Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Sveinn Ólason, dýralæknir á Selfossi, sinnir hér veikri kú í fjósinu á Eyði-Sandvík. Starfið hans byggist á því að keyra um sveitir á Suðurlandi og lækna veik dýr hjá bændum.
Sveinn Ólason, dýralæknir á Selfossi, sinnir hér veikri kú í fjósinu á Eyði-Sandvík. Starfið hans byggist á því að keyra um sveitir á Suðurlandi og lækna veik dýr hjá bændum.
Mynd / ál
Viðtal 11. júní 2025

Nauðsynlegt að vera léttklikkaður

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Sveinn Ólason hefur starfað við dýralækningar á Selfossi frá því hann útskrifaðist frá Danmörku árið 1998. Hann sinnir helst vitjunum þar sem lækna þarf kýr, hesta og kindur.

„Ég hef oft sagt að þú þarft að vera léttklikkaður til að vera í þessu starfi,“ segir Sveinn. „Áreitið er mikið og síminn stoppar ekki. Þetta er mjög gefandi starf og persónulega get ég ekki séð mig á öðrum vettvangi. Sem dýralæknir þarf maður að hafa gaman af því að hitta og umgangast fólk,“ segir hann og bætir við að hann líti á marga sem hann hefur kynnst í gegnum starfið sem vini sína.

„Dýralæknar þurfa líka að vera vel giftir, því þetta reynir mikið á fjölskyldulífið og vinnutíminn er óreglulegur. Tíminn til að sinna hefðbundnum fjölskyldustörfum getur verið takmarkaður því það getur verið áreiti á kvöldin. Sem betur fer erum við mörg hjá Dýralæknaþjónustunni og skiptum með okkur vöktum,“ segir Sveinn.

Sveinn tekur röntgenmyndir af hesti til þess að staðfesta heilbrigði hans fyrir sölu. Með honum eru Ewa Guðmundsson dýrahjúkrunarfræðingur og Björgvin Reynir Snorrason, seljandi hestsins.

Fékk starf við útskrift

Sveini var boðið starf hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands við útskrift árið 1998. Honum fannst erfitt að þiggja ekki það boð, enda er hann uppalinn á Nýjabæ rétt utan við Selfoss og vildi starfa á sínu heimasvæði. „Fljótlega eftir að ég byrjaði eignaðist ég hlut í fyrirtækinu. Ég fór síðar í framhaldsnám á árunum 2008 til 2010 í gegnum dýralæknaskólann í Danmörku og útskrifaðist sem fagdýralæknir í hestum.

Ég er fyrst og fremst í útiverkunum,“ segir Sveinn aðspurður um hvernig hefðbundinn vinnudagur sé hjá honum. „Ég er mikið að keyra á sveitabæi í vitjanir til að sinna kúm, kindum og hestum. Þetta er árstíðabundið, sérstaklega í sambandi við kindurnar. Núna á þessum tíma er alltaf svolítið um burðarhjálp og einn og einn keisaraskurður sem maður framkvæmir. Á þessum tíma er líka mikið verið að gelda veturgamla fola, en graðhestar eru erfiðir og þú getur ekki haft þá með öðrum hestum,“ segir Sveinn. Hann áætlar að hátt í níutíu prósent fola séu geldir.

Hér geldir Sveinn veturgamlan fola á meðan Svavar Bjarnason heldur fætinum frá og Egill Svavarsson fylgist með. Folinn er svæfður meðan á aðgerðinni stendur.

Ólík hlutverk dýralækna

„Við hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands erum það sem er kallað „praktíserandi“ dýralæknar. Við erum ekki tengd opinbera kerfinu á neinn hátt, heldur sjálfstætt starfandi og vinnum við að lækna og meðhöndla dýr fyrir þá sem vilja skipta við okkur.

Við erum á einu af þessum þéttbýlli svæðum og er nóg að gera fyrir marga dýralækna. Þar sem er strjálbýlla hefur hið opinbera búið til svokölluð þjónustusvæði þar sem dýralæknar fá verktakagreiðslu fyrir að vera á staðnum og sinna dýralæknaþjónustu.

