Auðbjörgunarsveitin
Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðingur og rófubóndi, hefur starfað á heilsugæslunni á Kirkjubæjarklaustri í næstum átján ár. Hún býr á Maríubakka í Fljótshverfi í Vestur-Skaftafellssýslu, sem er um 25 km austan við Kirkjubæjarklaustur, ásamt börnum sínum og eiginmanni.
Aðgengi að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni er stórt byggðamál fyrir velferð og öryggi íbúa. Í smærri byggðum verður eðli þjónustunnar oftar en ekki persónulegri, nálægðin við skjólstæðingana meiri, sem getur í senn verið gefandi en líka krefjandi. Með tilkomu fjarheilbrigðisþjónustu á Kirkjubæjarklaustri hefur aðgengi íbúanna að heilbrigðisþjónustu aukist, en heilsugæslan þar er fyrsta heilsugæslan hér á landi sem hefur innleitt slíka þjónustu.
Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, gjarnan kölluð Auja, flutti austur á Maríubakka rétt gengin í þrítugt. Hún fæddist í Reykjavík árið 1978, ólst upp á höfuðborgarsvæðinu, á ættir að rekja vestur á firði og hefur alltaf haft sterkar rætur í sveitina og landsbyggðina. „Ég vann mikið á sumrin úti á landi og undi mér vel. Ég hef alltaf verið mikið náttúrubarn og kunnað að meta einfaldleikann og hægagang lífsins í sveitinni.“ Eftir menntaskóla lá leiðin í háskólann og Auðbjörg útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 2005, síðar sem ljósmóðir og hefur síðan þá tekið diplómu í mannauðsstjórnun og sjúkraflutningum, EMT-A.
Þegar frumburður þeirra hjóna var þriggja ára fluttu þau austur. Tengdafaðir Auðbjargar var orðinn langveikur og það vantaði aðstoð við búið á Maríubakka þar sem Bjarki, eiginmaður hennar, er fæddur og uppalinn. „Það var ekki á planinu að flytja á Klaustur en þegar Guðni tengdapabbi var orðinn veikur veitti ekki af allri þeirri hjálp sem þarfnaðist við búskapinn. Síðan bráðvantaði hjúkrunarfræðing á heilsugæsluna stuttu eftir að ég lauk ljósmóðurnámi. Við ákváðum því að slá til og erum enn hér í dag um átján árum síðar.“
Auðbjörg segir fegurðina í Skaftárhreppi engri lík og að það séu forréttindi að hafa slík náttúrugæði í kringum sig í daglegu amstri „Alveg frá því að ég var stelpurófa hef ég alltaf hrifist af litlum samfélögum. Íbúarnir eru oftar en ekki knúnir drifkrafti og þrautseigju þar sem allir skipta máli. Oftast er fólk samherjar en eðlilega getur stundum slegið í brýnu.“

Sinnir útköllum á hinum ýmsu farartækjum
Á Maríubakka var lengi vel töluverður fjöldi af kindum og ötul rófurækt. Bjarki tók að mestu við búskapnum af föður sínum samhliða störfum sínum sem sjúkraflutningamaður. Þau hjónin vinna því mikið saman og hafa gert um langa hríð.
„Vissulega getur það verið krefjandi, sérstaklega þegar börnin voru yngri. Héraðið er stórt og maður þarf alltaf að vera til staðar. Þrátt fyrir að vera ekki á formlegri vakt þá er maður alltaf til taks ef maður er heima á annað borð. Hvað sem veldur þá hefur verið fjöldi alvarlegra slysa á svæðinu og allt of oft banaslys. Það er þyngra en tárum taki og óumflýjanlega mætir þá sorgin oft inn á heimilið þegar við hjónin höfum verið bæði í aðhlynningu á slysstað eða þegar alvarleg veikindi hafa komið upp,“ segir Auðbjörg.
Fyrir lítið bæjarfélag er það gríðarlegur fengur að hafa manneskju eins og Auðbjörgu. Að starfa í dreifbýli fylgir að vera klár í slaginn og taka því sem kemur. Hjúkrunarstarfið er fjölbreytt, starfssvæðið stórt en fáir um verkin þannig að náin teymisvinna læknis og hjúkrunarfræðings, auk sjúkraflutningafólks, er forsenda þess að vel gangi. Auðbjörg segir það ákveðinn lífsstíl, og jafnvel forréttindi, að geta starfað á heilsugæslu í dreifbýli. Í starfinu felist meðal annars að vera til staðar, ýmist við gleði- eða sorgarstundir. Slíkt sé í senn bæði gefandi og krefjandi. Einnig þurfi að sinna skjólstæðingum heima fyrir þar sem ekki allir komast á heilsugæsluna. Þar hafi ljósmóður- og sjúkraflutninganámið komið sér sérstaklega vel.
Til að geta staðið vaktina í stóru héraði þarf að hafa yfirgripsmikla þekkingu og geta beitt henni fljótt, undir miklu álagi og á öruggan og yfirvegaðan hátt. Bráðatilfelli gera ekki boð á undan sér og geta komið á öllum tímum sólarhringsins. Stundum er langt á milli útkalla og stundum stutt. Oft þarf að rjúka út frá því sem maður er að gera hverju sinni, skafa bílinn, finna út hvert eigi að fara og kalla til aðrar bjargir. Fólk hefur tilhneigingu til að draga þá ályktun að erfiðasta verkið og mesta álagið sé að takast á við hópslys eða mjög mannskæð slys. Staðreyndin sé hins vegar sú að þá geta jafnvel einföld verk í hversdagsleikanum valdið meira álagi og áreiti, s.s. ákveðnar rangfærslur sem erfitt er að kveða niður enda hjúkrunarfólk bundið ströngum trúnaði um störf sín og skjólstæðinga.
„Á þeim tíma sem ég hef starfað fyrir austan hef ég tekist á við fjölþætt viðfangsefni sem tilheyra hefðbundnum heilsugæslustörfum ásamt mörgum yfirgengilega krefjandi verkefnum sem dúkka upp og oftar en ekki við margbreytilegar aðstæður. Má þar nefna aðgerðir vegna náttúruvár, eldgos og öskufall í kjölfar þess, margföldun á heimsóknum ferða- manna með tilheyrandi fjölgun slysa og bráðatilfella, og stór og smá hópslys. Þannig hef ég sinnt útköllum og sjúkraflutningum á hinum ýmsu farartækjum, s.s. sjúkrabíl, björgunarsveitabílum, bryndreka og í loftfari svo eitthvað sé nefnt.“
Tækifærin í fjarheilbrigðisþjónustu
Samherji Auðbjargar á heilsugæslunni er Sigurður Árnason læknir. Hann hefur verið lykilmaður í því að tryggja heilbrigðisþjónustu í samfélaginu fyrir austan, meðal annars með breyttri útfærslu á þjónustunni vegna manneklu og öðrum þeim áskorunum sem fylgja því að bráðaþjónusta sé tryggð. Fjarheilbrigðisþjónustan gegnir þannig mikilvægu hlutverki á Kirkjubæjarklaustri. Hún sinnir fjölbreyttum þörfum fólks, auk þess sem hún bætir aðgengi fólks að ýmiss konar sérfræðiþjónustu sem annars væri aðeins aðgengileg á Selfossi eða í Reykjavík. Þessi viðbót eflir heilbrigðisþjónustu heima í héraði og er árangursrík leið til að efla lýðheilsu. Þá segir Auðbjörg að þjónustuformið auki bæði hagkvæmni í rekstri og tryggi betri nýtingu heilbrigðisstarfsfólks.
„Árið 2013 var keyptur fjarlækningabúnaður með stuðningi heimamanna og þar fór Siggi læknir fremstur í flokki. Það hafa verið forréttindi að vinna með slíkum manni, hann hefur ekki aðeins eflt mig í starfi og hvatt mig heldur verið mér og mínum mikill vinur.“
Auðbjörg tók við riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til heilbrigðis- og björgunarstarfa í heimabyggð árið 2019. Hún segir það mikinn heiður að fá slíka viðurkenningu fyrir störf sín í þágu samfélagsins og vonast jafnframt til þess að viðurkenningin sé ekki síður eflandi og hvetjandi fyrir allt heilbrigðisstarfsfólk sem og aðra viðbragðsaðila.
Óhætt er að segja að Auðbjörg sé ekki kölluð Auðbjörgunarsveitin fyrir ekki neitt.