Vill byggja upp búskapinn þrátt fyrir áföll
Helga Björg Helgadóttir, bóndi á Syðri-Hömrum 3 í Ásahreppi, rekur annað afurðahæsta kúabú landsins. Hún tók við búinu árið 2013 ásamt eiginmanni sínum, Guðjóni Björnssyni, en hann lést af slysförum í mars 2023.
Helga hefur haldið búrekstrinum gangandi ásamt fjölskyldu sinni og viðhaldið miklum árangri sem hún og Guðjón náðu saman, en undanfarin ár hafa kýrnar á Syðri-Hömrum 3 verið meðal þeirra nythæstu á landinu. Á síðasta ári var meðalnytin eftir hverja árskú 8.833 lítrar, sem er annar besti árangurinn á landsvísu.
„Það var í janúar árið 2013 sem við byrjuðum með 25 kýr,“ segir Helga. Í dag eru að jafnaði 44 mjólkandi kýr í fjósinu. Á bæjartorfunni búa tengdaforeldrar Helgu og bróðir tengdamóður hennar. „Þegar við tókum við var þetta félagsbú,“ segir hún og tóku Guðjón og Helga við einum hluta þess og rak frændi Guðjóns kúabú á sömu bæjartorfunni þangað til fyrir nokkrum árum.
Var mjög passasamur
Guðjón lést þann 17. mars árið 2023. Þá var hann að gefa kúnum morgungjöfina og var að vinna aftan við dráttarvél þegar lyftan fór af stað með þeim afleiðingum að hann festi höfuðið í þrítengibeislinu sem stöðvaði blóðflæðið. „Það var einhver rofi á skrýtnum stað og hann þurfti að teygja sig á bak við. Við það kom beislið aftan að honum og greip í höfuðið. Það var kalt og hann var með traktorinn á inngjöf, þannig að þetta gerðist hratt,“ segir Helga.
Glussakerfið í þessum traktor var bilað og þurfti Guðjón að komast í áðurnefndan rofa til að fá vökvaflæðið á réttan stað. „Hann var mjög passasamur og það var enginn göslagangur á honum. Þetta er eitthvað sem ég hefði aldrei búist við að myndi gerast hjá honum,“ segir Helga. Hún telur of algengt að bændur forgangsraði ekki viðgerðum á tækjabúnaði sem geti skapað meiri hættu. „Ef þú ætlar að vera að vesenast eitthvað, dreptu þá á vélinni áður,“ bætir Helga við.
Fjölskyldan brást strax við
„Þegar hann dó var ekki búið að gefa kúnum, það var ekki búið að gefa kálfum, þrífa skítinn eða reka kýrnar sem fara ekki í róbótinn sjálfar. Ég var svo heppin að ég gat hringt í bróður minn [sem er bóndi í Súluholti í Flóa] og hann kom og fór í fjósið. Fjölskyldan fór í fjósið fyrstu dagana á eftir og ég fór svo mjög fljótlega sjálf með stuðning með mér. Ég veit ekki hvað ég hefði gert ef ég hefði ekki haft fólk í kringum mig sem kunni þetta. Ef ég hefði ekki haft bróður minn þá hefði ég þurft að fara strax í fjósið,“ segir Helga.
Helga segist vera þakklát fyrir Vigdísi Häsler, sem var framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands þegar Guðjón lést. „Hún kom hingað og gat leiðbeint mér. Þegar maður missir maka er alls konar sem þarf að huga að. Það var allt skráð á Guðjón af því að reksturinn var ekki í félagi. Þá lenti ég í því að þurfa að sækja um nýtt mjólkursöluleyfi og Matvælastofnun þurfti að taka allt út aftur,“ segir Helga.
Þegar hún þurfti að standa í allri þessari pappírsvinnu og byrja mikið til upp á nýtt velti Helga fyrir sér þeim möguleika að hætta búskap, en skömmu eftir andlátið hafi hlutir sem eru yfirleitt ekki erfiðir verið mikil áskorun. Það hafi komið á Helgu þegar eftirlitsmaður Matvælastofnunar spurði hvort hún væri vön búskap, en þá var hún búin að reka bú í áratug ásamt því að vera alin upp á kúabúi. Í úttektinni hafi verið gerð krafa um smávægilegar úrbætur og þurfti Helga að leita sér að iðnaðarmönnum á sama tíma og hún var að syrgja eiginmanninn. „Mér fannst þetta svo yfirþyrmandi,“ segir hún, en lendingin hafi verið að halda búrekstri áfram, sérstaklega til þess að lágmarka umrótið í lífi barnanna. „Ég held að það hefði verið ein sorgin í viðbót ef ég hefði hætt með kýrnar,“ segir Helga. Tæpum tveimur mánuðum fyrir andlát Guðjóns kom upp bruni í fjárhúsunum og drápust allar kindurnar sem var mikið áfall fyrir fjölskylduna.
Erfitt að fagna sigrunum ein
Næstu mánuði léttu margir undir með Helgu. „Við vorum, held ég, aldrei ein allt sumarið. Það var ekki fyrr en um haustið sem við þurftum að fara að búa okkur til okkar rútínu sjálf – ég og krakkarnir,“ segir hún. „Tengdapabbi kemur yfirleitt alltaf í fjósið og tengdamamma er mjög duglega að passa krakkana. Það er mjög mikill stuðningur að hafa þau.“ Faðir Helgu kemur jafnframt til að aðstoða við vinnu í kringum vélar, en hún viðurkennir að það sé sú hlið búskaparins sem hún hefur minnstan áhuga á og það sé áskorun að hafa ekki Guðjón með sér í því. „Ég var meira í skepnunum sjálfum.“
Helga segir að til þess að geta haldið áfram sé mikilvægt að taka einn dag í einu. „En oft verður þetta ofboðslega yfirþyrmandi og maður er gjörsamlega búinn á því, bæði líkamlega og andlega. Ef eitthvað erfitt gerist þá verður það svo margfalt erfiðara. Það er svo erfitt að takast á við hlutina einn og hafa engan til þess að grípa þá með sér. Eins er erfitt þegar það gerast góðir hlutir, þá hefurðu engan til að fagna sigrunum með.“
Ætlar að byggja nýtt fjós
„Það er í rauninni fyrst núna sem ég er farin að hugsa um meira en að komast í gegnum dagana. Ég er búin að vera aðeins að skoða að byggja nýtt fjós,“ segir Helga, en hún hefur fundað með fyrirtæki sem þjónustar bændur við smíði stálgrindahúsa. „Þetta er svo erfitt í þessu fjósi. Það er alls konar aðstaða sem gæti verið betri, bæði fyrir mig og kýrnar. Ég hef til dæmis ekki aðstöðu fyrir geldkýr sem er mjög erfitt. Ég væri til í að vera með betri kálfaaðstöðu. Þegar þú ert að vinna svona mikið einn þá er þetta erfitt, sérstaklega af því að ég er með svo gömul hús og þetta er svo mikið á höndina.“
Helga segist ætla að reyna að vera bjartsýn á framtíðina og byggja upp búskapinn. Hún hefur þegar hafið smíði á nýrri vélaskemmu og reiknar hún með að framkvæmdir við nýtt fjós hefjist í fyrsta lagi á næsta ári.
Hugsar um kýrnar sem einstaklinga
Eins og hefur komið fram voru Guðjón og Helga með mjög nytháar kýr og hefur Helga haldið því eftir andlát Guðjóns. Aðspurð um hvað liggi að baki þessum árangri segir Helga: „Við höfum alltaf mjólkað umframmjólk. Þá getum við losað okkur við þá gripi sem eru verri, en þeir þurfa að skila miklu til að standa undir kostnaði. Þú vilt hafa færri og betri gripi.
Svo snýst þetta líka um að hugsa um kýrnar sem einstaklinga og þekkja gripina sína vel. Það gildir ekki það sama um allar hvernig þú meðhöndlar þær.“ Helga nefnir til að mynda að geldstaða kúnna eigi ekki alltaf að vera sú sama og einnig þurfi að huga að því hversu hratt er aukið við fóður eftir burð. Helga lætur líða lengur á milli burða hjá þeim kúm sem hún veit að halda mjólkinni vel á mjaltaskeiðinu en eiga oft erfitt fyrst eftir burð. „Það tekur tíma að ná þeim góðum og þá eru þær góðar lengur.“
Fóðrunin skiptir jafnframt miklu máli og og gefur Helga kúnum einu sinni til tvisvar á dag og passar upp á að hafa heyið ekki of lengi hjá þeim. „Ef þær vilja það ekki þá er það tekið út og sett nýtt. Þær eru prinsessur,“ segir Helga og hlær. Þegar þau tóku við búinu á sínum tíma voru flest túnin á bænum orðin gömul en Guðjón og Helga lögðu sig fram um að rækta eitthvað upp á hverju ári. Hún segir að Guðjón hafi haft meiri áhuga á jarðrækt á meðan hún sinnti kynbótum á kúastofninum.
Önnur manneskja núna
Helga segir skyndilegt andlát Guðjóns hafa breytt henni mikið. „Maður verður einhvern veginn önnur manneskja, það er bara svolítið þannig. Ég hef alltaf verið manneskjan sem er alveg sama um hvað fólki finnst um mig. En fyrst eftir að hann dó missti ég rosamikið sjálfstraust,“ segir hún og hafði hún þá áhyggjur af því hvað fólki fyndist um það sem hún gerði.
„Þetta gerir mann þrautseigari. Maður hugsar meira um að gera hluti sem veita manni gleði og sleppa hinu. Oft var maður að fresta hinu og þessu en ég lifi kannski meira í núinu en ég gerði,“ segir hún. Helga segist jafnframt ekki taka neinu sem sjálfsögðum hlut. „Maður heldur alltaf að þetta slæma gerist fyrir einhvern annan, ekki mann sjálfan.“ Það að vera einstætt foreldri í landbúnaði hafi í för með sér enn fleiri áskoranir.
„Það er kannski fótboltamót á fjósatíma og þú þarft að redda því. Það getur alltaf verið belja að bera og þú þarft að keyra á æfingu, eða það er einhver bekkjarhittingur eða foreldraviðtöl.“ Þetta geti verið ákveðin togstreita því hún sé eina foreldrið og vilji vera til staðar fyrir börnin, en á sama tíma geti verið álagspunktar eða þörf á eftirfylgni í búrekstrinum.
„Mitt helsta markmið er að koma börnunum í gegnum þetta á sem heilbrigðastan hátt,“ segir Helga og vill hún að þau geti horft til baka og hugsað að þau hafi upplifað góða æsku þrátt fyrir að hafa misst föður sinn. „Að vera einstætt foreldri er, held ég, alveg nógu erfitt, en þegar þú ert með börn í sorg þá er það enn erfiðara. Þegar börn eru búin að upplifa svona missi þurfa þau meiri stuðning,“ segir hún.
Guðjón var á fertugasta aldursári þegar hann lést, en Helga er 37 ára í dag. Þau eignuðust þrjú börn: Helga Björn, tólf ára, Stefán Orra, tíu ára, og Heiðdísi Rún, þriggja ára. Helga á rætur að rekja til Súluholts í Flóa, en Guðjón ólst upp á Syðri-Hömrum.
