Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Frá haustinu 2009 á Stórhóli þegar ærnar voru reknar heim, þá veturgamlar, en 503 gimbrar voru keyptar haustið 2008 eftir riðuniðurskurð. Að sögn Maríönnu er hundur, hestur og fé á myndinni allt farið á vit feðra sinna – en bóndinn tórir enn.
Frá haustinu 2009 á Stórhóli þegar ærnar voru reknar heim, þá veturgamlar, en 503 gimbrar voru keyptar haustið 2008 eftir riðuniðurskurð. Að sögn Maríönnu er hundur, hestur og fé á myndinni allt farið á vit feðra sinna – en bóndinn tórir enn.
Mynd / Stórhóll
Fréttir 1. desember 2023

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Tímamót eru í baráttunni gegn riðuveiki í sauðfé með nýrri nálgun stjórnvalda þar sem bændunum á Stórhóli í Húnaþingi vestra verður gefinn kostur á að hlífa gripum með verndandi og mögulega verndandi arfgerðir gegn riðu við niðurskurði.

Maríanna Eva Ragnarsdóttir og Garðar Valur Gíslason, bændur á Stórhóli.

Viðræður standa nú yfir við matvælaráðuneytið um fyrirhugaðan niðurskurð.

Niðurskurður í samræmi við niðurstöður sérfræðingahóps

„Það eru komin til okkar fyrirmæli frá yfirdýralækni, í gegnum matvælaráðuneytið, um hvaða gripi við megum hlífa við niðurskurði. Við sendum engin andmæli við þeim,“ segir Maríanna Eva Ragnarsdóttir, sem býr á Stórhóli ásamt Garðari Val Gíslasyni.
Niðurskurður á heilum hjörðum hefur hingað til verið eina úrræðið til að hefta útbreiðslu riðusmita. Sú aðferð hefur valdið fjölda sauðfjárbænda miklu tjóni; bæði fjárhagslegu og tilfinningalegu.

Að sögn Maríönnu eru fyrirmælin í samræmi við niðurstöður skýrslu sérfræðingahópsins sem var skilað til matvælaráðherra fyrir skemmstu um nýja nálgun gegn riðuveiki í sauðfé. Niðurstöður hennar eru ætlaðar að vera ráðgefandi fyrir ákvörðun yfirdýralæknis vegna niðurskurðar. Þar er lagt til að heimilt verði að undanskilja kindur frá niðurskurði sem bera verndandi arfgerðir eða mögulega verndandi arfgerðir gegn riðusmiti.

Mótmæltu tilboði um bótagreiðslur

„Við hins vegar mótmæltum því að greiðslur myndu miðast við 16 kíló í gæðaflokki DR2 fyrir hverja kind,“ segir Maríanna. „Þau viðmið eru löngu úrelt og ég veit ekki hvar við ættum að fá gripi fyrir þetta verð – hvað þá ARR-gripi sem okkur verður skylt að notast við í uppbyggingu okkar hjarðar.

Við erum með 27 gimbrar sem eru með ARR-genasamsætuna sem er viðurkennd sem verndandi gegn riðusmiti. Svo erum við með aðrar 28 gimbrar með mögulega verndandi arfgerðir og einnig 52 ær sem eru með mögulega verndandi arfgerðir. Hrútarnir eru um 14, bæði með verndandi og mögulega verndandi arfgerðir.“

Fóru sjálf strax í arfgerðagreiningar

Maríanna segir að þegar þeim var tilkynnt um að riða hefði greinst í þessu eina sýni þann 27. október þá hafi þeim verið tjáð að í boði væri að taka sýni úr þeim gripum sem ekki voru enn arfgerðagreindir. Tæplega 590 fjár voru þá á Stórhóli. „Við fórum strax þá um helgina að taka sýnin, úr rúmlega 380 gripum. Við sáum sjálf um þá framkvæmd með aðstoð góðra vina. Við vorum búin að arfgerðargreina hluta hjarðarinnar áður, en við ákváðum strax að taka þátt í þessum rannsóknum þegar þær hófust með skipulegum hætti.

Við settum á 11 lambhrúta í haust og keyptum þrjá. Tveir þessara aðkeyptu eru með T137 en sá þriðji er arfblendinn með ARR-samsætuna. Af okkar ásettu hrútum eru þannig níu arfblendnir ARR, einn arfhreinn AHQ, einn C151/AHQ og svo einn sem er C151/ARQ. Svo eigum við enn hann Garra frá Þernunesi, en við keyptum hann í fyrra.“

Hrútar með áhættuarfgerð

„Við vorum svolítið óheppin því það kom í ljós að bestu hrútarnir okkar reyndust vera með áhættusamsætuna VRQ þegar við létum arfgerðagreina þá fyrir um tveimur árum. Við hættum þá að nota þá en vorum auðvitað búin að setja á mikið undan þeim áður. Það kemur greinilega fram í hlutfalli áhættuarfgerðarinnar hjá okkur,“ segir Maríanna. Hún segir að þetta sýni hversu gríðarlega mikilvægt það er fyrir bændur að láta arfgerðargreina í það minnsta hrútana sína.

Erfið uppbygging fram undan

„Núna er í raun biðstaða hjá okkur. Viðræðurnar við ráðuneytið ganga ekki vel. Okkur ber að leggja fram stíft ræktunarplan þar sem ARR- samsætan verður í fyrirrúmi fyrir ræktun á nýjum stofni, ef við viljum halda þessum gripum. Við erum líka að semja um bæturnar og vorum svona að vonast til að þetta yrði gert sómasamlega, í anda hinnar nýju nálgunar – en erum núna bara mátulega bjartsýn,“ segir Maríanna.

Hún segir ljóst að hreinsunin verði allt öðruvísi en verið hefur í fyrri niðurskurðum og nú þurfi ekki að fjarlægja út úr fjárhúsunum allar innréttingar. „Það dugar að sótthreinsa vel og þrífa hluti sem gætu innihaldið smitefni. Svo getum við byrjað að byggja upp nýjan stofn um leið og við höfum fengið bæturnar til að standa straum af því. En það verða að vera ARR-gripir.

Við ætlum að reyna að fara þessa leið – en það verður ekki auðvelt. Bæði vantar fleiri slíka gripi og svo má búast við að þeir verði líka í dýrari kantinum. Við megum til dæmis bara kaupa arfhreina ARR-hrúta og þeir eru nú bara þrír til núna í landinu. Svo fylgir uppbyggingunni sú kvöð að vera með hjörðina í allt að sjö ára einangrun. Takist okkur fyrr að rækta upp stofn sem samanstendur af 75 prósent arfhreinum ARR- gripum og 25 prósent með ARR- samsætu og mögulega verndandi samsætu þá getur Matvælastofnun aflétt einangruninni. Þó aldrei fyrr en að liðnum tveimur árum frá niðurskurði. Einnig er okkur heimilt að setja á afrétt fé með ARR/ARR eða ARR/MV þegar þessi tvö ár eru liðin.

Þó þetta séu framfarir frá þeim reglum sem áður voru þá snýst þetta um að geta lifað og við lifum ekki á 100 kindum og það verður erfitt að byggja þetta upp aftur.“

Fyrst verði samið um bætur

Maríanna segir að þau hafi gert ráðuneytinu það ljóst að féð verði ekki látið af hendi fyrr en búið verði að semja um bætur. „Við erum líka núna bara að vinna þessa ræktunaráætlun, þar sem gert er ráð fyrir að 75 prósent af hjörðinni verði arfhreint með ARR en 25 prósent ARR-samsæta á móti mögulega verndandi samsætu.
Það er ekki hægt að gera samninga fyrr en við höfum lagt fram þessa áætlun. En það er ekkert skemmtilegt að hafa þetta allt ófrágengið hér heima á bæ hangandi yfir okkur.“

Skylt efni: riða | Stórhóll

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...