Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Gylfi Þór Orrason, fjármálastjóri Bændasamtaka Íslands.
Gylfi Þór Orrason, fjármálastjóri Bændasamtaka Íslands.
Mynd / VH
Viðtal 30. mars 2023

Með blátt Framblóð í æðum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Gylfi Þór Orrason, fjármálastjóri Bændasamtaka Íslands, mun láta af störfum innan skamms. Gylfi hefur unnið hjá samtökunum eða stofnunum sem voru undanfarar þeirra í rúm fjörutíu ár, auk þess sem hann var hér á árum áður landsþekktur knattspyrnudómari.

„Ég er fæddur 3. desember 1959 og Reykvíkingur í húð og hár og frá því að ég man eftir mér ólst ég upp í Voga- og Heimahverfinu en bý núna í Kópavogi.“

Foreldrar Gylfa eru Orri Gunnarsson heitinn, fyrrverandi innkaupastjóri málningarverksmiðjunnar Hörpu, og Margrét Ólafsdóttir, sem auk húsmóðurhlutverksins starfaði hjá Tryggingastofnun og einnig við ýmis verslunarstörf. Gylfi er yngstur fjögurra systkina, tveggja bræðra og einnar systur.

Ráðinn á staðnum

„Mig vantaði sumarvinnu og eftir að hafa setið próf uppi í háskóla vorið 1979 ákvað ég að fara yfir götuna og athuga með starf í Bændahöllinni hjá Hótel Sögu eða samtökum bænda sem ég vissi að hefðu þar skrifstofur. Ég endaði uppi á þriðju hæð og hitti þar fyrir Gunnlaug Lárusson, skrifstofustjóra hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins. Svo vildi til að hann var þá akkúrat að leita að sumarafleysingamanni og taldi hann nýbakaðan Verzlunarskólastúdent henta vel í starfið og réði mig því á staðnum.“

Hlutverk Framleiðsluráðs landbúnaðarins var eftirlit með sölu, verðmiðlun og verðskráningu á íslenskum landbúnaðarvörum fyrir hönd ríkisins og framkvæmd búvörulaganna gagnvart bændum. Þetta var í árdaga tölvubyltingarinnar og fólst starf mitt í því að færa framleiðslu-, birgða- og söluskýrslur frá öllum sláturleyfishöfunum og mjólkursamlögunum inn í gríðarlega stóra kladda og stemma af. Þetta var svo grunnurinn af niðurgreiðslum sem við síðan deildum út til sláturleyfishafanna og mjólkursamlaganna, auk þess sem innheimt voru svokölluð sjóðagjöld á grunni þessara upplýsinga, svo sem búnaðarmálasjóðsgjald, neytenda- og jöfnunargjald og framleiðsluráðsgjald. Þetta var mikil handavinna, en mjög lærdómsríkt fyrir ungan mann til að læra nákvæmni í vinnubrögðum,“ segir Gylfi.

Fyrstu árin starfaði Gylfi hjá Framleiðsluráði með háskólanámi en síðan í fullu starfi 1982 og 1983. „Ég lét síðan af störfum hjá ráðinu vorið 1984 og fór tímabundið í fullt starf hjá Fram við knattspyrnuskólann og þjálfun sjötta flokks, auk þess sem ég sat í stjórn knattspyrnudeildar félagsins í fjölmörg ár.

Haustið 1984 og fram á vor 1985 starfaði ég síðan til skamms tíma hjá Olís, fyrst á bensínstöð og svo í markaðsdeildinni.“

Stéttarsamband bænda og Bændasamtök Íslands

Gylfi segir að um vorið 1985 hafi Hákon Sigurgrímsson haft samband og boðið honum vinnu við fjármálastjórn og almenn skrifstofustörf hjá Stéttarsambandi bænda.

„Ég tók því fegins hendi og hef í raun haft þann starfa með höndum æ síðan. Hákon var þannig mikill áhrifavaldur í mínu lífi og alveg frábær yfirmaður en fyrir það er ég honum ævinlega þakklátur. Þess má geta að Hákon var, ásamt Hauki Halldórssyni, þáverandi formanni Stéttarsambandsins, aðalhvatamaðurinn að því að koma útgáfu Bændablaðsins á koppinn, en um mikilvægi blaðsins fyrir bændur og landsmenn alla þarf vart að fjölyrða á þessum vettvangi.

