Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Sauðburður á vorin er mikill álagstími fyrir bændur. Á Teigi í Fljótshlíð fæðast um 1.400 lömb á einum mánuði og þarf mörg handtök til að koma heilbrigðu lambi á fjall. Bændurnir Tómas Jensson, Guðni Jensson og Arna Dögg Arnþórsdóttir gefa lesendum Bændablaðsins innsýn í þau störf sem fylgja sauðburði.
Sauðburður á vorin er mikill álagstími fyrir bændur. Á Teigi í Fljótshlíð fæðast um 1.400 lömb á einum mánuði og þarf mörg handtök til að koma heilbrigðu lambi á fjall. Bændurnir Tómas Jensson, Guðni Jensson og Arna Dögg Arnþórsdóttir gefa lesendum Bændablaðsins innsýn í þau störf sem fylgja sauðburði.
Mynd / ál
Viðtal 22. maí 2025

Allt á kafi í sauðburði

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Á Teigi í Fljótshlíð er blandað bú með um 700 kindum og 60 kúm. Þar hófst sauðburður í lok apríl og klárast að mestu leyti í lok maí, en samkvæmt fósturtalningu gera bændurnir ráð fyrir um 1.400 lömbum.

Teigur er félagsbú sem er rekið af bræðrunum Tómasi og Guðna Jenssonum, ásamt Örnu Dögg Arnþórsdóttur, konu þess síðarnefnda. Bændurnir á Teigi hafa náð góðum árangri í sauðfjárrækt og voru samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds 2024 með tíunda afurðahæsta bú landsins. Þau segja að vel heppnaður sauðburður sé eitt lykilatriðið í þessum árangri. Bændablaðið fékk að fylgjast með bændunum að störfum þann 6. maí síðastliðinn.

„Ég hlakka nú alltaf til sauðburðarins,“ segir Guðni. „Við höfum ofboðslega gaman af ræktun og í morgun bar uppáhaldsærin okkar hrút og gimbur undan sæðingarhrúti, sem er alltaf draumurinn. Þetta er alltaf erfiður tími og maður hittir börnin sín lítið þegar vinnudagurinn er kannski sautján klukkutímar eða meira. Þá er sjarminn farinn af þessu,“ segir hann. Mesti álagstíminn varir í tvær vikur.

„Ég held að fólk átti sig ekki á hversu mikil vinna þetta er, sérstaklega á svona stóru búi þar sem eru mjólkurkýr líka,“ segir Arna. Þau fá mikla aðstoð frá foreldrum sínum til að sinna börnum og heimilisstörfum yfir sauðburðinn. „Sauðburður er náttúrlega góður tími, en ég kann ekki síður að meta smalamennskur á haustin, því það er ekkert eins skemmtilegt og að sjá falleg lömb koma heim af fjalli.“ Sumarhagarnir eru heiðarlönd í kringum fjallið Þríhyrning og á Fljótshlíðarafrétti.

Guðni Jensson skráir niður upplýsingar um nýborin lömb.
Auðveldara í góðu veðri

„Við eigum allt undir veðrinu,“ segir Guðni. „Ef það er gott veður þá verður allt miklu léttara og skemmtilegra. Ef það er rok og rigning og þú nærð ekki að setja féð út og það fer að bunkast inni, þá verður þetta alltaf mjög strembið. Því fylgir aukavinna, því það þarf að gefa öllum ánum, dreifa undirburði, lömbin geta farið að hoppa á milli og flæmst undan og kindurnar geta einnig lagst ofan á lömbin,“ segir Guðni. Arna bætir við að ef lömbin komast ekki út hanga þau í kindinni og geta nagað spenana, sem kann að leiða af sér júgurbólgu.

„Draumurinn er alltaf að fjögurra til fimm daga heilbrigð og stór lömb fari út. Við höfum ekkert náð að setja út núna því þegar lömbin voru farin að ná aldrinum fór að rigna,“ segir Guðni. Arna skýtur inn í að leiðinleg spá með slyddu eða kaldri rigningu haldi aftur af þeim.

„Fóðrunin skiptir miklu máli,“ segir Guðni. „Við viljum fá kindurnar heilbrigðar og í góðu standi í burð og fá kindurnar því úrvalshey síðustu vikur meðgöngu. Fyrir burð leggja ærnar alltaf af því fóstrin taka svo mikið af orku og svo mjólka þær af sér hold. Við notum mikið af heyi á vorin, þá sérstaklega ef það er kalt og blautt og ekki nógu mikill hagi kominn á túnin.“

Arna Dögg Arnþórsdóttir veitir burðarhjálp. Í sauðburði þarf að vaka yfir ánum allan sólarhringinn því sumar kindur geta ekki borið án þess að fá aðstoð. Á Teigi eru burðarstíur úr léttum stálgrindum í hverri kró.

Helst engin fullorðin einlemba út

Til þess að lömbin dafni sem best á sumrin leggja bændurnir mikið upp úr því að hver fullorðin ær sé með tvö lömb, að því gefnu að hún mjólki á báðum spenum, og að gemlingar gangi aðeins með eitt lamb. „Það voru talin um 1.400 fóstur í vetur, en það skilar sér ekki allt lifandi. Gemsarnir voru með að meðaltali í kringum 1,50 lamb og í kringum 2,10 í rollunum, en þegar það er svona mikil frjósemi er meiri vinna á sauðburði. Við vitum hvar einlemburnar og þrílemburnar eru og reynum að finna tvö jafnstór lömb sem við höfum tekið undan þrílembum, eða tvílemdum gemsum, til að venja undir einlembu. Einlembingurinn fær þá ekki að ganga með móður sinni. Ef það ber önnur einlemba á svipuðum tíma er hinn einlembingurinn vaninn undir hana,“ segir Guðni. Þeim finnst mikilvægt að bæði lömbin séu jafnstór svo að annað verði ekki undir í baráttunni.

Þegar lömb eru vanin undir á byrja bændurnir á því að baða þau í nokkuð köldu vatni. „Þau fá hálfgert sjokk, greyin, og þá vilja þau fá að drekka,“ segir Guðni. „Við tökum svo blóð og legvatn sem kemur frá einlembunni og nuddum saman við lömbin og stráum oftast salti yfir og stundum broddi. Oftast nær heppnast þetta og við verðum ekki vör við neitt. Ef við sjáum að þær eru tæpar á að vilja lambið getum við þurft að taka lömbin frá kindinni og geyma annars staðar og þá byrjar ærin að vilja þau aftur,“ segir Guðni.

„Með þessu getum við endað með slatta af heimalningum yfir sumarið sem lambafóstra [vél sem skammtar mjólk í spena] sér um,“ segir Arna. „Undanfarin ár höfum við verið með í kringum 40 til 50 heimalninga, en fór eitt ár upp í 80.“ Í lambafóstruna er notuð mjólk frá kúabúinu.

Lambfé fært milli húsa. Tómas Jensson er við stýri dráttarvélarinnar.

Skipta með sér vöktum

Guðni, Arna og Tómas sjá um mest alla vinnuna í sauðburðinum. Tómas á jafnframt kærustu sem tekur að sér vaktir meðfram annarri vinnu, ásamt því sem frændfólk þeirra kemur oft og hjálpar til. Á sauðburði vakir alltaf einn yfir nóttina sem byrjar sína vakt á miðnætti. „Svo kemur næsti maður út rétt um sjö og gefur og sinnir burði. Við erum líka með sextíu mjólkurkýr og eitthvert okkar þarf að fara í morgunfjós,“ segir Arna

„Klukkan tíu erum við yfirleitt búin að gefa og búin í fjósinu,“ heldur Arna áfram. „Fyrir hádegi reynum við að komast yfir að marka og merkja eins eða tveggja daga gömul lömb og undirbúa flutning úr einstaklingsstíunum í fjölbýli sem er í eldri fjárhúsunum. Sá sem var á næturvaktinni fer yfirleitt út á milli eitt og hálf tvö og byrjar á því að kíkja í fjósið og ýta heyi að kúnum. Svo förum við að flytja fé í eldri hús eða setja út til að skapa pláss fyrir nýborið fé, en á meðan þarf alltaf einn að vera á vaktinni. Það er enginn hefðbundinn dagur, en það eru alltaf sömu verkefnin sem við þurfum að komast yfir.“

„Um kaffileytið þarf að fara að undirbúa kvöldið með gjöfum og við skiptum með okkur verkum,“ segir Guðni. „Seinni part dags fer yfirleitt einn í fjósið á meðan hinir eru í gegningum í fjárhúsunum og öðrum verkum. Eftir það reynum við að sjá til þess að hafa lausar einstaklingsstíur fyrir nóttina. Við höfum reynt að skiptast á næturvöktum, en við tökum þrjár í röð áður en við förum aftur á dagvakt.“

Langar að bæta húsakost

„Við erum með féð í þremur húsum og eru tvö af þeim eldri fjárhús,“ segir Guðni. „Við erum búin að flokka féð þannig að það sé bara burður í einu húsi,“ heldur hann áfram. Í aðalrými fjárhúsanna eru sirka 25 burðarstíur sem eru gerðar úr léttum og færanlegum járngrindum. Þær eru nálægt fóðurganginum og því auðvelt að fylgjast með ánum á meðan þær eru að bera.

„Þegar lömbin eru orðin þurr og komin á spena og hildirnar komnar úr kindinni fara þau í einstaklingsstíu. Inni í hlöðu eru 60 einstaklingsstíur og 40 hérna frammi. Manni finnst alltaf vanta pláss, en samt erum við með samtals 125 einstaklingsstíur,“ segir Guðni. Þegar lömbin eru tveggja daga gömul eru þau merkt og mörkuð og ýmist færð í fjölbýli í hinum tveimur fjárhúsunum á bænum eða sett út ef veður leyfir.

„Það er rúmur áratugur síðan við tókum við af foreldrum mínum og byrjuðum með félagsbú með bróður mínum,“ segir Guðni. „Við fórum að stækka búið svo að tvær fjölskyldur gætu reynt að lifa af þessu. Við keyptum Teig 2 sem frændfólk okkar átti og fengum þar gamalt fjós sem hafði staðið autt í meira en tíu ár. Þá keyptum við kvóta og fórum að mjólka kýr og hefur búið verið í stækkunarferli síðan þá.

Núna erum við komin á þann stað að okkur langar til þess að huga að stækkun fjárhúsanna til þess að losna úr elstu fjárhúsunum og koma öllu fé undir sama þakið. Hluti ástæðunnar fyrir því að sauðburðurinn er svona stífur er að við erum ekki með jafnrúman húsakost og sumir hafa,“ segir Guðni. Forsendan fyrir byggingu nýrra húsa er hins vegar að verð fyrir lambakjöt haldist gott. 

8 myndir:

Skylt efni: sauðburður

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt