Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Framtíðarstaða garðyrkjunáms á Reykjum er enn óljós og yfirfærslu námsins frá Landbúnaðarháskóla Íslands til Fjölbrautaskóla Suðurlands miðar hægt.
Framtíðarstaða garðyrkjunáms á Reykjum er enn óljós og yfirfærslu námsins frá Landbúnaðarháskóla Íslands til Fjölbrautaskóla Suðurlands miðar hægt.
Fréttir 14. janúar 2022

Verkmenntun í garðyrkju á tímamótum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Framtíðarstaða garðyrkjunáms á Reykjum er enn óljós og hægt gengur með yfirfærslu námsins frá Landbúnaðarháskóla Íslands til Fjölbrautaskóla Suðurlands. Um 11 milljónir fengust til FSu í fjárveitingu til yfirfærslunnar og óvissa ríkir um stöðu núverandi starfsmanna Garðyrkjuskólans.

Fyrir rúmu ári ákvað þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, að starfs­menntanám í garðyrkju skyldi flutt frá Landbúnaðarháskóla Íslands yfir til Fjölbrautaskóla Suðurlands en miklar deilur höfðu staðið milli atvinnulífs garðyrkjunnar og yfirstjórnar LbhÍ um stöðu og um­gjörð námsins við Landbúnaðar­háskólann.

Húsnæði skólans á Reykjum.

Stuttu fyrir áramót fékkst staðfest af nýjum menntamálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, að ákvörðun fyrri ráðherra stæði og að starfsmenntanámið ætti að flytjast yfir til Fjölbrautaskóla Suðurlands. Til yfirfærsluverkefnisins eru ætlaðar 11 milljónir króna á þessu ári en önnur fjármögnun virðist ekki í höfn.

Námið er enn á ábyrgð LbhÍ en gert er ráð fyrir að það flytjist til FSu þann 1. ágúst næstkomandi eða við upphaf skólaársins 2022-23.

Flókin yfirfærsla

Eins og gefur að skilja er yfirfærsla námsins flókið ferli og meðal þess sem þarf að gera er að fella námið að starfinu í FSu. Námskrár allra sex brauta garðyrkjunámsins, sem menntamálaráðuneytið samþykkti sumarið 2018 og eru inni í námskrárgrunni Menntamála­stofnunar, voru unnar í nánu samstarfi milli atvinnulífs garðyrkjunnar og starfsmanna Garðyrkjuskóla LbhÍ.

FSu hefur nú verið falið af menntamálaráðuneytinu að semja enn á ný námskrá fyrir garðyrkjubrautir, fella námið að framhaldsskólalögum og koma því inn í námskrárgrunn Menntamála­stofnunar. Það sætir furðu að upplýsingaflæði innan ráðuneytisins sé ekki markvissara en raun ber vitni, hér virðist eiga að vinna sömu vinnuna aftur en nú án formlegrar aðkomu hagsmunaaðila.

Fjölbrautaskóli Suðurlands.

Samkvæmt upplýsingum Bændablaðsins hefur Arna Garðars­dóttir, fyrrverandi starfsmannastjóri LbhÍ og systir Olgu Lísu Garðars­dóttur, skólameistara FSu, verið ráðin til að leiða yfirfærsluna eða hluta hennar.

Óvissa um húsnæði og aðra aðstöðu

Á sama tíma og yfirfærsla námsins á sér stað ríkir enn óvissa um framtíðarhúsnæði og aðstöðu Garðyrkjuskólans. Í dag telst húsnæði og lendur sem eign LbhÍ, enda fylgdi það með þegar Garðyrkjuskólinn rann inn í LbhÍ árið 2004. Ekki er búið að ganga frá því hver fer með forræði á Reykjum eftir að garðyrkjunámið fer út úr LbhÍ. Á Reykjum hefur á síðustu 80 árum þróast og byggst upp mjög sérhæfð aðstaða til bóklegrar og verklegrar kennslu á öllum brautum garðyrkjunáms sem þarf að tryggja til framtíðar. Aðstaðan er einstök og verður ekki byggð upp í einu vetfangi annars staðar og kostar stórfé og tíma.

Olga Lísa Garðarsdóttir, skóla­meist­ari Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Fjárveitingar frá LbhÍ til verkefna og viðhalds húsnæðis Garðyrkjuskólans eru í lágmarki vegna núverandi stöðu og að sögn starfsmanna hefur starfsemin á Reykjum í raun verið í fjársvelti frá því ákvörðun var tekin um að flytja námið annað. Þrátt fyrir það er garðyrkjunámið enn í verkahring LbhÍ og væntanlega hefur skólinn fengið fjármagn frá ríkinu til að sinna því með eðlilegum hætti.

Viðræður enn í gangi

Sigursveinn Már Sigurðsson, aðstoðar­skólameistari FSu, segir að viðræður um flutning garð­yrkju­námsins séu enn í gangi og meðal annars hafi verið rætt við kennara skólans um stöðu þeirra eftir yfirfærsluna. „Við eigum einnig í viðræðum við Landbúnaðarháskólann í tengslum við húsnæði á Reykjum til kennslu.“

Að sögn Sigursveins miðast undirbúningur FSU við að geta innritað nemendur í námið næsta haust.

Olga Lísa, skólameistari FSu, sagði í Bændablaðinu á síðasta ári að FSu hafi sett það sem skilyrði vegna yfirtökunnar að Ríkiseignir ábyrgist húsnæði sem verður notað í tengslum við námið.

Sigursveinn Sigurðsson, aðstoðar­skóla­meistari FSu.

„Við höfum líka sagt skýrt að við viljum ekki taka ábyrgð á lélegu eða ónýtu húsnæði á Reykjum. Garðyrkjunámið kemur til með að vera áfram að Reykjum en hins vegar er vel hugsanlegt að einhverjir áfangar í bóknámi verði samkeyrðir með öðrum brautum við FSu.“

Sigursveinn segir að þessi afstaða Olgu sé enn í gildi

Að sögn Sigursveins er rekstur Garðyrkjuskólans þungur og skortur er á fé til verklegu kennslunnar.

„Næstu skref eru að fá meiri upplýsingar á raunkostnaði starfsnámsins í garðyrkju en það er ótvírætt okkar vilji að ljúka yfirfærslunni á sem farsælastan hátt fyrir alla aðila og garðyrkjunáminu til heilla í framtíðinni.“

LbhÍ stundar áfram rannsóknir að Reykjum

Í svari Ragnheiðar Þórarinsdóttur, rektors Landbúnaðarháskóla Íslands, vegna yfirfærslunnar segir að FSu sé að undirbúa yfirfærsluna á náminu til sín og að LbhÍ vinni áfram að sínum rannsóknum á sviði garðyrkju og umhverfisvísinda á svæðinu.

Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.

Ekkert samráð við fagfélög og starfsmenn

Samkvæmt heimildum Bænda­blaðs­ins hefur lítið verið leitað til starfsfólks og kennara við Garðyrkjuskólann vegna yfirfærsl­unnar. Auk þess sem ekkert samráð hefur verið haft við fagfélög garðyrkjunnar vegna þessara breytinga á högum garð­yrkju­­námsins. Starfs­menntanám í garðyrkju hefur verið í góðum tengslum við greinina og atvinnu­lífið og því er það nýlunda að þessir aðilar séu ekki fengnir formlega að borðinu.

Samkvæmt einum viðmælanda er eins og menntamálaráðuneytið haldi hagsmunaaðilum sem tengjast náminu markvisst frá viðræðum um framtíð þess og telji að þeir hafi ekkert með það að gera. Það er þeim mun undarlegra þegar það var samstillt átak atvinnulífs garðyrkjunnar að bjarga náminu undan LbhÍ að menn séu ekki hafðir með í ráðum um framtíðarfyrirkomulag námsins. Þetta myndi ekki gerast í neinum öðrum iðngreinum.

Flest óljóst

Guðríður Helgadóttir, starfsmaður á Reykjum, segir að enn sé flest óljóst um framtíð starfsmenntanámsins og kennarar og aðrir starfsmenn óvissir um framtíð sína við skólann.

„Einn sérfræðingur hefur nú þegar hætt störfum og aðrir íhuga sína stöðu. Ekki hefur verið ráðið í stöður sem hafa losnað sem eykur vinnuálag á þá sem eftir eru og var það nóg fyrir. Auk þess sem þessi óvissa komi niður á nemendum skólans, hvort sem þeir eru í staðar- eða fjarnámi.

Guðríður Helgadóttir, starfsmaður á Reykjum.

Lilja Alfreðsdóttir fundaði með starfsfólki hér á Reykjum í fyrra og fullvissaði starfsfólkið um að staða þess myndi ekki breytast vegna yfirfærslunnar en í dag virðist allt óljóst með það. Kennarar við skólann eru allir reynslumiklir og hæfir fagmenn á sínu sviði og hafa haldið utan um þetta nám um árabil. Enginn þeirra er þó með löggild kennsluréttindi fyrir framhaldsskóla í dag, enda voru þeir ráðnir til kennslu á sínum tíma samkvæmt búnaðarfræðslulögum. Í þeim lögum var ekki krafa um kennsluréttindi heldur var skólunum heimilt að ráða sérfræðinga á sviði garðyrkju til kennslustarfa, hvort sem var í starfsmenntanámi eða háskólanámi.

Sá vandi blasir við að við yfir­færslu námsins er kennurum skólans gert að flytja sig milli stofnana á sama tíma sem FSu er samkvæmt lögum skylt að ráða til sín kennara með gild kennsluréttindi fyrir framhaldsskóla. Allir þeir sem sinna kennslu í garðyrkjunáminu eru sérfræðingar á sínu sviði en þetta er ekki stór hópur fólks. Það er ekki eins og hægt sé að grípa næsta mann og fá hann til að kenna sérhæfð garðyrkjufræði, frekar en í öðrum atvinnugreinum. Þar fyrir utan koma allir starfsmenn á Reykjum að kennslunni með einum eða öðrum hætti þannig að það þarf liðsheild til að sinna því verkefni sem garðyrkjukennslan er. Hér eru allir ómissandi.“

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...

Ullarvika á Suðurlandi
Fréttir 10. júlí 2024

Ullarvika á Suðurlandi

Ullarvika á Suðurlandi verður haldin í þriðja sinn dagana 29. september til 5. o...

Mesta hamingjan í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði
Fréttir 10. júlí 2024

Mesta hamingjan í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði

Hamingja íbúa í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði mælist mest á landinu í n...