Hraundís Guðmundsdóttir, ilmolíufræðingur og skógfræðingur á Hvanneyri. Hér gerir hún rússalerki klárt til eimingar, en úr sjötíu kílóum komu í kringum 280 millilítrar af ilmkjarnaolíu.
Hraundís Guðmundsdóttir, ilmolíufræðingur og skógfræðingur á Hvanneyri. Hér gerir hún rússalerki klárt til eimingar, en úr sjötíu kílóum komu í kringum 280 millilítrar af ilmkjarnaolíu.
Mynd / ál
Viðtal 30. september 2024

Íslensk framleiðsla á ilmkjarnaolíu

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Hraundís Guðmundsdóttir framleiðir ilmkjarnaolíur og heilsuvörur úr þeim úr íslensku hráefni undir vörumerkinu Hraundís.

Hún útskrifaðist sem ilmolíufræðingur frá Lífsskólanum í Reykjavík árið 2007. „Ég fór í þetta nám af því að ég hef alltaf verið mikið náttúrubarn og mig langaði til að nýta náttúruna í eitthvað,“ segir hún og bætir við að hún hafi lítið vitað um þessar olíur áður. Í byrjun árs 2015 fór Hraundís til Arizona í Bandaríkjunum á námskeið til að læra að eima plöntur og hóf framleiðslu og sölu á eigin afurðum síðar sama ár.

Hraundís er jafnframt skógfræðingur frá Landbúnaðarháskóla Íslands, sem hún segir gagnlegt þar sem hún hefur kunnáttu á trjám sem eru eitt aðalhráefnið og veit hvernig best er að umgangast skóginn. Hún starfaði sem ráðgjafi hjá Skógræktinni um árabil, en hætti þar í vor til að einbeita sér alfarið að ilmolíuframleiðslunni.

Hún sér fyrir sér að vörumerkið hennar geti vaxið á næstu árum. Núna er hún búin að byggja bílskúr við hliðina á húsi sem hún flutti í á Hvanneyri fyrir tveimur árum og er aðstaðan orðin betri en hún hefur verið hingað til. Að auki við að framleiða hreinar ilmkjarnaolíur býr hún til olíublöndur við ólíkum kvillum.

Hráefnið fær Hraundís úr íslenskum skógum. Bakgrunnur hennar úr skógfræði hjálpar henni að vita hvaða greinar hún getur tekið án þess að valda trjánum skaða.

Veðrið skiptir höfuðmáli

Þegar kemur að því að safna hráefni fer Hraundís út í skóg og klippir greinar og safnar í stóra poka og snyrtir skóginn þar með í leiðinni. Veðurskilyrðin dagana á undan skipta ekki síður máli en hvernig viðrar daginn sem plönturnar eru sóttar. „Maður hefur alveg lent í því að fara út í skóg og fylla dallinn, en svo fær maður bara sýnishorn af olíu af því veðrið er ekki rétt,“ segir Hraundís.

Hún vill ekki gefa upp hvaða aðstæður henti best til að afla hráefnis. Þar sem það fer svo mikil vinna í hverja eimingu sé kunnátta á þessu eitt af því mikilvægasta til að ná sem mestum afköstum og skráir Hraundís allar viðeigandi upplýsingar niður. Hún tekur sem dæmi að þar sem unnið sé úr lofnarblómi, eða lavender, þurfi að bíða í viku með að klippa plöntuna eftir rigningu.

Eimað í gömlum mjólkurtanki

Þegar heim er komið setur hún greinarnar í kurlara áður en þær fara í eimunartank sem er gerður úr gömlum mjólkurtanki. Sérstakur rafall framleiðir gufu sem veitt er neðst í tankinn og á leið sinni upp tekur hún með sér hinar eftirsóttu sameindir úr plöntunum. Efst á tankinum er tengi fyrir kælirör þar sem gufan breytist í vatn sem lekur í gegnum sérstaka skilju. Ilmkjarnaolían er léttari en vatnið og er fleytt í lítið glas á meðan plöntuvatnið fer í stóra fötu.

