Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Talning á hrossum er enn í ólestri og möguleg skekkja 15.431 hross
Mynd / Bbl
Fréttir 12. maí 2022

Talning á hrossum er enn í ólestri og möguleg skekkja 15.431 hross

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Heildarfjöldi búfjár í landinu um áramót 2021 var 1.236.267 dýr. Inni í þeirri tölu er nautgripa­stofninn, sem taldi 80.563 gripi, sauðfjárstofninn með 385.194 vetrarfóðrað fé og svínastofninn með 10.166 gyltur og gelti. Þá eru tvær tölur gefnar upp um hrossastofninn, annars vegar 54.069 og hins vegar áætluð tala upp á 69.500 hross.

Sauðfé heldur áfram að fækka í landinu, samkvæmt fyrirliggjandi tölum taldist ásett fé um síðustu áramót vera 385.194. Hefur sauðfé ekki verið færra á Íslandi í 161 ár, eða síðan 1861 þegar talsverð fækkun varð vegna fjárkláða og stofninn fór þá niður í 327.000.

Í öðrum búfjárstofnum hafa ekki orðið miklar sveiflur ef alifuglar eru undanskildir þar sem varð gríðarleg aukning 2016, en síðan fækkun á milli áranna 2019 og 2020 upp  á  153.327 fug­la. 

Eins hefur orðið mikill niður­skurður í minkastofninum á síðustu tveimur árum.

Tölur um hrossaeign landsmanna enn í mikilli óvissu

Tölur um hross landsmanna hafa verið mjög á reiki síðan talning forðagæslumanna var aflögð fyrir nokkrum árum. Á árunum 1990 til 2009 fór fjöldi hrossa aldrei undir 70 þúsund undir vökulum augu þeirra. Flest voru þau talin árið 1996, eða 80.595. Árið 2009 var fjöldinn talinn vera 77.291 hross, en hrundi skyndilega niður í 55.781 árið 2010 af einhverjum undarlegum ástæðum. Ekki kom það samt fram í aukningu á hrossakjöti á markaðnum þótt þeim fækkaði skyndilega um 21.510 hross.

Mikið misræmi kom líka fram í tölum um hrossafjöldann árið 2013 þegar Hagstofa Íslands sagði hrossin vera  72.626, en Búnaðarstofa Mast, sem þá hafði tekið við yfirumsjón með talningunni, sagði þau vera 53.021. Bent var á þetta misræmi í Bændablaðinu í sumarbyrjun 2014 og vísaði Mast þá til ófullnægjandi skila á haustskýrslum og minni eftirfylgni með skilum á tölum sem forðagæslumenn höfðu áður sinnt. Allar götur síðan hefur ekki tekist að fá áreiðanlegar tölur um hrossastofninn í landinu. 

Skekkja upp á 15.431 hross!

Hross voru á síðasta ári 54.069  sam­kvæmt samantekt matvæla­ráðun­eytisins, sem nú heldur utan um þessi gögn. Óvissan um rétta talningu er hins vegar enn gríðarleg og gefur ráðuneytið sjálft því líka upp áætlaðan fjölda hrossa á árinu 2021, eða 69.500 hross. Þarna munar 15.431 hrossi sem hlýtur að teljast algjörlega óviðunandi niðurstaða.

Alifuglarækt hefur lengst af á síðustu 40 árum verið umfangsminni en sauðfjárræktin. Árið 1981 voru hér samkvæmt Mælaborði landbúnaðarins  416.799 varphænsni og holdahænsni samanlagt. Auk þess voru 1.363 endur. Alifuglarækt fór vaxandi til 1985 þegar stofninn taldist vera 584.904 fuglar. Þá var sauðfé til samanburðar 710.190. Nú er stofninn sagður 689.616, en sauðfjárstofninn kominn niður í 385.194. Var sauð- fjárstofninn því í fjölda um síðustu áramót kominn niður í tæplega 56% af alifuglastofninum.

Alifuglaræktin var í mestri lægð 2001

Frá 1985 til 2001 fór alifuglarækt hrakandi þó með tveim uppsveiflum, þ.e. 1990 og 1999, en  var samt langt undir sauðfjárfjöldanum. Neðst fór alifuglaræktin í 207.102 fugla á árinu 2001, en fór síðan hratt stígandi fram til 2007 þegar alifuglaræktin fór í fyrsta sinn fram úr sauðfjárræktinni. Þá töldust alifuglar í landinu vera 469.682, en sauðfé 456.007. Eftir þetta varð hökt á alifuglaræktinni fram til 2015 þegar stofninn taldist vera 249.044 fuglar.

Á árinu 2016 varð gríðarlegt stökk og á einu ári stækkaði alifugla­stofninn um 793.424 fugla og fór upp í  1.042.468. Þetta er aukning upp á rúm 318,5%. Það sama ár talist sauðfjárstofninn vera 476.647 skepnur.

Um síðustu áramót taldist alifugla­stofninn í heild  vera 689.616. Það er veruleg fækkun frá árinu 2020, þegar alifuglastofninn var talinn vera 842.943 fuglar.

Það eru varphænsni eldri en 5 mánaða, holdahænsni eldri en 5 mánaða, lífungar yngri en 5 mánaða,  kjúklingar, endur, gæsir, kalkúnar og aðrir alifuglar. Erfitt er þó að henda nákvæmar reiður á fjöldann, sem er mjög breytilegur innan ársins og innan mánaða vegna hraðs vaxtar og örrar slátrunar.

Varphænum fækkar um helming 

Athyglisvert er að varphænsnum hefur fækkað um rúmlega helming á milli ára, eða úr 203.643 í 100.565 fugla. Þær voru hins vegar 231.901 árið 2018.

Holdahænsni töldust vera 44.813 um síðustu áramót og fjölgaði um 7.603 fugla milli ára. Vantar samt talsvert upp á að þær nái fjöldanum 2019 þegar þær voru 61.974. /HKr.

– Sjá nánar á  bls. 2 í nýju Bændablaði

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa
Fréttir 31. janúar 2023

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur lokið við greiningu á rekstri 154 kú...

Skordýr sem fóður og fæða
Fréttir 31. janúar 2023

Skordýr sem fóður og fæða

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er unnið verkefni sem snýr að því að koma upp sko...

Arabískt fyrirtæki fjárfestir í Atmonia
Fréttir 30. janúar 2023

Arabískt fyrirtæki fjárfestir í Atmonia

Efnafyrirtækið Sabic Agri-Nutrients hefur keypt einkarétt á notkun tækni Atmonia...

35 kindur drápust í bruna
Fréttir 30. janúar 2023

35 kindur drápust í bruna

„Aðkoman var óhugnanleg og þetta er mikið áfall,“ segir Guðjón Björnsson, bóndi ...

Innflutningur erfðaefnis skilar góðum árangri
Fréttir 27. janúar 2023

Innflutningur erfðaefnis skilar góðum árangri

Samkvæmt niðurstöðum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) úr skýrsluhaldi na...

Verðskrá Skeljungs og Fóðurblöndunnar
Fréttir 27. janúar 2023

Verðskrá Skeljungs og Fóðurblöndunnar

Skeljungur og Fóðurblandan hafa birt verðskrá fyrir þær tegundir af áburði sem f...

Ekkert veiðibann á döfinni
Fréttir 26. janúar 2023

Ekkert veiðibann á döfinni

Veiðibann á grágæs hefur ekki tekið gildi á Íslandi og ekki stendur til að banna...

Stakkhamar 2 skýst upp á toppinn yfir afurðahæstu kúabúin miðað við meðalnyt
Fréttir 26. janúar 2023

Stakkhamar 2 skýst upp á toppinn yfir afurðahæstu kúabúin miðað við meðalnyt

Stakkhamar 2 í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi hefur skotist á toppinn ...