Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Þór Þorfinnsson, skógarvörður Skógræktar ríkisins á Hallormsstað, við vænan stafla af grisjunarvið.
Þór Þorfinnsson, skógarvörður Skógræktar ríkisins á Hallormsstað, við vænan stafla af grisjunarvið.
Mynd / MÞÞ
Viðtal 18. mars 2015

Verkefni í skógrækt hafa skapað atvinnu og verið lyftistöng á Héraði

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Yfir vetrartímann fer mesta púðrið í störf sem tengjast grisjun og viðarvinnslu, við framleiðum bæði borðvið og eldivið en einnig ýmiss konar afurðir aðrar úr þeim við sem til fellur hjá okkur,“ segir Þór Þorfinnsson, skógarvörður Skógræktar ríkisins í Hallormsstaðaskógi. 
 
Alls eru 9 fastir starfsmenn að störfum í skóginum um þessar mundir, en þeim fjölgar þegar líður á vorið og sumarið. Töluverður fjöldi skólafólks starfar jafnan á þeim árstíma í Hallormsstaðaskógi við ýmis verkefni. Að sumarlagi eru helstu verkefnin rekstur tveggja tjaldsvæða í skóginum, umhirða ungskóga, uppbygging og viðhald gönguleiða og Trjásafnsins fyrir gesti skógarins auk annarra hefðbundinna starfa sem tengjast rekstri skógarins á Hallormsstað.
 
Mikil eftirspurn eftir afþreyingu
 
Mikill fjöldi ferðamanna sækir Hallormsstaðaskóg heim á hverju sumri, í skóginum sjálfum eru eins og áður sagði tvö tjaldsvæði en einnig er rekið í einkaeign eitt stærsta og myndarlegasta hótel fjórðungsins. „Tilvera hótelsins í skóginum gerir að verkum að hér er jafnan mikill fjöldi gesta, einhvers staðar á bilinu 40–50 þúsund manns, og eftirspurn eftir afþreyingu er mikil. Trjásafnið okkar laðar marga að, en í því er að finna yfir 75 trjátegundir víða að úr heiminum. 
 
Merktar gönguleiðir um skóginn eru fjölmargar og mislangar þannig að allir ættu að finna sér gönguferð við hæfi. Við höfum reynt eftir megni að styðja við bakið á þeim ferðaþjónustuaðilum sem vilja bjóða upp á afþreyingu fyrir gesti, en í því sambandi má nefna hestaleigu, fjórhjólaferðir og bátaleigu. Það er því ótal margt sem gestir geta valið um að gera á meðan þeir staldra við í skóginum,“ segir Þór.
Kurlkyndistöð skapar atvinnu
 
Kurlkyndistöð var sett upp á Hallormsstað haustið 2009 og hefur hún að sögn Þórs gengið stóráfallalaust síðan. Kyndistöðin er hlutafélag í eigu nokkurra aðila, en stærstan hlut á Hitaveita Egilsstaða og Fella. Kyndistöðin notar um 550 fm³ af bolviði sem er um 1300 lm³ af kurli og kyndir nálægar byggingar, m.a. Hótel Hallormsstað og skólann í skóginum. „Með tilkomu kyndistöðvarinnar varð í fyrsta skipti til fastur kaupandi að hráefni skógarins,“ segir Þór og bætir við að margt jákvætt hafi gerst í kjölfar þessa verkefnis. „Verktakar hafa séð um grisjun, kurlun og alla flutninga á hráefninu í stöðina. Til að byrja með var grisjað með keðjusögum en vélvæðing hélt fljótlega innreið sína hjá verktökunum sem hefur skilað hagræðingu og nútímalegri vinnubrögðum auk þess að skapa fleiri störf í greininni.“
 
Áform um aukna dreifingu orkunnar
 
Þór segir að nú sé fyrstu grisjunarumferð í skógum Skógræktar ríkisins á Hallormsstað að ljúka og skógarbændur á Héraði taki við afhendingu á efni til kyndistöðvarinnar nú í ár. „Það eru einnig uppi áform um að auka dreifingu orku frá kyndistöðinni um byggðina á Hallormsstað og það kallar á meira magn hráefnis,“ segir hann.
 
Nýr markaður hefur svo skapast á liðnum árum fyrir grisjunarvið eftir að samningar tókust um sölu til Elkem á Grundartanga. Á Fljótsdalshéraði hefur Skógræktin á Hallormsstað afhent 1400 fm³ (fastrúmmetra) til Elkem og mun í ár afhenda um 500–700 fm³. Skógarbændur á Héraði hafa einig afhent hráefni úr bændaskógunum.
 
Lyftistöng fyrir skógrækt á Héraði
 
„Bæði þessi verkefni hafa verið skógrækt á Héraði og landinu öllu mikil lyftistöng. Þau hafa orðið til þess að mikil grisjun er í gangi alls staðar og einnig hefur jákvæð þróun átt sér stað í vélvæðingu og vinnubrögðum,“ segir Þór og nefnir í því sambandi Einar Örn Guðsteinsson, sauðfjárbónda á Teigarbóli í Fljótsdal, sem séð hefur um alla grisjun og útkeyrslu hráefnis úr Hallormsstaðaskógi til Elkem. Til verksins notar hann 10 tonna gröfu með felli- og afkvistunarhaus frá Finnlandi, en grisjunarviðinn keyrir Einar úr skóginum með sínum traktor og viðarvagni með krana. „Þetta vinnur hann á milli gjafa,“ segir Þór. „Menn horfa nú til þess að byggð verði verksmiðja á Bakka við Húsavík, en þar mun skapast markaður fyrir hráefni skógarins, bæði hér á Austurlandi en einnig á Norðurlandi.“
Spennandi þróunarverkefni
 
Félag skógarbænda á Austurlandi í samvinnu við Austurbrú, Landshlutasamtök skógareigenda, Héraðs- og Austurlandsskógar, Skógrækt ríkisins og Skógræktarfélag Austurlands hafa stofnað til sameiginlegs verkefnis sem nefnist Afurðamiðstöð viðarafurða en tilgangur þess er að auka virði skógarnytja og efla áframvinnslu hráefnisins. Þór segir að þegar sé búið að vinna viðarmagnsúttekt á vegum verkefnisins þar sem mat er lagt á það viðarmagn sem mögulegt er að grisja á næstu 30 árum í nytjaskógum bænda á Fljótsdalshéraði. „Nú er unnið að gerð viðskiptaáætlunar en einnig eru menn að skoða ýmsa aðra þætti, s.s. markaðs- og tæknigreiningar. Þetta er spennandi þróunarverkefni sem vonandi getur til framtíðar tryggt betri og fjölbreyttari nýtingu á viðarafurðum og skapað störf heima í héraði,“ segir Þór. 
Nýr formaður kjörinn
Fréttir 23. febrúar 2024

Nýr formaður kjörinn

Hjörtur Bergmann Jónsson var kjörinn formaður deildar skógarbænda á fundi deilda...

Sex minkabú eftir á landinu
Fréttir 23. febrúar 2024

Sex minkabú eftir á landinu

Björn Harðarson, bóndi í Holti í Flóa, hefur tekið við sem formaður deildar loðd...

Eðlilegur blóðhagur þrátt fyrir blóðtöku
Fréttir 23. febrúar 2024

Eðlilegur blóðhagur þrátt fyrir blóðtöku

Íslenskar blóðmerar áttu auðvelt með að halda uppi eðlilegum blóðhag þrátt fyrir...

Áhersla á greiðslumarkið
Fréttir 22. febrúar 2024

Áhersla á greiðslumarkið

Á deildarfundi sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands var samþykkt nær samhljóð...

Nú þarf að láta verkin tala
Fréttir 22. febrúar 2024

Nú þarf að láta verkin tala

Halldóra Hauksdóttir verður áfram formaður búgreinadeildar eggjabænda. Meðstjórn...

Misræmi milli framleiðslu og greiðslumarkseignar
Fréttir 22. febrúar 2024

Misræmi milli framleiðslu og greiðslumarkseignar

Tveir mjólkurframleiðendur uppfylltu ekki yfir 200.000 lítra af greiðslumarki í ...

Formannsslagur í vændum
Fréttir 22. febrúar 2024

Formannsslagur í vændum

Gunnar Þorgeirsson og Trausti Hjálmarsson hafa gefið kost á sér í embætti forman...

Betri afkoma í garðyrkju
Fréttir 22. febrúar 2024

Betri afkoma í garðyrkju

Afkoma ylræktenda fer batnandi en útiræktenda versnandi.