Hagræðingarkrafan á nautgripabændur gengin of langt
Rafn Bergsson er formaður búgreinadeildar nautgripabænda hjá Bændasamtökum Íslands. Hann kallar eftir því að í nýjum búvörusamningum verði afkoma nautgripabænda bætt og að stjórnvöld verji meira fé í stuðning við fjárfestingar í greininni. Víða sé uppsöfnuð fjárfestingaþörf meðal nautgripabænda. Hann segir það mikilvægt að landbúnaðurinn sé samkeppnishæfur um vinnuafl og að stuðla þurfi að nýliðun í landbúnaði.
Rafn er kúabóndi á StóruHildisey í Austur-Landeyjum og býr þar með eiginkonu sinni, Majken Egumfeldt-Jörgensen, og tveimur börnum þeirra. „Við rekum hér kúabú og erum í kringum 500.000 lítra í greiðslumarki. Að auki erum við aðeins í nautakjötsframleiðslu, með 50–60 lifandi naut á hverjum tíma í framleiðslu. Svo eru hér nokkur hross en við erum fókuseruð á nautgriparæktina,“ segir Rafn, en fjölskyldan er tiltölulega nýflutt á Stóru-Hildisey. „Við fluttum hingað fyrir ári síðan. Áður bjuggum við í Hólmahjáleigu hér í Austur-Landeyjum, ég er fæddur þar og uppalinn. Við tókum við Hólmahjáleigu af foreldrum mínum árið 2005. Þá var engin mjólkurframleiðsla þar lengur, þau höfðu hætt framleiðslu tveimur árum áður. Við byrjuðum þá frá grunni, vorum búin að byggja upp og komin með mjaltaþjón þar í gömlu fjósi. En okkur langaði að komast í betri aðstöðu. Vorum búin að velta vöngum um að byggja jafnvel nýtt fjós. Svo var þessi jörð á sölu og við ákváðum að láta slag standa og skoða. Okkur leist vel á og miðað við okkar aðstæður var þetta besti kosturinn fyrir okkur. Hér komumst við í mun betri aðstöðu og aukum jafnframt framleiðsluna talsvert. Þetta er rétt hjá, þetta eru átta kílómetrar hérna á milli.“

Þörf á fjárfestingum í greininni
Hvernig gengur rekstur nautgripabænda, hver er afkoma og meðaltekjur í greininni?
„Þetta er náttúrlega mjög breytilegt milli búa. Sumir eru komnir á þokkalegan stað með sinn rekstur meðan staðan er mun þyngri hjá öðrum, þar ræður skuldastaða mjög miklu. En það er viðvarandi vandi að launagreiðslugeta í greininni er engan veginn nógu góð. Afkoman er heilt yfir ekki nægjanlega góð. Þetta er misjafnt og auðvitað eru þeir í þyngstu stöðu sem hafa verið í fjárfestingum eða framkvæmdum. Þar spilar stóra rullu fjármagnskostnaðurinn og þetta háa vaxtastig sem við þurfum alltaf að búa við.“
Hverjar finnst þér vera helstu áskoranir í rekstri nautgripabænda í dag?
„Stóra málið er afkoman og að koma greininni á betri stað þannig að bændur geti borgað sér ásættanleg laun og staðið undir eðlilegri endurnýjun á framleiðslutækjum og framleiðsluaðstöðu. Það þyrfti að fjárfesta meira í greininni. Það er víða uppsöfnuð þörf á fjárfestingu í aðstöðu og búnaði og öðru slíku. Afkoman hefur bara ekki verið nægilega góð til þess að það sé hægt. Stóra verkefnið er að laga afkomuna þannig að við komumst á betri stað. Nautgriparæktin er kannski ólík öðrum greinum að því leyti að við erum með fjölbreyttar búsgerðir. Við erum með mjólkurframleiðsluna og svo nautakjötsframleiðsluna og í henni má segja að við séum með þrjár leiðir sem menn eru að fara. Það eru bændur sem stunda kjötframleiðslu samhliða mjólkurframleiðslunni. Síðan eru til aðilar sem kaupa nautkálfa og ala þá til slátrunar og eru ekki í mjólkurframleiðslu. Og svo eru til nautakjötsframleiðendur sem eru með holdakýr af angus kyni og í hjarðbúskap. Þannig að það er fjölbreytt rekstrarform í nautgriparækt og áskorun að ná utan um þetta þannig að við getum bætt kjör allra.“
Landbúnaðurinn þarf að vera samkeppnishæfur um fólk
Hlutfallslegur stuðningur við hvern mjólkurlítra hefur lækkað mikið á síðustu árum.
