Býlum fækkar hratt
Á fyrsta ársfjórðungi líðandi árs var stofnað til nýs búrekstrar á 805 býlum á Bretlandi en á sama tímabili var búrekstri hætt á 1.890 býlum.
Bretar líta svo á að um sé að ræða verstu kreppu sem þarlendur landbúnaður hefur gengið í gegnum lengi en samdrátturinn er meiri þar en í nokkurri annarri atvinnugrein. Farminguk.com segir frá.
Þessar tölur þýða að fjöldi nýbýla er einungis tæplega helmingur af þeim býlum sem hætta rekstri. Í atvinnugreinum á borð við fasteignaviðskipti, fjármálaþjónustu, mennta- og heilbrigðismálum, þá eru ný fyrirtæki um það bil helmingi fleiri en þau sem leggja upp laupana.
Bankastjóri Cynergy Bank, sem tók tölurnar saman, segir að þetta séu sérlega slæmar fréttir fyrir landsbyggðina á Bretlandseyjum: „Um leið og endurnýjunin er lítil í atvinnugreininni, þá takast bændur á við aukinn kostnað í rekstri, skort á vinnuafli og yfirvofandi breytingar á lögum um erfðaskatt.“
Með þeim breytingum munu bændur ekki geta arfleitt börn sín að býlum sínum skattfrjálst lengur, nema býlin séu verðmetin undir 1 milljón sterlingspunda eða ríflega 170 milljónir kr. Býli sem kosta meira fá á sig 20% erfðaskatt.