Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Um 20 ár frá því riðutilfelli var síðast greint í Skjálfandahólfi
Mynd / MÞÞ
Fréttir 22. júní 2020

Um 20 ár frá því riðutilfelli var síðast greint í Skjálfandahólfi

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Viðbrögðin hafa verið nokkuð jákvæð,“ segir Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir Matvæla­stofnunar í Norðaustur­umdæmi. Hann hefur hvatt forsvarsmenn sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum til að koma á skipulegri söfnun og tryggri förgun dýrahræja. Um 20 ár eru frá því síðasta riðutilfelli var greint í Skjálfandahólfi sem markast af Skjálfandafljóti að vestan og Jökulsá á Fjöllum að austan. 
 
Hann segir að það sé mikilvægur áfangasigur í baráttunni gegn riðuveiki í sauðfé, en varnarhólfin þrjú í Þingeyjarsýslum eru hrein með tilliti til riðu.
 
„Ég hef af þessu tilefni verið að hvetja sveitarfélögin á svæðinu til að koma sér upp söfnunargámum fyrir dýrahræ sem víðast þannig að bændur geti losað sig með auðveldum og tryggilegum hætti við gripi sem drepast,“ segir Ólafur. Sveitarstjórnir hafi m.a. brugðist við með því að fela sínum starfsmönnum að hafa samband við þá sem sjá um sorphirðu í sveitarfélaginu varðandi úrlausnir.
 
Snýst um samstöðu um aðgerðir
 
Ólafur segir að í raun eigi þetta við um allar smitvarnir og í hámæli sé nú umræða um sýklalyfjaónæmi þar sem sjónum er beint að því að ónæmisgen geti búið um sig í náttúrunni og dreift sér. Heilbrigt búfé sé ein aðalauðlind íslensks landbúnaðar og staðan hér á landi öfundsverð.
 
„Við þurfum því að gera okkar ýtrasta til að viðhalda og verja þá stöðu. En fyrst og síðast snýst baráttan við riðuna um að það sé samstaða um aðgerðir og síðan að hver og einn bóndi viðhafi góða búskaparhætti. Gamli máls­hátturinn, bóndi verðu þitt bú, á hér vel við,“ segir Ólafur. 
 
Síðasta riðutilfellið árið 1999
 
Riða kom fyrst upp svo vitað sé í Skjálfandahólfi árið 1973. Síðasta riðutilfellið kom upp á árinu 1999. Riða greindist á yfir 50 búum í flestum sveitum í varnarhólfinu á þessu tímabili. Fjárbúskapur er  enn í dag á langflestum þeirra búa þar sem riða greindist og fé var skorið niður. 
 
„Við megum ekki sofna á verðinum,“ segir Ólafur. Hann bendir á að smit berist aðallega beint á milli gripa og því séu takmarkanir á fjárflutningum lykilþáttur í baráttu gegn riðu og „þó svo að nú hafi verið felldar niður hömlur á slíku innan hólfsins þá hvet ég bændur til að íhuga þau atriði alltaf vel,“ segir hann.   
 
Riðusmitefni þolið og langlíft í umhverfinu
 
Meðgöngutími frá því kindin smitast og þar til fyrstu einkenni sjúkdómsins sjást geta verið mörg ár. Smitefnið  finnst víða í líkamanum s.s. í eitlum við meltingarveg, miðtaugakerfi og fylgjunni. Því er nauðsynlegt að viðhafa góða smitgá, sérstaklega á sauðburði. Mikilvægur hlekkur í vöktun á riðuveiki, bæði í sauðfé og nautgripum, er að skoðaður sé ákveðinn fjöldi af heilasýnum úr fullorðnum gripum sem misfarast heima á búum. Sérstaklega á það við um sýni úr gripum sem hafa drepist án augljósrar ástæðu, sýndu einhver taugaeinkenni eða orðið afvelta. Eins á það við um gripi sem hafa fest sig eða slasast með öðrum hætti og þarf að drepa af þeim sökum. Þetta á líka við ef finnast hræ við smalamennsku. Í þeim tilvikum er óskað eftir því að haft sé samband við viðkomandi héraðsdýralækni og er þá skoðað hvernig hægt er að nálgast sýnið. 
 
Þá bendir Ólafur á að mikilvægt sé að farga hræjum og sláturúrgangi á tryggilegan hátt. Í ljósi þess árangurs í baráttu gegn riðu í Skjálfandahólfi segir hann að vonandi séu litlar líkur á að riðusmitefni finnist. Það sé hins vegar þolið og langlíft í umhverfinu og geti einnig borist með ýmsum hætti, m.a. komið upp við jarðrask og veðrun. 
Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...