Við sameiningu Stéttarsambandsins og Búnaðarfélags Íslands árið 1995 fékk ég síðan titilinn aðalbókari og átti þar í mjög góðu samstarfi við Gunnar Hólmsteinsson, sem kom frá Búnaðarfélaginu og tók við sem skrifstofustjóri sameinaðra samtaka. Er Gunnar lét síðan af störfum árið 2004 tók ég við sem skrifstofu- og fjármálastjóri Bændasamtakanna og hef starfað sem slíkur síðan þá.“

Gylfi er því búinn að starfa í tengslum við landbúnað í rúm fjörutíu ár og megnið af sinni starfsævi, en auk starfa sinna við fjármálin kom hann að undirbúningi ýmissa funda og ráðstefna, svo sem aðalfunda SB og Búnaðarþings, auk sem sem hann ritaði fundargerðir stjórna SB og BÍ um langt skeið og einnig þinggerðir Búnaðarþings og margt fleira.

Halldóra Ólafsdóttir, Gylfi Þór Orrason og Hákon Sigurgrímsson fara yfir málin á skrifstofu Stéttarsambands bænda árið 1985.

Fótboltinn, Fram og dómaraferillinn

„Fótbolti hefur ávallt verið stór hluti af lífi mínu og sem krakki fórum við Gunni bróðir alltaf í fótbolta strax eftir skóla enda komst fátt annað að. Fjölskyldan var öll meira og minna í íþróttum, en pabbi spilaði handbolta með Fram og var í fyrsta íslenska handboltalandsliðinu. Mamma lék einnig handbolta, en þannig kynntust þau skötuhjúin. Systir mín var margfaldur Íslandsmeistari í gullaldarliði Fram. Gunnar bróðir var meistaraflokksleikmaður í fótbolta hjá Fram og Ólafur var lykilmaður í stjórn knattspyrnudeildarinnar og unglingastarfinu þar um áratugaskeið.“

Þegar Gylfi er spurður um mikilvægi Fram í lífi fjölskyldunnar segir hann það í sjálfu sér ekkert skrítið. „Það kom aldrei neitt annað til greina þar sem Fram var stofnað af hópi ungra manna heima í stofu hjá afa á Tjarnargötunni þann 1. maí 1908 og við því öll með blátt blóð í æðum og þannig hefur Fram alla tíð verið stór partur af lífinu.“

Þrátt fyrir að hafa æft fótbolta af mikilli ástríðu í yngri flokkunum segir Gylfi að hann hafi áttað sig á því í kringum tvítugt að hann væri „ekki til útflutnings“ sem knattspyrnumaður. „Ég tók því ungur sæti í stjórn knattspyrnudeildar Fram og þjálfaði þar jafnframt barna- og unglingalið og síðar meir einnig hjá Stjörnunni í Garðabæ. Á þeim tíma var iðulega skortur á dómurum í yngriflokkaleikjunum og því tók ég fljótlega dómarapróf til þess að geta reddað málum þegar á þurfti að halda. Stundum þróast hlutirnir hins vegar á annan veg en maður ætlar, því það var síðan nánast fyrir algjöra tilviljun að ég var kallaður út þegar KSÍ vantaði dómara í meistaraflokksleik á Ísafirði. Ég sló til og svo vatt þetta upp á sig og í framhaldinu hætti ég að þjálfa og dómgæslan tók alveg yfir.“

Á 25 ára dómaraferli sínum, þar af 13 ár sem alþjóðlegur (FIFA) dómari, dæmdi Gylfi marga stórleiki bæði hér heima og erlendis, en samtals skiptu dómgæslustörfin allnokkrum hundruðum. Í kjölfar dómaraferilsins tók Gylfi
síðan að sér það verkefni fyrir KSÍ að vera eins konar „lærifaðir“ fyrir unga og efnilega dómara og í framhaldi af því var hann síðan kosinn í stjórn KSÍ árið 2009 þar sem hann átti sæti í átta ár, lengst af sem varaformaður og síðan gjaldkeri, auk þess að vera formaður dómaranefndar sambandsins.

Frá lokum dómaraferilsins og til dagsins í dag hefur Gylfi einnig starfað sem alþjóðlegur dómaraeftirlitsmaður fyrir hönd UEFA og FIFA, auk þess sem íslensk þýðing knattspyrnulaganna hefur verið á hans könnu í yfir 20 ár.

Gylfi Þór alvarlegur á svip fyrir Evrópuleik Hollands og Möltu 2004. Við hlið hans á myndinni standa aðstoðardómararnir Pjetur Sigurðsson og Egill Már Markússon.

West Ham

Fyrir þá sem ekki vita þá er Gylfi mikill stuðningsmaður West Ham í enska boltanum. „Það verður einhver að halda með þeim,“ sagði Gylfi og hló. Ástæða þess að West Ham varð fyrir valinu er sú að þegar Englendingar urðu heimsmeistarar árið 1966 voru þrír „Hamrar“ þar í lykilhlutverkum, Bobby Moore, fyrirliði, Geoff Hurst, sem skoraði „hat-trick“ í úrslitaleiknum, og Martin Peters, sem skoraði fjórða markið í 4-2 sigri á V-Þjóðverjum.

Ég taldi því að West Ham hlyti að vera langbesta liðið í Englandi, þó annað hafi svo komið á daginn, og hef haldið með þeim allar götur síðan.“

Gott að vinna fyrir bændur

Gylfi segir að þegar litið sé yfir farinn veg telji hann sig hafa notið mikillar gæfu að fá að vinna fyrir bændur og eiga samstarf við allt það góða fólk sem hann hafi kynnst í tengslum við starfið.

Eðli málsins samkvæmt hefur hann einnig upplifað miklar breytingar í starfsemi samtakanna. Skipulag félagskerfisins hefur alltaf verið bændum mjög hugleikið og ávallt hefur þar verið mikil barátta um völd og deilur um skiptingu fulltrúa á milli hinna ýmsu hagsmunaaðila eftir landshlutum, búgreinum og jafnvel stjórnmálaflokkum.

„Þegar ég hóf störf hjá SB þá voru allir fulltrúar inn á aðalfundina kosnir af búnaðarsamböndunum, en með tilkomu búgreinafélaganna fengu þau jafnframt beina aðild að sambandinu og síðan eftir stofnun BÍ þá skiptist fulltrúavalið á Búnaðarþing í fyrstu nokkuð jafnt á milli þeirra og búnaðarsambandanna.

Með nýjustu breytingunum á samþykktum BÍ fer fulltrúavalið á Búnaðarþing nú hins vegar að mestu leyti fram í gegnum búgreinadeildirnar.

Í áranna rás hef ég þannig kynnst ótal bændum alls staðar af á landinu sem voru fulltrúar á fundum SB og síðan Búnaðarþingi, einkum þó þeim sem tóku síðan sæti í stjórnum, nefndum og ráðum á starfstíma mínum hjá SB og BÍ.

Minnisstæðir eru aðalfundir SB, en sú hefð komst á að þeir voru haldnir til skiptis annað hvert ár á Hvanneyri á móti öðrum stöðum á landinu eins og til dæmis Laugarvatni, Reykjaskóla í Hrútafirði, Laugum í Reykjadal, Eiðum, Akureyri og Flúðum. Makar margra fulltrúanna fylgdu þeim gjarnan á fundina þannig að þetta voru jafnan yfir eitt hundrað manna samkomur og í lok þeirra var síðan efnt til hátíðardagskrár þar sem árangur fundarstarfanna var meðal annars iðulega yfirfarinn og metinn í bundnu máli.“

Nýtt upphafa Bændasamtakanna

„Óumflýjanleg sala á Bændahöllinni í kjölfar gjaldþrots Hótel Sögu ehf. var þungbær öllum bændum jafnt sem starfsfólki samtaka þeirra. Árin fyrir Covid var lagt í metnaðarfullar og kostnaðarsamar breytingar á hótelinu, en í kjölfarið fylgdi síðan algjört tekjuhrun í tvö ár og því reyndist það einfaldlega óvinnandi vegur að halda rekstrinum áfram.

Flutningur starfseminnar í Borgartún 25 markar hins vegar vonandi nýtt upphaf hjá sterkari og samstilltari Bændasamtökum.“

Gylfi segir að til allrar hamingju virðast bændur hafa áttað sig á því að hjaðningavíg og flokkadrættir gera ekkert annað en að skemma fyrir heildinni í stéttarbaráttunni og telur hann það hafa vera mikið gæfuspor þegar samstaða náðist loks um það á árinu 2021 að sameina kraftana á ný með því að búgreinafélögin gengju inn í Bændasamtökin sem sérstakar búgreinadeildir. Þetta samrunaferli hefur Vigdís, framkvæmdastjóri BÍ, leitt af mikilli elju og dugnaði og niðurstaðan verður án alls vafa sterkari og samstilltari Bændasamtök í bráð og lengd.“

Í sumarferð Bændasamtakanna á Jaðri í Borgarfirði Mynd / Eiríkur Blöndal.

Mannauðurinn

Að mínu mati hafa samtök bænda notið þess að hafa gott starfsfólk innan sinna vébanda, en á sama hátt er ljóst að starfsfólkinu hefur þótt gott að vinna hjá bændum, enda hafa margir fleiri en ég náð þar löbgum starfsaldri.

Það væri til að æra óstöðugan að ætla sér hér að nefna alla þá fjölmörgu samstarfsmen sem ég hef borið gæfu til að vinna með hjá samtökum bænda í gegnum tíðina. Slík upptalning býður jafnframt þeirri hættu heim að einhver nöfn gleymist þar óverðskuldað. Ég get hins vegar ekki látið hjá líða að minnast hér á nokkra starfsmenn sem voru mínir nánustu samstarfsmenn á skrifstofusviðinu í gegnum tíðina. Yfirmenn mínir á starfsferlinum, formennirnir og fram- kvæmdastjórarnir, eru tilgreindir í sér dálki hér til hliðar, en samstarf mitt við þá alla og gagnkvæmt traust var ávallt nær hnökralaust svo aldrei bar þar á nokkurn skugga.

Halldóra Ólafsdóttir kom til starfa sem ritari hjá SB og Framleiðsluráði landbúnaðarins árið 1979 eins og ég, en við áttum síðan nána samleið hjá SB og BÍ næstu 40 árin. Þeir sem eldri eru í bændastétt í dag litu gjarnan á hana sem andlit samtakanna út á við og húsmóðurina í Bændahöll. Var hún jafnframt lífið og sálin í félagslífi starfsfólksins á þriðju hæðinni um áratuga skeið. Auk Halldóru og Hákonar starfaði Guðmundur Stefánsson þá hjá SB sem hagfræðingur og var hann afburða fagmaður, en umfram allt einstaklega skemmtilegur vinnufélagi.

Eftir stofnun Bændasamtaka Íslands 1995 bættist síðan starfsfólk Búnaðarfélagsins í hóp náinna samstarfsmanna minna á skrifstofunni, þær Þorbjörg Oddgeirsdóttir gjaldkeri og síðar systir hennar, Auður, sem sá um símsvörun og gestamóttöku, Ásdís Kristinsdóttir, ritari og fulltrúi, og síðast en ekki síst Sigríður Þorkelsdóttir, bókari BÍ, og Jóhanna Lúðvíksdóttir, „reikningastjóri“ BÍ með meiru, en báðar eru þær enn við störf hjá samtökunum.

Frá Búnaðarfélaginu urðu líka nánir samstarfsmenn mínir þeir Matthías Eggertsson, ritstjóri Freys, og Eiríkur Helgason, sem tók við sem fyrsti auglýsingastjóri Bændablaðsins, en samstarf okkar tveggja náði reyndar út fyrir veggi Bændahallarinnar því við vorum líka samherjar hjá Fram og í fótboltadómgæslunni. Þá er mér bæði ljúft og skylt að nefna hér ræstitæknana, þær Sigríði Sigurðardóttur og Ingibjörgu Jónsdóttur, en báðar slógu þær mér við í starfsaldri hjá samtökum bænda. Er FL var síðan innlimað í Bændasamtökin árið 2000 bættust síðan í góðan hópinn á skrifstofunni þau Erna Bjarnadóttir, Ómar S. Jónsson og Guðrún Sigríður Sigurjónsdóttir.

Öllu þessu fólki, sem og öllum öðrum vinnufélögum á ferli mínum hjá samtökum bænda, vil ég færa mínar bestu þakkir fyrir frábært samstarf og einstaklega skemmtileg kynni. Sama gildir um þá sem nýrri eru í starfsmannahópi Bændasamtakanna og eru þar enn við störf.“

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt