Neytendur eru okkar fólk
„Framgangur landbúnaðarins er pólitísk ákvörðun. Við komumst ekki fram hjá því. Það er pólitísk ákvörðun hvort við framleiðum matinn okkar sjálf eða flytjum hann inn. Það er hápólitísk ákvörðun hvort íslenskur landbúnaður á bara að vera upp á punt eða halda áfram að blómstra og framleiða stóran hluta af þeim matvælum sem við neytum.“
Svona kemst Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands, að orði þegar ég spyr hann um þau ummæli Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra í fyrsta þætti Útvarps Bændablaðsins, að við yrðum að hlusta á vilja neytenda þegar við svörum spurningunni um það hvort auka eigi landbúnaðarframleiðslu hér á landi á næstu árum eða bæta enn við innflutning á matvöru.
„Þegar talað er um að horfa verði til þess hvað neytendur vilja,“ heldur Trausti áfram, „þá verður að hafa í huga að það mun alltaf hafa mikið um val þeirra að segja hvernig við búum að íslenskum landbúnaði. Verða vörur hans samkeppnishæfar á markaði hvað varðar verð? Verður landbúnaðurinn samkeppnishæfur um vinnuafl? Og ætlum við að hjálpa fólki í þessari atvinnugrein að koma góðum hugmyndum í framkvæmd? Það mun, að mínu mati, alltaf nýtast neytendum best að við eflum innlenda framleiðslu. Þannig tryggjum við þeim hollar, heilnæmar og öruggar matvörur á samkeppnishæfu verði.“
Við þurfum að vera sveigjanleg
En þurfa bændur að hafa einhverjar áhyggjur af vilja neytenda?
„Nei, við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af vilja neytenda. En við þurfum alltaf að vera tilbúin til þess að aðlaga okkur að neyslubreytingum. Við þurfum að vera sveigjanleg. Við sjáum það til dæmis mjög skýrt í þróuninni í ylræktinni á síðustu árum og áratugum. Þar er stöðugt verið að koma með nýjar vörur inn á markað og svara þannig eftirspurn. Það hefur gengið ákaflega vel og raunar selst allt upp sem garðyrkjubændur setja á markað. Það segir okkur að íslenskir neytendur vilja íslenskt grænmeti. Þarna er fordæmi sem ég held að aðrar búgreinar geti fylgt. Við þurfum að svara ákalli neytenda hverju sinni.
En þarna erum við aftur komin að stuðningskerfinu. Með því þarf að leysa úr læðingi frumkvöðlaeðli bænda, kraft þeirra og nýsköpunarhugmyndir. Að öðrum kosti munu þeir ekki geta fylgt kröfum markaðarins eftir.
Það er samt mjög mikilvægt að hafa í huga að við megum ekki efla nýsköpunina og frumkvöðlakraftinn á kostnað þess sem við erum nú þegar að gera og gerum vel. Við megum ekki mola niður mjólkurframleiðsluna og kúabúskapinn eða ráðast eina ferðina enn á sauðfjárbændur og segja þeim að fara að gera eitthvað annað. Leyfum bændum að stunda þann búskap sem þeir kjósa sjálfir, en fái þeir nýjar hugmyndir og langi til að prófa nýja hluti þá er mikilvægt að þeir geti það. Hlúum vel að því sem við höfum en sköpum um leið jarðveg fyrir nýsköpun. Hjálpum bændum að nýta tækifærin sem þeir sjá sjálfir á sínum búum.“
Þarf að efla sjálfan landbúnaðinn
Mér heyrðist ráðherrann einmitt vera að tala um frelsi bænda og sveigjanleika í nýju stuðningskerfi. Eruð þið á sömu blaðsíðu þarna?
„Ég held við séum að einhverju leyti sammála en ekki að öllu leyti,“ svarar Trausti. „Það sem ég er fyrst og fremst að segja er að í allt of langan tíma hefur lausnin verið sú að draga úr framleiðslu. Það hefur í raun verið eina lausn bænda að hætta búskap. Færa sig kannski yfir í ferðaþjónustu eða taka að sér önnur störf, en sitja þó jarðirnar. Í mínum huga þurfa þær ákvarðanir sem teknar verða um stuðning við landbúnaðinn að verða til þess að efla hann sjálfan, ekki eingöngu búsetu í sveitum landsins eða eitthvað enn annað. Það eru ákveðin atriði í búvörusamningunum sem við viljum halda í og við vitum að það þarf meira fjármagn inn í kerfið eins og það er í dag til þess að okkur gangi betur. Byrjum á því að hlúa vel að því sem fyrir er. Og opnum svo samtalið um það hvað við getum gert til þess að bændur geti nýtt jarðir sínar og hugmyndir betur.
Það má til dæmis nefna beint frá býli. Það er þung starfsemi sem erfitt er að láta ganga upp. Hvernig væri að styðja betur við hana? Þetta er augljóslega starfsemi sem bændur vilja sinna og neytendur kalla eftir.
Annað er að það er mikilvægt að styðja við slíka starfsemi, sem þegar hefur náð einhverri fótfestu, án þess að taka það af einhverju öðru eins og stundum hefur verið gert eða reynt að gera. Búum að vaxtarsprotum en sköpum jafnframt svigrúm fyrir ný tækifæri hjá bændum. Og allra helst á forsendum jarðanna sem þeir búa á.“
Kallað eftir stöðugleika
Nú virðist samtalið við ráðuneytið um nýja búvörusamninga ætla að hefjast í haust. Hvernig ætlið þið hjá Bændasamtökunum að nálgast þetta samtal?
„Við héldum deildarfundi og Búnaðarþing á nýliðnum vetri. Út úr þessu félagsstarfi hafa komið ályktanir okkar félagsmanna um það hvernig þeir vilja hafa næstu samninga. Og þar með erum við hjá Bændasamtökunum komin með línuna og ekkert annað að gera en að framfylgja vilja okkar félagsmanna. Og við munum verða hreinskilin og skýr um það hvað við viljum fá út úr samningunum og verðum öll af vilja gerð til þess að finna leiðir að markmiðunum. Samningaviðræðurnar munu ganga út á að bændur og ráðuneytið öðlist sameiginlega sýn á markmið og leiðir.
Það eru fjölmargar búgreinar undir og því er einhver munur á því hvað verður til umræðu í hverri grein. Hagsmunirnir geta verið ólíkir. En það er minn vilji að búgreinadeildirnar komi að þessum viðræðum sjálfar. Fæstar þeirra eru að kalla eftir miklum breytingum. Þær eru umfram allt að kalla eftir stöðugleika. Samningarnir þurfa að tryggja stöðugleika svo að það verði ekki þessar miklu sveiflur í afkomu bænda. Það erfiðasta í rekstri bænda er að tímabilin þar sem afkoman er viðunandi eru svo stutt. Og það eitt og sér gerir það að verkum að áfalla- og sveifluþol landbúnaðarins er lítið. Þegar áburðurinn hækkaði, þá var það ekki endilega hækkunin sjálf sem var vandamálið, heldur afkomuleysið árin á undan. Landbúnaðurinn þoldi ekki þessar hækkanir því að afkoman var búin að vera léleg í allt of langan tíma.
Fjármagn á Íslandi er dýrt fyrir bændur eins og aðra. Fyrir vikið er lítið fjárfest í landbúnaðinum. Og á meðan það er ekki verið að fjárfesta, hvort sem er í fjósum, fjárhúsum, gróðurhúsum, eða hverju sem nöfnum tjáir að nefna, þá er ekki verið að byggja upp landbúnað til lengri tíma. Uppbygging hans til framtíðar byggir á fjárfestingu dagsins í dag og hún er lítil sem engin. Það verðum við að taka alvarlega og um það eru allar búgreinar sammála. Það verður að efla fjárfestingarstuðning, lækka kostnað bænda við uppbyggingu húsa og mannvirkja svo hægt sé að auka framleiðsluna og bæta afkomuna. Og auðvitað snýst þetta einnig um aðbúnað bænda við vinnu sína og aðbúnað skepna. Allt mun þetta hafa áhrif til lengri tíma á það hvernig við munum halda áfram í okkar atvinnugrein. Við þurfum að geta haldið í við markaðinn sem fer ört stækkandi. Til þess er ætlast af okkur.“
Réttmætar forsendur fyrir auknum stuðningi
Eruð þið að biðja um meiri pening inn í kerfið?
„Ég held það séu réttmætar forsendur og væntingar bænda fyrir því að stuðningur við landbúnaðinn verði aukinn. Hver sá aukni stuðningur verður og í hvaða mynd á samtalið eftir að leiða í ljós.
Búvörusamningar eiga að gera tvennt. Þeir eiga að tryggja bændum afkomu og skila lægra verði til neytenda. Þessi beini stuðningur til bænda er áratuga gömul hugmynd. Fyrst og fremst jafnar þessi stuðningur þó stöðu heimilanna. Það er grunnhugmyndin á bak við búvörusamningana. Í mínum huga er það mikilvægur grundvöllur þessara samninga. Markmiðið um jöfnuð er ástæðan fyrir stuðningi við landbúnað um allan heim. Hann er til þess að tryggja öllum almenningi eins holl og heilnæm matvæli og kostur er á sem hagkvæmustu kjörum.
Það er ekki bara vegna hækkaðs áburðarverðs, stríðs og heimsfaraldurs sem ríki heims hafa þurft að veita auknum fjármunum í landbúnað sinn. Það er einfaldlega vegna þess að hann hefur of lengi verið of lítið studdur og þar með er áfallaþol hans lítið. Á síðustu árum hefur hér verið efnt til áburðarstuðnings, spretthóps um stuðning við landbúnað og ráðuneytisstjórahóps til að bregðast við slæmri afkomu í landbúnaði. Allt þetta hefur þurft að koma til vegna þess að það vantar fjármagn inn í kerfið svo það geti gegnt sínu hlutverki.
Þannig að, já, við erum að tala fyrir auknum stuðningi. Sá stuðningur þarf að stuðla að betri afkomu bænda og aukinni uppbyggingu í landbúnaði.“
Framleiðslurammi um stuðning
Ráðherrann talar um nýtt stuðningskerfi. Það er ekki útfærð hugmynd, að því er virðist, heldur hugmynd sem á að móta í samtali við ykkur bændur. Hingað til hefur að stórum hluta verið um að ræða framleiðslustyrki. Víða um Evrópu hefur þessu verið breytt á undanförum árum. Í Bretlandi hafa til dæmis verið teknir upp grunnstyrkir að ákveðinni fjárhæð sem renna til allra bænda, burtséð frá því hvað eða hversu mikið þeir framleiða. Þetta eru nánast eins konar búsetustyrkir. Og kannski er ákveðið frelsi fólgið í því fyrir bændur að fá einhvern grunnstuðning sem þeir svo ráða hvað þeir gera við. Hvað segirðu um hugmyndir af þessu tagi?
„Ég held það sé besta nýtingin á fjármagni ríkisins að stuðningur sé tengdur framleiðslu. Þannig er til dæmis auðveldlega hægt að fylgjast með og meta hvernig stuðningurinn nýtist. Þetta þarf þó ekki að eiga við allar greinar landbúnaðarins. Framleiðsla er samt einfaldur mælikvarði. Ríkið fær 150 milljón lítra af mjólk fyrir það fjármagn sem það leggur til kúabænda og það dugar til þess að metta innanlandsmarkaðinn. Kúabændum hefur fækkað mjög mikið á síðustu árum en þeir hafa samt staðið við sínar skuldbindingar við ríkið um að sjá innanlandsmarkaði fyrir mjólk. Nákvæmlega sama hafa sauðfjárbændur gert með dilkakjöti. Þeim hefur fækkað gríðarlega mikið en þeir anna eigi að síður þörfinni. Um það bil 30% stuðningsins til þeirra er framleiðslutengdur og fyrir hann fær ríkið lambakjöt fyrir innanlandsmarkaðinn. Ríkið veit hvað það fær. Með því að veita grunnstuðning öllum bændum í landinu burtséð frá því hvað þeir framleiða er óvarlegt.
