Samvinna þvert á landamæri
Nýverið fór fram styrkveiting á vegum NORA en markmiðið með starfi þess er að styrkja samstarf á Norður-Atlantshafssvæðinu.
NORA, Norræna Atlantshafssamstarfið, er ríkjasamband sem nær til Grænlands, Íslands, Færeyja og strandhéraða Noregs (níu norskra strandfylkja frá Finnmörku í norðri til Rogalands í suðri svo og Svalbarða) og ætlað til að styrkja samvinnu fyrirtækja þvert á landamæri.
NORA var stofnað 1981 og felast tengsl landanna meðal annars í landfræðilegri legu þeirra, sameiginlegum áskorunum og sögulegu tilliti. Starfsemin skiptist niður í þrjú skilgreind þróunarsvið, tengslamyndun, áætlanagerð og verkefnastuðning, en hægt er að sækja um styrki tvisvar á ári vegna samstarfsverkefna þar sem þátttakendur þurfa að koma frá a.m.k. tveimur löndum innan ríkjasambandsins.

Efling svæðisbundins samstarfs
Hanna Dóra Björnsdóttir, landstengiliður NORA segir að verkefnin séu liður í að efla svæðisbundinn samstarfsvettvang norrænna byggðamála.
„Þau gera þannig Norður-Atlantshafssvæði að betri heimkynnum og stuðla að grænni samkeppnishæfri og sjálfbærri þróun á svæðunum með því að styðja og hvetja til samstarfs hagaðila,“ segir Hanna Dóra. Mikil áhersla sé lögð á samstarfið, enda grundvöllurinn í þeim umsóknum sem berast og sérstök áhersla á að það sé á sviðum þar sem löndin eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta, jafnframt hinum ýmsu áskorunum strjálbýlla svæða.
„Hægt er að sækja um verkefnastyrk tvisvar sinnum á ári, umsóknarfresturinn er þá í byrjun mars og byrjun október og hægt að fá styrki til allt að þriggja ára. Þó þarf að endurnýja umsóknina árlega.
Veittur er styrkur til hvers árs í senn, grunnurinn lagður og staðan tekin að ári þegar lögð er inn framhaldsumsókn. Í sumum tilvikum kemur umsókn um for- verkefnisstyrk sem á oftast við ef fólk er enn að þreifa fyrir sér, hefur ekki fundið sína samstarfsaðila. Einnig hefur komið fyrir að fólk óski eftir forverkefnisstyrknum til þess að geta útfært betur það sem það er að vinna með í fyrstu. Það getur þá orðið til þess að umsóknir verða mun sterkari en ella. Fólk fengið svigrúm og náð að nýta betur tengingar og skilað frá sér öflugri umsókn í framhaldinu en ella. Samstarfið gengur iðulega mjög vel og heyrir til undantekninga að verkefnin falli niður. Má skjóta á 95 prósenta velgengni,“ segir Hanna Dóra.
Nýsamþykkt stefna og nýjar áherslur
„Þegar kemur að því að para saman áhugasvið umsækjenda yfir landamæri er fólk oft þegar með ákveðna tengiliði í huga en við hjá Byggðastofnun erum einnig innan handar með okkar tengslanet og getum aðstoðað við að leita eftir hentugum samstarfsaðilum.
Áður en að næsta umsóknarfresti kemur, nú mánudaginn 3. mars, er boðið upp á vefnámskeið /kynningu fyrir tilvonandi umsækjendur, en hlekk á kynningarfundina má finna á heimasíðu Byggðastofnunar. Rétt er að geta þess að þeir verða haldnir mánudaginn 10. febrúar, klukkan 12 og 13. Við viljum mjög gjarnan hvetja þá sem eru forvitnir að taka þátt í því, en þar má m.a. spyrja spurninga og fá einhvern grunn af upplýsingum sem hægt er að byggja á,“ segir Hanna Dóra að lokum.
Hún hvetur áhugasama einnig til að kynna sér áherslur til næstu fjögurra ára úr nýsamþykktri stefnu:
- Afhendingaröryggi. Lausnir sem tryggja hringrásarhagkerfi, öryggi og fleiri störf. Áhersla á verkefni tengd orku, matvælaframleiðslu, vatni og hreinlæti, samgöngum og heilsu.
- Gervigreind (AI). Nútímalegar tæknilausnir sem bæta framleiðni og öryggi sérstaklega á strjálbýlum svæðum. Verkefni tengd orku, auðlindanýtingu og heilsu eru í forgangi sem viðhalda eða skapa atvinnu- og búsetutækifæri.
- Sjálfbær ferðaþjónusta. Stuðlað að sjálfbærni í ferðaþjónustu á grunni staðbundinnar menningar. Áhersla á menningararf og upplifanir í verkefnum sem efla samfélög og framleiðslu á staðnum, sérstaklega á afskekktum svæðum.
