Þurfum við tolla á íslensk matvæli?
Samhliða umræðu um aukinn innflutning á kjöti og osti hafa komið fram áhyggjur af að sífellt sé erfiðara fyrir bændur á Íslandi að keppa við ódýrar innfluttar landbúnaðarvörur og í því samhengi hafa verið skiptar skoðanir um tollvernd en áhugavert er að rýna í hversu hátt hlutfall af innflutningsverði á kjöti og osti eru tollar.
Hátt í 90% tollskrárnúmera landbúnaðarvara eru tollfrjáls í gegnum viðskiptasamninga við ESB. Hins vegar hefur tollvernd verið ein af meginforsendum þess að bændur á Íslandi geti sinnt innlendri landbúnaðarframleiðslu. Án opinbers stuðnings gætu bændur ekki tryggt neytendum íslenskar landbúnaðarafurðir.
Tollar á kjöt og ost eru bæði í formi magn- og verðtolla en með fríverslunarsamningum við ESB hefur heimild til að flytja inn kjöt og ost án tolla verið aukin talsvert frá 2018, þ.e. aukning á tollkvótum. Frá 2018 til 2022 var því verulegur viðsnúningur, þar sem innflutningur á þessum vörum var nánast allur innan tollkvóta. Þess ber að geta að áhrifa frá Covidtímabili 2020 til 2021 gætti einnig þar sem innflutningur á landbúnaðarvörum var mjög takmarkaður á þeim tíma. Frá árinu 2022 jókst hins vegar innflutningur talsvert utan tollkvóta á alifuglakjöti og svínakjöti en einnig á nautakjöti og frá árinu 2023 á unnum kjötvörum og osti.
Ef horft er til heildarinnflutnings á kjöti og osti og hve mikið var flutt inn af þessum vörum utan tollkvóta fyrir árið 2024, þá má sjá að það var 46% fyrir svínakjöt, rétt ríflega 40% fyrir nautakjöt og alifuglakjöt, 32% fyrir unnar kjötvörur og 27% fyrir osta.
Þá má velta upp þeirri spurningu hvað sé verið að greiða í toll af þessum vörum. Ein leið er að taka vegið meðaltal af heildartolli í hverjum vöruflokki og reikna það sem hlutfall af innflutningsverði. Er þá einnig tekinn útboðskostnaður með í heildartolli. Ef horft er til heildarinnflutnings varanna á tímabilinu 2020 til 2024 þá var veginn meðaltollur á nautakjöt 17% árið 2020 og fór í 55% árið 2023 en lækkaði í 46% árið 2024. Veginn meðaltollur á svínakjöt var um 40% 2020 og 2021 en hækkaði í 89% árið 2022 og 96% árið 2023 en lækkaði aftur í 86% árið 2024. Veginn meðaltollur á alifuglakjöt fór úr 56% árið 2020 í 84% árið 2021, hækkaði áfram í 102% árið 2022 en lækkaði í 85% 2023 og var nánast óbreytt árið 2024. Veginn meðaltollur á unnar kjötvörur hefur hækkað nokkuð jafnt frá árinu 2020 til 2024, var 54% 2020 en var kominn í 90% árið 2024. Veginn meðaltollur á osta hefur hins vegar haldist nokkuð óbreyttur frá 2020 til 2024 eða í kringum 60%.
Eðlilega koma oft upp vangaveltur hvort ekki megi bæta hag neytenda með því að fella alfarið niður tolla á matvæli. En á sama tíma vill fara minna fyrir umræðu um gæði þeirra landbúnaðarvara sem fluttar eru inn til landsins og íslenskar landbúnaðarafurðir þurfa að keppa við. Þá er einnig þeirri spurningu ósvarað hvort lækkun á tollum myndi skila sér að fullu í lægra vöruverði til neytenda. En mikilvægast í þessu samhengi er að starfsskilyrði og kjör þeirra sem stunda landbúnað verði sambærileg við aðrar atvinnugreinar í landinu. Þannig styðjum við jafnframt við fæðuöryggi landsins.