Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Jón Jakobsson og Hulda Birgisdóttir á fullri ferð inn í eyjar
Jón Jakobsson og Hulda Birgisdóttir á fullri ferð inn í eyjar
Mynd / Aðsendar
Viðtal 6. ágúst 2024

Fjárbúskapur í eyjum

Höfundur: Bryndís Sigurðardóttir

Jón Jakobsson er hafnarvörður í Stykkishólmi og fjárbóndi í Rifgirðingum. Rifgirðingar eru jörð í stjórnsýslulegum skilningi þess orðs en í raun er um að ræða eyjaklasa á Breiðafirði sem telur 55 eyjar og þar halda Jón og hans fjölskylda um það bil þrjátíu kindur.

Það stendur keikt gamla húsið í Rifgirðingum og nýtur kvöldsólarinnar.

„Mamma og pabbi keyptu jörðina árið 1953 og fluttu þangað á fardögum það ár, húsakostur var mjög lélegur, þarna var steinsteypt íbúðarhús sem byggt var 1912 og enn stendur og mig minnir að útihúsin hafi verið úr torfi,“ segir Jón. Fyrstu árin hafi þau haft heilsársbúsetu í eyjunum en fljótlega hætt þar vetursetu. „Það þótti góður kostur að búa í eyjunum á þessum tíma. Auðvitað harðbýlt og það þurfti að vinna en það vafðist ekki fyrir foreldrum mínum,“ segir Jón og bætir við að þar hafi alltaf verið hægt að fá mat, enginn svalt í eyjunum. „Mamma og pabbi voru mjög nægjusamt fólk, lífið var auðvitað enginn dans á rósum, svona ef miðað er við lífsstíl nú á dögum, en þau voru mjög sátt við sitt.“

Foreldrar Jóns voru Svava Kristjánsdóttir frá Dunkárbakka í Hörðudal og Jakob Jörgen Jónsson frá Tálknafirði. „Þegar ég fæðist 1962 bjuggum við í Stykkishólmi á vetrum en í eyjum á sumrin. Mamma var að mestu heima og sinnti um okkur þrjú systkinin, Kristján Kára, Þórhildi Hebu og mig, en pabbi var á vertíð hér í Stykkishólmi eða í Grundarfirði. Svo fórum við snemma vors út í eyjar og vorum þar allt sumarið. Ég þótti víst frekar óþekkur í skólanum svo ég fékk alltaf frí og fór með fyrstu ferð inn í eyjar og þurfti ekki alltaf að mæta á réttum tíma í skólann á haustin.“

Foreldrar Jóns flytja að Bíldhól á Skógarströnd árið 1973 og til viðbótar við búskap ráku þau þar litla verslun, umsvifin í eyjunum minnkuðu, alltaf var þó fjárbúskapur og svo þurfti að sinna æðarvarpinu. „Það var ákveðin hnignun í eyjunum frá 1970 til 1990 en þá fórum við að sinna þessu meira,“ segir Jón.

Sumarverkin hér áður fyrr

Þegar komið var inn í eyjar á vorin var fyrsta verkefnið að tína svartbaksegg, sem voru svo seld í Kjötbúri Tómasar á Laugaveginum. „Svo lögðum við net fyrir grásleppu og rauðmaga, sem er auðvitað herramannsmatur, reyktur eða siginn og við höfðum bæði reykhús og hjall.“ Selur var veiddur og bæði kjöt og skinn nýtt til hins ýtrasta og þegar líða tók á sumarið var farið í róðra, aflinn sem oftast var þorskur var saltaður. „Á haustin lögðum við fyrir lúðu og þá var líka komin sláturtíð hjá okkur. Við höfðum líka leyfi til að skjóta gæs seinnipart sumars. Það var almennt bannað að skjóta gæs í sárum, en við fengum sérstakt leyfi því það var svo mikið af henni að hún kláraði allt gras frá fénu.“

Skjáturnar á leið í rétta eyju.

Jón var ekki gamall þegar honum var treyst fyrir verkum sem nú á dögum teldust ekki fyrir börn. Um leið og hann gat komið bátavélinni sjálfur í gang var honum treyst til að sigla einn milli eyja að erindast, þetta tókst honum þegar hann var tíu ára gamall og síðan hefur hann meira og minna verið við stjórn á alls konar fleyjum sem nýttar eru til eyjaferða. „Ég man ekki eftir að nein slys hafi orðið hjá okkur, fyrir utan þegar ég var níu ára og sauðaklippurnar rákust í lúkuna á mér og fóru víst í gegn,“ segir Jón glottandi.

En það var myndarlegur vetrarforði af mat fyrir fjölskylduna sem aflað var yfir sumarið, sumt var saltað og reykt og annað fór í frystigeymslur á Stykkishólmi.