- Hreyfanleiki og græn skref. Óstaðbundin störf og þekkingarmiðlun, staðbundnar lausnir og svæðisbundin atvinnutækifæri.
- Aðlaðandi samfélag. Verkefni sem styðja við efnahagslegan, menningarlegan og félagslegan auð, sérstaklega tengd atvinnutækifærum, vellíðan og tengslum við staðinn sem tryggja að ungmenni setjist að, velji að vera áfram – eða snúi aftur.
- Sjávarútvegur og matvælaframleiðsla. Sjálfbærar og nýstárlegar lausnir sem styrkja hagkerfi strandsamfélaga. Verkefni sem stuðla að sjálfbærum fiskveiði- og fiskeldisaðferðum, endurnýta og endurvinna auðlindir sjávar eða samþætta aukaafurðir í aðrar verðmætakeðjur s.s. líftækni og lyfjaiðnað
- Silfurhagkerfið. Eldra fólk er auðlind samfélaga. Hlúð að vellíðan og samstarfi kynslóða í verkefnum s.s. sameiginlegri garðyrkju eða framleiðslu matvæla. Þátttaka eldri borgara í verðmætasköpun og efnahagslegum vexti.
Verkefni af ýmsum toga
Í lok síðasta árs á vetrarfundi NORA sem haldinn var í Kaupmannahöfn kom fram ákvörðun um úthlutun styrkja, þá í síðara skiptið árið 2024. Heildarupphæð styrkjanna var um 68 milljónir íslenskra króna og eru Íslendingar aðilar að níu af þeim tólf verkefnum sem hlutu styrkveitingu. Hámark styrkja er helmingur af heildarkostnaði verkefnis, eða 500.000 danskar krónur árlega í að hámarki þrjú ár.
Meðal þeirra er fyrirtækið Fine Food Íslandica, í samstarfi við Hyndla ehf. og Matís auk þangframleiðenda og rótgróinna matvælaframleiðenda í Færeyjum og Noregi. Verkefnið, sem ber nafnið New Everyday Seaweed Foods, stuðlar að nýtingu þangs sem hollrar og sjálfbærrar fæðu og miðar að því að þróa nýjar hversdags matvörur úr þangi og markaðssetja þær í matvöruverslanir.
Jamie Lee, eigandi Fine Food Íslandica, segist hlakka til sam- starfsins, en verkefnið hefst formlega með fundi á næstu dögum. „Það er mér mikill heiður að taka þátt í svona spennandi verkefni með frábærum samstarfsaðilum, en áætlað er að hinn færeyski Oyvindur av Skarði sjái um að stýra verkefninu,“ segir Lee.

Oyvindur er einn stofnenda lífræna kaffihússins SMAKKA í Færeyjum, eins fyrsta veitingahúss fyrir grænmetisætur í landinu. Þar hefur verið lögð áhersla á að nota þang í rétti matseðilsins og segir Oyvindur viðbrögðin hafa verið góð. „Auk þess höfum við þróað þangkex og selt í litlum mæli í matvöruverslunum auk annars, en ferlið við að stækka og fara í útflutning á slíku krefst bæði tíma og peninga, auk þess sem erfitt er að komast inn á markaðinn með aðeins eina vöru. Þátttaka okkar í verkefninu hjá NORA gefur okkur tækifæri á að vinna að frekari vöruþróun og mögulegum útflutningi,“ segir Oyvindur.
Frá Færeyjum vinna einnig að verkefninu fyrirtækin Tari Faroe Seaweed, Føroya Bjór, Breyðvirkið og Primafisk en frá Noregi eru það SjøBjørg AS og NOFIMA.
Mögulegt samstarf til vesturs
Frekari dæmi má finna á vefsíðu Byggðastofnunar en þar má t.a.m. finna þróunarverkefni sjálfbærs varnings sem byggir á lífefnum frá landi og sjó; þangi og ull, annað sem leggur áherslu á samvinnu og tengsl landbúnaðar og náttúruverndar og eitt sem hefur að leiðarljósi aukna sjálfbærni í siglingum með ferðamenn á svæðum sem vottuð eru af UNESCO, svo eitthvað sé nefnt.
Þess má geta að NORA hefur áhuga á að efla samstarf við nágranna til vesturs, með því að styrkja verkefni þar sem um samstarf NORA-landanna við Kanada og skosku eyjarnar er að ræða. Þátttakendur frá þessum löndum geta þó ekki notið fjárstuðnings NORA. Aðalskrifstofan veitir aðstoð við að finna samstarfsaðila frá Kanada og skosku eyjunum.