Vanda þarf til verka við að stilla kælirörið við upphaf hverrar eimingar þar sem olían er misjafnlega rokgjörn og getur gufað upp. Sjálf skiljan er úr blásnu gleri og bendir Hraundís á að hún sé eitt dýrasta stykkið í þessari framleiðslu.

Ilmkjarnaolía finnst ekki í öllum plöntum og er mikill munur milli tegunda. Vallhumall sé með mjög góða olíu en gefi af sér sáralítið og þyrfti Hraundís að selja hana fyrir háar upphæðir svo framleiðslan borgaði sig. Sú íslenska planta sem gefur mest af olíu er síberíuþinur, en gallinn er sá að það þarf að fara alla leið á Hallormsstað til að ná í hráefni. Úr sjötíu kílóum af rússalerki sem voru eimuð þegar blaðamann bar að garði komu 280 millilítrar af olíu.

Hraundís skráir niður það magn sem er notað hverju sinni til að átta sig á hlutfalli olíunnar.

Eftir að hafa snyrt greinarnar og kurlað gróflega hendir Hraundís þeim ofan í tankinn.

Gufan er leidd inn um botninn á þessum gamla mjólkurtanki. Á ferð sinni í gegnum plönturnar losar vatnsgufan um ilmkjarnaolíur.

Ársframleiðslan nokkrir lítrar

Ársframleiðslan hjá Hraundísi hefur hingað til verið í kringum tíu lítra af ilmkjarnaolíu á ári, en hún reiknar með að framleiðslan aukist eftir að hún byrjaði að gefa sig alla að þessu. Algengt lítraverð á ilmkjarnaolíu sé frá 200 til 800 þúsund krónum. Heildsöluverðið á birkiolíu sé 1,5 milljónir án virðisaukaskatts fyrir hvern lítra.

„Það hefur alltaf selst allt hjá mér og ég hef ekki haft undan við að eima.“

„Það er eins og fólk haldi að maður fari með flöskurnar út í skóg og olían detti ofan í. Ég hef lent í því að fólk hefur kvartað yfir því hvað þetta er dýrt, en svo kemur það og sér þetta hjá mér og þá skilur það af hverju þetta kostar svona.“

Plöntuvatnið er verðmæt aukaafurð sem Hraundís segir að sé mikið notað erlendis, en hún hafi ekki verið nógu dugleg við að markaðssetja eða koma á framfæri hingað til. Það innihaldi eitthvað af verðmætu sameindunum sem eru í ilmkjarnaolíunni og sé því með einhverja virkni. Ólíkt hreinni ilmkjarnaolíu megi bera vatnið beint á húðina og segist Hraundís alltaf nota birkivatn til að gera sápur fyrir sig og fjölskylduna. Ókosturinn við plöntuvatnið sé skert geymsluþol þess samanborið við olíurnar.

Hjálpa við ýmsum kvillum

Ilmkjarnaolíur eru notaðar til að hjálpa við ýmsum kvillum eins og kvefi og flensu, háum blóðþrýstingi, eru góðar við vöðvabólgu, mikið notaðar í nudd og geta virkað róandi. Þá eru þær oft innihaldsefni í snyrtivörum, eins og sápu, sjampói og andlitskremum. Hraundís bendir á að talsverður munur geti verið á virkni ólíkra ilmkjarnaolía og eru sumar óhentugar við ákveðnar aðstæður.

Mikilvægt sé að ilmkjarnaolíur séu ekta til þess að fá virknina sem leitað er að, en Hraundís segir að þessar olíur séu hluti af varnarkerfi plantnanna. Um áttatíu prósent af ilmkjarnaolíum á heimsmarkaði séu ekki ekta, ýmist framleiddar á rannsóknarstofu eða verulega þynntar út. Ef þær fást á góðu verði sé hægt að ganga að því vísu að þær séu ekki ekta. Í hvert sinn sem hún selur sínar afurðir til stærri aðila þurfi hún að láta efnagreiningu frá vottaðri rannsóknarstofu fylgja. Hraundís setji sömu kröfur á þá aðila sem hún verslar við og skiptir þar orðstír miklu máli.

Virkaði betur en lyf

Vinsælasta varan hennar Hraundísar er Verkjaolían sem samanstendur af einni ilmkjarnaolíu úr sitkagreni, jojobaolíu og möndluolíu sem eru burðarolíur. Sagan á bak við hana er sú að eiginmaður vinkonu hennar fékk þungt högg á hælinn án þess að brjóta bein og fékk verkjalyf sem virkuðu illa. Vinkonan hafði því samband við Hraundísi og bað hana um að „sulla“ einhverju saman, sem hún gerði.

Tveimur dögum síðar hafði vinkonan aftur samband og þrýsti mjög á Hraundísi að hefja framleiðslu á þessari blöndu þar sem verkjaolían virkaði mun betur en lyfin í þessu tilfelli. Til að nefna einhverjar af þeim vörum sem Hraundís hefur sett á markað má telja upp olíu við húðsveppum, aðra gegn magaóeirð í börnum og kvefpinna sem eru litlir stautar sem er hægt að bera að nefinu. Þar að auki selur hún hreinar ilmkjarnaolíur í litlum flöskum.

„Mér finnst svo gaman að sulla saman og búa til nýjar vörur. Ég myndi helst vilja vera í því alla daga,“ segir Hraundís og segist vera með fjölmargar uppskriftir í hausnum. „Stóri gallinn er samt sá að maður þarf líka að geta selt þær,“ bætir hún við og hlær. Markaðssetningin sé sú hlið fyrirtækjarekstursins sem henni finnist erfiðust og því séu nokkrar vörur komnar í bið.

Mikilvægt sé að taka fram að olíurnar séu ekki lyf þó þær geti sannarlega hjálpað. Erlendis séu þær notaðar á spítölum og nefnir Hraundís að lofnarblóm sé sett undir koddann hjá fólki til að róa það og hjálpa með svefn.

Hráefni í ilmvötn og matvæli

Vörurnar hennar Hraundísar eru seldar í smásölu í Ljómalind í Borgarnesi, Argena á Laugavegi, Vorverki í Mosfellsbæ, Betra lífi í Kringlunni og Litlu bændabúðinni á Flúðum. Þá er hún einnig með vefverslun á hraundis.is. Þegar framleiðslan verður orðin meiri stefnir hún að því að koma vörunum sínum víðar.

Meðal stórra kaupenda af afurðunum hennar Hraundísar eru ilmframleiðandinn Fischersund, snyrtivöruframleiðandinn Taramar, sælgætisgerðin Kandís og súkkulaðiverksmiðjan Útúrkú, ásamt því sem hún selur til nokkurra aðila erlendis. Blábjörg á Borgarfirði eystri notar olíur frá Hraundísi í heilsulind og kaupir ferðaþjónustan Móðir Jörð í Vallanesi sjampó og sápur með skógarilmi. Þá er stórt fyrirtæki með gosdrykk í þróun þar sem ilmkjarnaolíur úr rússalerki koma við sögu.

Í lok september liggur leið Hraundísar á ráðstefnu sem haldin er af alþjóðlegum samtökum ilmolíufræðinga í Nashville í Bandaríkjunum. Henni bauðst að taka þátt sér að kostnaðarlausu þar sem stjórn ráðstefnunnar sóttist eftir að fá minni eimara sem gætu sýnt fram á sjálfbæra framleiðslu. Frá Bandaríkjunum liggur leið hennar beint til London á Englandi þar sem Hraundís hefur verið tilnefnd til verðlauna Global Women Inventors and Innovators Network, sem eru alþjóðleg samtök kvenna í nýsköpun.

Skylt efni: ilmkjarnaolíur

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt