Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sýklalyfjaónæmar bakteríur greinast í Danmörku
Fréttir 17. desember 2015

Sýklalyfjaónæmar bakteríur greinast í Danmörku

Höfundur: Vilmundur Hansen

Bakteríur sem eru ónæmar fyrir öllum þekktum sýklalyfjum hafa verið greindar í Evrópu í fyrsta sinn. Bakteríurnar greindust í sjúklingi í Danmörku en því er spáð að bakterían greinist einnig fljótlega á Bretlandseyjum.

Sýklalyfjaónæmar bakteríur greindust í Evrópu í fyrsta sinn fyrir skömmu. Samkvæmt danska sóttvarnareftirlitinu er um að ræða E. coli bakteríu sem er ónæm fyrir öllum þekktum sýklalyfjum og greindist hún á sjúkrahúsi í Danmörku.

Sama baktería hefur greinst í nokkrum sýnum sem tekin voru úr kjúklingi sem fluttur var inn til Danmerkur frá Kína í gegnum Þýskaland. Hugsanlegt er að sjúklingurinn hafa smitast eftir neyslu á sýktu kjöti.

Nordic One Healt

Eva Kjer Hansen, matvæla- og umhverfisráðherra Danmerkur, sendi frá sér yfirlýsingu 7. desember síðastliðinn þar sem hún fagnar Nordic One Health-hugmyndum Bændasamtaka á Norðurlöndum. Samkvæmt Nordic One Health-yfirlýsingunni skal stefnt að því að banna gjöf á sýklalyfjum í fóðri til að fyrirbyggja sýkingar og til að auka vöxt búfjár. Reiknað er með að endurskoðuð tillaga þess efnis verði lögð fyrir Evrópusambandið snemma á næsta ári.

Reynt að hemja frekari útbreiðslu

Ekki hefur verið gefið upp hver líðan sýkta Danans er en hann mun vera eldri karlmaður sem berst við krabbamein. Sérfræðingar vonast til að getað komið í veg fyrir frekari útbreiðslu bakteríunnar þar sem útbreiðsla hennar gæti leitt til faraldurs.

Fyrir um mánuði gáfu kínverskir sérfræðingar út yfirlýsingu þar sem þeir sögðu að sýklalyfjaónæmar E. Coli bakteríur væri að finna í matvælum í landinu og að þeir gerðu ráð fyrir að útbreiðsla þeirri yrði ör í landinu.

Síðasta vígið

Til þessa hefur sýklalyf sem kallast Colistin verið síðasta vígið í baráttunni gegn svokölluðum ofurbakteríum en nú eru komir fram stofnar baktería sem eru ónæmir fyrir því.

Genið sem veldur ónæmi bakteríanna kallast MCR-1 og finnst meðal annars í E-Coli, salmonellu og bakteríum sem valda sýkingu í blóði og lungum. MCR-1 genið á auðvelt með að flytjast milli baktería og mikil hætta er talin á að slíkt muni gerast og það valda alvarlegum sýkingum í mönnum og dýrum á komandi árum. Genið getur einnig hæglega borist með bakteríum milli manna og dýra og í menn úr dýraafurðum.

Sérfræðingar við Tækniháskólann í Danmörku hófu leit að MCR-1 geninu þar í landi eftir yfirlýsingu kínversku sérfræðinganna í síðasta mánuði. Að þeirra sögn varð þeim verulega bilt við þegar þeir á skömmum tíma fundu sex dæmi um MCR-1 genið í salmonellu-bakteríum. Fimm í kjöti innfluttra kjúklinga og eitt í blóði sjúklings.

Verulegt áhyggjuefni

Frank Møller Aarestrup, prófessor í veirufræði við tækniháskólann í Danmörku, segir að greining bakteríanna sé verulegt áhyggjuefni. „Ég hef lengi verið hræddur um að ofurbakteríur mundu greinast hér en á sama tíma vonað að svo yrði ekki.“ Hann telur líklegt að bakteríurnar hafi borist til Danmerkur með fólki sem hefur verið á ferðalagi um Kína eða með innfluttu kjöti.

Aarestrup segir að það kæmi sér ekki á óvart ef sýklalyfja­ónæmar bakteríur greindust í öðrum Evrópulöndum fljótlega. Ekki síst á Bretlandseyjum þar sem innflutningur á matvælum frá Austurlöndum fjær er mikill og mikið um ferðafólk.

