Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Verslunin hefur ekki skilað ávinningi af lægra innkaupsverði til neytenda
Fréttir 12. mars 2015

Verslunin hefur ekki skilað ávinningi af lægra innkaupsverði til neytenda

Höfundur: Vilmundur Hansen

Samkeppniseftirlitið birti í vikunni skýrslu sem kallast Leiðbeining um samkeppni á dagvörumarkaði – Staða samkeppninnar 2015. Í inngangi skýrslunnar segir að með henni dragi Samkeppniseftirlitið saman þá leiðbeiningu sem samkeppnisyfirvöld hafa beint til fyrirtækja, samtaka þeirra og stjórnvalda á liðnum árum og misserum.

„Með því er leitast við að rifja upp fyrri leiðbeiningar og auðvelda fyrirtækjum, stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum að fara að markmiðum samkeppnislaga og taka þátt í eflingu samkeppni á dagvörumarkaði.“

Verðhækkanir verða ekki eingöngu raktar til ytri aðstæðna

Í kafla 4 í skýrslunni segir að miklar verðhækkanir á dagvöru skýrist ekki lengur af ytri aðstæðum og að þær eigi ekki við með sama hætti í dag og fyrir nokkrum árum. Verð á innfluttum vörum hefur ekki lækkað í takt við styrkingu gengis íslensku krónunnar, þegar horft er til síðustu ára, og að fyrirliggjandi opinberar upplýsingar gefi ekki til kynna mikla hækkun frá erlendum birgjum.

Afkoma helstu verslana­samstæðna er almennt góð og efla þarf samkeppni þeirra á milli, sem skili sér í lægra dagvöruverði. Skýringa á verðhækkunum kann að vera að leita í „aukinni álagningu birgja og/eða verslana, en þó ekki síður í viðskiptasamningum þessara aðila.“
Þar segir einnig að mikilvægt sé að neytendur njóti styrkingar á gengi og bættrar afkomu smásala í gegnum lægra vöruverð. Birgjar og dagvöruverslunin verða að endurskoða viðskiptasamninga sína með samkeppni í huga og að mikilvægt sé að neytendur og samtök sem bera hag þeirra fyrir brjósti sýni fyrirtækjum á dagvörumarkaði aðhald með öllum tiltækum ráðum.

Aðhald neytenda getur haft mikla þýðingu til þess að tryggja að bættar ytri aðstæður skili sér í lægra verði og að nýlegar breytingar á opinberum gjöldum leiði ekki til hærra vöruverðs en óhjákvæmilegt er. Stjórnvöld verða að beita sér fyrir aukinni samkeppni, m.a. með opnun markaða og endurskoðun á samkeppnishindrandi ákvæðum búvöru- og tollalaga.

Gengið styrkst en verð á innfluttum vörum ekki lækkað

Gengi íslensku krónunnar hefur styrkst frá árinu 2010 en ekki er hægt að segja að verð á innfluttum vörum hafi fylgt þeirri þróun. Verð á innfluttum mat- og drykkjarvörum hefur ekki fylgt gengisþróun, sérstaklega undangengin tvö ár.

Sem rök fyrir verðhækkun væri unnt að álykta sem svo að verð á innfluttum vörum hafi ekki hækkað jafn mikið rétt eftir hrun og gengisþróun gaf tilefni til og að verð hafi því í raun ekki hækkað jafn mikið og sem nemur verðlækkun krónunnar á öllu tímabilinu, þ.e. allt frá árinu 2006. Hafa ber þó í huga að flest af stærri innflutningsfyrirtækjum landsins auk fyrirtækja á smásölumarkaði hafa á síðustu árum gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og miklar skuldir verið afskrifaðar.

Verð á innlendum vörum í takt við vísitölu framleiðsluverðs

Samkvæmt því sem segir í skýrslunni nema innlendar mat- og drykkjarvörur um tveimur þriðju hlutum af heildarneyslu dagvara á Íslandi. Hvað innlenda framleiðslu varðar þá hefur Hagstofa Íslands frá árinu 2003 reiknað og birt framleiðsluverðsvísitölu fyrir vörur í ýmsum framleiðslugreinum, þ. á m. mat- og drykkjarvörur. Er vísitölunni ætlað að mæla þróun verðs frá framleiðendum til m.a. matvöruverslana. Veitir þessi vísitala því nokkra vísbendingu um þróun á innkaupsverði smásala á mat- og drykkjarvörum. Vísitalan mælir þó ekki breytingar á verði frá bændum til afurðastöðva.

Allstór hluti innlendrar framleiðslu eru erlend aðföng. Ekki verður séð að styrking gengis og hagstæð verðbólguþróun í helstu viðskiptalöndum undanfarin misseri hafi skilað sér í lækkuðu verði á innlendri framleiðslu.

Ljóst er þó að mun fleiri þættir hafa áhrif á vöruverð innlendra vara. Sérstaklega á það við um landbúnaðarvörur eins og mjólkurvörur, kjöt og grænmeti, en verðþróun á þessum vörum er ekki eins háð gengissveiflum og önnur innlend matvælaframleiðsla.

Þrátt fyrir það sem fram kemur hér á undan telur Samkeppniseftirlitið það mikilvægt að stjórnvöld dragi úr markaðstruflandi aðgangshindrunum á smásölustigi, s.s. tollum, framleiðslu- og innflutningskvótum. Slíkar aðgerðir séu til þess fallnar að búa til rétta hvata fyrir bæði innflytjendur og framleiðendur, sem leiða myndu til hagkvæmari framleiðsluhátta og lægra verðs á landbúnaðarafurðum, neytendum, framleiðendum og þjóðfélaginu öllu til hagsbóta. 

Skylt efni: verslun | vöruverð | gengisþróun

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...