Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Glódís Björt Pálsdóttir, Kjersti Hovland, Katrine Øvrevik Sundve, Anja Øvrevik Lofthus og Daniel Olsen virtust vera hin hressustu á meðan þau biðu þess að geta farið að skera í lambshjörtu.
Glódís Björt Pálsdóttir, Kjersti Hovland, Katrine Øvrevik Sundve, Anja Øvrevik Lofthus og Daniel Olsen virtust vera hin hressustu á meðan þau biðu þess að geta farið að skera í lambshjörtu.
Mynd / EHG
Fólk 15. október 2018

Sterk lífsreynsla sótt í sveitina

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Það voru blendnar tilfinningar hjá nemendum níunda bekkjar C við gagnfræðaskólann í Øystese í sveitarfélaginu Kvam í Noregi á dögunum þegar þeir fengu að heimsækja kennarann sinn, Ingunni Teigland, sem jafnframt er sauðfjárbóndi, og fylgjast með heimaslátrun á lambi, verkun og prófa sig við hjartarskurð svo fátt eitt sé nefnt. 
 
Þó að þónokkur „ojbara“ og „ógeðslegt“ hefðu heyrst hjá nemend­unum við slátrunarferlið var alveg ljóst í lok skóladagsins að allir myndu taka með sér nýjan og reynslumikinn lærdóm heim eftir heimsókn í sveitina. 
 
„Ég hef fengið spurningu af hverju við séum að þessu og það er umhugsunarvert því það hefur ekki verið boðið upp á þetta áður. Krakkarnir komu til mín í vor til að fylgjast með sauðburðinum sem þeim fannst mjög gagnlegt og áhugavert svo þessi hugmynd kom upp á kennarastofunni, því ekki að leyfa þeim líka að upplifa þennan veruleika lambsins?“ útskýrir umsjónarkennari bekkjarins, Ingunn Teigland, sem rekur ásamt tveimur öðrum fjölskyldum sauðfjárbú með 250 vetrarfóðruðum kindum. 
 
Áður en lambið var sótt og sjálft sláturferlið fór af stað útskýrði Ingunn Teigland, umsjónarkennari 9. bekkjar C við gagnfræðaskólann í sveitarfélaginu Kvam í Noregi, fyrir nemendunum hvernig það myndi fara fram. 
 
Sjá hvaðan maturinn kemur
 
Allir níundu bekkirnir þrír við skólann fengu að upplifa sama ferlið, hver bekkur fyrir sig, einn dag í einu. Faðir Ingunnar, Jon Teigland, sem er dýralæknir, var einnig viðstaddur slátrunina og fræddi unglingana um uppbyggingu og líffræði lambsins. 
 
„Það er mikilvægt, tel ég, að unglingarnir sjái hvaðan maturinn kemur og hvernig dýrið er byggt upp og lítur út. Þetta snýr einnig að náttúrufræði, samfélagsfræði, heilsufari eða leikfimi því þau ganga hingað til mín frá skólanum sem er um klukkustundarleið,“ segir Ingunn og bætir við:
 
„Þetta er vissulega öðruvísi kennslustund og minnisstæð fyrir vikið. Áður en sjálf slátrunin fer fram fræði ég unglingana um náttúruauðlindir og matvælaframleiðslu ásamt því að fara yfir sláturferlið. Það hefur gengið mjög vel með alla bekkina, þeir sem vilja ekki horfa á til dæmis þegar lambið er skotið þá er það ekkert mál. Sumum hefur orðið óglatt eftir þessa upplifun en ég tel að það jafni sig fljótt, það er engum óhollt að átta sig á hvernig náttúran virkar.“
 
Deyfibyssa og innyfli
 
Eftir að Ingunn útskýrði fyrir unglingunum hvernig ferlið færi fram var ekki eftir neinu að bíða en að sækja lambið sem féll í valinn þann daginn. Stuttu síðar sló þögn á hópinn eitt andartak, meðan á dauðastundinni stóð, sumir litu undan á meðan aðrir fylgdust með af miklum áhuga.
 
„Þegar ég sæki lambið og er búin að grípa það í fang mitt er það ekki lengur lamb heldur matur í mínum huga. Það er mjög mikilvægt að vita fyrir ykkur að lambið kvelst ekki í þessu ferli,“ útskýrir Ingunn fyrir bekknum og einn nemandi spyr:
 
„Þurfum við að nota hanska?“
„Nei, nei, við erum sterkasti bekkur í heimi, við þurfum þess ekki,“ svarar Ingunn kennari. 
 
„En er ekki auðveldara að slátra ef það er búið að rýja kindina?“ spyr annar áhugasamur nemandi.
„Jú, það er rétt, það er léttara að slátra ef það er búið, eða réttara sagt þegar maður gerir að skrokknum eftir slátrun,“ svarar kennarinn.  
 
Síðan hófst ferlið þar sem feðginin skutu lambið með deyfibyssu og þegar það var skorið á háls fór um nokkra í hópnum. Tveir nemendanna fengu það hlutverk að safna blóði í könnu og skál til að fylgjast með storknun þess á meðan aðrir fengu sög í hönd til að saga höfuð lambsins í tvennt til að kanna heilann. Feðginin héldu því næst áfram að gera að og fengu aðstoð nemenda til að ná öllum innyflunum út og sturta þeim í hjólbörur, því næst var þarmurinn mældur, lungu, lifur, gallblaðra, nýrað og miltað skoðað og útskýrð af kostgæfni virkni þeirra. Að endingu fengu unglingarnir að spreyta sig á að skera í og rannsaka lambshjörtu sem kennarinn hafði útvegað og voru flestir mjög spenntir fyrir þeirri iðju. 
 
Margs konar lærdómur eftir daginn
 
Í lok þessa sérstaka skóladags grillaði bekkurinn saman ýmist pylsur eða samlokur sem hver og einn tók með sér ásamt kennurunum. Þá sköpuðust ýmsar umræður um hvað unglingarnir höfðu upplifað þennan daginn og í ljós kom að öll höfðu þau tekið með sér mismunandi lærdóm eftir þessa lífsreynslu. 
 
„Ég lærði mikið um meltingarfæri lambsins og að kindur eru jórturdýr og hafa fjóra magasekki,“ sagði Torbjørn Viking Sætveit Torsvik.
 
„Það sem kom mér mest á óvart er hvernig kerfið í líkama lambsins starfar. Mér fannst þetta mjög áhugavert og ég lærði mikið um ferlið við að slátra lambi,“ sagði Julie Carlsen Midtrød.
„Það er mikill matur sem maður getur fengið af einu lambi og maður verður að hengja skrokkinn upp í nokkra daga áður en er hægt að nýta kjötið af honum. Það var mjög svalt að prófa að skera í lambshjarta,“ sagði Sigbjørn Steine. 
 
„Mér fannst þetta frekar ógeðslegt, sumt af þessu, en mér fannst gott að vita að lambið var deyft áður en það drapst,“ sagði Glódís Björt Pálsdóttir.
 
„Nú veit ég betur að innyfli í kindum og í mönnum eru ansi lík og mér fannst ég læra mikið um líffæri lambsins og hvernig það er byggt upp,“ sagði Daniel Olsen.
 
„Núna veit ég betur hvaðan maturinn kemur og hvað lambið þarf að ganga í gegnum til þess að við verðum södd af lambakjötinu. Mér fannst líka áhugavert að læra um hringrásina, pörun, burð og slátrun,“ sagði Evelina Bu-Vik.

Skylt efni: Noregur

Svínaflensa í Rússlandi
Fréttir 27. september 2022

Svínaflensa í Rússlandi

Afríska svínaflensan greindist á stóru rússnesku svínabúi í lok sumars. ...

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...