Flogið með kýr til Arabíu
Hermann Leifsson, flugstjóri hjá Air Atlanta, sinnir mikið af gripaflutningum í gegnum sín störf. Á síðasta ári tók hann þátt í að flytja danskar kýr til Sameinuðu arabísku furstadæmanna þar sem stendur til að koma á fót kúabúi með 20.000 mjólkurkýr.
Landbúnaðarráðuneytið í Sharjah, sem er eitt af furstadæmunum, stendur á bak við þessa uppbyggingu, en kúabúið og mjólkurafurðastöðin nefnist Meliha. Hermann segir um 6.000 danskar kýr hafa verið fluttar með flugi á síðasta ári. Heildarfjöldi mjólkurkúa á kúabúinu hafi verið kominn upp í 8.500 í lok árs 2025.
Fleiri flugfélög en Air Atlanta sinni þessum flutningum, enda mikill kraftur í verkefninu. Atlanta noti mikið Boeing 747 flugvélar sem geti borið á bilinu 160 til 180 kelfdar kýr í einu. Mörg flugin hefjast í Danmörku, en einnig eru kýrnar fluttar með bílum á aðra flugvelli í norðanverðri Evrópu. Síðasta gripaflutningaflugið sem Hermann flaug á árinu 2025 var frá Liege í Belgíu og var lent á flugvellinum í Sharjah eftir sex klukkustundir.
Kúabúið hefur vakið athygli fjölmiðla í furstadæmunum og samkvæmt upplýsingum þar er miðað við að byggja upp kúastofn sem framleiðir mjólk sem inniheldur svokallað A2A2 mjólkurprótein. Það er eftirsóknarvert þar sem það veldur ekki magaverkjum hjá mörgum af þeim sem eru með mjólkuróþol. Mjólkin nýtur mikilla vinsælda meðal heimamanna og á kúabúið erfitt með að anna eftirspurn.
Kýrnar yfirvegaðar í loftinu
Hermann segir kýrnar býsna rólegar meðan á fluginu stendur. „Þær koma um borð í sérsmíðuðum kössum, en þær eru fimm eða sex saman. Kassarnir eru festir á sérstakar pallettur sem eru keyrðar til um borð í vélinni. Við erum með hleðslustjóra sem sér um að hlaða vélina og kemur með í flugið og afhleður vélina á áfangastað.“ Hleðslustjórinn geti jafnframt haft eftirlit með kúnum meðan á fluginu stendur.
„Við höfum ljósin kveikt til þess að kýrnar séu sem rólegastar. Það eru engin læti í þeim, þó svo að þær séu búnar að vera þarna í einhvern tíma,“ segir Hermann. Kýrnar eru hvorki með vatn eða fóður, sem Hermanni skilst að fari betur með þær. Til samanburðar þurfi svín að hafa aðgang að vatni í flugi. Eins sé hestum gefið róandi lyf, fóður og vatn þegar þeir ferðast með flugvélum.
Hermann segir nokkra fjósalykt fylgja flutningum sem þessum, en verulega dragi úr henni þegar tekið sé á loft. „Þar sem kýrnar eru hvorki að borða né drekka er miklu minni flór undan þeim. Kassarnir eru nokkuð þéttir, en í þessu tiltekna flugi fór smá flór út fyrir sem var einfalt að þrífa. Ég reikna með að það verði töluvert af svona beljuflugum á þessu ári, en ef þeir ætla að kaupa 12.000 kýr í viðbót eru það þónokkrar ferðir.“
Flýgur með blóm frá Afríku
Air Atlanta kemur mikið að fraktflutningum á viðkvæmum landbúnaðarvörum og dýrum sem þurfa að komast sem fyrst á áfangastað. „Hérna áður var ég oft að fljúga kjúklingum frá Madríd yfir til Tenerife þar sem þeir voru ræktaðir upp í sláturstærð. Þá var vélin alveg full af nýklöktum kjúklingum í sérstökum pappakössum, en það var reyndar minni vél en ég er á núna.
Eftir sumarólympíuleikana í Frakklandi fór ég eitt flug með hesta til New York sem höfðu verið að keppa. Þegar flogið er með hesta fylgja oftast einhverjir hestasveinar frá eigendunum, en yfirleitt eru þetta einhverjir rándýrir veðhlaupahestar. Mér skildist á hestasveinunum að hver hestur kostaði yfir milljón evrur.
Einu sinni flaug ég með svín sem voru á leið frá Kanada til Kuala Lumpur, en það var risastór kanadískur svínaræktandi sem ætlaði að opna nýtt útibú í Malasíu. Það var mjög langt flug sem byrjaði í Kanada og millilenti í Skotlandi þar sem ég tók við flugvélinni. Ég flaug til Bahrein þar sem voru önnur áhafnarskipti og þaðan var flogið til Kuala Lumpur.
Gríðarlega stór hluti af okkar flutningi eru blóm frá Kenía. Það eru yfirleitt tvö til þrjú flug á dag frá Nairobi með hundrað tonn af blómum hvert. Yfirleitt er flogið til Liege í Belgíu eða Amsterdam í Hollandi. Þetta eru þá nýskorin blóm sem fara strax á markað daginn eftir.“
