Bisfenól A bannað í Evrópu
ESB hefur nú bannað notkun efnasambandsins bisfenól A í efnum sem komast í snertingu við matvæli. Efnið er talið valda alvarlegum heilsufarsvandamálum.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins innleiddi 20. janúar sl. bann við notkun bisfenól A (BPA) í efnum sem komast í snertingu við matvæli, vegna mögulegra skaðlegra heilsufarsáhrifa.
Bisfenól hefur verið framleitt síðan upp úr 1960. Um er að ræða efnahóp sem samanstendur af u.þ.b. 148 manngerðum efnum. Þeim er einkum bætt út í plast til að gera það harðara og endingarbetra. Þekktasta og mest rannsakaða bisfenólið er bisfenól A (BPA) og er það framleitt í gífurlegu magni.
Bannið þýðir að BPA verður ekki leyft í vörum sem komast í snertingu við mat eða drykk, svo sem í húðun á málmdósum, endurnýtanlegum drykkjarflöskum úr plasti, vatnskælum og öðrum eldhúsbúnaði. BPA hefur verið bannað í ungbarnapelum og svipuðum vörum innan Evrópusambandsins frá árinu 2011. Vonast er til að bannið muni fljótlega einnig ná til leikfanga fyrir börn.
Efnalöggjöf ESB hefur haft BPA á lista yfir varasöm efni allt frá árinu 2006 og gert atrennur að því að takmarka notkun þess með reglugerðum. Reglugerð ESB frá 2019 var m.a. innleidd á Íslandi árið 2020 og fjallar um efnivið og hluti úr plasti sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli. Mörgum hefur engu að síður þótt hægt ganga að banna bisfenól m.v. hversu skaðlegt efnið virðist vera.
Fleiri skaðleg bisfenól-efni
Útfösunartímabil BPA verður 18 mánuðir fyrir flestar vörur og mjög takmarkaðar undantekningar frá því þar sem engir aðrir kostir eru fyrir hendi, til að gefa iðnaðinum tíma til að aðlagast og forðast truflun í fæðukeðjunni, eins og segir í tilkynningu frá ESB. Bannið tekur einnig til annarra bisfenóla sem eru skaðleg æxlunar- og innkirtlakerfi.
Ná hinar nýju reglur ESB m.a. til notkunar á BPA við framleiðslu á lími, gúmmíi, jónaskiptaresíni, plasti, prentbleki, sílikoni, lökkum og húðun sem getur komist í snertingu við matvæli.
Önnur bisfenól hafa verið að ryðja sér til rúms vegna takmarkana á notkun BPA. Má þar nefna bisfenól S (BPS), bisfenól F (BPF) og bisfenól M (BPM). Rannsóknir á mögulegum áhrifum þessara staðgönguefna eru hafnar og skv. Umhverfis- og orkustofnun gefa niðurstöðurnar til kynna að efnin hafi mörg af sömu skaðlegu áhrifum á heilsu eins og BPA.
Margvísleg skaðleg áhrif
Áhyggjur hafa verið af notkun bisfenóls A um margra ára skeið og vísindamenn varað við notkun þess. Efnið hefur sterklega verið tengt við mögulega mengun matvæla. Það er sagt valda m.a. hormónatengdri krabbameinsáhættu, þ.m.t. brjóstakrabbameini, taugaþroskunarfræðilegum neikvæðum áhrifum og sykursýki. Efnið hefur eitrunaráhrif á æxlun og minnkar frjósemi. Það er innkirtlatruflandi og líkir eftir estrógeni, sem þýðir að það getur haft áhrif á starfsemi hormónakerfisins og gildir það fyrir öll spendýr. Einnig hefur efnið verið tengt við aukningu á hjarta- og æðasjúkdómum, lækkun á fæðingarþyngd nýbura og auknum líkum á offitu og efnaskiptasjúkdómum. Þá hefur efnið jafnframt verið tengt við áhrif á tilfinningar, hreyfifærni, minni, lærdómsgetu og erfiðleika með tungumál og tal.
BPA finnst víða
Skv. Matvælastofnun er BPA notað við framleiðslu á ýmsum plastefnum, eins og pólýester, pólýsúlfón og pólýeter-keton, sem þráavarnarefni í mýkingarefni og til þess að hindra fjölliðun í pólývínílklóríð (PVC). Það gegnir lykilhlutverki í framleiðslu á pólýkarbónat-plasti og epoxý-resíni. Pólýkarbónat-plast er notað í ýmsar algengar vörur eins og vatnsflöskur, ýmiss konar íþróttavörur, lækningaáhöld, geisladiska og fleira. Epoxý-resín eru notuð til húðunar í dósir sem ætlaðar eru matvælum, bæði niðursuðudósir og dósir fyrir drykkjavörur og einnig í sauma á niðursuðudósum.
Sýnt hefur verið fram á að BPA lekur í litlu magni úr matar- og drykkjarílátum úr plasti yfir í innihald ílátanna. Það magn eykst eftir því sem ílátin eru notuð meira, eru rispuð og/eða brotin. Efnið lekur mest úr ílátum við háan hita eða við lágt eða hátt sýrustig. Að auki berst BPA inn í líkamann í gegnum húð við meðhöndlun á hitaþolnum pappír þ.m.t. kassakvittunum, en efnið hjálpar til við að láta blekið birtast á slíkum pappír. BPA getur komist í menn með fæðu, með upptöku í gegnum húð og við innöndun.
Á vefnum ust.is má finna leiðbeiningar um hvernig draga má úr útsetningu fyrir bisfenólefnum.
Bannið nær til Íslands
„Við endurskoðun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) á áhættumati BPA gaf stofnunin út nýtt viðmiðunargildi fyrir þolanlega inntöku á bisfenol A. Hið nýja gildi er það mikið lægra en hið fyrra að ekki er hægt með núgildandi
mæliaðferðum að mæla flæði BPA yfir í matvæli. Þ.a.l. er ekki hægt að setja ný sértæk flæðimörk fyrir BPA. Til að lágmarka váhrif efnisins er því bannað að nota BPA í matvælasnertiefni, þ.e. í lím, gúmmí, jónaskipta-resín, plastefni, prentliti, sílikon, lökk og húðunarefni. Hægt verður að veita undanþágur fyrir sérstaka notkun sem tilgreind er í viðauka II og með þeim skilyrðum sem þar eru sett,“ segir í svari matvælaráðuneytis við fyrirspurn um áhrif bannsins á Íslandi.
Um er að ræða reglugerð ESB 2024/3190 um notkun á bisfonól A og breytingu á ESB reglugerð 10/2011 um efnið í plasti sem kemst í snertingu við matvæli. Að sögn talsmanns sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi eru EFTA, Fríverslunarsamtök Evrópu, nú með reglugerðina til skoðunar og verði hún talin falla undir gildissvið EES-samningsins hefst innleiðingarferli hjá EES EFTA-ríkjunum, þ.á m. Íslandi.
„Umrædd reglugerð verður að öllu óbreyttu tekin inn í EES-samninginn í vor. Þar með breytist reglugerð (ESB) No. 10/2011 um efnivið og hluti úr plasti sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli. Sú reglugerð er nú þegar inni í EES-samningum og var innleidd í landsrétt með reglugerð nr. 374/2012,“ segir einnig í svari matvælaráðuneytisins.
Líklegt er að bisfenól A sé í:
- Borðbúnaði úr plasti (t.d. drykkjarflöskum, hnífapörum og diskum)
- Harða hlutanum á snuði úr plasti
- Dósum undir matvæli (t.a.m. niðursuðudósum)
- Pelum úr plasti fyrir ungabörn
- Leikföngum úr plasti
- Textíl
- Raftækjum
- Málningu, lími og lökkum
- Öryggisbúnaði úr plasti
- Hitaþolnumpappír(t.a.m.kassakvittunum,brottfararspjöldum og stöðumælasektum)
- Geisladiskum og geisladiskahulstrum
- PC-plasti (pólýkarbónat-plast)
- Epoxý-resín (t.d. málning)
www.ust.is