross, 20 hænur, einn hundur og þrír kettir – þar af einn sem sinnir meindýravörnum í fjósinu. Rafn og Majken eiga saman tvö börn á menntaskólaaldri. Rafn sækir ekki vinnu fyrir utan bú, fyrir utan þátttöku í félagsstörfum. Majken starfar sem brúðkaupsráðgjafi á Hótel Rangá, sem hún vinnur mikið til í fjarvinnu.

Búnaðarþing og endurskoðun búvörusamninga

Á þessu ári liggur fyrir endurskoðun búvörusamninga og telur Rafn að hans fyrstu vikur og mánuðir í embætti muni helst snúa að vinnu í kringum þá. „Það verða stærstu verkefnin til að byrja með. Í rekstrarverkefni RML staðfestist það sem bændur finna á eigin skinni – að rekstrarafkoma hefur vernsað mikið, hvort sem er í mjólkur- eða nautakjötsframleiðslu.“ Skammt er í næsta Búnaðarþing, sem er aðalfundur Bændasamtaka Íslands, og reiknar Rafn með að endurskoðunin verði eitt stærsta málefnið á þeim fundi.

„Á síðustu tuttugu árum hefur heildarframleiðsla mjólkur farið úr hundrað milljón lítrum yfir í hundrað og fimmtíu milljónir. Á sama tíma er heildarríkisstuðningurinn alltaf að lækka, þannig að stuðningurinn á hvern lítra mjólkur hefur lækkað gríðarlega mikið. Stærstu áherslurnar eru að fá viðurkenningu á þessu og einhverjar leiðréttingar.

Auðvitað þarf að taka inn í þetta tollamál sem eru hluti af starfsumhverfi okkar bænda. Það er galið að krónutala á tollum sé óbreytt áratugum saman. Þetta hefur bitnað hart á nautakjötsframleiðendum.

Enn fremur er hafin vinna við endurskoðun á verðlagsgrunni kúabús og mikilvægt að fylgja þeirri vinnu eftir. Núverandi grunnur er yfir 20 ára og orðinn úreltur.

Rekstrarmálin eru mér ofarlega í huga. Ég vil að bændur hafi traustari fjárhagsgrunn til að takast á við áskoranir og byggja greinina upp til framtíðar. Við höfum frábærar aðstæður í þessari íslensku náttúru með hreinu vatni og lítilli lyfjanotkun. Við eigum að geta framleitt gríðarlega góðar vörur og erum að því. Við getum framleitt miklu meira ef það er markaður og ásættanlegt verð fæst fyrir vörurnar,“ segir Rafn.

Fæðuöryggi og afleidd störf

„Það er ekki sjálfgefið að það sé alltaf til nægur matur. Við sjáum að kerfið er kannski brothættara en við héldum, eftir það sem hefur dunið á heiminn með heimsfaraldri og stríðsátökum. Í mínum huga er mjög mikilvægt að við Íslendingar framleiðum það sem við getum, séum eins sjálfbær og hægt er og nýtum náttúruna og þær aðstæður sem við höfum til að framleiða góðar og heilnæmar vörur.

Við eigum að hafa stolt til að vera sjálfum okkur næg. Það á við um landbúnaðinn í heild, hvort sem það er mjólk, kjöt, grænmeti eða hvað sem er. Við þurfum að styðja og breikka framleiðsluna. Við verðum að bregðast við breytingum á þjóðfélagi og samfélaginu. Við eigum að framleiða og leggja áherslu á þær vörur sem neytendur vilja kaupa.“

Rafn nefnir að landbúnaðurinn skili af sér fjölmörgum afleiddum störfum. Á Hvolsvelli er til að mynda stór kjötafurðastöð og nokkrar verslanir sem sinna landbúnaðinum ásamt þjónustuaðilum. „Þetta snýst ekki bara um okkur sem búum úti í sveit og framleiðum matvæli. Það er mikil starfsemi í kringum þetta. Við eigum að sjá sóma okkar í því að styðja við landbúnaðinn þannig að hann geti þróast og verið þessi burðarás áfram, sem hann er í hinum dreifðari byggðum.

Tækifærin víða

„Umhverfis- og loftslagsmálin eru gríðarlega fyrirferðarmikil í umræðunni og það er klárt að við kúabændur verðum að taka þátt í þeim málum – sem og landbúnaðurinn í heild,“ segir Rafn. Hann kallar eftir auknum rannsóknum og aðgengilegum traustum gögnum, því hinn almenni bóndi veit ekkert endilega í hvorn fótinn á að stíga. „Það er helling af vinnu í gangi og vonandi fer þetta að komast í betra horf.

Það er líka fullt af tækifærum í þessum hlutum. Það er mikil gerjun með í þessum málaflokki með aukinni trjá- og skjólbeltarækt sem getur skilað aukinni uppskeru og bindingu kolefnis,“ segir Rafn. Einnig sé verkefni í gangi þar sem vinna á áburð úr úrgangi frá fiskeldi á landi. „Það er margt spennandi í gangi sem greinin getur nýtt sér. Við þurfum að vera opin fyrir tækifærunum og nýta þau sem gefast.“

Rafn Bergsson frá Hólmahjáleigu í Landeyjum var kosinn formaður deildar nautgripabænda á búgreinaþingi. Fyrstu verkefnin munu snúa að endurskoðun búvörusamninganna.

Félagskerfið Rafni mikilvægt

Frá því að Rafn gerðist kúabóndi hefur hann fylgst vel með félagsmálum landbúnaðarins og reglulega sótt fundi. Rafn sat í stjórn búnaðarfélagsins á svæðinu, en fyrsta stóra skrefið í félagsmálum var þegar skorað var á hann að bjóða sig fram í embætti formanns Félags kúabænda á Suðurlandi. Frá árinu 2018 hefur Rafn setið í stjórn Landssambands kúabænda (LK) – sem eftir endurskipulagningu félagskerfisins er orðið að deild nautgripabænda í Bændasamtökum Íslands. Í dag er starfsemi undir merkjum LK engin þrátt fyrir að félaginu hafi ekki verið slitið. Rafn segir aðildarmenn hafa viljað halda félaginu lifandi fyrst um sinn á meðan sameinuð bændasamtök eru að sanna gildi sitt. Einnig á LK talsverða sjóði og hlut í Nautgriparæktarmiðstöð Íslands sem kúabændur vilja hafa forráð yfir. Enn fremur er vísað til Landssambands kúabænda í nokkrum lögum sem á eftir að breyta. Hann reiknar ekki með öðru en að LK verði lagt niður þegar gengið hefur verið frá öllum endum. „Þessi sameining verður að ganga upp og við erum mun sterkari saman.

Þessi rótering á félagskerfinu byrjar þegar búnaðargjaldið, sem var skattur á bændur, var dæmt ólöglegt. Þar fór tekjugrunnur félagskerfisins að mjög stórum hluta. Þá byrja væringar um hvernig sé hægt að einfalda og gera kerfið skilvirkara,“ segir Rafn, og uppbyggingu Bændasamtakanna var breytt í kjölfarið. „Í dag er hver og einn einstaklingur beinn aðili að Bændasamtökunum, ekki í gegnum félag.“ Bændur velja svo þá deild innan BÍ í samræmi við hvernig búskapur er helst stundaður á þeirra bæ. Hver deild er með stjórn sem er kosin á búgreinaþingi. „Okkar hlutverk er að fjalla um fagleg málefni deildarinnar eða þau málefni sem snúa nær eingöngu að nautgripabændum.“ Rafn nefnir í því samhengi umfjöllun um fyrirkomulag greiðslna til bænda, erfðamengisúrval, kyngreiningu á sæði o.fl. Ólíkt því sem áður var eru deildirnar ekki með sjálfstæðan fjárhag. Fyrirkomulag breytts félagskerfis er allt í mótun, enda ekki búið nema eitt heilt rekstrarár hjá sameinuðum Bændasamtökum. „Svona félagskerfi á ekki að vera meitlað í stein að mínu mati. Þetta þarf að þróast eftir breytingum í samfélaginu og breytingum í greinunum.“

Hólmahjáleiga er í Austur-Landeyjum, skammt frá Bakkaflugvelli og Landeyjahöfn. Þegar Rafn og Majken fluttu þangað árið 2005 var búið að leggja kúabúskap niður tveimur árum áður. Mynd / Aðsend

Vill alltaf gera betur

„Við eigum sífellt að spyrja okkur hvort við getum gert hlutina betur. Það er alveg sama hvort við erum að framleiða mjólk og kjöt eða ákveða hvernig félagskerfið og hagsmunagæslunni er hagað. Þó að hlutirnir gangi ágætlega eru alltaf einhver tækifæri til að gera betur,“ segir Rafn.

Í þessu samhengi nefnir hann sérstaklega Búnaðarþing og búgreinaþing, sem eru tveir stórir fundir sem Bændasamtökin halda hvert ár með mánaðarfresti, og spyr hvort skilvirkara væri að sameina þessar samkomur í eina.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt

Réttalistinn 2024
29. ágúst 2024

Réttalistinn 2024

Rósa
17. júlí 2023

Rósa

Göngur og góður reiðtúr
13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Gerum okkur dagamun
13. september 2024

Gerum okkur dagamun

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi