Tækniskólinn fékk veglega gjöf sem nýtist vel við kennslu í pípulögnum
Þann 13. mars síðastliðinn var Tækniskólanum gefin vegleg gjöf til verklegrar kennslu nemenda í pípulagningum. Gjöfin samanstendur af hitaveitugrind, skáp, hemli og forðakút sem ætlað er til uppsetningar í sumarhús þar sem hitaveita er takmörkuð gegnum hemil. Að gjöfinni standa Gjöfull varmagjafi, Tengi, Blikksmiðjan Vík og Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita (Hitaveita Grímsnes- og Grafningshrepps).
Kennarar við pípulagningadeild Tækniskólans, Böðvar og Gunnar, tóku við gjöfinni ásamt skólastjóranum Gunnari Kjartanssyni. Þá mættu fleiri góðir gestir við afhendinguna og má þar nefna formann FIT, Hilmar Harðarson, ásamt Helga Pálssyni þjónustufulltrúa ásamt fleiri góðum gestum og velunnurum.
Kemur sér vel fyrir nemendur
„Okkur sem stöndum að gjöfinni þykir mikilvægt að nemendur í iðngreinum hafi aðgang að góðum búnaði til að vinna með í verklegri kennslu, enda eru það þessir nemendur sem munu síðan lifa og starfa í þeirri iðn sem þeir hafa valið sér. Okkur þótti því tilvalið að gefa Tækniskólanum búnað sem notaður er á markaðnum í dag sem án efa kemur sér vel fyrir nemendur að námi loknu,“ segir Sandra Björg Gunnarsdóttir, upplýsinga- og markaðsfulltrúi Gjöfuls varmagjafa.
Sumarhúsaeigendur eiga það margir sameiginlegt að vera með hitaveitu sem gefur að jafnaði 3–5 lítra af heitu vatni gegnum hemil.
„Rennsli heita vatnsins í sumarhúsum er því ekki á pari við það sem gerist og gengur í þéttbýlum landsins,“ segir Gísli Tómasson pípulagningameistari.
Algengt er að hitaveita sé leidd beint inn á neysluvatnskerfi sumarhúsa, en það skapar einnig aukna hættu á kostnaðarsömum tjónum. Í því samhengi er vert að benda á að hitaveituvatn er ekki skilgreint sem neysluvatn og því ekki æskilegt að leiða það inn á neysluvatnslagnir innanhúss. Efnainnihald í hitaveituvatni veldur mikilli útfellingu í og við blöndunartæki sem skerðir endingartíma þeirra með tilheyrandi kostnaði.
Hægt er í einhverjum tilfellum að kaupa aukið magn af heitu vatni gegnum hemilinn en þó svo sé gert verður þrýstingur á heitu vatni aldrei til jafns við það kalda og aukinn fastur kostnaður leggst á sumarhúsaeigendur í kjölfarið.
„Þetta er það sem búnaðurinn í heild sinni kemur í veg fyrir,“ segir Gísli en tenging forðakúts við hitaveitugrind með hemli sér til þess að jafn þrýstingur verður á heitu og köldu neysluvatni.
Með þessari samsetningu búnaðar er hægt að koma í veg fyrir lakan endingartíma neysluvatnslagna og blöndunartækja og koma í veg fyrir kostnaðarsöm tjón sem fylgja því þegar hitaveituvatn er tengt beint inn í lagnir húsa.
Bæði kennarar og skólastjóri tóku undir þau orð Söndru Bjargar að gjöfin muni nýtast vel nemendum en að auki benti Böðvar á að fyrirtæki ættu að sjá hag sinn í að veita gjafir sem þessa, enda uppskeri fyrirtæki sterkari iðnmenntað fólk út á vinnumarkaðinn í kjölfarið.
Efla verkfræðistofa fengin til að gefa umsög um búnaðinn
Verkfræðistofan Efla var að beiðni Gjöfuls fengin til að skoða hitakút og tengibúnað fyrirtækisins fyrir sumarhús sem eru tengdar við óstöðugar hitaveitur. Hitakúturinn (forðakútur) er staðsettur utandyra við hlið tengigrindar (inntaksgrind) til að lágmarka líkur á vatnstjóni innanhúss sem getur orðið á köldum vetri ef hitaveita slær út og vatn frýs í lögnum. Tengibúnaðurinn sem Gjöfull ehf. framleiðir samanstendur af spíral sem er tengdur við hitaveitu og er ætlað að hita upp kalt vatn til neyslu í sumarhúsinu. Eftir að hitaveituvatnið hefur runnið í gegnum spíralinn er það látið flæða í gegnum varmaskipti fyrir upphitun á sumarhúsinu.
Kosturinn við framangreindan tengibúnað er að hitaveituvatnið rennur í gegnum tengibúnaðinn og varminn nýttur án þess að hitaveituvatn fari inn fyrir húsvegg á sumarhúsinu. Gjöfull hefur sett upp hitabúnað á 25 sumarhúsum sem er tengdur eins og meðfylgjandi tengimynd sýnir. Kostur er að búnaðurinn jafnar út sveiflur á innflæði frá hitaveitu og notar upphitað kalt vatn fyrir neyslukerfi hússins. Í niðurstöðu Eflu segir enn fremur:
Á tengigrind er aðeins öryggisloki á inntaki á köldu vatni og því þarf að ganga úr skugga um að allur búnaður sé vottaður fyrir hærri þrýsting en hæsti mögulegi veituþrýstingur. Tankurinn sem Gjöfull notast við er CE vottaður og framleiddur af viðurkenndum framleiðanda. Prófunarþrýstingur tanksins er uppgefinn 13 bör frá framleiðanda og vinnuþrýstingur 10 bör. Í flestum litlum hitaveitum nær veituþrýstingurinn aldrei svo hátt og því er öryggisloki óþarfur á inntaki hitaveitu (tryggja þarf að veituþrýstingur geti ekki orðið hærri t.d. að öryggisloki sé á veitunni).
Í tilfellum þar sem hitaveitan slær út í miklu frosti, kólnar fljótt í tanknum og getur frosið í honum. Tankurinn er 160L og einangraður og því mun tengigrindin alltaf frjósa á undan tanknum. Kostur við búnaðinn frá Gjöful er að frosthættan hefur verið færð utandyra þar sem tankurinn er staðsettur utan við sumarhúsið.
Með upphitun á köldu vatni í forðatanknum er komið í veg fyrir að sveiflur í flæði hitaveitunnar skili sér í neysluvatn með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa. EFLA hefur ekki lagt mat á afköst spíralsins í tanknum né reglun á framrásarhitastigi neysluvatnsins.