Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Gunnar Rúnar Kristjánsson.
Gunnar Rúnar Kristjánsson.
Lesendarýni 29. janúar 2018

Tekjuskerðing bænda með sauðfé

Höfundur: Gunnar Rúnar Kristjánsson sauðfjárbóndi, Akri.
Á aukaaðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda voru samþykktar tillögur vegna bágrar stöðu sauðfjárbænda. Megintillagan var að ríkið legði fram um 650 milljónir króna sem innleggjendur dilkakjöts fengju greitt aukalega til að koma í veg fyrir algjört hrun í rekstri búa með sauðfé og til að hindra stórfellda byggðaröskun eins og stendur í ályktuninni. Skilyrði fyrir aukagreiðslu miðist við að viðkomandi byggi á lögbýli og hefði haft 100 vetrarfóðraðar kindur haustið 2016 samkvæmt haustskrá Matvælastofnunar. 
 
Á lokadegi Alþingis (30. desember 2017) voru meðal annars samþykkt fjáraukalög með 665 milljóna króna framlagi til að koma til móts við tekjusamdrátt sauðfjárbænda. Oft hefur ríkið gripið inn í þegar vandi hefur verið í sauðfjárrækt en aldrei með þessum hætti. Í raun er ríkið að aðstoða afurðastöðvarnar til að greiða „ásættanlegt“ verð fyrir dilkakjöt. Ég man ekki eftir því að aðrar atvinnugreinar hafi fengið svona ríkisstyrk. Þrátt fyrir lágt fiskverð á mörkuðum grípur ríkið ekki inn í með að greiða mismuninn á markaðsverði fyrir fisk og „ásættanlegs“ verðs. Annað sem veldur furðu er að þetta framlag er í fjáraukalögum fyrir 2017 en ekki í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár. Sjálfsagt liggja einhverjar rökstuddar ástæður fyrir þessu en ég hef ekki „komið auga á þær“. Skilgreiningin á hlutverki fjáraukalaga var breytt með lögum um opinber fjármál (123/2015) og er mun þrengra en áður var, m.a. til að draga úr vægi og umfangi þeirra.
 
 
Það er vissulega gleðiefni fyrir suma okkar sem búum með sauðfé að fá þennan viðbótarstuðning og kemur sér örugglega vel. Landbúnaðarráðherra hefur þó valið að veita einungis 400 milljónir til bænda sem eru með 150 vetrarfóðraðar kindur samkvæmt haustskráningu Matvælastofnunar. Aukreitis fara 150 milljónir til bænda sem njóta svæðisbundins stuðnings sem er skilyrt við 300 vetrarfóðraðar kindur samanber 22. grein reglugerðar nr. 1183/2017. 65 milljónum á að verja til að gera úttekt á afurðastöðvakerfinu og 50 milljónunum sem eftir eru verður varið til vöruþróunar og markaðssetningar. Land­búnaðarráðherra og ríkisstjórninni finnst greinilega nóg að styrkja þorra bænda með sauðfé um 400 milljónir í stað 650 milljóna sem aukaaðalfundur LS ályktaði um. Auk þess finnst landbúnaðarráðherra og ríkisstjórninni sjálfsagt að styrkja bændur sem búa á svæðum  þar sem sauðfjárbændur hafa takmarkaða atvinnumöguleika vegna fjarlægðar frá þéttbýli samkvæmt skilgreiningu Byggðastofnunar. Reglurnar verða svona þó svo að bændur með sauðfé og búa á lögbýlum urðu allir fyrir tekjuskerðingu vegna verðlagningar sláturleyfishafa á haustinnleggi 2017. 
 
Í stjórnarsáttmála ríkis­stjórnarinnar er sérstaklega tilgreint að bregðast beri við vanda sauðfjárbænda til skemmri eða lengri tíma. Er verið að bregðast við vanda allra sauðfjárbænda með þeirri leið sem valin er? Svari hver fyrir sig. Hvað segir það að stuðningurinn er miðaður við meira en 150 vetrarfóðraðar kindur annars vegar og 300 vetrarfóðraðar kindur hins vegar? Eru bændur sem búa á lögbýlum en uppfylla ekki ofangreind skilyrði hobbý-bændur? Skilyrðin með 150 vetrarfóðraðar kindur eru hugsanlega til að takmarka stuðninginn við bændur með sauðfé (og hross) eingöngu en t.d. ekki með nautgriparækt sem aðalbúgrein. Hvaða rök eru fyrir því að hluti stuðningsins er greiddur til bænda á grundvelli 22. greinar reglugerðar nr. 1183/2017? Ég hef ekki heyrt nein rök. Með þessum aðgerðum stjórnvalda segjast stjórnvöld vera að bregðast við tekjusamdrætti bænda með sauðfé til skemmri og lengri tíma. Það kemur hvergi fram í stjórnarsáttmála að bregðast þurfi við vanda afurðastöðva (t.d. vöruþróun og markaðssetningu kindakjöts) eða að bregðast verði sérstaklega við tekjuvanda sumra bænda sem búa á svæðum sem Byggðastofnun skilgreinir sem sérstök búfjársvæði sauðfjár. Sauðfjárbændur með Landssamtök sauðfjárbænda í broddi fylkingar eiga að krefjast svara frá landbúnaðarráðherra um tilhögun stuðningsgreiðslna. Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti er stjórnvaldsstofnun eins og önnur ráðuneyti. Ráðherra ber að fylgja stjórnvaldslögum og upplýsingalögum og ber að gera grein fyrir ráðstöfum þessara fjármuna ef fram koma spurningar og athugasemdir.
 
Fyrr í greininni lagði ég fram rök fyrir því að stuðningurinn er í raun stuðningur til sláturhúsa sem ekki gátu/vildu greitt/greiða hærra verð fyrir innleggið á síðastliðnu hausti. Það hefði kannski verið betra að sláturhúsin hefðu fengið þennan stuðning með því skilyrði að þeir greiddu það áfram til innleggjenda kindakjöts.
 
Ríflega 100 milljónir eiga að fara í að gera úttekt á afurðastöðarkerfinu, til vöruþróunar og markaðssetningar. Það er eflaust þarft að gera úttekt á afurðastöðvakerfinu en ég sé ekki hvernig það leysir tekjuvanda sauðfjárbænda til skemmri eða lengri tíma. Í úttektinni þarf fyrst og fremst að finna orsök þess að sláturhúsin geti ekki greitt hærra verð en var síðastliðið haust og af hverju þau hafa verið að greiða mun hærra verð en þau réðu við undanfarin ár. Upplýsingar sem fást með úttektinni um leiðir til að bæta greiðslugetu sláturhúsa til bænda þarf síðan að setja framkvæmd innan ekki svo langs tíma. Vöruþróun og markaðssetning er góðra gjalda verð en hún á ekki heima meðal bænda nema í mjög litlum mæli (Beint frá býli). Bændur selja sína framleiðslu við sláturhúsvegg og hafa ekkert um það að segja hvernig sláturhúsin koma sinni vöru á markað. Þannig verður að skoða ferlið frá afurðastöðvum til neytenda. Bændur geta lagt hágæða vöru í púkkið þar sem m.a. kemur fram að við framleiðsluna er sýklalyfjanotkun í lágmarki, dýravelferð í hávegum höfð og framleiðslan fer fram í sátt við umhverfið. 
 
Stuðningur við sauðfé samkvæmt gildandi sauðfjársamningi nemur ríflega 4,9 milljörðum króna fyrir árið 2017. Með aukastuðningi ríkisins að upphæð 665 milljónir mun stuðningurinn á árinu 2017 nema tæpum 5,6 milljörðum. Hætt er við að þessi upphæð muni koma fram hvað eftir annað í umræðu um styrki til framleiðslu kindakjöts. Þannig munu fulltrúar bænda þurfa að leiðrétta þennan miskilning í tíma og ótíma. Skilar það uppbyggilegri umræðu um styrki til landbúnaðar? Svari hver fyrir sig. Í þessu sambandi er mikilvægt að Landssamtök sauðfjárbænda auglýsi hvernig stuðningur vegna sauðfjársamnings er samkvæmt viðauka 1 með samningnum og bæti þar við 665 milljóna stuðningnum.
 
Gunnar Rúnar Kristjánsson
sauðfjárbóndi, Akri.
Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...