Læknirinn Lance Price við George Washington-háskólann í Bandaríkjunum, sem aðstoðaði við greiningu gensins í Danmörku, segir að sagan sýni að gen eins og MCR-1 breiðist hratt út um heiminn og yfirleitt án þess að menn verði mikið varir við þau í fyrstu. „Það að genið hafi fundist í Danmörku sýnir að útbreiðsla þess er þegar hafin.“

Meðhöndlun erfið

Haft hefur verið eftir breska prófessornum Mark Enright, sem er sérfræðingur í bakteríufræði við háskólann í Manchester, að því miður sé nánast ómögulegt að lækna þá sem sýkjast af ofurbakteríum. „Lyfið Colistin var okkar síðasta von og nú eru komnar fram bakteríur sem eru ónæmar fyrir því. Eina vonin í dag er að gefa sjúklingum tvö eða þrjú sterk sýklalyf í einu og vona að lyfjablandan skili í sumum tilfellum tilætluðum árangri.“

Vandinn við notkun á sterkum sýklalyfjum er að þau geta valdið verulegum skemmdum á lifur sjúklinga sem fá þau.

Enright segir að í dag séu mestar líkur á smiti við meðhöndlun á hráu kjöti en að ef bakterían berist inn á spítala og í sjúklinga geti verið erfitt að koma í veg fyrir alvarlegar sýkingar. Dauðsföll geta hæglega orðið í framhaldi af minnstu sýkingum sem lítið mál var að meðhöndla með lyfjum fyrir fáum árum. Hann segir að því meira sem menn nota sýklalyf og það er notað í landbúnaði því hraðar og auðveldara sé fyrir bakteríur að mynda ónæmi gegn þeim.

Colistin var fimmta mest notaða sýklalyfið í landbúnaði í Evrópu árið 2010, bæði sem sýklalyf og sem vaxtarhvati. Stjórnvöld í Bretlandi hafa sett af stað herferð til að draga úr notkun sýklalyfja í landbúnaði þar í landi. Meðal annars er mælst til að dýr sem sýkt eru bakteríusjúkdómi verði frekar lógað en sett á sýklalyf þar sem lyfin séu í mörgum tilfellum gagnslaus.

Sérfræðingar á sviði faraldursfræða segja að sýklalyfjaónæmar bakteríur séu alþjóðlegt vandamál en ekki einkamál einstakra þjóða og þrátt fyrir að sýkingarhætta í dag sé tiltölulega lítil sé hætta á alþjóðlegum faraldri eins og tifandi tímasprengja. 

Matvæli fyrir níutíu milljónir evra gerð upptæk
Fréttir 13. desember 2024

Matvæli fyrir níutíu milljónir evra gerð upptæk

Matvælasvindl er vaxandi vandamál í heiminum. Engin mál tengd meintum matarsviku...

Kortleggja ræktarlönd
Fréttir 13. desember 2024

Kortleggja ræktarlönd

Matvælaráðuneytið ætlar að ráðast í kortlagningu á gæðum ræktarlands á Íslandi.

Verðhækkun á grænmeti mun fylgja hækkun á raforkuverði
Fréttir 12. desember 2024

Verðhækkun á grænmeti mun fylgja hækkun á raforkuverði

Um áramót taka gildi umtalsverðar hækkanir á raforkuverði til garðyrkjubænda. Ge...

Þáttaskil þurfi í loftslagsaðgerðum Íslendinga
Fréttir 12. desember 2024

Þáttaskil þurfi í loftslagsaðgerðum Íslendinga

Loftslagsráð segir að nú þurfi að verða þáttaskil í framkvæmd loftslagsaðgerða o...

Framleiða ætti flestallar landbúnaðarvörur innanlands
Fréttir 12. desember 2024

Framleiða ætti flestallar landbúnaðarvörur innanlands

Landsmenn vilja að landbúnaðarvörur séu framleiddar innanlands ef marka má niður...

Metinnflutningur á koltvísýringi
Fréttir 11. desember 2024

Metinnflutningur á koltvísýringi

Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa verið flutt inn til landsins um 2.600 tonn af k...

Fjöldi stangveiddra laxa jókst nokkuð milli ára
Fréttir 11. desember 2024

Fjöldi stangveiddra laxa jókst nokkuð milli ára

Heildarfjöldi stangveiddra laxa árið 2024 var, skv. bráðabirgðatölum Hafrannsókn...

Kýrnar sluppu en pyngjan ekki
Fréttir 11. desember 2024

Kýrnar sluppu en pyngjan ekki

Afleiðingar rafmagnsleysis í Lundarreykjadal í febrúar urðu bændum dýrkeyptar.