Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Karl G. Kristinsson flytur fyrirlesturinn sinn í Háskóla Íslands.
Karl G. Kristinsson flytur fyrirlesturinn sinn í Háskóla Íslands.
Mynd / Kristinn Ingvarsson │ Háskóli Ísland
Fréttir 22. janúar 2019

Sýklalyfjanotkun talin mesta ógnin við lýðheilsu í heiminum í dag

Höfundur: smh
Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, flutti fyrirlestur á dögunum um fæðuöryggi Íslendinga og áhrif framleiðsluhátta og uppruna matvæla á bakteríur. Þar kom fram að sýklalyfjaónæmi væri mesta ógn við lýðheilsu í heiminum í dag.
 
Var fyrirlesturinn fluttur á Líf- og heilbrigðisráðstefnunni sem haldin var í Háskóla Íslands 3. og 4. janúar. Karl hóf lesturinn á því að ræða öryggi fæðunnar; áhættuna sem fylgir framleiðslu og meðhöndlun matvæla. Áhætta hafi venjulega verið tengd sýklum eins og salmonella, kampýlóbakter, listería  og noroveirum, en nú sé helsta ógnin tengd bakteríum sem valda að jafnaði ekki sjúkdómum en geta borið sýklalyfjaónæmi. Karl sagði að fæðuöryggi fælist einnig í því að landsmenn hafi aðgang að nægum matvælum – þess vegna sé það mikilvægt að Íslendingar stefni að sjálfbærni í sinni fæðuframleiðslu.
 
Verksmiðjubúskapur gróðrarstía ónæmra baktería
 
Mannfólki hefur fjölgað hratt á síðustu áratugum í heiminum og sagði Karl að sú þróun hafi leitt til samsvarandi aukinnar kjötframleiðslu. Afsprengi þessa hafi verið svokölluð „búfjárbylting“ þar sem kjötframleiðsla og -sala þjappast saman nálægt stórum borgum. Að sögn Karls hefur tilhneigingin verið sú að verksmiðjubúgarðar verði í kjölfarið til – sem sé eins konar aftenging milli búfjárræktunar og fóðuruppskeru – og þar sem áhersla verður á ræktun svína og kjúklinga.  Slíkur verksmiðjubúskapur hafi mikil áhrif á umhverfi – einkum hvað varðar skít, skólp og vatnsgæði –  og setji of mikið álag á skepnurnar. Það hafi svo í för með sér að þær eru viðkvæmari fyrir smitsjúkdómum og komi þeir upp berist þeir mjög hratt út á slíkum býlum. Þar sem mikið er í húfi fyrir bændurna fjárhagslega, að sýkingar komi ekki upp, eru þeir gjarnir á að nota sýklalyf í forvarnarskyni. Sýklalyfin séu auk þess gefin til vaxtarörvunar. Allt þetta sé eins og uppskrift að framleiðslu á ónæmum bakteríum. 
 
Afleiðingin er að jarðvegur og grunnvatn mengast af sýklalyfjum og ónæmum bakteríum, mest með búfjárskítnum, og eru sum sýklalyfjanna lengi að brotna niður. Þar sem mannfólk deilir vistkerfi með búfénu og úrgangi þess, eiga sýklalyfin og ónæmar bakteríur greiða leið í okkur. Karl vitnaði til yfirlýsinga WHO, Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, frá árinu 2015 þar sem fram kom að ef ekki verði gripið til samræmdra aðgerða um allan heim, sé stefnt inn í tímabil án virkra sýklalyfja þar sem algengar sýkingar munu á ný valda dauðsföllum. Skurðaðgerðir og krabbameinslækningar verði mun hættulegri. Því sé sýklalyfjaónæmi ógn sem brýnt sé að bregðast við sem allra fyrst. 
 
Karl segir að á Íslandi sé lítið talað um þessa ógn vegna þess að hún sé ekki enn hér á landi, þó hún sé rétt handan við hornið.
 
Að sögn Karls eru mögulegir sýkingarvaldar oft eðlilegir hlutir þarmaflórunnar eins og til dæmis E coli-bakterían, sem er ein þeirra mikilvægasta. E. coli-bakterían er algengasta  orsök bæði þvagfæra- og blóðsýkinga. Hann segir að hún valdi um 40 þúsund dauðsföllum á ári í Bandaríkjunum og sýklalyfjaónæmi hjá henni sé hratt vaxandi. 
 
