Gunnar Bjarnason, kartöflubóndi í Litlu-Hildisey í Austur-Landeyjum. Vegna slæmrar veðráttu í sumar hafa kartöflurnar vaxið hægt, en þær voru fallegar
þær sem sáust þegar kíkt var undir.
Gunnar Bjarnason, kartöflubóndi í Litlu-Hildisey í Austur-Landeyjum. Vegna slæmrar veðráttu í sumar hafa kartöflurnar vaxið hægt, en þær voru fallegar þær sem sáust þegar kíkt var undir.
Mynd / smh
Viðtal 17. september 2024

Hefði stutt innflutningsbann sem hluta af stærra plani

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Gunnar Bjarnason hóf kartöflu- og kornrækt í Litlu-Hildisey í Austur- Landeyjum vorið 2019, en jörðina keypti fjölskyldan árið á undan.

„Þetta er búið að vera skelfilega blautt en líka bara kalt og hvasst. Það sér á grösunum hjá mér, meðal annars út af vindi og kulda hreinlega,“ segir Gunnar spurður um tíðina í Austur- Landeyjum í sumar en hann er með um 40 hektara undir ræktunina hverju sinni, en sumar spildurnar fá hvíld árum saman.

Mygluþolin erlend yrki

Hann stundar lífrænt vottaða ræktun og hefur ákveðnar skoðanir á þeim skæða skaðvaldi sem kartöflumygla er, því honum leyfist hvorki né hugnast að nota nokkur varnarefni gegn vágestinum í sinni ræktun.

Hann þarf því að sinna ákveðnu brautryðjendastarfi, sem felst í því að finna mygluþolin erlend kartöfluyrki sem skila góðri uppskeru við íslenskar aðstæður og standast væntingar um bragðgæði.

Mygla á hverju ári frá 2019

Líkt og í öðrum Evrópulöndum var kartöflumygla landlæg á Íslandi á árunum frá 1890 til 1960. Síðan bar ekki á henni í nokkurn tíma og er talið að það hafi verið vegna kólnandi veðurfars.

Á síðustu árum hefur mygla komið upp af og til og á hverju ári frá 2019 á Suðurlandi. Talsvert myglutjón varð á árunum 1990 og 1991. Tjón hefur aldrei orðið á Norðurlandi þótt myglan hafi sést þar.

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu hjá íslenskum kartöflubændum í sumar, en talsverður ótti var í vor um að skæð evrópsk mygluafbrigði myndu berast til landsins með innfluttu erlendu stofnútsæði

„Ég fylgist reglulega með hvort einhver merki séu um myglu, en ég hef ekki orðið var við hana hjá mér enn þá. Ég tek reglulega próf úr grösum sem hafa lítið viðnám við myglu og þau sýni hafa ekki gefið til kynna smit. Ég hef heldur ekki heyrt af vandamálum annars staðar,“ segir Gunnar.

Innflutningur ekki stöðvaður

Deild garðyrkjubænda hjá Bændasamtökum Íslands óskaði eftir því að matvælaráðuneytið stöðvaði innflutninginn á erlendu stofnútsæði, þar sem sjúkdómurinn ógnaði kartöflurækt á Íslandi. Ályktað var þar innanbúðar að finna þyrfti leiðir til að fullnægja markaði með íslensku útsæði og að innflutningi á stofnútsæði fyrir erlend kartöfluyrki yrði hætt.

Eftir umfjöllun ráðuneytisins um málið var ákveðið að verða ekki við óskunum og stöðva ekki innflutning.

Þegar matvælaráðuneytið fjallaði um mögulegt innflutningsbann var haft samband við Gunnar og hann spurður út í hvaða áhrif þetta myndi hafa á hann. „Ég svaraði því til að þetta myndi hafa umtalsverð áhrif á mig, en ég myndi glaður styðja slíkt bann væri það hluti af stærra plani til að útrýma myglu á Íslandi.

Hagsmunir stóru kartöflubændanna í þessum efnum eru meiri en mínir svo ég tæki glaður þátt í slíku verkefni. Hins vegar sæi ég ekki nokkurn tilgang í að banna þetta í eitt ár ef ekki ætti að gera neitt annað samhliða. Mín skoðun er sú að innflutningsbann eitt og sér geri ekki neitt annað en að fresta því að leysa vandamálið, ef það er þá hægt, og auk þess er órökrétt að banna innflutning á yrkjum sem hafa þol gagnvart myglu en láta það gott heita að nota útsæði frá svæðum þar sem mygla hefur fundist árið á undan. Ef það er raunverulegur vilji að losna við mygluna þá þarf að líta á það sem langtímaverkefni sem krefst þátttöku margra hagaðila.“

Allt fór til fjandans

Gunnar segir að til að byrja með hafi hann notaði íslensku yrkin sem hafa sannað sig í gegnum tíðina sem hentug og afurðagóð yrki við íslenskar aðstæður. „En þau eru því miður ekki mygluþolin og árið 2021, á mínu fyrsta ári í alvöru ræktun, lenti ég í því að ég fékk smit í garðana hjá mér og allt fór eiginlega alveg til fjandans.

Það hefur verið einhver misskilningur í gangi um að myglan sé í jarðveginum og blossi upp ef veðurskilyrði eru hagstæð. Það er ekki rétt, hún verður ekki til úr engu. Hún kemur með smituðu útsæði en lifir ekki í jarðveginum, Á þessu er þó til ein undantekning sem ég veit ekki til að hafi komið upp á Íslandi. Ef myglusporar af tveimur mismunandi arfgerðum, segjum A1 og A2, komast í snertingu hvor við aðra, getur myglan fjölgað sér með kynjaðri æxlun. Við kynjaða æxlun verða til OO gró eða sporar (stundum kallaðir ofursporar á íslensku). Þessi OO gró geta lifað árum saman í jarðvegi eða plöntuleifum, en að auki, eins og við alla kynjaða æxlun, geta orðið til ný afbrigði sem ef til vill eru skæðari en foreldrarnir. Þetta er það sem menn óttuðust einna mest að innflutningur gæti haft í för með sér.

Þegar ég lenti í þessu ákvað ég strax að hefja bara þessa leit sjálfur að þolnum yrkjum – og hef aðallega leitað fyrir mér í Hollandi og Þýskalandi.“

Kostnaðarsöm kartöflumygla

„Ég er búinn að reyna það á eigin skinni hversu kostnaðarsamt það er að fá kartöflumyglu. Það kostaði mig alla mína uppskeru það árið því ef ég hefði notað útsæði frá sýktum ökrum árið eftir hefði ég nánast örugglega fengið myglu aftur og því fargaði ég hverri einustu kartöflu, sem var sárt,“ heldur Gunnar áfram.

„Það ár ræddi ég bæði við matvælaráðuneytið og Matvælastofnun og óskaði eftir upplýsingum um hvort og hvernig stofnanirnar hygðust bregðast við þar sem smitið var afmarkað við Suðvesturland. Það tók mig ekki langan tíma að átta mig á að það var minna en ekki neinn áhugi á þessu vandamáli innan stjórnsýslunnar og hrein tímasóun að tala við þessar stofnanir. Niðurstaða mín varð því sú að ég yrði bara að leysa þetta sjálfur. Ég fór því að leita að yrkjum sem hafa þol gagnvart myglu og þó hún komi upp í kringum mig ætti hún ekki, eða að minnsta kosti síður, að valda mér tjóni aftur.“

Gunnar er með fjölmörg yrki til prófunar á hverju ári, sem þurfa að standast væntingar um mygluþol, að þrífast vel við íslenskar aðstæður og vera bragðgóðar.

Varasamt að selja almenningi innflutt útsæði

Gunnar bendir á að allur innflutningur geti verið áhættusamur. „Við sjáum það bara á Spánarsniglinum, sem kom líklegast hingað með innfluttum garðplöntum. Þeir bændur sem flytja inn útsæði eru eingöngu að flytja inn heilbrigðisvottað útsæði sem vonandi minnkar áhættuna, en er vissulega engin trygging fyrir því að sjúkdómar geti ekki borist hingað. Ég hef meiri áhyggjur af því að myglusmitað útsæði sé til sölu á almennum markaði, til dæmis selja gróðurvöruverslanir innflutt útsæði ætlað almenningi.“

Hann telur að almenningur hafi sjaldan það góða þekkingu á plöntusjúkdómum að hann geti greint og meðhöndlað myglusmit – auk þess sem efnin séu ekki aðgengileg almenningi sem séu notuð gegn myglunni hér heima.

„Ég held því að áhættan af innflutningi sé minni hjá bændum sem hafa bæði þekkingu, tækjabúnað, efni, fagstuðning frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og þaulskipulagðar aðferðir við að halda myglu niðri. En auðvitað er hún til staðar.“

Óumhverfisvænn og kostnaðarsamur efnahernaður

Gunnar segir það auðvitað ekki gott að viðvarandi ógn sé af kartöflumyglu sem þýðir að beita þarf stöðugum efnahernaði gegn henni, sem sé bæði óumhverfisvænn og mjög kostnaðarsamur.

„Kartaflan er upprunnin frá S-Ameríku og þaðan kemur auðvitað kartöflumyglan líka upphaflega. Hún barst líklega til Evrópu 1843 eða 1884 og gerði mikinn usla til dæmis hjá Írum á miðri 19. öld, sem olli mikilli hungursneyð (The great Famine), og svo hjá Hollendingum á tíunda áratug síðustu aldar. Hollensk yfirvöld settu árið 2006 af stað verkefni til tíu ára, held ég, einmitt til að þróa mygluþolin yrki og voru notuð til þess til kynbóta meðal annars óæt yrki frá Suður- Ameríku sem eru með þetta viðnám. Það verkefni var svo sett í hendur einkaaðila sem hafa svo með tímanum náð að þróa bragðgóð mygluþolin yrki.“

Gunnar segist þegar hafa fundið fáein yrki sem þola íslenskar aðstæður og standast kröfur um mygluþol og bragðgæði. „Ég hef verið að prófa allnokkur yrki á hverju ári og mun halda því áfram þar til ég verð komin með nægilegan fjölda yrkja fyrir mína framleiðslu. Ég vil geta boðið upp á ýmsar tegundir hvað varðar lit, lögun og bragð.“

Þess virði að reyna að losna við þetta varanlega

Gunnar er spurður um hvað hann telji að sé til ráða þegar horft sé til framtíðar í þessum málum. „Ég held að þetta snúi fyrst og fremst að okkur bændum sjálfum að ákveða hvort við viljum reyna að vinna að því að losna við þetta varanlega, en það tekur tíma og kostar bæði vinnu og peninga. Hitt er að gera eins og bændur í Evrópu og treysta á ný varnarefni eftir því sem myglan myndar þol gagnvart eldri efnum.

Lífrænir bændur geta ekki annað en treyst á yrki sem hafa þol gegn myglunni, þó það takmarki vissulega mikið úrval yrkja til ræktunar og því miður skila sum þeirra oft lítilli uppskeru í okkar kalda og stutta sumri.“

Skylt efni: kartöflurækt

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt