Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Guðmundur Hallgrímsson kynnti verkefni  sem hann vann á árunum 2006 til 2012 með Búnaðarsamtökum Vesturlands sem kallast Brunavarnarátak í dreifbýli.
Guðmundur Hallgrímsson kynnti verkefni sem hann vann á árunum 2006 til 2012 með Búnaðarsamtökum Vesturlands sem kallast Brunavarnarátak í dreifbýli.
Mynd / smh
Á faglegum nótum 22. maí 2017

Víða pottur brotinn í brunavörnum til sveita

Höfundur: smh
Brunavarnaþing 2017 var haldið á Hótel Natura 28. apríl síðastliðinn. Fjallað var um eldvarnir í landbúnaði frá nokkrum hliðum; til dæmis um eldvarnareftirlit, reynslu bænda, velferð dýra og hönnun bygginga með tilliti til eldvarna. Brunatæknifélag Íslands stóð að þinghaldinu.
 
Sex fyrirlesarar fluttu erindi um mismunandi hliðar á eldvörnum til sveita; Snorri Baldursson, fyrrverandi eldvarnaeftirlitsmaður hjá Brunavörnum Árnessýslu, flutti erindið Eldvarnaeftirlit og ástand til sveita, Norðmaðurinn Jan-Pette Breilid, bygginga- og brunaverkfræðingur hjá slökkviliðinu í Ringsaker í Noregi, ræddi fyrir kaffihlé um reynslu Norðmanna af eldvörnum til sveita. Eftir kaffihlé flutti Atli Rútur Þorsteinsson, verkfræðingur hjá Eflu, erindi undir yfirskriftinni Brunahönnun landbúnaðarbygginga, næst sagði Júlíus Már Baldursson, landnámshænsnabóndi í Þykkvabænum, reynslusögu sína af því þegar bær hans, Tjörn á Vatnsnesi, brann, þá sagði Guðmundur Hallgrímsson, sem starfar meðal annars í slökkviliði Borgarbyggðar, frá brunavarnaverkefnum á Vesturlandi og loks flutti Elísabet Hrönn Fjóludóttir, héraðsdýralæknir á Vesturlandi, erindi um velferð dýra og brunavarnir – í samhengi við gildandi lög og reglur.
 
Árlegt Brunaþing
 
Brunatæknifélag Íslands er vettvangur áhugafólks um brunamál og er auk þess að hluta til Íslandsdeild Institution of Fire Engineers (skammstafað IFE). Íslandsdeildin var stofnuð formlega árið 1991 og hefur starfað samfleytt síðan. 
 
Brunatæknifélagið hefur haldið árlegt Brunavarnaþing frá árinu 1999 og heldur á hverju ári einnig allmarga félagsfundi um ýmis málefni sem snerta brunavarnir. 
 
Víða pottur brotinn
 
Snorri Baldursson, fyrrverandi eldvarnareftirlitsmaður hjá Brunavörnum, tók fyrstur til máls. Hann sýndi myndir og tók nokkur dæmi úr úttektum sínum hjá bændum þar sem brunavarnir voru ekki í lagi af ýmsum ástæðum í fjósum, hesthúsum og fjárhúsum. 
 
Í nokkrum dæmanna var aðgangur að rýmingarleiðum ekki greiður og/eða of fáar rýmingarleiðir og gjarnan voru einangrunarefni brennanleg. Þá skorti brunahönnun í þessum dæmum, jafnvel fyrir stórar og nýlegar byggingar. 
 
Brunaviðvaranir vantaði líka í þessi dæmi frá Snorra.
 
Reynsla Norðmannsins Jan-Pette Breilid
 
Jan-Pette Breilid, slökkviliðsmaður í Ringsaker í Noregi, ræddi um stöðu eldvarna til sveita í Noregi og reynslu sína af eldsvoðum á bæjum, einkum stórbrunanum sem varð á bænum Stein gård í Ringsaker í október í fyrra. Um 250 nautgripir voru í fjósinu þegar eldur kom upp og tókst að bjarga stórum hluta þeirra. Hann sagði að eitt mikilvægasta heilræðið sem hann gæti gefið starfssystkinum sínum á Íslandi við slíkar aðstæður, væri að halda ró sinni. Ef það takist séu líkur á því að rýmingin takist eins vel og mögulegt sé. Ekki megi opna of mörg hólf í einu og alls ekki hleypa nautum og kúm út samtímis. Það sé jafnvel enn brýnna að halda ró sinni þegar svín eigi í hlut. Beita þurfi lagni til að ná grísum út. Fyrst skuli ná gyltunni út úr hólfinu og síðan grísunum einum í einu. Ef grís streitist á móti, eigi að láta hann í friði og taka þann næsta. Þegar sauðfé eigi í hlut skal opna öll hólf strax og gott sé að setja eitthvað góðgæti í fötu til að tæla það út. Byrja eigi að opna fremstu hólfin, næst rýmingarleiðinni, og fikra sig síðan aftur.
 
Í sumum tilvikum ekki hægt að bjarga dýrunum
 
Jan-Pette lagði áherslu á að í einhverjum tilvikum, þegar ljóst er að dýrunum verði ekki bjargað, sé best að skilja þau eftir inni og leyfa hitanum að hækka svo dauðastríðið dragist ekki á langinn.
 
Atli Rútur Þorsteinsson, verkfræðingur hjá Eflu, fjallaði um brunahönnun landbúnaðarbygginga í erindi sínu.
 
Brunahönnun landbúnaðarbygginga
 
Atli Rútur Þorsteinsson, verkfræðingur hjá Eflu, fjallaði um brunahönnun landbúnaðarbygginga í erindi sínu. Þar kom fram að markmið og meginreglur byggingareglugerðar númer 112 frá 2012 taki tillit til öryggis dýra. Nokkrar sérreglur, eða viðmiðunarreglur, gildi sérstaklega fyrir landbúnaðarbyggingar. Við brunahönnun sé einnig hægt að taka mið af leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar og ýmsum erlendum leiðbeiningum.
 
Uppfylla markmið og meginreglur byggingareglugerðarinnar
 
Atli sagði að markmið brunahönnunarinnar væri að uppfylla markmið og meginreglur byggingareglugerðarinnar, sem ýmist væri hægt að gera með því að fylgja viðmiðunarreglum eða hanna lausn með frávikum frá þeim – sem oftast væri raunin. Í þeim tilfellum þarf að sýna fram á og rökstyðja að öryggi sé sambærilegt hönnun sem uppfyllir viðmiðunarreglur. Markmiðið með brunahönnuninni er að sögn Atla að tryggja öryggi fólks, dýra, viðbragðsaðila og eignavernd. 
 
Fram kom að brunahönnun kæmi oftast til þegar um stærri landbúnaðarbyggingar væri að ræða. Almennt væru það byggingar sem hefðu burðarvirki úr stálvirki eða límtré. Veggir og þök væru oft klædd með stálklæddum samlokueiningum, eða með steinsteypta veggi og timbur eða stál í þaki. Timburbyggingar væru orðnar algengari á Norðurlöndunum en áður, sem væri krefjandi með tilliti til brunahönnunar. Atli tók einfölduð dæmi um brunamótstöðu burðarbita, sem allir eru hannaðir fyrir sama álag. Óvarinn stálbiti hefði þannig brunamótstöðu í um 22 mínútur, límtrésbiti í um 63 mínútur og steinsteyptur biti í um 90 mínútur. Því væri mikilvægt að brunavarnir taki mið af burðarvirkjum, hægt er að tryggja brunamótstöðu stálvirkja til dæmis með reyklosun.
 
Varðandi klæðningar og einangrun sagði Atli að gerðar væru kröfur í brunahönnun um að klæðningar innanhúss væru óbrennanlegar – væru byggingarnar stærri en 200 fermetrar, að einangrun væri óbrennanleg – eða á steyptu yfirborði og klædd af án holrúma að einangruninni. Stálklæddar samlokueiningar með plasteinangrun væri leyfileg með takmörkunum. Í brunahönnun þarf að sýna fram á að slík einangrun sé áhættulítil. 
 
Fullgilt viðvörunarkerfi skylda í stærri byggingum
 
Atli sagði að reglugerðin gerði kröfu um fullgilt brunaviðvörunarkerfi í byggingum sem væru stærri en 1.000 fermetrar. Í leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar kæmi auk þess fram að alltaf þyrfti að setja upp  brunaviðvörunarkerfi ef tæknibúnaður eins og mjaltaþjónar væru í sama rými og gripirnir. Hægt væri að setja upp einföld kerfi ef ekki væru gerðar kröfur um fullgilt kerfi, en almennt væru reyksogskerfi hentugust. Þau taka loftsýni stöðugt og greina, auk þess að vera mjög næm þó án þess að auka líkur á falsboðum. Það sé sérstaklega mikilvægt að tryggja að eldur uppgötvist fljótt í landbúnaðarbyggingum, þar sem viðbragðstími slökkviliðs getur verið langur og slökkvistörf eru almennt mjög krefjandi í dreifbýli. Mikilvægt sé að aðilar kunnugir staðháttum leiðbeini slökkviliði við slökkvistörf og öflun slökkvivatns. Við brunahönnun þarf að gera grein fyrir viðbrögðum slökkviliðs og slökkvivatnsöflun. Þannig verður að auka brunavarnir ef viðbragðstími er yfir 15 mínútur eða ef slökkvilið er vanbúið. 
 
Að ýmsu að hyggja varðandi rýmingu
 
Varðandi rýmingu sagði Atli að þar þyrfti að hyggja að ýmsu, enda væru aðstæður mjög mismunandi. Minnst tvennar dyr skulu vera á hverju húsi, flóttaleiðir greiðfærar, og einfaldar og breidd dyra fyrir dýr skal vera að lágmarki 0,87 metrar en fyrir stórgripi 1,2 metrar. Huga þurfi sérstaklega að staðsetningu dyra með tilliti til brunahættu innanhúss, auk þess sem að mögulega þarf sérstakar ráðstafanir utanhúss séu aðstæður erfiðar eða ókunnar skepnunum, svo sem að vetri til. Æskilegt sé að rýming taki innan við klukkustund, svo langan rýmingartíma þarf þó að tryggja sérstaklega með öflugum brunavörnum eins og reyklosun. Í minni byggingum ætti að vera um að ræða mun styttri rýmingartíma. 
 
Úr þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar á rýmingartíma fyrir mismunandi dýr kemur í ljós að það tekur tvo menn klukkustund að rýma 500 sláturgripi úr stíum á svínabúi, sama tíma tekur að rýma 550 kúa fjós fyrir tvo menn og á sama tíma geti tveir menn rýmt 30 hesta hesthús. Varðandi fuglabú megi reikna með að það taki tíu manns um klukkutíma að rýma 5.000 hænur. Það sé í raun ekki raunhæf björgun. Viðbótar brunahólfun eða eitthvað slíkt þyrfti hugsanlega að koma til, til að auka öryggi og takmarka tjón. 
 
Til að hefta útbreiðslu elds og reyks eru gerðar kröfur um brunahólfun. Rými fyrir dýr skulu þannig vera sérstakt brunahólf auk þess sem rými fyrir raf- og vélbúnað skulu vera brunahólfuð. Hlöður, vélageymslur og verkstæði skulu vera aðskilin frá rýmum fyrir dýr. Gera þarf ráðstafanir vegna brunavarna á svæðum þar sem mjalta- og tæknibúnaður er í sama rými og dýr – og á fóðursvæðum. Algengasta útfærsla á ráðstöfun vegna slíkra rýma er reyklosun. Slík útfærsla takmarkar hita og útbreiðslu elds og reyks, eykur öryggi við rýmingu og eykur brunamótstöðu burðarvirkja. Hægt er að nýta náttúrulega loftræstingu til reyklosunar.
 
Áhrifamikil reynslusaga
 
Júlíus Már Baldursson hefur ræktað íslensku landnámshænuna í 39 ár. Hann sagði reynslusögu sína af því þegar bærinn hans, Tjörn á Vatnsnesi, brann í mars árið 2010, en það varð til þess að hann flutti fáeinum árum síðar í Þykkvabæinn og hélt búskap sínum áfram þar.
 
Hann hafði vaknað við einhverja dynki eða högg og haldið að einhver væri uppi á þaki, en þar sem það gat ekki verið fór hann að grennslast fyrir um það. Þá kom í ljós að eldur logaði í þakskeggi, út um alla glugga og dyr á húsinu þar sem hænurnar hans voru geymdar. Hann hringdi þá strax á Neyðarlínuna og bað um aðstoð, en Tjörn er tæpa 33 kílómetra frá Hvammstanga, þar sem næsta slökkvilið er, og tæpa 100 kílómetra frá Blönduósi – en það komu bílar frá báðum þessum bæjum. Það tók slökkviliðið 55 mínútur að koma að Tjörn. Júlíus sagði að það væri talað um að Tjörn væri á svokölluðu jaðarsvæði, auk þess sem ljóst var að slökkviliðið á Hvammstanga var fremur vanbúið, með gamla dælubíla sem tæmdust fljótt. Þá þurfti að sækja vatn í Tjarnará, en engar þrær eða laugar voru til staðar sem annar bíllinn hefði þá getað fyllt með vatni úr ánni, á meðan hinn dældi á eldinn. 
 
Júlíus sagði að það hefði í raun verið mjög skrýtin tilfinning sem sat eftir þegar slökkvistarfi var lokið. Hann var einn í rafmagnslausu og skemmdu íbúðarhúsi – og lífsstarfið að stærstum hluta farið með fuglahúsinu sem hrundi í brunanum. Enga hjálp var svo að fá. Síðan tóku við átök við tryggingafélagið sem stóðu í 13 mánuði. Tjónið var metið á 67 milljónir. Júlíus hafði talið sig mjög vel tryggðan, en hann þurfti samt á þremur lögmönnum að halda og einum tryggingaráðgjafa – sem þáðu samtals þrjár milljónir fyrir aðstoðina – til að sækja 28 milljónir fyrir hann sjálfan.
 
Eldsupptök voru rakin til bilunar í tvöföldum tengli í bílskúr. Honum var sagt eftir á að brunavarnirnar áttu að hafa verið góðar á Tjörn, en við þessar aðstæður virkuðu þær bara ekki. Það var brunaslanga bæði í íbúðarhúsinu og útihúsinu, sex slökkvitæki, eldvarnarteppi og 25 reykskynjarar. Eins og áður segir vaknaði Júlíus þó ekki við reykskynjara, en hann segir ástæðuna vera þá að brunanóttina hafi verið strekkingsvindur úr vestri og því hafi enginn reykur borist inn í íbúðarhúsið til að byrja með. Það var ekki fyrr en eldur var kominn í þak tengibyggingarinnar – og slökkviliðið komið á staðinn – sem reykskynjari fór af stað í húsinu. Reykskynjararnir í útihúsunum voru samtengdir skynjurum í tengibyggingunni, en Júlíus heyrði aldrei í þeim. 
 
Hann dregur þann lærdóm af reynslu sinni að það þurfi að halda ráðstefnu þar sem meðal annars tryggingafélögin, slökkvilið, lögregla og jafnvel björgunarsveitir ættu aðkomu. Þar þyrfti að ræða hvernig bregðast skuli við aðstæðum sem geta komið upp eins og í dæmi Júlíusar – þar sem fólk stendur eitt eftir í sárri þörf eftir aðstoð. 
 
