Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Elín Magnea Björnsdóttir og Axel Örn Ásbergsson hafa séð um tamningu og þjálfun hrossa í Dallandi frá haustinu 2021. Tveir hæst dæmdu gæðingar
ræktunarbúsins standa hjá þeim, en Elín heldur í Glúm en Axel í Guttorm. Monika Sól, dóttir þeirra, unir sér vel í hesthúsinu.
Elín Magnea Björnsdóttir og Axel Örn Ásbergsson hafa séð um tamningu og þjálfun hrossa í Dallandi frá haustinu 2021. Tveir hæst dæmdu gæðingar ræktunarbúsins standa hjá þeim, en Elín heldur í Glúm en Axel í Guttorm. Monika Sól, dóttir þeirra, unir sér vel í hesthúsinu.
Mynd / hf
Viðtal 18. febrúar 2025

Ekki setið auðum höndum

Höfundur: Hulda Finnsdóttir

Fyrir fimmtíu árum keyptu þau Gunnar Dungal og Þórdís Alda Sigurðardóttir 14 hektara hrjóstruga jörð í suðurhluta Mosfellssveitar. Síðan þá hafa þau aukið við hekturum, grætt upp landið og bætt húsakost og byggt þar upp farsælt hrossaræktarbú, Dalland, og hestamiðstöðina Dal.

Þegar ekið er út af Suðurlandsveginum við Geitháls og stefnan tekin að Hafravatni vekur athygli glæsilegt bú austan vegarins. Glittir þar í fallegar byggingar umvafðar skógi og minnir umhverfið svolítið á búgarða erlendis. Það er ekki að sjá að fyrir fimmtíu árum, þegar þau Gunnar og Þórdís eignuðust jörðina, hafi ekkert verið á henni fyrir utan íbúðarhús, fjárhús og eitt dautt reynitré.

„Við Þórdís voru ákveðin í að búa ekki í Reykjavík og finnum Dalland þegar við vorum að athuga staði fyrir utan bæinn. Það var ekki mikið þegar við komum. Landið var rýrt, uppblásið og fremur óræktarlegt. Við fórum í það að setja niður tré, bera skít á tún, laga íbúðarhúsið og gera huggulegt í kringum okkur. Þetta gafst gríðarlega vel en taðframleiðslan hjá okkur var svo lítil að við þurftum að fá skít frá öðrum til þess að auka afköstin í uppgræðslunni. Við höfum látið girða mikið samhliða þessu starfi og gert skjólbelti úr trjám,“ segir Gunnar.

Vinna þeirra við landgræðslu skilaði þeim Gunnari og Þórdísi Landgræðsluverðlaunum árið 2011.

Fallegt er um að litast í Dallandi en hjónin hlutu landgræðsluverðlaun árið 2021 fyrir ötula uppgræðsluvinnu.

Hestamiðstöðin Dalur

Þetta var ærið verkefni sem þau Gunnar og Þórdís tóku að sér, þá 26 og 24 ára gömul. Gunnar var þá forstjóri fyrirtækis í Reykjavík og Þórdís að hefja nám í myndlist. Þau sáu ýmsa möguleika og verkefnin vantaði ekki í sveitinni. Eftir að hænsnabúi var lokað sem starfrækt var við túnfótinn í Dallandi vaknaði upp sú hugmynd árið 1977 að stofna hestamiðstöðina Dal í samstarfi með vinum þeirra, Eyjólfi Ísólfssyni, Guðbjörgu Sveinsdóttur, Jóhanni Friðrikssyni og Gunnlaugu Eggertsdóttur.

„Við höfðum keypt hænsnabúið og rákum það í tvö ár. Því var síðan breytt í hesthús og er það upphafið að hestamiðstöðinni Dal. Við keyptum hross, Eyjólfur og Guðbjörg fóru að temja, sum þeirra voru seld og einnig tókum við hross í tamningu. Síðan hættu þeir Eyjólfur og Jóhann en við héldum áfram,“ segir Gunnar.

Í dag rúmar hesthúsið í Dal um 41 hross, það er tvískipt hesthús sem tengist saman með lítilli reiðskemmu sem byggð var árið 1993. Við hliðina á hesthúsinu er 800 fermetra reiðhöll ásamt 100 fermetra stofu (Ormsstofu, nefnd í höfuðið á Ormi frá Dallandi) sem tengir hesthús og reiðhöll. Við Dal er síðan hringvöllur, skeiðbraut, beitarhólf og fjölbreyttar reiðleiðir sem þau Gunnar og Þórdís hafa að mestu leyti látið gera.

Í gegnum tíðina hefur Dalur oft orðið fyrir valinu sem viðkomustaður þegar íslenski hesturinn er sýndur erlendum þjóðhöfðingjum og sumir þeirra hafa meira að segja farið á bak eða drifið sig í reiðgalla og riðið út. Einnig má til gamans geta að margir hópar myndlistaráhugamanna sem komið hafa frá erlendum söfnum hafa beðið um að fá að sjá hesta auk myndlistarinnar.

Gunnar Dungal með Elísabetu Englandsdrottningu sem heimsótti Dalland árið 1990. Myndir / Einkasafn

Ræktunin byggir á þremur hryssum

Hestamennskan var ekki ný af nálinni hjá þeim Þórdísi og Gunnari. Þórdís ólst upp á Vestur-Sámsstöðum í Fljótshlíð en fjölskylda hennar hélt þar m.a. hross. Gunnar aftur á móti var uppalin í Reykjavík, hafði mikinn áhuga á hestum og keypti sinn fyrsta hest fimmtán ára gamall fyrir peningana sem hann þénaði við að selja Morgunblaðið, Alþýðublaðið, Þjóðviljann og Tímann.

Það má segja að hrossaræktin hafi byrjað hjá þeim árið 1976 þegar þau keyptu hryssuna Lýsu frá Efri-Rotum sem var undan Fylki frá Flögu og Rauðku frá Eyjarhólum. Lýsa átti eftir að reynast þeim vel í ræktuninni en Landsmótssigurvegarinn í A flokki gæðinga árið 2000, Ormur frá Dallandi, er sonur hennar ásamt hryssunum Kráku og Dúkkulísu, en sú síðarnefnda fékk heiðursverðlaun á Landsmóti 2006. Lýsa er einnig langalangamma stóðhestsins Glúms frá Dallandi.

Lýsa var ein af þremur stofnhryssum búsins en hinar eru Vaka frá Dýrfinnustöðum og Gróska frá Sauðárkróki. Gróska er amma Grósku frá Dallandi sem hlaut heiðursverðlaun árið 2023 og er móðir Guttorms og Konfúsíusar frá Dallandi. Til gamans má geta að fjögur afkvæmi Grósku voru þátttakendur á Landsmóti hestamanna síðasta sumar.

„Fyrst þegar við byrjuðum að rækta reyndum við að halda í ákveðnar blóðlínur. Við höfum aðeins verið að elta Orra frá Þúfu í Landeyjum, Hrafn frá Holtsmúla. Núna erum við hætt því og íhugum frekar hvaða stóðhestur passar á hvaða meri hjá okkur, þannig að það er svo sem engin sérviska í valinu á stóðhestum. Hryssurnar sem eru í ræktun hjá okkur eru merar sem við áttum svo þetta eru að verða Dallandshross langt aftur í ættir.“

Þórdís Alda Sigurðardóttir á Ormi frá Dallandi. Mynd / Anna Fjóla Gísladóttir

Skagafjörðurinn heillar

Undanfarin ár hafa þau Gunnar og Þórdís búið að mestu í Skagafirði en á árunum 2006, 2007 og 2014 keyptu Gunnar og Þórdís jarðirnar Stapa, Héraðsdal og Laugardal í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði, skammt frá Vindheimamelum. Árið 2024 keyptu þau minkabú þegar starfsemi þess lauk en það er í landi Héraðsdals. Þau hafa því ekki setið auðum höndum þar frekar en í Dallandi og hafa þau verið að hreinsa til, gróðursetja og endurbæta og viðhalda húsakosti á jörðunum.

„Það er hægt að liggja bara upp í sófa með hendur í vösum og gera ekki neitt. Við höfum hins vegar gaman af því að gera eitthvað. Sum húsin sem við höfum eignast í Skagafirði þurfti að endurbæta og svo erum við búin að gróðursetja um þrjúhundruð þúsund plöntur hér. Við höfum líka alltaf haft mikinn áhuga á myndlist og höfum verið að safna myndlist í yfir 40 ár. Hingað koma listamenn, margir erlendis frá, sem við bjóðum að dvelja í 3–4 vikur hjá okkur, skoða sveitina og skapa.“

Þórdís, sem er starfandi myndlistarmaður, hefur komið sér upp frábærri vinnuaðstöðu og ver stórum hluta af tíma sínum til listsköpunar. Saman sinna þau bústörfum og fylgjast með ungviðinu alast upp en allar ræktunarhryssurnar eru staðsettar í Skagafirði en í dag eru þau að fá frá sex til tíu folöld á ári.

„Hrossaræktin er svo skemmtileg. Það er miklu meira gaman að rækta hross en kjúklinga, finnst mér. Það er gefandi og gaman að fylgjast með folöldunum fæðast og framförunum, maður sér að maður er á réttri leið og þetta er að ganga betur. Við höfum oft eignast ágætis hesta og höfum verið afar heppin með starfsmenn. Við erum orðin svo gömul að við erum farin að huga að því að reyna minnka umfangið, sem er erfitt, þetta er svo spennandi. Ræktunarhryssurnar eru hjá okkur í Skagafirði, yngstu og elstu hrossin einnig. Við erum með gott land hér og aðstöðu. Við höfum aðeins verið að láta frumtemja og þjálfa hérna og fengum til þess gott tamningafólk úr Skagafirði en nú sendum við þetta allt í Dalland í tamningu og þjálfun því aðstaðan þar innandyra er betri. Hér er nokkuð mikið af túnum og heyjum við af þeim og flytjum hluta af heyinu síðan suður í Dalland,” segir Gunnar en í dag starfa þau Axel Örn Ásbergsson og Elín Magnea Björnsdóttir á hestamiðstöðinni. „Mikið úrvals fólk sem við treystum vel fyrir bæði velferð hestanna okkar og staðnum.“

Heppin með starfsfólk

Gunnari verður hugsað með þakklæti til allra þeirra þjálfara og annarra sem starfað hafa við hestamiðstöðina frá upphafi. Hann segir þau hafa verið afar heppin með hæfileikaríkt starfsfólk og margir þeirra verið og eru enn í dag í fremstu röð þjálfara. Hann nefnir Halldór Guðjónsson og Helle Laks og Hafliða Friðriksson sem lengst hafa starfað hjá Dal, eða í rúm tuttugu ár.

Verkefnin hafa snúist um tamningar, þjálfun, sýningar, keppnir, samvinnu varðandi hrossaræktina og allt það sem viðkemur hrossum. Auk þess hefur verið girðingarvinna, uppgræðsla á landi og vinna í kringum trjárækt, byggingarvinna, viðhald og fleira. Þá stýrðu í Dal, um níu ára tímabil, þau Atli Guðmundsson og Eva Mandal. Adolf Snæbjörnsson hefur búið og starfað til margra ára við tamningar og sýningar á hrossum frá búinu, bæði í Dal og í Dallandi. Marga aðra þekkta hestamenn sem störfuðu í Dal nefna þau; Eyjólf Ísólfsson, Trausta Þór Guðmundsson, Jessicu Westlund, Rúnu Einarsdóttur, Fredrik Sandberg, Sigurð Marinusson, Karoline Wenzel, Ragnar Hinriksson, Eyrúnu Önnu Sigurðardóttur, Jóhann Skúlason, Hinrik Bragason, Svein Hauksson, Ia Lindholm, Sussie Lindberg, Ingimar Ingimarsson og er þetta aðeins brot af þeim fjölda sem komið hafa við sögu hestaþjálfunar í Dal.

