Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Úrgang skal færa til viðeigandi meðhöndlunar
Mynd / smh
Fréttir 14. apríl 2025

Úrgang skal færa til viðeigandi meðhöndlunar

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Líkt og fram kom í forsíðufrétt síðasta tölublaðs Bændablaðsins, er ekkert eftirlit haft með því hvernig garðyrkjuúrgangur frá garðyrkjubændum á Suðurlandi er meðhöndlaður.

Bændurnir bera sjálfir ábyrgð á því að koma úrgangi í réttan farveg, en það eru heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna sem hafa eftirlitshlutverk með því að rétt sé staðið að málum. Bændablaðið hefur heimildir fyrir því að almenn venja sé á Suðurlandi að bændur fargi sjálfir sínum úrgangi, urði eða noti til landfyllingar, sem er bannað með lögum.

Í áðurnefndri umfjöllun Bændablaðsins var ranglega staðhæft að garðyrkjuúrgangur frá garðyrkjustöðvum bænda flokkaðist sem „lífúrgangur“, samkvæmt lögum sem tóku gildi í byrjun árs 2023. Hið rétta er að hann er „lífrænn úrgangur“ – líkt og annar úrgangur sem er niðurbrjótanlegur af örverum með eða án tilkomu súrefnis og um hann gilda önnur lagaákvæði. „Lífúrgangur“ er þrengra skilgreindur lífrænn úrgangur og í þann úrgangsflokk fellur til dæmis lífrænn heimilisúrgangur eins og matarleifar og garðaúrgangur frá heimilum – og frá 1. janúar 2023 hefur verið bannað að urða hann.

Yfirleitt gert ráð fyrir endurnotkun á úrgangi

Heilbrigðisnefndir starfa undir heilbrigðiseftirlitum sveitarfélaga. Í umfjöllun Bændablaðsins var haft eftir Sigrúnu Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Suðurlands, að eftirlit með garðyrkjuúrgangi bænda hafi ekki verið sett á oddinn í starfseminni, mannafli hafi ekki verið nægur til að sinna þessu eftirlitshlutverki. Einungis átta starfsmenn væru starfandi við heilbrigðiseftirlitið og í mörg horn að líta á öllu Suðurlandi. Hins vegar fylgdist starfsfólk með af hliðarlínunni án þess að hafa mikið látið að sér kveða í kröfugerðum á þessu sviði hingað til.

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfis- og orkustofnun (UOS) er það hlutverk heilbrigðisnefnda að sjá til þess að úrgangurinn rati í viðeigandi meðhöndlun og það eigi við um allan lífrænan úrgang. Í samþykktum sveitarfélaga og í reglugerðum sé fjallað nánar um hvers konar meðhöndlun er viðeigandi, en yfirleitt er það einhvers konar endurnotkun á úrganginum, til dæmis moltugerð, dísilgerð eða brennsla á dýrahræjum.

Margvísleg úrræði heilbrigðisnefnda

Fram kemur í upplýsingunum frá UOS að heilbrigðisnefnd hafi margvísleg úrræði til að grípa til ef meðhöndlun úrgangs sé ekki lögum samkvæmt. Eðlilegast sé að heilbrigðisnefnd leiðbeini viðkomandi um hvernig eigi að standa að málum, veiti honum hæfilegan frest til úrbóta og áminningu eftir þörfum.

Ef það dugi ekki til geti heilbrigðisnefnd beitt dagsektum eða látið vinna verk á kostnað viðkomandi. Í alvarlegum tilvikum megi jafnvel stöðva starfsemi rekstraraðilans til bráðabirgða og sem síðasta úrræði geti Umhverfis- og orkustofnun svipt viðkomandi starfsleyfi.

Æskilegt að komast hjá því að úrgangur falli til

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið segir í svari við fyrirspurn um stöðu þessara úrgangsmála á Suðurlandi, að eins og eigi við um allan annan úrgang þá gildir það um garðyrkjuúrgang að æskilegt er að komast hjá því að hann falli til, svo sem með nýtingu hliðarafurða. Annars eigi að endurnýta úrganginn, svo sem með endurvinnslu og komast hjá förgun hans eins og hægt sé. Það sé ekki síst mikilvægt með hliðsjón af losun gróðurhúsalofttegunda og markmiða Íslands í loftslagsmálum, auk þess sem það leiði til betri nýtingar hráefnis.

Almenn skylda gildi um garðyrkjuúrgang eins og annan úrgang, að hann sé færður til viðeigandi meðhöndlunar og að óheimilt sé að losa hann annars staðar en á móttökustöð eða í sorpílát, samanber 9. grein laga um meðhöndlun úrgangs. Rekstraraðilum – og þar með garðyrkjubændum – sé skylt að flokka garðyrkjuúrgang og annan rekstrarúrgang í því skyni að stuðla að endurnýtingu hans. Nefnir ráðuneytið hugmyndir um starfrækslu á lífgas- og áburðarveri í uppsveitum Árnessýslu sem dæmi um slíkt, en þar er gert ráð fyrir að hráefnið verði garðyrkjuúrgangur frá ylrækt bænda og kúamykja kúabænda. Ráðuneytið hafi stutt það verkefni með aðkomu sinni að Orkídeu, sem hefur látið útfæra slíkar hugmyndir.

Starfsleyfi þarf til urðunar

Í svörum úr ráðuneytinu kemur fram að staðan í dag sé því þannig að rekstraraðilar eigi að leita leiða til endurnýtingar á úrgangi og losun utan lögmætrar móttökustöðvar óheimil. Ef farvegur til endurnýtingar sé ekki til staðar hjá formlegum móttökustöðvum sé þar heimild til urðunar. Hyggist bændur losa sig við úrgang á eigin landi þurfi þeir starfsleyfi til þess.

Ráðuneytið metur það sem svo að búast megi við að auknar skorður verði settar á förgun á komandi árum, meðal annars garðyrkjuúrgangs, og fyrirhugað sé samkvæmt aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum að leggja á bann við urðun alls lífræns úrgangs.

Skylt efni: úrgangsmál

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...