Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Tyrfingur Sveinsson, bóndi í Lækjartúni 2 í Ásahreppi.
Tyrfingur Sveinsson, bóndi í Lækjartúni 2 í Ásahreppi.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 15. janúar 2024

Heimaframleiðsla á lífkolum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Tyrfingur Sveinsson, bóndi í Lækjartúni 2 í Ásahreppi, prófaði sig áfram síðastliðið sumar í framleiðslu á lífkolum úr afgangs timbri í heimasmíðuðum ofni.

„Ég smíðaði ofninn bara úr 200 lítra olíutunnu sem er fyllt af byggingatimbri og síðan verður það að lífkolum. Þetta voru nokkrar svoleiðis lotur hjá mér í sumar. Afraksturinn fyllti síðan eitt fiskikar,“ útskýrir Tyrfingur.

Lífkolin eru til margra hluta nytsamleg í búskapnum.

Útrýmir nánast lyktinni

Lífkol eru kolefni og fjölhæft hráefni í landbúnaði. Þau eru búin til með því að hita lífmassa í súrefnislausu umhverfi og hægt er að nota meðal annars sem orkugjafa, jarðvegsbæti og til að blanda saman við undirburð – sem er einmitt sú leið sem Tyrfingur hefur farið í nýtingu á þessum verðmætum. „Þetta er mjög skilvirkt efni í því sem við höfum verið að gera. Þar sem við höfum blandað þeim saman við undirburðinn er nánast engin lykt lengur. Kolin draga í sig köfnunarefni og flest lyktarmengandi efni, þannig að það má segja að þetta sé bæði mjög loftslags- og umhverfisvænt að mörgu leyti. Síðan auðgar þetta lífræna úrganginn í moltugerðinni líka.

Samkvæmt því sem ég hef lesið mér til um þá skapast kjöraðstæður fyrir örverur í moltu eða lífrænum áburði þar sem lífkolum hefur verið bætt saman við. Það er í raun alveg ótrúlega mikið holrými í þessu efni sem skapar meðal annars þessar aðstæður.“

Tyrfingur smíðaði ofninn að grunni til úr 200 lítra olíutunnu.

Ekki áburður heldur jarðvegsbætir

Tyrfingur segir að hann telji að ekki sé hægt að nota lífkolin beint sem áburð heldur fyrst og fremst sem einn þátt í því að bæta lífríkið í jarðveginum, skapa skilyrði fyrir þær örverur sem síðan bæta frjósemi jarðvegsins í framhaldinu.

„Í rauninni væri best ef maður gæti nýtt einnig einhverjar hliðarafurðir eins og til dæmis allan varmann sem verður til í framleiðsluferlinu. En ég ætla bara að byrja á því að halda áfram á sömu braut,“ segir Tyrfingur um það hvernig hann sjái framtíðina fyrir sér í þessari framleiðslu. „Það er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu annað en að koma sér upp þeim tæknibúnaði sem þarf, eins og varmaskipti og nauðsynlegum lögnum. Maður þyrfti að leggja út einhvern stofnkostnað og fara í framkvæmdir til að hægt væri að hagnýta hann, en líklega myndi það margborga sig. Svo er auðvitað mikið í umræðunni núna þessar kolefniseiningar sem vel væri hægt að framleiða með þessum hætti ef farið væri út í þetta á stærri skala.

Það væri þó nærtækast fyrir okkur hér í okkar blandaða búrekstri að nota þetta líka á stórum skala til moltugerðar og þá í skítinn frá búfénu. Það er einmitt það sem við höfum byrjað á og ég er mjög ánægður með hvernig það hefur gengið,“ segir hann en þau Hulda Brynjólfsdóttir, kona hans, eru með 33 holdakýr og um 60 kindur, auk þess að vera með hross, geitur og landnámshænsn.

Bætiefni í fóður

En notkunarmöguleikarnir í búskapnum eru fleiri.

„Svo hef ég líka frétt af góðum árangri af notkun lífkola þegar þeim er blandað saman við fóður hjá skepnum í örlitlu magni.

Það hefur til dæmis mælst svolítil vaxtaraukning í skepnum við slíka notkun, en þó liggur ástæðan í því að þau eru svo hreinsandi að þau draga í sig öll óæskileg efni svo að gripirnir þrífast betur.

Það þekkist til dæmis að nota kol við skitu hjá kálfum og við sjálf höfum góða reynslu af því að gefa lömbum með skitu AB-mjólk með örlitlu af kolum í, maður sá mun strax daginn eftir,“ segir Tyrfingur.

Framleiðsla á lífkolum

Einfalt er að búa lífkol til. Allt sem þarf er hiti og umhverfi þar sem súrefni er útilokað. Þetta var lengst af gert með því að kveikja í viðarbing og tyrfa svo yfir. Við það sundrast (e. pyrolysis) efnið, upp stíga gufur, einu nafni kallaðar viðar- gas, og eftir verða viðarkol. Þar sem hægt er að gera þetta við nánast hvaða lífræna efni sem er, ekki eingöngu trjávið, er talað um lífkol og eru viðarkol ein tegund lífkola. Með því að setja upp ögn flóknari búnað en holu og torf og stilla þannig betur hitastigið í ferlinu er hægt að vinna ýmis verðmæt efni úr gufunum (viðargasinu), svo sem eldsneyti, olíur, plastefni, o.m.fl. Eftir stendur að lokum hið kolaða efni. /Skógræktin

Skylt efni: lífkol

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt