Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Allt flatt og prýðisgóður þurrkur.
Allt flatt og prýðisgóður þurrkur.
Á faglegum nótum 28. maí 2015

Þurrefnistap við fóðurverkun

Höfundur: Jóna Þórunn Ragnarsdóttir
Hluti allrar uppskeru af túnum (þurrefni) tapast við slátt og forþurrkun, hirðingu og söxun, í gerjunarferlinu, þegar votheysgeymslur eru opnaðar og áður en fóðrað er. Þurrefnistapið er oft mun meira en við gerum okkur grein fyrir, jafnvel getur þurrefnistap frá því grasið er slegið af rót og þar til gripirnir hafa verið fóðraðir verið um 25%.
 
Val á hirðingaraðferð, gerð votheysgeymslu og aðferðir við gjafir hafa áhrif á þurrefnistapið. Einnig hafa vinnuaðferðir okkar og veðurfar áhrif á þetta óhjákvæmilega þurrefnistap. Það er hins vegar okkar skylda að reyna að takmarka þetta þurrefnistap eftir fremsta megni.
 
Þurrefnistap við slátt, forþurrkun og hirðingu votheys
 
Öndun plöntufrumna eftir slátt er hluti af þurrefnistapinu sem verður úti á túni. Molnun og tap plöntuhluta við knosun, snúning, múgun og söxun er hægt að takmarka með breyttum vinnuaðferðum. Veðrið er hins vegar erfiðast viðureignar.
 
Öndun plöntufrumna
 
Öndun plöntufrumna heldur áfram eftir slátt, allt þar til frumurnar deyja. Frumurnar nýta auðleyst kolvetni (sykur) til sinna þarfa og hraði brennslunnar er meiri eftir því sem hitastig er hærra. Eftir því sem plönturnar þorna minnkar öndunarhraðinn. Þegar loftraki er mikill og hitastig hátt getur þurrefnistapið verið allt að 5% á dag af upphaflegu þurrefni við slátt. Hins vegar lækkar þetta hlutfall niður fyrir 2% tap við hraða forþurrkun í góðum þurrki.
 
Útskolun
 
Þegar gras liggur í sláttumúga eða því hefur verið breitt þegar kemur skúr getur orðið útskolun á auðleystum næringarefnum auk þess sem litlir plöntuhlutar geta tapast niður í svörðinn. Þetta minnkar þurrefnisuppskeru á flatareiningu auk þess sem gæðin minnka. Hins vegar getur verið erfitt að segja hvar tap vegna útskolunar hættir og tap vegna öndunar byrjar vegna þess að úrkoma bleytir í grasinu aftur svo plöntufrumurnar geta lifað lengur (hafi þær ekki verið aldauðar þegar skúrirnar komu). 
 
Grasi sem hefur náð 30-40% þurrefnisinnihaldi með forþurrkun er hættara við útskolun en nýslegnu grasi, en einnig eykur mikil knosun útskolunaráhrifin. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á útskolun á rannsóknarstofum með „gerviúrkomu“ en einnig hafa verið gerðar tilraunir úti á túni. Hins vegar sýna þessar rannsóknir sjaldan fram á meira en 2-3% þurrefnistap, jafnvel þó svo að úrkomumagnið sé umtalsvert (>20 mm). Þurrefnistapið er aftur á móti mest þegar úrkoman dregst yfir langan tíma (sbr. við sama úrkomumagn yfir styttra tímabil).
 
Tap vegna véla
 
Tap vegna molnunar er meira við „tveggja þrepa hirðingu“ heldur en við beinan slátt með sláttutætara. Við hirðingu með sláttutætara er aðaltapið vegna klaufagangs við að stjórna grasbununni í vagninn. Æfingin skapar meistarann. Eins geta bitlausir hamrar/hnífar einnig aukið þurrefnistap vegna þess að svörðurinn verður óþarflega langur og toppóttur.
 
Tap við „tveggja þrepa hirðingu“
 
Helstu fallgryfjurnar þegar slegið er á hefðbundinn hátt með sláttuvél og hirt seinna með öðru tæki eru að slegið er í rangri hæð, og þar á eftir að hirða grasið upp án mikillar dreifar. Sláttuvélar ráða misvel við gras sem hefur lagst og eins ráða þær misvel við mishæðótt og óslétt tún. Eins getur verið mikið tap við misháa stubblengd. Bitlausir hnífar og of lítill snúningshraði hnífa (eða of hratt ekið miðað við snúningshraða aflúttaks) skilur gjarnan eftir verðmæta uppskeru. 
 
Passleg stubblengd á sléttu túni er ca. 8 cm sem er lengra en fólk flest venur sig við. Hins vegar er lítil næring neðar í grösunum, auk þess sem þessi stubblengd minnkar líkurnar á moldaríblöndun við snúning, rakstur og hirðingu. Eins leikur loftið betur um svörðinn og þar með slegna grasið, svo það þornar fyrr en ella. Auk þess nær túnið sér fyrr á strik með endurvöxt, svo nægilega há stubblengd eykur einnig uppskeru í næsta slætti. Forþurrkun í marga sólarhringa dregur úr uppskeru næsta sláttar.
 
Tap við slátt
 
Greiðusláttuvélar valda yfirleitt minna þurrefnistapi en diska­sláttuvélar (á hvaða öld lifa þessir tilraunamenn eiginlega?) en munurinn liggur ekki bara í því að minna tapast niður í svörðinn heldur líka í því hversu harkalega meðferð grasið fær við slátt. Sláttuvélar með knosara geta einnig aukið hættuna á þurrefnistapi, en munurinn á vélum með og án knosara eru um 1-2% af þurrefni við samskonar aðstæður. 
Knosun eykur hraða forþurrkunar liggi grasið í sláttumúga, en hefur lítil sem engin áhrif sé grasinu breitt með sláttuvélinni, ekki fyrr en þurrefnishlutfallið er komið upp fyrir 30-35%. Í lélegum þurrki er ávinningur af knosara því fyrst og fremst sá að sópvindan nær betra taki á grasinu við hirðingu.
 
Tap vegna molnunar
 
Stærstur hluti þurrefnis sem tapast við slátt og forþurrkun tapast vegna molnunar en sú molnun verður að mestu leyti þegar þurrefni er komið upp fyrir 50%. Það þarf því sérstaklega að beita heyvinnutækjum varlega þegar þurrefni nálgast 70%. 
 
Blaðríkt gras brotnar frekar en stöngulríkt. Belgjurtir þola enn verr mikla meðferð við forþurrkun. Dreif, svo sem í hjólförum og lægðum, þýðir mikið tap. Vönduð vinnubrögð við jarðvinnslu og eins snúning og rakstur draga hins vegar úr slíku tapi. 
 
Við slátt, snúning og rakstur er hætta á að grasið mengist af jarðvegi ef heyvinnutæki eru rangt stillt eða ógætilega er ekið. Sé þykkt graslag á túni er hætta á því að túnið undir þorni seint og illa auk þess sem grasið sjálft þornar hægt. Þetta eykur einnig líkurnar á að örverur og mygla nái að tímgast og fjölga sér sem leiðir af sér óheilbrigðara fóður.
 
Rúllubindivél tapar þurrefni á milli rúlla, og eins þegar rúlla er flutt milli rúlluhólfs og pökkunarborðs. Þetta er allajafna næringarríkasta efnið sem dettur niður á milli (blaðverk og auðmeltir hlutar plöntunnar). Í heilsæðistilraunum hefur mælst yfir 5% þurrefnistap úr lauskjarna rúlluvélum með hnífum, en helmingi minna tap í fastkjarna rúlluvélum og vélum sem ekki eru búnar söxunarbúnaði. Þegar gras er bundið í rúlluvél mælist tap vegna molnunar alla jafna 2%. Í forþurrkuðu heyi (meira en 35% þurrefni) getur heildar tap þurrefnis sem vélar valda verið um 15% af heildaruppskeru. Sé hey bundið með sambyggðri rúllu- og pökkunarvél er rétt að bakka 2-3 metra eftir að rúlla hefur verið flutt úr rúlluhólfi yfir á pökkunarborð til að hirða upp dreifina sem fellur niður á milli við flutninginn.
 
Tap á geymsluskeiði Öndun grass og örverustarfsemi við þjöppun (hitamyndun)
 
Þegar votheyi er keyrt í stæður og því þjappað eru plöntufrumurnar enn á lífi. Öndun þeirra brennir sykri og súrefni, til verður koltvísýringur (CO2), vatn og hiti. Framleiddur koltvísýringur er beint þurrefnistap, en koltvísýringurinn gufar upp án þess að við tökum mikið eftir því. Hins vegar tökum við eftir hitamynduninni sem verður við ferlið. Ef hitamyndunin nær að verða umtalsverð geta örverur eins og myglusveppir fjölga sér mikið. Hitamyndun verður meiri eftir því sem þurrefnisinnihald votheys er meira, með auknum grófleika fóðursins og eftir því sem lofthiti eykst. Hins vegar er hægt að minnka hitamyndun með söxun svo grasið þjappist betur í stæðu, með því að nota íblöndunarefni með sýru (miða við uppgefinn skammt af efninu), með því að þjappa vel í stæðunni og með því að loka henni fljótt og vel til að útiloka utanaðkomandi súrefni. Hitamyndun verður síst þegar notaðar eru sambyggðar rúllu- og pökkunarvélar. Almennt er hitamyndun lítið vandamál við hirðingu rúlla, nema þegar líður langur tími frá bindingu að pökkun. Rúllupökkun skal lokið innan tveggja tíma frá því hey var bundið í rúlluna.
Yfirborðsstærð votheysgeymslna og áfyllingarhraði verða að haldast í hendur. Mjög breið flatgryfja eða votheysstæða er einhver erfiðasta geymsluaðferðin þegar kemur að því að lágmarka þurrefnistap við íkeyrslu. Það verður að fara saman sæmilegur íkeyrsluhraði og einnig nægileg þjöppun og jöfnun til að lágmarka þurrefnistap. Þunn lög af grasi og þungar vélar til að þjappa nægilega skipta miklu máli hér, mun frekar en hraði íkeyrslu. Rúmþyngd votheys í stæðum er mest í miðri stæðu (þversnið) en einnig í neðstu lögum. Út með köntum og efst reynist oft erfiðara að þjappa og fergja nægilega vel, svo þurrefnistap (skemmdir) koma helst fyrir þar. Oft er betra að hafa langa og mjóa votheysstæðu heldur en stutta og breiða. Hraði gjafa yfir veturinn skiptir einnig máli.
 
Gerjun við loftfirrtar aðstæður
 
Þurrefnis- og orkutap í verkunar­ferlinum veltur á því hvaða örverur sjá um gerjunina og eins af hraða hennar. Hita- og sykurtap á meðan á fyllingu votheysstæðu stendur veldur takmörkuðum votheysgæðum. Smjörsýrugerjun getur fræðilega valdið 51% þurrefnistapi og orkutapi upp á 18%, en þrátt fyrir mjög slæma verkun í gróffóðri getur hluti af fóðrinu verið í lagi eða amk. minna skemmt, svo meðal þurrefnistap liggur í kringum 20%. Þurrefnistap í verkunarferlinum getur verið allt að 1% af upphaflegu þurrefni við slátt. Minnsta þurrefnistap næst með hreingerjun mjólkursýrubaktería, en einnig þegar lítil gerjun verður í gróffóðri eftir nægilega forþurrkun. Einnig er hægt að lágmarka gerjun í votheyi með því að nota sýru-íblöndunarefni sem lækkar sýrustig votheysins hratt og örugglega svo tap á næringarefnum helst í lágmarki. Votheysgeymslur og rúllur þurfa að vera fullkomlega loftþéttar til að tryggja bestu gerjunargæði. Lélegt plast, göt á plasti, röng strekking plasts á rúllum/stórböggum og of lítið plast eykur innstreymi súrefnis inn í rúllur og stæður svo gerjun af völdum loftháðra örvera heldur áfram. Gerjunin getur orðið svo umtalsverð að eina í stöðunni verður að henda fóðrinu, s.s. 100% þurrefnitap. Það er hins vegar erfitt að ná fram fullkomnum frágangi ofan á stæðum, en með dugnaði og elju er hægt að lágmarka þurrefnistapið.
 
Munur milli viktaðs magns sem fer í stæðuna og þess sem er tekið úr henni (fóðrað) sýnir okkur heildar þurrefnistapið í geymslu. Hins vegar getur það reynst þrautin þyngri að skilja á milli þátta hve miklu tapi hver og einn veldur. Með vönduðum vinnubrögðum er hægt að koma þurrefnistapinu í geymslu allt niður í 2-3%, en allajafna liggur þetta hlutfall í kringum 7-10%. Í Eurowilt-tilraununum sem fóru fram í Evrópu á 9. áratugnum var þurrefnistap vegna öndunar og gerjunar metið um 7-9% í grasi sem forþurrkað var upp að 35% þurrefni. Gras sem slegið er með sláttutætara (með u.þ.b. 19% þurrefni) hafði um 16% þurrefnistap (meðtalið þurrefnistap með votheyssafa). Í nýlegum, sænskum tilraunum var þurrefnistap vegna öndunar og gerjunar í vel forþurrkuðum rúllum, sem voru með heilan plasthjúp, um 1-3%.
 
Votheyssafi
 
Þurrefnistap með votheyssafa markast einna helst af þurrefnisinnihaldi í grasinu sem verka á. Við verkun á mjög blautu votheyi (u.þ.b. 15% þurrefni) í votheysturni getur þurrefnistap með votheyssafa verið allt að 15%. Algengt er að þurrefnistap í votheyi sem slegið er með sláttutætara sé um 5-10% og er hverfandi ef þurrefnisinnihaldið er komið um og yfir 30% í hirtu grasi. Minni votheyssafi verður í stæðum og flatgryfjum vegna minni hæðar (og þar með minna fargs). Afrennsli votheyssafa mælist varla úr flatgryfjum og stæðum nái þurrefnishlutfallið 28% og við 25% hættir afrennsli úr rúllum.
 
(Þýtt og staðfært úr Buskap 3/2015)
Jóna Þórunn Ragnarsdóttir
Ráðunautur í fóðrun
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
jona@rml.is

4 myndir:

Nokkrir bændur meðal styrkhafa
Fréttir 14. júní 2024

Nokkrir bændur meðal styrkhafa

Matvælaráðherra úthlutaði tæpum 500 milljónum króna úr Matvælasjóði þann 5. júní...

Ekkert hægt að gera
Fréttir 14. júní 2024

Ekkert hægt að gera

Æðarbændur fóru ekki varhluta af kulda og úrkomu á Norður- og Austurlandi í byrj...

Hretið seinkar vorverkum
Fréttir 13. júní 2024

Hretið seinkar vorverkum

Óveðrið sem gekk yfir Norður- og Norðausturland á dögunum hafði aðallega þau áhr...

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum
Fréttir 13. júní 2024

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum

Í byrjun maí sendi ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, erindi til matvælaráðuneytisins þ...

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar
Fréttir 13. júní 2024

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar

Matvælaráðherra hefur sett á laggirnar viðbragðshóp vegna þeirra erfiðleika sem ...

Bein og langvinn áhrif á búgreinar
Fréttir 13. júní 2024

Bein og langvinn áhrif á búgreinar

Matvælaráðherra stofnaði þann 7. júní sérstakan viðbragðshóp vegna ótíðarinnar á...

Sjálfbærninám á háskólastigi
Fréttir 12. júní 2024

Sjálfbærninám á háskólastigi

Fulltrúar Háskóla Íslands (HÍ) og Hallormsstaðaskóla hafa staðfest samstarfssamn...

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar
Fréttir 11. júní 2024

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar

Íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs er komið í samstarf við breska fyri...