Það muna eflaust margir eftir Halldóri og Nátthrafni frá Dallandi en Nátthrafn var í fremstu röð töltara landsins á sínum tíma og Atli Guðmundsson gerði garðinn frægan á Ormi frá Dallandi en þeir unnu m.a. A flokk á Landsmóti árið 2000.

Axel og Elín Magnea eru með 38 hross í þjálfun og tamningu.

Alhliða tamningastöð

Í dag eru það þau Axel og Elín Magnea sem sjá um tamningar og þjálfun hrossa í Dallandi en þau hafa verið þar frá því haustið 2021. Bæði eru þau útskrifuð með BSc í reiðmennsku og reiðkennslu frá Háskólanum á Hólum árið 2019.

„Hér er mjög fínt að vera, samstarfið gengur vel, frábær aðstaða, gott fólk og góðir hestar. Það hefur sína kosti og galla að vera svona nálægt Reykjavík. Við erum í alfaraleið og því þægilegt fyrir fólk að koma og skoða hesta eða koma í reiðkennslu. Einnig er stutt í alla þjónustu. Helsti gallinn er kannski sá að hér getur verið mikil umferð af vélknúnum ökutækjum, útivistarfólk af höfuðborgarsvæðinu sem hefur ekki þekkingu á atferli hesta. Sem betur fer höfum við svo sem ekki lent í neinu alvarlegu. Við finnum alveg fyrir því að við erum mjög nálægt Reykjavík og þó við séum kannski smá einangruð hér uppfrá að þá er þetta ekki verndað svæði eins og hestamannafélögin,“ segir Axel og bætir við að þau séu heppin með góða nágranna.

Kom ekkert annað til greina en hestamennska

Axel og Elín koma bæði úr hestafjölskyldum. Tíu ára gamall fluttist Axel með fjölskyldu sinni í Hraunholt á Snæfellsnesi þar sem foreldrar hans reka sauðfjárbú og ferðaþjónustu. Hann segir ekkert ekkert annað hafi komið til greina en að starfa kringum hross.

„Ég er frá Sauðárkróki en mamma og pabbi eru áhugafólk. Við vorum mikið að ríða út í hverfinu og ég fór mikið á námskeið. Þegar vinkona mín fékk sér sumarvinnu á hestabúgarði fannst mér það mjög spennandi. Pabbi fékk vinnu fyrir mig á Narfastöðum hjá Bergi og Rósu og var ég þar þrjú sumur. Fyrsta sumarið fékk ég hest í sumarlaun sem var keppnishesturinn minn, það vatt eiginlega upp á sig og áhuginn varð enn þá meiri,“ segir Elín Magnea.

Spennandi vetur fram undan

Þau Axel og Elín Magnea halda úti alhliða tamningastöð í Dallandi og eru þau með 38 hross á járnum og segjast spennt fyrir vetrinum.

„Við erum með mikið að spennandi hrossum, bæði ungum hrossum sem stefnt er með í kynbótasyningar, svo en hrossin sem við frumtömdum þegar við komum hingað eru á sjöunda vetri núna. Það tekur alltaf ákveðin tíma að byggja upp hross svo við erum spennt að fara að spreyta okkur með þau á keppnisbrautinni,“ segir Axel en hann og Elín Magnea munu bæði taka þátt 1. deildinni og
Vesturlandsdeildinni í vetur. 

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt