Tuttugu aðgerðir til 2028
Út er komin Landsskipulagsstefna 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024– 2028. Útgefandi stefnunnar er Skipulagsstofnun.
Unnið er í landsskipulagsstefnu með níu svokölluð lykilviðfangsefni: Viðbrögð við loftslagsbreytingum, jafnvægi í uppbyggingu húsnæðis og lífsgæðum í byggðu umhverfi, uppbyggingu þjóðhagslega mikilvægra innviða, landnotkun í dreifbýli og á miðhálendi Íslands, orkuskipti í samgöngum og fjölbreyttum ferðamáta, skipulag haf- og strandsvæða, skipulag vindorku og vernd líffræðilegrar fjölbreytni.
Síðustu misseri hefur Skipulagsstofnun unnið að útgáfu gildandi landsskipulagsstefnu sem kom síðan út í heild í apríl sl.
Landsskipulagsstefna felur í sér samræmda stefnu ríkisins um skipulagsmál fyrir landið í heild og tekur hún á vernd og ráðstöfun lands á hálendi Íslands, í þéttbýli og dreifbýli og sjálfbærri nýtingu haf- og strandsvæða. Stefnan er sett fram til fimmtán ára ásamt fimm ára aðgerðaáætlun.
Tuttugu aðgerðir til 2028
Birt er aðgerðaáætlun fram til ársins 2028 og tilgreindar 20 aðgerðir sem eiga að tryggja framgang markmiða landsskipulagsstefnu. Þær miða einkum að því að gera skipulagsgerð sveitarfélaga skilvirkari, með bættu aðgengi að grunngögnum og leiðbeiningum, tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga og stuðla að sjálfbærri þróun þar sem tekið er mið af mögulegum áhrifum loftslagsbreytinga á samfélög og innviði.
Til dæmis á að standa vörð um gott ræktunarland til að tryggja fæðuöryggi (aðgerð 5), svo sem ítarlega hefur verið fjallað um á síðum Bændablaðsins undanfarin misseri. Gæði lands til ræktunar verði kortlögð á landsvísu út frá bestu fáanlegu gögnum sem lögð verði til grundvallar við skipulagsgerð og aðra stefnumótun um landnotkun.
Jafnframt á að stuðla að sjálfbærri landnotkun í dreifbýli (aðgerð 14). Gera á leiðbeiningar um hvernig hægt er að nýta skipulagsgerð til að draga fram megináhrifaþætti í dreifbýli og til að stuðla að sjálfbærri þróun byggðar og landnotkunar. Leiðbeiningarnar taki á ráðstöfun lands í dreifbýli, m.a. varðveislu góðs ræktarlands ásamt aukinni þörf á landrými, svo sem fyrir skógrækt, ferðaþjónustu, frístundabyggð, íbúðauppbyggingu sem og hefðbundin landbúnaðarnot. Leiðbeiningar munu einnig lúta að loftslagsmiðuðu skipulagi, landslagsvernd, neti verndarsvæða, líffræðilegri fjölbreytni og sjálfbærri byggð. Enn fremur er aðgerð um flokkun landslagsgerða og leiðbeiningar um landslagsgreiningu (aðgerð 20). Skipulagsákvarðanir um ráðstöfun lands skulu byggjast á landslagsgreiningu og mati á staðareinkennum og taka mið af þeim gæðum sem felast í landslagi. Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði landslag og staðareinkenni greind og niðurstöður slíkrar greiningar nýttar við mótun og útfærslu skipulags viðkomandi svæðis.
Útbúa á leiðbeiningar um skipulagsgerð og vindorkunýtingu þar sem fjallað verði um staðarval og umhverfismat ásamt öðrum þáttum sem snúa að leyfisveitingum. Áhersla er á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum til að tryggja örugga afhendingu orkunnar. Sömuleiðis er sett í forgrunn að breið sátt ríki um uppbyggingu vindorkuvera og að tillit verði tekið til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru.
Meðal annarra aðgerða er að bæta aðgengi að upplýsingum um möguleika á uppbyggingu húsnæðis í skipulagsáætlunum, einfalda ákvarðanatöku um þjóðhagslega mikilvæga innviði flutningskerfa (t.a.m. samgöngu- og veitukerfa) og þróa stefnu um samgöngur á miðhálendinu m.t.t. náttúru- og landslagsverndar, aðgengis og orkuskipta, en þeim á að hraða. Tiltekið er að ein aðgerðanna sé að uppbygging ferðaþjónustumannvirkja verði innan þolmarka hálendisins. Ljúka á kortlagningu víðerna sem og strandsvæðisskipulags fyrir Eyjafjörð og Skjálfandaflóa og almennt að forgangsraða skipulagi strandsvæða. Gera á stjórnsýslu ákvarðanatöku um nýtingu hafsvæða skýra og skilvirka.
Á herðum sveitarfélaga
Landsskipulagsstefnu er fyrst og fremst framfylgt í gegnum skipulagsáætlanir sveitarfélaga og skulu sveitarfélög byggja á landsskipulagsstefnu við gerð aðal- og svæðisskipulags. Stefnan hefur einnig áhrif á áætlanir stjórnvalda í einstökum málaflokkum sem varða landnotkun og byggðaþróun.
Landsskipulagsstefna 2024– 2038 var samþykkt á Alþingi vorið 2024. Er það í annað sinn sem landsskipulagsstefna er samþykkt en ný stefna leysir af hólmi Landsskipulagsstefnu 2015–2026 sem tók gildi árið 2016, þá fyrsta heildstæða stefna um skipulagsmál á landsvísu.
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið hefur yfirumsjón með framkvæmd stefnunnar í samstarfi við einstök ráðuneyti, eftir því sem við á, og Skipulagsstofnun.