En svo verðum við að hafa í huga að engar tvær búgreinar eru að vinna innan sama stuðningskerfis. Og ég held það geti orðið erfitt að búa til samning sem tekur utan um allan landbúnaðinn og hann sé þar með í góðum málum. Að mínu mati verður að vera framleiðslurammi utan um stuðninginn svo hann ýti undir framleiðslu á ákveðnum matvælum. Við þurfum öll á mat að halda. Það kemst engin þjóð upp með það að framleiða ekki mat handa sér. Og við erum auðvitað eyland langt úti í hafi og erum um fram allt að framleiða mat fyrir okkur sjálf, en ekki til útflutnings. Það er skuldbinding okkar bænda gegn því að fá niðurgreiðslur á neytendaverðinu. Ég held það væri ekki gott að kippa þessu úr sambandi. Hvernig ætlar ríkið þá að tryggja fæðuöryggi landsmanna?“
Viljum skapa vettvang fyrir umræðu um aðild
Þessir samningar munu fara fram í ljósi þeirrar yfirlýstu stefnu ríkisstjórnarinnar að kanna vilja þjóðarinnar til þess að ganga í Evrópusambandið. Hvernig horfir það samhengi við þér og bændum almennt? Eru bændur opnari fyrir þeirri umræðu en áður?
„Já, ég held það verði ekki hjá því komist að eiga það samtal einu sinni enn. Vilji ríkisstjórnarinnar stendur til þess. Og afstaða Bændasamtakanna er sú að við viljum skapa vettvang til þess að ræða þessi mál á meðal bænda. Við þurfum að afla okkur þekkingar á Evrópusambandinu. Það hefur breyst á undanförnum árum, er mér sagt. Ég er enginn sérfræðingur í Evrópusambandinu. Og ég held það sé hægt að læra ýmislegt af því hvernig sambandið gerir hlutina en ég held það sé líka ýmislegt að varast þar þegar kemur að landbúnaði.
Manni virðist ráðamenn í Evrópu vera að átta sig á því að stuðningur við landbúnað í sambandinu þurfi að miða að því að auka matvælaframleiðslu. Að landbúnaður snúist með öðrum orðum um matvælaframleiðslu umfram allt annað. Og þannig sé matarkarfa almennings lækkuð innan sambandslandanna. Þetta er sama grunnhugsun og hefur verið hér og víðast hvar í heiminum.
En ég hef ekki myndað mér skoðun á því hvort við séum betur sett innan eða utan Evrópusambandsins eins og staðan er núna. Ég er hins vegar tilbúinn til þess að skoða málið, fræðast um kosti og galla aðildar og taka síðan upplýsta ákvörðun. Ég hef áhuga á því að fá dýpri innsýn í veruleika bænda í Evrópu. Við fengum svolitla kynningu á því hvernig hlutirnir eru þar í vetur og komumst að því að kaup og kjör bænda eru 40% undir öðrum stéttum innan Evrópusambandsins. Miðað við það höfum við kannski ekki mikið að sækja þangað út.
En mér finnst að við bændur ættum að sammælast um það að auka þekkingu okkar á Evrópusambandinu svo við getum myndað okkur skoðun út frá réttum upplýsingum. Þetta ferli á hins vegar eftir að taka langan tíma – mörg ár – og mér finnst því líka skynsamlegt að við notum næstu ár til þess að taka til heima hjá okkur. Það er ekki síður mikilvægt. Við verðum að hafa að minnsta kosti tvo góða valkosti.
Sem stendur sé ég ekki að innganga í Evrópusambandið eigi eftir að bæta kjör íslenskra kúabænda, svo dæmi sé tekið. Ég sé heldur ekki fyrir mér að innganga í Evrópusambandið eigi eftir að gera kjúklinga- og svínabændum það auðveldara eða hagkvæmara að framleiða sína vöru hér. Og líklega mætti halda áfram. Ég er ekki sannfærður um að okkur verði betur borgið innan fjölþjóðlegs ríkjasambands þegar horft er til matvælaframleiðslunnar.
Hitt er víst að það er skynsamlegt af okkur að framleiða eins mikið af mat hér og við getum þó að það kosti okkur talsverða fjármuni vegna þess að það tryggir öryggi okkar. Það tryggir að við eigum mat fyrir fólkið okkar. Þetta er afstaða Norðmanna.
Ég hef verið andvígur því að ganga í Evrópusambandið, svo það sé sagt, en verandi formaður Bændasamtakanna þá lít ég svo á að ég hafi ekki leyfi til þess að hafa þessa sterku skoðun fyrr en ég hef skapað bændum vettvanginn til þess að ræða málið og taka ákvörðun. Mitt hlutverk er að skapa vettvanginn fyrir umræðuna svo við getum tekið upplýsta ákvörðun.“
Eru bændur almennt tilbúnir í þessa umræðu? „Já, ég held það. Bændur eru yfirleitt tilbúnir til að ræða pólitísk mál. Þeir eru pólitískir og hafa margir hverjir sterkar skoðanir. Ég hef enga ástæðu til að ætla að bændur séu ekki tilbúnir til þess að skoða kosti og galla Evrópusambandsaðildar.“
Finnst þér þetta setja búvörusamningana í óþægilegt samhengi? „Nei, mér finnst umræðan um Evrópusambandsaðild vera þeim óviðkomandi því hún þarf að taka miklu lengri tíma. Við þurfum að klára búvörusamninga á næsta ári. En það liggur ekkert á þessari Evrópuumræðu. Við þurfum að taka okkur tíma í hana.
Í mínu starfi er mikilvægt að halda fókus á verkefnin sem eru fyrir hendi. Við þurfum að klára það sem þarf að klára og er hægt að klára. Og ég er viss um að okkur mun takast vel upp með búvörusamningana. Það er mikið undir þar, bæði fyrir bændur og almenning. Og ég held að yfirvöld geri sér grein fyrir því að þau eru í einstöku færi til þess að bæta kjör beggja. Ég held þau átti sig á því að þarna bíður þeirra gríðarstórt tækifæri sem enginn getur klúðrað nema þau sjálf. Bændur eru tilbúnir í samtal um uppbyggingu á landbúnaðinum.“
Neytendur standa með okkur
Vitundin um mikilvægi landbúnaðar hefur aukist á síðustu árum. Hann er meira til umræðu nú en hann var lengi framan af á þessari öld. Og maður skynjar ákveðinn meðbyr með þessari atvinnugrein í landinu, meðal annars vegna þess að hún skilar afurðum sem eru meðal þeirra hreinustu og heilnæmustu í Evrópu. En á sama tíma hefur orðið ákveðið rof í tengslum almennings við landbúnaðinn, veruleika bænda í sveitinni. Ætli fólk sem er fætt fyrir og um 1970 sé til að mynda ekki síðasta kynslóðin sem var send í sveit að einhverju marki. Hefurðu áhyggjur af þessu? Heldurðu að þetta rof sé ein ástæðan fyrir því að kjör bænda hafi versnað? Að það hafi fengið að gerast?
„Hluti af þessu er einfaldlega það að landbúnaðurinn hefur breyst. Hann þarf ekki allan þann mannskap sem hann þurfti áður og þess vegna er almenningur í borgum og bæjum ekki eins vel tengdur sveitinni. Á sama tíma hafa kannski ákveðin öfl í samfélaginu náð að keyra upp umræðu um að landbúnaður sé mikið styrktur, hann sé þjóðinni dýr. Og þannig hefur umræðan orðið neikvæð um landbúnaðinn og ímynd hans kannski líka að einhverju marki. En ég held að fólk sé smám saman að átta sig á því að þetta er ekki rétt. Íslenskur landbúnaður er ekki meira styrktur en landbúnaður í öðrum ríkjum. Skilningurinn á nauðsyn þess að halda úti blómlegum landbúnaði í landinu er líka að aukast aftur. Þannig að ég held að samband fólks við landbúnaðinn sé að styrkjast eftir tímabil þar sem það var kannski ekki nógu sterkt. Við bændur erum líka farin að rækta þetta samband betur. Við viljum gera okkar til þess að þetta samband við neytendur verði sterkara. Við sjáum einfaldlega tækifæri í því. Við upplifum nefnilega ekki annað en að neytendur séu okkar fólk. Þeir standa með okkur.“
