Uppsagnir á Blönduósi
Kjarnafæði Norðlenska hefur sagt upp 22 starfsmönnum sem starfa við sláturhús SAH á Blönduósi. Um 250 milljóna króna tap fyrirtækisins á síðasta ári er m.a. rakið til þess að forsendur hagræðingar brustu.
Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Kjarnafæðis Norðlenska, segir þetta hafa verið nauðsynlega hagræðingaraðgerð þar sem fyrirtækið var rekið með tapi á síðasta ári. Engin sauðfjárslátrun verður á Blönduósi í haust og mun önnur starfsemi dreifast á aðrar starfsstöðvar Kjarnafæðis Norðlenska, en fyrirtækið rekur sláturhús og kjötvinnslu á Húsavík og Svalbarðseyri og á tveimur stöðum á Akureyri.
Fimm starfsmenn áfram
„Við erum með talsverða starfsemi á Blönduósi utan sláturtíðar og það tekur tíma að vinda þá starfsemi niður,“ segir Ágúst. Því var fimm starfsmönnum ekki sagt upp „enda talsvert verk fram undan bæði í áframhaldandi vinnslu til skamms tíma og frágangi ýmiss konar til lengri tíma.“ Ágúst telur að starfsemin verði orðin mjög lítil í lok þessa árs.
„Við áttum ágætisspjall við starfsfólkið sem var sagt upp og erum að vinna með því áfram og aðstoða það í atvinnuleit. Síðan stendur til boða að fólk flytji sig á aðrar starfsstöðvar fyrirtækisins. Þetta er gott starfsfólk og það er klárlega pláss fyrir það hjá okkur, en auðvitað tekur hver ákvörðun fyrir sig,“ segir Ágúst.
Mikil fækkun á dilkum
Ágúst bendir á að framboð á sláturgripum hafi dregist umtalsvert saman á undanförnum árum sem hefur leitt til verri nýtingar á hverju sláturhúsi. „Það er búið að draga úr sauðfjárslátrun um yfir 150 þúsund dilka frá 2017. Það er ljóst að eigi greinin að vera samkeppnishæf verður hún að draga úr föstum kostnaði og lækka framleiðslukostnað. Það er vegna eðlilegrar kröfu bænda um ásættanlegt afurðaverð og afkomu, á sama tíma og samkeppni á markaði er mjög hörð og mikil krafa um að verðlagi sé stillt í hóf.“
Tjón vegna forsendubrests
Afkoma Kjarnafæðis Norðlenska reyndist neikvæð sem nemur um 250 milljónum króna árið 2024.
Það kemur fram í frétt sem birtist á vef fyrirtækisins. Sagt er frá fundi stjórnar, sem fram fór 20. febrúar sl., og að mikil breyting hafi verið á afkomu félagsins samanborið við 2023 þegar hagnaður varð af rekstri.
„Stærstu áhrifaþættir versnandi afkomu eru miklar kostnaðarhækkanir á aðföngum, launum og þjónustu. Félagið tók þátt í viðleitni atvinnulífsins til að ná tökum á verðbólgu á Íslandi og hækkaði verð á sínum framleiðsluvörum að meðaltali minna en almenn verðlagsþróun og kostnaðarhækkanir gáfu tilefni til. Þá voru vaxtagjöld á árinu um 512 m.kr., sem er 47 m.kr. aukning frá árinu áður. Veldur þar hærra vaxtastig og hærri staða afurðalána vegna verðhækkana til bænda,“ segir í fréttinni.
Enn fremur segir þar að forsenda þess að talið var unnt að stilla verðbreytingum í hóf hafi verið áætlanir um mögulega hagræðingu sem breytingar á búvörulögum frá því í apríl í fyrra áttu að leiða af sér, en fyrirtækið hækkaði afurðaverð til sauðfjárbænda í síðustu sláturtíð um tólf prósent frá árinu áður.
„Tekin var ákvörðun um að greiða hluta væntrar hagræðingar út til neytenda og bænda fyrir fram, en ætlunin var að hefja hagræðingaraðgerðir í lok árs 2024. Í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í nóvember 2024 og tilmæla Samkeppniseftirlitsins, stöðvuðust allar stærri hagræðingaraðgerðir með tilheyrandi tjóni fyrir félagið. Sú óvissa sem skapast hefur um heimildir til hagræðingar hefur haft verulega truflandi áhrif á rekstur félagsins og ljóst að ef ekki verður unnt að hagræða verulega í rekstri, umfram það sem þegar hefur verið gert, mun það hafa neikvæð áhrif á getu félagsins til að halda aftur af verðhækkunum og draga úr greiðslugetu þess til bænda,“ segir í frétt Kjarnafæði Norðlenska
