Sandsteinsnáman í Svíþjóð er 400.000 fm og 40 metrum undir yfirborði jarðar. Aðkoman er eins og að koma að jarðgöngum eða bílakjallara og er náman öll á einni hæð og alveg flöt.
Sandsteinsnáman í Svíþjóð er 400.000 fm og 40 metrum undir yfirborði jarðar. Aðkoman er eins og að koma að jarðgöngum eða bílakjallara og er náman öll á einni hæð og alveg flöt.
Mynd / aðsendar
Viðtal 27. nóvember 2024

Rækta grænmeti neðanjarðar

Höfundur: Hulda Finnsdóttir

Fyrirtækið VAXA framleiðir nú salat, sprettur og kryddjurtir í tveimur löndum. Fyrsta gróðurhúsið var byggt í Grafarholti árið 2017 en það seinna var sett upp neðanjarðar í sandsteinsnámu í Svíþjóð.

Andri Björn Gunnarsson og Andri Guðmundsson standa á bak við grænmetisræktunina VAXA. Andri Björn stofnaði fyrirtækið á sínum tíma þegar hann reisti gróðrarstöðina í Grafarholti. Markmiðið var að hans sögn að rækta grænmeti á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt allan ársins hring. Nýlega fór fyrirtækið í útrás til Norðurlandanna, fundu sér óvenjulegt framleiðsluhúsnæði nálægt borginni Örebro í Svíþjóð og í ársbyrjun 2024 hóf fyrirtækið sölu á grænmeti frá VAXA í sænskum matvöruverslunum.

Römbuðu á sandsteinsnámu í Svíþjóð

„Við fórum af stað árið 2021 en okkur langaði að stækka og ekki bara vera á Íslandi. Við keyrðum um allt; Svíþjóð, Noreg og Danmörku og enduðum síðan í þessu verkefni hér í Svíþjóð. Ég hafði búið í Svíþjóð í sjö ár sem hjálpaði mikið, þetta er stærsti Norðurlandamarkaðurinn fyrir grænmeti og síðan fundum við frábæra fasteign til að vera í,“ segir Andri og á hann þá við sandsteinsnámu sem þeir félagar römbuðu á fyrir tilviljun.

„Mér fannst þetta fáránleg hugmynd. Rosafyndið en aldrei að fara að gerast. Ég taldi að þarna væri örugglega blautt og kalt og svo fíla ég ekki kóngulær. Andri Björn var meira á því að þetta væri rétti staðurinn og við þyrftum að skoða hann.“

Í janúar 2022 flugu þeir til Svíþjóðar og skoðuðu námuna, sem er 400.000 fm og 40 metrum undir yfirborði jarðar. Aðkoman er að þeirra sögn eins og að koma að jarðgöngum eða bílakjallara. „Náman er algjörlega flöt með nokkrum göngum og á hverjum gangi eru svokölluð „herbergi“. Eftir að sandsteinsgreftri lauk í kringum 1980 hefur náman verið notuð sem pappírsgeymsla en sú starfsemi hefur dregist saman svo VAXA situr nánast eitt um námuna. Aðgengi er gott en 18 hjóla trukkur getur vel keyrt þarna inn. Mjög öflug rafmagnstenging er í námunni sem er mjög mikilvægt í ræktuninni. Náman leit því ótrúlega vel út og nú, 10.000 fermetrum síðar, erum við byrjaðir að afhenda fullt af grænmeti á sænska markaðinn, bæði í búðir og á veitingastaði,” segir Andri.

Andri Guðmundsson og Andri Björn Gunnarsson standa á bak við græn- metisræktunina VAXA.

Stærðin skipti máli

Stærðin og staðsetning námunnar heillaði þá félaga og nefna þeir hversu stutt er í stærri borgir Skandinavíu; tvo og hálfan tíma taki að keyra til Stokkhólms, þrjá til Gautaborgar, fjóra til Osló og sex tíma til Kaupmannahafnar.

„Það var líka ákveðin fegurð í því að þurfa ekki að byggja hús og í raun endurnýta það sem er til nú þegar. Við erum líka ekki að taka ræktarland frá neinum. Þegar þú skoðar land eða húsnæði þá takmarkast stækkun fyrirtækisins svolítið af stærðinni á landinu eða húsnæðinu sem þú kaupir. Þú þarft kannski að leigja landið við hliðina á líka og þá ertu farinn að borga leigu af því jafnvel löngu áður en þú ferð að nota það. Hér getum við nánast bara lengt framleiðslulínuna eftir pöntun. Við byrjuðum bara á því að leigja 1.000 fm og bættum síðan við 2.000 fm og svo koll af kolli,“ segir Andri Björn.

Leigukostnaðurinn var líka einn af kostunum við námuna en samkvæmt Andra er leigan mjög hófleg, enda ekki mikil eftirspurn eftir ónotuðum saltsteinsnámum.

Fullkomlega stýrt umhverfi

Fyrsta ræktunin í námunni byrjaði í einu herbergi sem er um 11 metra breitt og 5 metrar á hæð og 100 metrar á dýpt. Engir stálveggir halda þessu rýminu uppi, heldur klettaveggir sem skilja herbergin að. Í fyrsta herberginu var sett upp bekkjarkerfi, klettaveggirnir voru klæddir með panelum til einangrunar, ljós sett upp og loftræsting til að stýra hitastigi, kæla og taka raka.

„Munurinn á okkur og öðrum gróðurhúsum er að við erum í algjörlega lokuðu rými. Við notumst ekki við sólarljós heldur setjum í staðinn upp ljós-díóður og getum því verið neðanjarðar. Þessi hefðbundnu gróðurhús eru óeinangruð og þurfa því alltaf að vera kynt. Við erum hins vegar í algjörlega lokuðu boxi með alla þessa lýsingu og þurfum því alltaf að vera að kæla. Þótt það sé 20 stiga frost á Íslandi eða í Svíþjóð í margar vikur hefur það ekki áhrif á okkur,“ segir Andri.

Þeir hafa nú þegar lokið við að setja upp fjögur slík herbergi og eftir áramót stefna þeir á að auka við sig fimm herbergjum í viðbót.

Fyrsta ræktunin í námunni byrjaði í einu herbergi og er ræktunin í stýrðu umhverfi. Klettaveggirnir eru klæddir með panelum til einangrunar og ljós og loftræsting stýra hitastigi, kæla og taka raka.

Stöðugleikinn heillar

Hitastigið í námunni er alltaf 10 til 12 gráður allt árið um kring. Náman er frostfrí þar sem hún er 40 m undir yfirborði.

„Stöðugleikinn er það sem okkur finnst rosalega áhugavert. Að hafa aðgang að stöðugleika í landbúnaði, sem hefur í gegnum aldirnar stýrst af ytri aðstæðum, eins og veðurfari eða árstíðum, er mjög verðmætt. Við þurfum ekkert að pæla í hvort það sé heitara eða kaldara á morgun eða hvort það muni rigna eða þá kannski rigna of mikið. Við getum einbeitt okkur að því að finna hagkvæmari leiðir til ræktunar,“ segir Andri Björn en Andri bætir við: „Þessi náma er frábær en við erum þó ekki orðnir eitthvað námuræktunarfyrirtæki. Við getum alveg ræktað ofanjarðar líka.“

Þeim hugnast að framleiða í algjörlega stýrðu umhverfi. „Í mörgum gróðurhúsum dettur framleiðsla kannski niður um 20 til 30 prósent um veturinn því sólin minnkar. Við lendum ekki í því. Að hafa þennan stöðugleika einfaldar hjá okkur reksturinn. Eftirspurnin hjá viðskiptavinunum minnkar ekki þótt það komi vetur. Þá er bara aukinn innflutningur á grænmeti og við viljum draga til muna úr þörfinni á óumhverfisvænum innflutningi,“segir Andri.

VAXA og VÄXA

VAXA selur vörur sínar til helminga í matvörubúðir og til heildsala á veitingastaði í báðum löndum. Í ágúst kynntu þeir nýjar umbúðir og samræmdu vörulínur sínar á Íslandi og í Svíþjóð. Horfa þeir Andri og Andri Björn björtum augum til framtíðar og telja mörg spennandi tækifæri vera bæði á íslenska og sænska markaðnum.

„Við viljum vaxa bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Það eru frábær tækifæri á báðum mörkuðum. Okkur finnst grænmetisgeirinn mjög áhugaverður. Það verður mikið í gangi í honum næstu áratugina. Við höfum fjárfest mikið í fyrirtækinu sem við teljum að eigi eftir að skila okkur,“ segir Andri.

Sjálfbærari og umhverfisvænni ræktun

Andri Björn og Andri vilja leggja sitt af mörkum í að auka fæðuöryggi og finna sjálfbærri og umhverfisvænni leiðir í ræktun á grænmeti.

„Matvælaframleiðsla er eitt af hlutunum í heiminum sem við þurfum að finna út úr. Við erum nú þegar að nota rosamikið af landinu sem við eigum til. Okkur er að fjölga mikið, við erum að flytja mikið af mat og við hendum mikið af mat. Landbúnaður úti á akri er undir mikilli pressu og til lengri tíma litið getum við ekki fengið sama magn eða meira magn af landi til þess að fæða fleira fólk. Þetta er eitt af mörgu sem við þurfum að finna út úr,“ segir Andri Björn. Hann sér mikla möguleika á aukinni framleiðslu innanlands. „Það er hægt að draga úr innflutningi og neikvæðu áhrifunum sem núverandi framleiðsla hefur. Það sem við erum að gera núna er kannski rosalítið í stóru myndinni en einhvers staðar þarf að byrja. Við höfum fulla trú á þessum geira til framtíðar. Hollur matur framleiddur á skikkanlegan og betri máta er áhugavert til lengri tíma litið,“ segir Andri Björn.

Skylt efni: Vaxa

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt

Mismunur bændum í óhag
5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Þjóðarréttur Íslendinga
4. desember 2024

Þjóðarréttur Íslendinga

Baldur Högni
4. desember 2024

Baldur Högni

Tildra
4. desember 2024

Tildra