Stór hluti sýkinga á rætur að rekja til kjötmarkaða
 
Karl segir að í nýlegri rannsókn í Bandaríkjunum hafi verið sýnt fram á að um 14 prósent þvagfærasýkinga af völdum E coli-bakteríunnar, í borginni Flagstaff í Arizona í Bandaríkjunum, hafi átt uppruna frá kjöti á markaði. Hann segir að það kunni að virðast lágt hlutfall, en þegar horft sé til þess hversu algengar sýkingar þetta séu, þá sé ljóst að um gríðarlegan fjölda tilfella sé að ræða. Alþjóðaverslun með matvæli hafi færst í vöxt og því skiptir máli hvaðan maturinn kemur sem við flytjum inn til Íslands. Sýklalyfjanotkun er nefnilega afar mismikil eftir löndum og samkvæmt nýjustu tölum frá 2016, um notkunina í Evrópu, er langmest notkun á Kýpur, svo Spáni, þá Ítalíu og svo koma Portúgal og Holland. Karl segir að eftir því sem meira er notað af sýklalyfjum, því meira verður sýklalyfjaónæmi – og þess vegna skiptir þessi tölfræði máli.
 
En það er ekki bara í kjöt­framleiðslu sem sýklalyfjaónæmi breiðist út. Karl benti á að vandamálið í fiskeldi í Austur-Asíu og Kyrrahafsríkjum væri orðið alvarlegt og ónæmar bakteríur hefðu fundist í fiskeldisafurðum þaðan, auk þess sem eldið hafi víða leitt til mengunar jarðvegs og grunnvatns. 
 
Ónæmar bakteríur í innfluttu grænmeti
 
Þá vék Karl talinu að grænmetinu, sem almennt er minna bakteríumengað. Hins vegar sé það iðulega borðað hrátt, sem svo aftur auki líkurnar á að bakteríur á því berist í þarmana og taki sér bólfestu þar. Ekki er til nægt grunnvatn til notkunar fyrir ræktun í heiminum og því þarf að nota um 61 prósent af því vatni sem þarf til hennar, frá yfirborðsvatni og endurunnu vatni – sem eykur líkur á smiti. Karl segir að það sé að koma í ljós núna í æ meira mæli að fjölónæmar bakteríur greinist í grænmeti. 
 
Í rannsókn á síðasta vetri, þar sem skoðuð voru sýni úr innlendu og innfluttu grænmeti á markaði og ónæmi baktería kannað, kom í ljós að ekkert áunnið ónæmi fannst í sýnum úr innlendri framleiðslu en í ellefu sýnum úr því innflutta – og langflest frá Suður-Evrópu. 
 
Engin ný sýklalyf á markaði
 
Karl ályktar af sinni reynslu að lítið sýklalyfjaónæmi sé í íslenskum matvælum. Áhættan á smiti frá matvælum almennt er talin mest í innflutningi á salati og öðru fersku grænmeti, kjúklingum og öðrum alifuglum, svínakjöti og nautahakki – auk sjávarafurða úr fiskeldi sem þó er ekki enn mikil hætta af vegna þess að lítið af þeim er flutt til landsins. 
 
Í samantekt sinni um fyrirlesturinn sagði Karl að raunveruleg og vaxandi ógn sé fyrir hendi vegna baktería sem eru ónæmar fyrir öllum eða nánast öllum sýklalyfjum. Hann benti á að engin ný sýklalyf væru á markaði sem gætu komið í staðinn. Hvert ár sem gæti tafið þróunina væri því mikilvægt. Vekja þurfi almenning til umhugsunar um áhættuna af smiti yfir í einstaka íslenska búfjárstofna; hvort og hvernig eigi að varðveita sérstöðuna. Æskilegt sé að Ísland verði sjálfbært í framleiðslu á því kjöti og grænmeti, sem það getur framleitt. 
 
Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Mismunur bændum í óhag
5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Þjóðarréttur Íslendinga
4. desember 2024

Þjóðarréttur Íslendinga

Baldur Högni
4. desember 2024

Baldur Högni

Tildra
4. desember 2024

Tildra