Brunavarnarátak í dreifbýli
 
Guðmundur Hallgrímsson, sem starfar meðal annars í Slökkviliði Borgarbyggðar, vann verkefni á árunum 2006 til 2012 með Búnaðarsamtökum Vesturlands sem kallast Brunavarnarátak í dreifbýli. Hann gerði grein fyrir því verkefni auk þess að segja frá nokkrum stórum verkefnum sem Slökkvilið Borgarbyggðar hefur þurft að ráðast í vegna gróðurelda. Hann ræddi líka um varnir gegn gróðureldum.
 
Guðmundur sagði að aðdragandinn að verkefninu hefði verið sá að nokkrir stórbrunar höfðu orðið á undanförnum árum og mikilvægt hefði verið að skoða brunavarnir til sveita og taka saman á skipulagðan hátt upplýsingar sem kæmu að gagni ef það kæmi upp eldur. Sveitarfélög eigi að sjá um brunavarnir til sveita, en það sé víða ábótavant. Því hafi Búnaðarsamtök Vesturlands farið af stað með verkefnið þar sem um mikið hagsmunamál væri að ræða fyrir bændur og gert samkomulag við þau sveitarfélög sem vildu taka þátt í verkefninu. Sveitarfélögin greiddu þá fasta upphæð fyrir hvert lögbýli í sveitarfélaginu, akstur og einnig vinnu við frágang á upplýsingamöppu. 
 
Verkefnið gekk í reynd út á að heimsækja bændur, skrá niður allar nauðsynlegar upplýsingar; eins og hvaða byggingarefni væri í húsunum, aðkomu að bænum, hvar væri hægt að komast í vatn til dælingar, vegalengdir og hæðarmunur. Ef ekki væri vatn fyrir hendi, hvert væri styst að sækja vatn með tankbíl eða haugsugu.
 
Farið var yfir flóttaleiðir, bæði í íbúðarhúsum og gripahúsum. Einnig hvað fólkið á bænum gæti gert á meðan beðið væri eftir slökkviliðinu. 
 
Upplýsingamöppur í slökkviliðsbílana
 
Útbúin var mappa með öllum þessum nauðsynlegu upplýsingum, en þar var einnig loftmynd af bænum, öll hús merkt og skráðar allar upplýsingar um hvert fyrir sig og hvað bæri að varast fyrir slökkviliðsmenn, en möppurnar fóru svo í slökkviliðsbílana á svæðunum. Þau slökkvilið sem eru með tölvu í bílunum fengu upplýsingarnar á disk og geta menn skoðað aðstæður á leiðinni á brunastað.
 
Guðmundur sagði að í þessum heimsóknum hafi norskt brunaviðvörunarkerfi fyrir útihús verið haft meðferðis til skoðunar fyrir bændur. Um reyksogskerfi er að ræða og sagði Guðmundur að slík kerfi væru einu viðvörunarkerfin sem væru samþykkt í Noregi, vegna þess að það væru einu kerfin sem virkuðu almennilega. Mikið öryggi sé í því að hafa viðvörunarkerfi vegna þess að það er frumskilyrði að komast að því sem allra fyrst ef eldur er laus.
 
Að sögn Guðmundar voru 500 lögbýli heimsótt á Vesturlandi og tóku sex sveitarfélög þátt í verkefninu. 
 
Dýravelferð og brunavarnir
 
Síðust á mælendaskrá var Elísabet Hrönn Fjóludóttir, héraðsdýralæknir í Vesturumdæmi Matvælastofnunar, en hún fjallaði um brunavarnir í landbúnaði og velferð dýra.
 
Hún byrjaði á því að fara yfir helstu eldsvoðana í gripahúsum frá árinu 2004 til að sýna að brýn nauðsyn væri að fara gera eitthvað róttækt í brunavörnum til sveita. Í yfirliti Elísabetar kom fram að árið 2004 drápust 600 fjár, árið 2005 drápust 3.600 hænur, árið 2006 brunnu 40 nautgripir inni, árið 2008 urðu þrír stórir eldsvoðar þar sem 420 nautgripir drápust og 4.000 hænur, árið 2015 drápust dúfur í bruna í Hafnarfirði og svo á síðasta ári bruninn á Austurlandi þar sem ellefu nautgripir drápust.
 
Hún sagði að af 98 fjósum í Vesturumdæmi séu einungis 3–4 fjós með viðurkennd brunaeftirlitskerfi í formi reyksogskerfis. Víða í gripahúsum sé frauðplast notað til að einangra þök og víða sést í bert frauðplastið. Þetta sé mjög slæmt því þegar frauðplastið brennur geti það lekið fljótandi niður á hold gripanna og brennt þá lifandi. Áleinangrun hafi þó aðeins verið að aukast sem innri klæðning í stað frauðplastsins. 
 
Þá ræddi hún um lagaumhverfið í tilliti dýravelferðar. Lög um velferð dýra segðu skýrt til um það í 29. grein um aðbúnað dýra, að umráðamaður dýra skuli tryggja að dýr séu haldin í umhverfi sem samræmist sjónarmiðum um velferð dýra, meðal annars hvað varðar öryggi þeirra. Í 30. grein um byggingar og búnað segði að húsnæði, innréttingar, girðingar og annar búnaður sem ætlaður sé dýrum skuli þannig úr garði gerður að tekið sé tillit til þarfa og öryggis dýranna hvað varðar fóðrun, atferli, hreyfingu, rýmisþörf, hvíld og annan aðbúnað, svo sem loftgæði, lýsingu, hljóðvist og efnisnotkun. Einnig skal þess gætt að dýrum stafi engin slysahætta af aðstæðum sem þeim eru búnar eða hætta skapist á því að dýrin geti orðið innikróuð eða bjargarlaus í neyð. 
 
Þetta séu lög sem byrjað var almennilega að vinna eftir á árinu 2015. Í reglugerðum um velferð dýra er mjög mismunandi tekið á brunavörnum, eftir því hvaða dýrategund á í hlut. Þannig er einungis í reglugerð um velferð gæludýra ákvæði um viðvörunarbúnað. Reglugerð um velferð hrossa og nautgripa kveða einungis á um að auðvelt skuli vera að rýma hús. Reglugerðir um velferð sauðfjár og geita, svína og alifugla minnast ekki að neinu leyti á brunavarnir. Skýringin á því segir Elísabet vera sú að talið var að almennar byggingarreglugerðir taki til brunavarna fyrir dýrahús. Sú sé ekki raunin.
 
Brunavarnir í útihúsum utan regluverks eftirlitsins 
 
Elísabet sagði að lokum til umhugsunar að greinilegt væri að regluverkið næði ekki almennilega utan um brunavarnir í gripahúsum. Reglulegt eftirlit með brunavarnarmálum vanti þar. Hún spyr hver eigi að sjá um það, því Matvælastofnun sé einungis ætlað að sjá um eftirlit með dýrunum og reyndar er þá farið yfir neyðarrýmingu í gripahúsunum.
 
Hún sagði að slökkvilið þyrftu að æfa björgun á stórgripum og fjarlægja þurfi frauðplast úr öllum gripahúsum. Hjálpa þurfi bændum að breyta og bæta brunavarnir. Í reglugerðum þyrftu að vera kröfur um að viðvörunarkerfi skuli vera til staðar í nýjum gripahúsum – sem yfirleitt séu annars vel tölvuvædd. 
 

 

Nýir liðsmenn Bændablaðsins
Fréttir 21. júní 2024

Nýir liðsmenn Bændablaðsins

Lesendur hafa kannski tekið eftir nýjum efnisþáttum í blaðinu í vor. Hugarleikfi...

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun
Fréttir 21. júní 2024

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun

Lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi fá aðgengi að 3,2 milljarða króna fjármög...

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...