Og stuðningur við hvert framleitt kíló af nautakjöti líka. Hvað finnst þér um þessa þróun?
„Ég held að það sé alveg ljóst að hagræðingarkrafan sem hefur verið í samningum á nautgripabændur hefur gengið of langt. Það kannski gerði sér enginn grein fyrir því hvað neyslan myndi aukast gríðarlega mikið. Við erum að framleiða miklu meiri mjólk til að anna innanlandsmarkaði og á sama tíma breytist ekki stuðningsupphæðin. Þannig að þetta er alltaf að þynnast og þynnast út. Ég mundi vilja sjá það að stuðningurinn aukist þegar framleiðslan eykst svona mikið. Við erum í dag að framleiða rúma 150 milljónir lítra en stuðningurinn var á sínum tíma miðaður við rúmlega 100 milljónir lítra. Þetta er ígildi gríðarlegrar hagræðingar. Það þarf að vinda ofan af því, spóla eitthvað til baka og stokka spilin. Auðvitað gerðu allir þessa samninga á þeim forsendum sem voru þá og voru að gera sitt besta, en svo breyttust aðstæður. Þessi gríðarlega aukning í ferðamennsku og öðru slíku og bara fjölgun hér á landi. Þetta er eitthvað sem enginn gerði sér grein fyrir fyrir fimmtán, tuttugu árum.“
Rafn leggur áherslu á að landbúnaðurinn þurfi að vera samkeppnishæfur um fólk á vinnumarkaði. „Stóra málið fyrir nautgriparækt og landbúnaðinn í heild er að gera greinina samkeppnishæfa um gott fólk. Það sem ég á við með því er það að tækifærunum í dreifbýli hefur blessunarlega fjölgað til muna með tilkomu ferðaþjónustu. Fólk getur unnið heiman frá og er ekki eins bundið búsetu. Vinna án staðsetningar og bættar samgöngur hafa gert fólki kleift að búa í dreifbýlinu þó það sé ekki í hefðbundnum búskap. Það setur þá kröfu á landbúnaðinn að hann verður að geta skaffað sambærileg lífskjör og fólki býðst í öðrum greinum til þess að tryggja að fólk vilji starfa í þessari grein og framleiða matvæli. Þetta er framtíðaráskorun.“
Sambærilegt kerfi en aukið fjármagn
Fljótlega hefjast viðræður Bændasamtakanna við ríkið um búvörusamninga.
Atvinnuvegaráðherra hefur sagst vilja breytingar á núverandi kerfi. Hvernig leggjast áform ráðherra í þig?
„Bændur vilja halda kerfinu nokkuð óbreyttu við núverandi kerfi. Ég hins vegar segi að við förum í viðræður með opnum huga og það má alveg skoða breytingar. Maður er orðinn ofsalega forvitinn að sjá á spil ráðherra, hvaða breytingar á að gera eða hvernig þau sjá þetta fyrir sér. Þetta er óljóst og það er óþægilegt. Það er talað um breytingar án þess að ég hafi skýra sýn í hverju þær felast. Deildarfundir okkar nautgripabænda eru búnir að álykta um að hafa kerfið með svipuðum hætti og það er í dag. Fyrst og fremst vanti aukið fjármagn í það.“
Hvað vilja nautgripabændur sjá í nýjum búvörusamningum?
„Stóra málið í nýjum búvörusamningum er að það verði tekið á því að afkoman í greininni verði gerð viðunandi. Hún er óásættanleg. Staðan í nautakjötsframleiðslunni er mjög erfið, samkvæmt rekstrarverkefni RML er viðvarandi tap á framleiðslu nautakjöts síðustu ár. Í þeirri grein erum við farin að sjá fækkun í ásetningi nautkálfa því bændur eru farnir að draga saman framleiðslu. Og í mjólkurframleiðslunni er nýlega búið að vinna nýjan verðlagsgrunn, sem er reiknilíkan sem verðlagsnefnd notar til að ákvarða lágmarksverð á mjólk til bænda. Og samkvæmt þessum verðlagsgrunni þá vantar rúmar hundrað krónur upp á tekjur af hverjum mjólkurlítra til bænda til að standa undir eðlilegum launakostnaði og eðlilegri endurnýjun á tækjum, aðstöðu og öðru slíku. Stóra málið hjá okkur í nýjum búvörusamningum er að það verði markaðar einhverjar leiðir til að taka á þessari stöðu. Þetta eru gríðarlegir fjármunir og það verður ekkert undan því vikist í nýjum búvörusamningum að á þessu sé tekið og mörkuð leið til að leiðrétta þetta með einhverjum hætti.“
Geturðu hugsað þér einhverjar breytingar á kerfinu sem þú telur myndu hagnast nautgripabændum?
„Mér hugnast vel að leggja meiri áherslu á fjárfestingarstuðning, en auðvitað með því fororði að ekki sé tekið úr öðrum liðum samningsins heldur að nýju fjármagni verði ráðstafað að töluverðu leyti í fjárfestingarstuðning eða framkvæmdastuðning. Þetta eru fjármunir sem nýtast gríðarlega vel og lækka fjármagnskostnað greinarinnar til framtíðar. Það er ákveðið margfeldi að losna við að borga vexti af þessum fjármunum næstu tuttugu, þrjátíu ár, því yfirleitt eru þetta fjárfestingar til langs tíma sem bændur eru með. Svo þarf að huga að nýliðun og hvernig er hægt að styðja betur við nýliðun með einhverjum hætti,“ segir Rafn og leggur áherslu á að nautgripabændur kalli eftir betra lánaumhverfi og skuldastaða þeirra sé víða slæm.
„Hvort sem það er inni í búvörusamningum eða annars staðar, þá er hægt að sækja stóran ávinning með því að koma upp einhverju lánafyrirkomulagi með betri vaxtakjörum. Nautgripabændur skulda heilmikið, þetta er fjármagnsfrekur rekstur með tiltölulega lítilli veltu miðað við fjárfestingu. Þannig að fjármagnskostnaður skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Það munar mjög mikið um hvert prósent í vöxtum.“
Hagsmunir landbúnaðarins mega ekki gleymast í ESB-umræðunni
Núverandi ríkisstjórn stefnir að því að kjósa um hvort hefja eigi aðildarviðræður við Evrópusambandið. Hafið þið kynnt ykkur landbúnaðarstyrki Evrópusambandsins?
„Ég hef ekki kynnt mér þetta mikið persónulega. En núverandi ríkisstjórn virðist hafa hug á þessu og það er bara sú staða sem er uppi. Ég held að Bændasamtökin og hagaðilar þurfi að setja vinnu í að greina landbúnaðarstefnu í Evrópusambandinu og ég veit að sú vinna er komin af stað. Við þurfum, ef til þessa kemur, að vera með á hreinu hvað er hægt að nýta, hverju þarf að berjast fyrir, hvað þarf að varast og annað slíkt. Ég er ekkert mótfallinn umræðunni en það þarf að afla upplýsinga og passa að hagsmunir landbúnaðarins gleymist ekki í stóru málunum ef af verður.“
Hefur þú sjálfur skoðanir á því hvort Evrópusambandsaðild hagnist bændum eða ekki?
„Ég hef nú verið frekar skeptískur á aðild. Mín skoðun í þessu er að það er engin skyndilausn til, hvort sem það heitir Evrópusambandið eða eitthvað annað. Það hefur stundum verið sagt að það sé ekki hægt að fá einhvern annan til að moka flórinn fyrir okkur. Ég held að við sitjum alltaf uppi með það að við þurfum sjálf að taka á okkar málum.“
Heldur þú að það sé markaður í Evrópu fyrir íslenskt nautakjöt eða mjólkurvörur?
„Ég held að hann sé nú ekkert í stórum stíl. Við bara búum á norðlægum slóðum og það er dýrt að framleiða landbúnaðarvörur á Íslandi í samanburði við margt annað. Við erum líka örframleiðsla, það er bara þannig. Við verðum mjög seint samkeppnishæf í verðum en einhverjir möguleikar eru í góðum vörum eins og hefur verið að nást í skyri. Og að sjálfsögðu eigum við að nýta okkur alla möguleika í þessum efnum.“
Aukin afköst stuðla að umhverfisvænni framleiðslu
Eru einhverjir fjárhagslegir hvatar fyrir nautgripabændur til þess að stunda umhverfisvænni landbúnað eins og kerfið er í dag?
„Ekki beint. Að gera landbúnaðarframleiðsluna umhverfisvænni, snýst í mínum huga um að hámarka afköst á hverja einingu. Það sem ég á við með því er að ná sem mestri mjólk út úr hverri mjólkurkú og flestum kílóum af kjöti af hverjum grip og fá sem flestar fóðureiningar af hverjum hektara sem við erum að nýta til landbúnaðar og framleiðslu. Ég held að í stuttu máli sé þetta aðgerðaáætlun í umhverfismálum í landbúnaði. Í nautakjötsframleiðslunni er sláturálag á nautakjöt, þar þurfa gripir að hafa náð ákveðinni þyngd fyrir ákveðinn aldur, það má kannski segja að það sé hvati til að framleiða á umhverfisvænni hátt, að ná fleiri kílóum á ákveðnum tíma. Það eru ekki miklir hvatar en þetta skilar líka peningum. Það er bara hagstæðara, það skilur meira eftir að hámarka afköst af hverri einingu. Þannig að þó mér sé ekki borgað sérstaklega fyrir það sem bónda, þá skilar það sér samt í hagkvæmari rekstri. Þannig að þetta er kannski ekkert svo langt frá hvort öðru.“
En myndirðu vilja sjá slíkan hvata? Til dæmis í búvörusamningi eða í fjárfestingarstyrk hvað þetta varðar inn í greinina?
„Ég held að það væri mjög jákvætt, að við hefðum eitthvert svigrúm fyrir nýjungar eða nýsköpun í þessum málum. Að það væri fjárhagslegur hvati eða stuðningur til að létta undir. Að það sé eitthvert svigrúm til að koma slíkum verkefnum áfram. Auðvitað tengist þetta í búvörusamningum, að þróunarfé verði aukið. Það er eitt af okkar samningsmarkmiðum að sá pottur verði aukinn þannig að hægt sé að fjármagna fleiri slík verkefni.“
Tækniframfarir og hagræðing fækkar búum
Hvers vegna hefur nautgripabændum fækkað síðastliðin ár?
„Þetta er náttúrlega bara þróunin alls staðar í heiminum. Með aukinni tækni og vélvæðingu þá er hægt að auka afköst. Hver maður nær að framleiða meira. Þannig að það er helsta skýringin og auðvitað eru menn að reyna að klóra í bakkann tekjulega með að stækka og reyna að auka veltu og auka tekjur.“
Hvert stefnir þessi atvinnugrein? Verður þróunin sífellt í átt að stærri búum?
„Ég held að það verði nú þróunin, að búin eigi eftir að stækka enn frekar. Það er þróunin í löndunum í kringum okkur. Án þess að það sé nein sérstök ósk af minni hálfu eða eitthvert baráttumál að búum fækki, síður en svo, en ég held hins vegar að þetta sé sú þróun sem verði. Hugsanlega er þetta þróun sem þarf að verða. Það sem ég á við með því er að það eru alltaf meiri kröfur hjá fólki að komast í burtu, geta verið með afleysingar og eitthvað slíkt. Þannig að hugsanlega þurfa einingarnar að stækka til að þær ráði frekar við það, eða þá að tvær fjölskyldur geti verið með reksturinn og þá sé auðveldara að eiga við slík mál. Því að þetta er heilmikil binding. Þó að tæknin sé komin ákveðið langt þá þarf að sinna þessu alla daga, alveg sama hvaða dagur er. Það er bara þannig. Þetta er viðkvæmt mál, stærð á búum, en ég held að þessi þróun sé ekki búin og hún muni halda áfram. Búin munu stækka og þeim mun fækka.“
Þarf að varast þessa þróun á einhvern hátt? Með sífellt stærri búum fer þetta að vera spurning um hagræðingu eða byggðamál, hvar liggja sársaukamörkin þar? Víða erlendis er nautgriparækt orðin að verksmiðjuframleiðslu sem dæmi.
„Og mig langar ekkert að fara þangað. Að það verði bara örfá bú í verksmiðjuframleiðslu, alls ekki. Þó ég haldi að þetta verði þróunin þá er það ekkert endilega það sem mér hugnast. Það er líka vont fyrir okkur ef okkur fækkar mjög mikið. Slagkrafturinn er meiri, við höfum sterkari rödd eftir því sem við erum fleiri gagnvart stjórnvöldum og allt slíkt. Það er ýmislegt að varast eftir því sem okkur fækkar. Samfélögin verða fátækari. Í sveitunum eru rekin búnaðarfélög sem eru með sameign á tækjum og tólum sem bændur geta fengið leigt, og allt er þetta erfiðara þegar einingarnar eru færri. Þannig að það eru ýmis áhrif sem þetta hefur. Þessi þróun síðustu ár hefur hins vegar leitt það af sér að aðbúnaður kúa hefur tekið stökk fram á við, með lausagöngufjósum og sjálfvirkri mjaltatækni. Og vinnuaðstæður bænda hafa líka tekið stökk fram á við. Þannig að aðbúnaður dýra og bænda hefur stórbatnað samhliða þessu.“