Vill helst flytja inn í eyjar

Jón er kvæntur Huldu Birgisdóttur úr Borgarnesi og eiga þau þrjú börn, Jakob Orra, Lilju Rún og Svövu Kristínu. Þau hjónin fluttu frá Borgarnesi og „heim“ eins og Jón segir árið 2015 og keyptu þá stórt hús við Skúlagötu sem rekið var sem gistiheimili í Stykkishólmi. Hulda rak gistiheimilið í nokkur ár en starfar nú sem sérkennslustjóri í leikskólanum. „Við komumst ekki nærri eins oft og við viljum inn í eyjar og getum ekki dvalið þar í lengri tíma eins og við gerðum oft þegar börnin voru yngri,“ segir Hulda og bætir við að Jón vilji helst flytja inn í eyjar.

„Við systkinin erum saman með æðardúninn og það er góð fjölskyldusamvinna. Þá koma allir sem vettlingi geta valdið inn í eyjar og eiga heimangengt og við erum þar saman við störf, það er ákaflega góður tími,“ segir Jón. Þau eru með 3–400 kollur og nánast allur dúnn fer til vinnslu í Reykhólasveit. „Ég og krakkarnir eigum dúnsængur en Jón er svo heitfengur að það þýðir ekkert að breiða dúnsæng yfir hann,“ segir Hulda hlæjandi.

Engin fæðingarhjálp í Rifgirðingum

Sauðfjárbúskapurinn á Rifgirðingum er samstarfsverkefni æskuvinanna Jóns og Hjalta Oddssonar frá Vörðufelli. „Þetta er eins og æðarbúskapurinn, fjölskylduverkefni með mikilli og góðri samveru,“ segir Jón og bætir við að um síðustu helgi hafi stór hópur skundað inn í eyjar til að taka af.

Það er ekki vakað yfir sauðburði í Rifgirðingum og telur Jón að afföll hjá þeim séu síst meiri en hjá öðrum bændum. „Við erum ekki að reyna að rækta upp þrílembur, við þurfum ekki meira kjöt handa okkur og það er bara meiri áhætta í burði, en það eru reyndar núna tvær þrílembur en það er alveg óvart.“

Mjög markviss beitarstýring sé hjá þeim en það sé aðallega til að reyna að halda niðri grasvexti á sem flestum eyjum. „Það er svo erfitt að fara um eyjarnar ef þær eru kafloðnar af grasi, við þurfum að eltast við mink og svo þarf að smala. Foreldrar mínir gátu vel haldið 80 til 90 kindur hér á árum áður svo það fer vel um þessar 30 sem nú eru þarna að spássera með lömbin sín. Við gætum þess vel að nýta bara eyjar þar sem ekki er flæðahætta, skepnurnar þekkja sínar heimaslóðir og fara sér ekki að voða, þær viti hvenær hægt er að fara milli eyja á fjöru og þær hreyfa sig mikið.“

Jón minnist þó atviks sem gerðist um það bil 1970. Það var mjög kalt og mikill ís á öllum sundum, þá hafi nokkrar skjátur misreiknað sig og farið út á ísjaka sem flaut upp og rak frá landi. Skelveiðibátur rakst svo á þær úti á rúmsjó, hirti þær upp í bátinn og kom þeim til Stykkishólms. „Heyrðu, Kobbi, getur verið að þú eigir þessar?“ voru skilaboð sem send voru föður Jóns sem snarlega kom þessum óheppnu kindum aftur út í eyju. „Yfirleitt forðast kindurnar að ganga á ís, en þarna misreiknuðu þær sig,“ segir Jón.

Þau hjónin gæta þess að nýta bara eyjar þar sem ekki er flæðahætta. Skepnurnar þekki þó sínar heimaslóðir og fara sér ekki að voða. Mynd / Goddur

Hlakkar alltaf til að komast inn í eyjar

Jón og Hulda hafa komið sér upp góðum og vel útbúnum bát til að sigla út í eyjar. „Hér áður fyrr tók alveg klukkutíma að sigla en við skjótumst þetta núna á tuttugu mínútum,“ segir Jón og fullyrðir að hann verði aldrei of gamall til að sinna búskapnum í Rifgirðingum.

„Hvort næsta kynslóð verður jafnspennt fyrir búskapnum er auðvitað ekki ljóst en þau eru alltaf til í að koma með og taka alltaf þátt í verkunum ef þau mögulega geta,“ segja þau hjón og kíkja svo til veðurs því ekki hefur verið sjófært í nokkra daga.

Jón og Hulda hafa komið sér upp góðum og vel útbúnum bát til að sigla út í eyjarnar.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt

Friðarlilja – falleg allt árið
26. ágúst 2019

Friðarlilja – falleg allt árið

Fjár- og stóðréttir 2023
24. ágúst 2023

Fjár- og stóðréttir 2023

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Manstu vorið?
10. september 2024

Manstu vorið?

Smalað vegna óveðurs
12. september 2024

Smalað vegna óveðurs