Síðan er til hið opinbera kerfi sem er MAST, eða Matvælastofnun, sem sér um allt sem snýr að dýraverndunarmálum og aðbúnaði. Dýralæknar MAST sinna meðal annars fjósaskoðunum og gefa út mjólkursöluleyfi ásamt því að vera með eftirlit í sláturhúsum. Þar er yfirdýralæknir efstur í dýralæknadeildinni og þar fyrir neðan eru héraðsdýralæknar sem skipta landinu niður í fjögur umdæmi. Hver héraðsdýralæknir hefur undir sér eftirlitsdýralækna,“ segir Sveinn.

Hann bendir á að áður fyrr höfðu héraðsdýralæknar hið opinbera eftirlit á sinni könnu ásamt því að sinna almennri þjónustu. „Þeir komu kannski fyrir hádegi og læknuðu veika kú. Síðan þurfti sami aðili að koma eftir hádegi í sama fjós til að skoða allt og gefa út mjólkursöluleyfi,“ segir Sveinn.

Sveinn sækir lækningatól og lyf til þess að nota í vitjun.

Mikið um kúabú

„Á þessu svæði er mikið af kúabúum og er það stór hluti af minni vinnu að fara í fjós. Algengustu veikindin þar eru doði, súrdoði og júgurbólga. Bæði doði og súrdoði eru fóðurtengdir efnaskiptasjúkdómar. Doði er algengastur í kringum burð, en þegar það gerist fer mjólkurframleiðslan á fullt sem þýðir að óhemju mikið magn af kalki fer úr blóðinu í mjólkina. Kalkforðinn í blóðinu getur skyndilega dottið niður, en kalsíum er nauðsynlegt til þess að vöðvarnir virki og kýrin lamast.

Súrdoði byrjar oft tveimur vikum eftir burð. Þá nær kýrin ekki að innbyrða næga orku til að standa undir framleiðslu á mjólkinni. Hún fer í neikvætt orkujafnvægi og hún breytir um efnaskipti og fer að brjóta niður fitu til þess að búa til orku. Þetta er nákvæmlega það sem fólk gerir þegar það fer á ketó, enda heitir súrdoði ketosis á latnesku.

Júgurbólga kemur út af bakteríusýkingu en einnig geta komið áverkar á spena, eins og ef kýr stígur á júgrið. Smitálagið milli fjósa er mismunandi en sem betur fer hefur júgurbólga minnkað mjög mikið með þessum nýju fjósum og betri aðbúnaði.“

Oft mikið í húfi

„Málin sem maður þarf að glíma við geta verið erfið fyrir eigendurna sem geta verið búnir að bindast dýrum miklum tilfinningaböndum,“ segir Sveinn. Miklir peningar geti líka verið í spilinu þegar kemur að verðmætum graðhestum. „Það er ekki síður stór hluti af vinnunni að tala við umráðamenn dýra og koma þeim í skilning um hvað sé best fyrir dýrið. Ef ég met það ekki forsvaranlegt að hefja meðhöndlun þá aflífa ég gripinn og nota sérstakt aflífunarefni, sem er ekkert annað en svæfingarlyf í yfirskammti,“ segir Sveinn. „Sem dýralæknir þarf maður að vera með þykkan skráp.

Á alheimsvísu vantar stórgripadýralækna. Þá sem eru tilbúnir að vera í sveitum og lækna kýr, hesta, kindur og þess háttar. Mun fleiri hafa einbeitt sér að smádýrahlutanum, en á dýraspítölum er miklu meira skipulag og afmarkaðri vinnutími.“

Hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands starfa ellefu dýralæknar. Þar af eru fjórir til fimm sem eru dags daglega á smádýraspítalanum og sinna helst hundum og köttum. „Þá erum við fimm sem erum að keyra út í vitjanir á sveitabæi. Svo er einn sem er framkvæmdastjóri og hleypur í öll verk þegar á þarf að halda.“

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt