Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Þýðing lands og nýtingarréttur
Á faglegum nótum 3. nóvember 2017

Þýðing lands og nýtingarréttur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Land og rétturinn til landnytja er ólíkur milli menningarsvæða. Íbúum iðnríkja er tamt að líta á eignarrétt á landi sem sjálfsagðan og þar með líka réttinn til að nýta landið. Í þróunarríkjunum er þessu víða ólíkt farið og hugmyndin um eignarhald óljósara og nýtingin á landi hluti af flóknum samfélagslegum hefðum og reglum.

Skýrsla Sameinuðu þjóðanna, Global Land Outlook, fjallar á fjölbreytilegan hátt um notkun landgæða í heiminum og mögulega notkun þeirra í framtíðinni. Í síðasta tölublaði Bændablaðsins var sagt frá lykilatriðum skýrslunnar, svo sem fjölgun mannkyns, fólksflutningum, loftslagsbreytingum, líffræðilegum fjölbreytileika, þéttbýlismyndun, átökum um fæðu og orku- og vatnsbúskap.

Að þessu sinni verður gluggað í þann hluta skýrslunnar sem fjallar um þýðingu lands og landnýtingar í heiminum.

Sýn á land getur snúist um eignarhald og réttinn til að nýta það og er um leið hluti af hag- og félagslegum samskiptum og deilum um réttindi.

Sýn á landið

Í inngangi að kafla skýrslunnar segir að sýn fólks á land sé ekki bara viðbragð við því sem ber fyrir augu því sýnin er einnig tengd menningu og hugmyndum um eignarhald. Fólk sem tengist landi með því að yrkja það og hafa lífsviðurværi sitt af landinu sér og upplifir land á annan hátt en þeir sem eiga hlutabréf í landi og hafa ekki beina aðkomu að nýtingu þess. Land hefur einnig aðra þýðingu fyrir fólk sem er efnað og ekki beinlínis háð landi sér til viðurværis en þeir sem fátækari eru og lifa af því sem landið gefur. Sýn á land getur líka snúist um eignarhald og réttinn til að nytja það og er um leið hluti af hag- og félagslegum samskiptum og jafnvel deilum um réttindi.

Allir þessir þættir hafa áhrif á afstöðu okkar til landnýtingar og stjórnunar á henni. Þrátt fyrir það er skynsamlegast að nýta land á sjálfbæran hátt mannkyninu til heilla.

Aðgangur að ræktarlandi til matvælaframleiðslu og vatnsöflunar, stöðugleiki í atvinnu og aðgengi að lífnauðsynjum er nauðsynlegt til að efla seiglu gegn loftslagsbreytingum og breytingum til hins verra í veðurfari og tryggja félagslegan og pólitískan stöðugleika samfélaga.

Land sem gjöful eign

Hvort sem land er í einkaeigu eða almenningur í eigu opinberra aðila eru nýtingarmöguleikar þess hinir sömu hvað varðar afurðir og þjónustu.  Möguleikar landsins til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga á heimsvísu og viðhaldi hringrásar vatns og matvælaframleiðslu í heimalandinu og heima í héraði er það sama hvert sem eignarhaldið er.

Vistkerfi, hvort sem þau eru náttúruleg eða stjórnað af mönnum, styrkja lífsviðurværi samfélaga og veita þeim tækifæri á að vaxa og dafna. Líta verður til þess að þrátt fyrir að land sé gjöfult er það takmörkuð auðlind sé það ekki nýtt skynsamlega.

Til að tryggja sjálfbæra nýtingu lands er ekki nóg að ákvarða hvert eignarhald og nýtingarréttur þess er. Dæmin sýna að stjórn landnýtingar leiðir iðulega til hnignunar landgæða og í framhaldinu standa landeigendur frammi fyrir auknum takmörkunum á nýtingu landsins og verndun vistkerfisins.

Auka þarf skilninginn á möguleikum lands og nýtingu þess fyrir menn og aðrar lífverur. Bændur og ráðsmenn lands þurfa nú og í framtíðinni að líta á sig sem gæslumenn landsins sem bera ábyrgð á sjálfbærri og skynsamlegri nýtingu þess.

Uppblástur eru víða vandamál og oft afleiðing rangrar landnýtingar. 

Til að hlúa að og vernda þá gjöfulu eign sem land er verður að viðurkenna réttindi, umbun og ábyrgð landnýtingar sem stuðla að sjálfbærri nýtingu þess. Bændur og ráðsmenn lands þurfa hvata til að tryggja áframhaldandi framboð á þeim gæðum sem landið hefur að bjóða. Þessi gæði geta legið utan við hefðbundinn markað og falist í varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika, verndun vatnsbóla, flóðavörnum og aukinn bindingu kolefnis.

Til að tryggja hvata til verndunar lands verður samfélagið að umbuna eigendum landsins og auka þannig líkurnar á verndun vistkerfisins. Þróa þarf umræðuvettvang um vistkerfaþjónustu landeigenda og leysa þau ágreiningsefni sem kunna að koma upp í tengslum við þjónustuna. Langtíma matvælaöryggi og hagvöxtur í flestum löndum heims er háð sjálfbærri stjórnun á landi.

Land og landgæði hafa frá upphafi tengst þróun mannkynsins á margan hátt og er efnahagsleg þróun einungis einn af þessu þáttum. Land er einstök, dýrmæt og ótilfæranleg og takmörkuð auðlind. Land er undirstaða lífsviðurværis manna og eykur lífsgæði samfélaga og metið út frá gæðum þess bæði ofanjarðar og neðan.

Eignarhald á landi hefur mikil samfélagsleg áhrif, sérstaklega í fátækum samfélögum þar sem lífsgæði einstaklinga mótast af aðgengi þeirra að landi og nytjum á því. Land og eignarhald á landi er á þann hátt orsök flókinna táknrænna-, félags- og efnahagslegra samskipta og tengt ójöfnuði í samfélögum. Land er einnig miðlægur þáttur í flóknum og fjölbreytilegum félagslegum samskiptum eins og framleiðslu og neyslu.

Marglaga og fjölbreytileg einkenni lands

Árangursríkir samningar um sjálfbæra nýtingu, stjórnun og skipulagningu á auðlindum lands krefst samþættingar og þátttöku allra hagsmunaaðila sem tengjast eignarhaldi og nýtingu landsins.

Viðfangsefnin og sjónarmið hagsmunaaðila eru ólík en til að vel takist til þarf að sýna sveigjanleika og vilja til að breyta forgangsröðinni til að ná sáttum.

Land er takmörkuð auðlind sem verður að nýta skynsamlega.


Meðal þeirra sem geta átt rétt á þátttöku í ákvarðanatöku um landnýtingu eru stjórnvöld, vísindasamfélagið, bændur, hirðingjar og landeigendur, innfæddir, trúarsamtök og íbúar nágrannabyggða, náttúruverndarsinnar og náttúruverndarsamtök, fyrirtæki tengd landbúnaði og landnýtingu, skipulagsfulltrúar, listamenn, heimspekingar og fulltrúar ferðamála.

Hagsmunaaðilar hafa fjölbreyttar og ólíkar skoðanir á því hvernig nýta skal land og nota ólík hugtök til að tjá hugmyndir sínar um landið og notkun á því. Með því að nálgast viðfangsefnið á heildstæðan hátt er mögulegt að meta allar skoðanir. Þannig má stuðla að auknum skilningi ólíkra hagsmunaaðila, greina og auka líkur á samlegðaráhrifum og viðeigandi lausn og samkomulagi í átt að sjálfbærri nýtingu landsins.

Land í einkaeigu

Land í einkaeigu er tiltölulega nýtt fyrirbæri í mannkynssögunni en þrátt fyrir það ríkjandi fyrirkomulag á mörgum menningarsvæðum. Víða hefur hið opinbera yfirráð yfir stórum svæðum en annars staðar hefur verðmætt og gjöfult land verið selt til einstaklinga eða fyrirtækja.

Til að tryggja sjálfbæra nýtingu lands er ekki nóg að ákvarða hvert eignarhald og nýtingarréttur þess er.

Uppkaup og nýting ríkisins og einkaaðila á landi getur haft gríðarleg áhrif á líf fólks sem lengi hefur búið á og haft lífsviðurværi sitt af landinu án þess að hafa lagalegt tilkall til þess.

Aðgengi og gildi lands hefur alltaf verið mikils metið. Pólitískt og lagalegt umhverfi sem hvetur til að land sé í einkaeigu hefur mikil áhrif á hugmyndir og samskipti almennings við landið. Á það sérstaklega við í þéttbýli og þar sem land hefur mikið efnahagslegt gildi. Stór landsvæði hafa skipt um eigendur í viðskiptum sem eru ólík formlega og í lagalegu tilliti.

Í sumum þróunarríkjum hefur undanfarna áratugi tekist að samræma reglur um eignarhald á landi og arðsemi nytja af því. Í sögulegu samhengi hefur mikið af dreifbýli í heiminum verið í eigu stjórnvalda en verið eins konar almenningur og nýtt af frumbyggjum eða öðrum íbúum landsins. Þetta breyttist á tímabili og víða misstu frumbyggjar réttindi sín til að nýta landið. Undanfarin ár hefur í sumum löndum orðið breyting þar á í þá átt að afhenda frumbyggjum landið aftur til varðveislu.

Íbúar iðnríkja gera ráð fyrir að eignarhald á landi sé skýrt, kortlagt og byggt á  sterkum lagalegum stoðum. Víða í þróunarlöndunum er raunin önnur og eigna- og nýtingarréttur einstaklinga á landi ekki alltaf viðurkenndur og aðgengi að náttúruauðlindum deilt meðal margra án þess að nokkur einn eigi landið. Í Vestur-Afríku eru dæmi um að ólíkir neytendur, karlar, konur, bændur, hirðingjar og kirkjur, hafi sama rétt og aðgang að ólíkum landgæðum eins og beitarlandi fyrir búfé eða skógarnytjum. Einnig getur rétturinn til nytjanna verið mismunandi eftir árstímum. 

Lögbundin landnýting er oft og tíðum ekki nógu sveigjanleg til að takast á við flókið kerfi landnýtingar. Á hinn bóginn, þar sem landréttindi eru ekki formlega staðfest eða lúta stjórnvöldum, er oft auðvelt að beita þrýstingi til að komast yfir landið og auðlindir þess, samfélaginu og umhverfinu til vansa.

Í mörgum þróunarríkjum skorti fullnægjandi lög eða ekki hefur tekist að koma í framkvæmd reglugerðum sem skilgreina heimildir til landnotkunar eða eignarhalds á landi og auðlindum þess. Slíkt getur leitt til sjálftöku einstaklinga eða fyrirtækja á landi með skelfilegum afleiðingum fyrir þá sem nytja landið fyrir.

Einnig kemur fyrir að land er eignað einstaklingum eða fyrirtækjum án þess að leitað hafi verið samþykkis samfélaga sem á því búa og nytja eða að samfélögin hafi fengið bætur fyrir landtökuna.

Fjölmargir þættir geta valdið því að fólk yfirgefi dreifbýlið, til dæmis átök eða landhremming, og flytji í þéttbýli. Möguleikar til sjálfbærrar landnýtingar geta því takmarkast af lýðfræðilegum orsökum og áhrifum samtímans á frumbyggjasamfélög.

Gæslumenn lands geta aukið við eða dregið úr neikvæðum áhrifum landnýtingar.

Land í almannaþágu

Land gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að bindingu kolefnis úr andrúmslofti, hringrás lífrænna efna og vatns og annarra vistfræðilegra þátta sem gagnast samfélögum sem heild. Sé stjórn landnýtingar slæm missir landið getuna til að viðhalda vistkerfinu. Land er mósaík margra vistkerfa sem samfélag manna er hluti af. Ekki er nógu oft litið til hlutverks landsins í almannaþágu við ákvörðun um landnýtingu og áætlanagerð.

Gæslumenn lands geta aukið við eða dregið úr neikvæðum áhrifum landnýtingar og þannig skilað betra landi samfélaginu til heilla. Einfaldar ákvarðanir eins og að fella tré eða plægja gróið land losar kolefni út í andrúmsloftið og hefur þannig neikvæð áhrif á loftslagsbreytingar.

Í Nígeríu hafa vatnasvæði áa marglaga nýtingu sem tengjast ólíkum hagsmunaaðilum. Samfélög sem veiða fisk nýta landið yfir regntímann til fiskjar en bændur planta út nytjajurtum á þurrari tímum ársins. Að lokinni uppskeru nytjajurtanna nýta hirðingjar landið til beitar fyrir búfé. Í tilfelli sem þessu er erfitt að ákvarða hverjum landið tilheyrir. Réttindi til nýtingar skarast og nauðsynlegt að forðast misskilning fari af stað umræða um hefðbundið eignarhald á landi. Í mörgum tilfellum tilheyrir land og rétturinn til að nýta það samfélaginu sem samanstendur af ólíkum hópum með ólíkar þarfir til landnýtingar. Skilgreining á landrétti þarf því að greina og taka tillit til ólíkra félagslegra þátta þegar kemur að samningum um landnýtingu.

Tengslin við landið

Spurningar um eignarhald, réttindi og ábyrgð á landi eru krefjandi og flóknar og því erfitt að orða þær á einfaldan hátt. Svörin tengjast lögum og rétti til landsins og samfélagslegum venjum og hefðum um landnýtingu. Í huga margra tengist hugmyndin um land reisn, menningu og sjálfsmynd og eignarhald á landi hugmyndinni um frelsi, sjálfsmynd og öryggi. Óhindraður aðgangur að landi getur tengst sjálfsmynd fólks og vissunni um samfellu milli kynslóða. Í huga margra er nýtingarréttur á landi grundvallar mannréttindi.

Bætt landnýting stuðlar að aukinni velferð allra jarðarbúa. 

Fjöldi fólks nýtur góðs af því að yrkja og nýta landið og öðlast með því andlega og menningarlega sjálfsmynd. Að vera í beinni snertingu við landið getur leitt til betri líkamlegrar og andlegrar heilsu og styrkingar á sjálfsmynd fólks. Í samfélögum þar sem tengslin við landið eru mikil er sjálfbær nýting oft hluti af hefðinni.

Undanfarin ár hefur hugmyndinni um tilvistarrétt allra lífvera vaxið ásmegin. Hugmyndin felur í sér að allar lífverur hafi rétt til lífs í sínu náttúrulega vistkerfi. Rannsóknir sýna að hugmyndin á auknu fylgi að fagna í ólíkum samfélögum manna um allan heim og að flestum þyki sjálfsagt að koma í veg fyrir útrýmingu tegunda sé þess nokkur kostur. Gríðarlegur stuðningur fólks til að bjarga tegundum sem eru táknmyndir fyrir dýr í útrýmingarhættu, eins og tígrisdýr og pandabirnir, sem fæst fólk mun sjá í sínu náttúrulega umhverfi, sýnir að viðhald tegundanna tengist ekki eingöngu nýtingarsjónarmiðum.

Viðhorf að þessu tagi eru ríkjandi hugmyndir helstu heimspekinga og trúarbragða heimsins, sem á sama tíma krefjast ábyrgðar stjórnvalda þegar kemur að verndun lífríkisins. Leiðtogar allra helstu trúarbragða heims hafa gefið út yfirlýsingu þar sem þeir viðurkenna siðferðislega skyldu manna til að vernda það sem eftir finnst af náttúrunni.  Menningin gegnir mikilvægu hlutverki í að sameina ólík sjónarmið um það hvernig á að bregðast við breytingum á landi, landnýtingu og landslagi. Ólík menningarsamfélög hafa ólíkar skoðanir á því hvernig nýta skuli land og hvernig þróun þess skal vera. Ytri efnahagsleg öfl geta einnig haft gríðarleg áhrif á landnýtingu og jafnvel tortímt hugmyndum manna um tengsl sín við landið.

Árekstrar hefða og nútíma eru dæmigerðir fyrir hnattvæðingu samtímans og auka líkur á ósáttum vegna landnýtingar og yfirráða þeirra. Sumir telja að setja skuli markaðsvirði landsins í forgang og meta það út frá forsendum þess. Aðrir telja að land hafi virði á eigin forsendum og að þær forsendur glatist þegar einungis er litið til þess að hámarka þann efnahagslega arð sem landið geti veitt.

Niðurstaða

Viðurkenna þarf sjónarmið ólíkra hagsmunaaðila og tryggja þátttöku þeirra í ákvarðanatöku um landnýtingu, skipulag og stjórnun þess. Hvort sem land er í eigu stjórnvalda, fyrirtækja, samfélaga eða einstaklinga eru allir háðir landi hvað varða heilsu og vellíðan. Mannkynið hefur ekki efni á að líta framhjá þessari staðreynd.

Passíusálmar sr. Hallgríms
Fréttir 29. mars 2024

Passíusálmar sr. Hallgríms

Passíusálmarnir verða fluttir í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...