Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Fréttir 20. nóvember 2017
Stefnt að sýnatökum úr grænmeti og ávöxtum
Höfundur: smh
Í undirbúningi eru tvö rannsóknarverkefni sem Karl G. Kristinsson, yfirlæknir Sýkla- og veirufræðideildar Landspítala, er þátttakandi í og fjalla um útbreiðslu og ónæmi kólibaktería.
Annað snýr að útbreiðslu fjölónæmra stafbaktería í dýrum, mönnum, matvælum og umhverfi á Íslandi, en hitt að útbreiðslu E. coli í dýrum, matvælum og umhverfi og hvernig og í hve miklu mæli bakterían dreifist í menn. Verkefnin eru samstarfsverkefni Sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans, Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum, Matís og Matvælastofnunar. Til þess að verkefnin skili tilætluðum árangri, þá þarf að fjölga sýnatökum í matvælum, dýrum og umhverfi; taka sýni meðal annars úr innfluttu og innlendu grænmeti og ávöxtum. Í dag er einkum fylgst með sýklum í alifuglum, svínum og nautgripum.
Hversu mikið smitast í menn?
Karl segir að verkefnið sem snýr að útbreiðslu fjölónæmra stafbaktería sé tengt Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) og kemur meðal annars í kjölfar heimsóknar á þeirra vegum þar sem bent var á þennan galla í eftirlitinu.
„EFSA mun líklega styrkja verkefnið um helming en svo þarf að sækja um það fjármagn sem upp á vantar til ríkisins, þegar búið er að mynda ríkisstjórn í landinu.
Í því verkefni sem snýr að útbreiðslu og dreifingu kólíbakteríunnar (E. coli), þá er ætlunin að skoða hvort og í hve miklum mæli bakterían berst í menn, með því að bera saman kólíbakteríurnar sem finnast í matvælum, dýrum og umhverfi við kólíbakteríurnar sem ræktast úr þvagfærasýkingum hjá mönnum,“ segir Karl.
Sýni úr matvælum, umhverfi og dýrum
„Til að flýta fyrir hefur verið sett af stað verkefni með meistaranema við Háskóla Íslands, þar sem safnað er sýnum úr grænmeti og ávöxtum í verslunum og hjá dreifingaraðilum, bæði innlendu og erlendu; til að rækta og leita sérstaklega að kólibakteríunni.
Það er ætlunin að taka eins mikið af sýnum og við getum úr matvælum, umhverfi og dýrum. Safna svo þeim kólibakteríum sem við ræktum á sama tíma frá fólki með þvagfærasýkingar, en kólíbakterían er langalgengasta orsök þvagfærasýkinga og blóðsýkinga í mönnum. Til þess að skoða hvernig bakteríurnar dreifast, og sýklalyfjaónæmið þar á meðal, – þá skiptir miklu máli að rannsaka mikinn fjölda sýna.
Til þess að geta borið saman kólibakteríurnar sem ræktast úr matvælum, dýrum og umhverfi við þær sem ræktast úr mönnum, þarf að gera svokallaða heilgenamengisraðgreiningu. Þá er allt gen bakteríunnar raðgreint. Raðgreina þarf alla stofnana sem ræktast, en þeir geta hlaupið á einhverjum þúsundum. Þannig má sjá hvaða stofnar finnast bæði í mönnum og dýrum – og þá hversu stór hluti. Með þessu móti er hægt að rekja það hvar viðkomandi baktería kom fyrst upp; það er greinist hún fyrst í matvælum eða í mönnum.
Þetta eru auðvitað mjög flóknar rannsóknir þannig að við höfum komið á samstarfi um það við vísindamenn í George Washington University í Washingtonborg í Bandaríkjunum. Þeir hafa mikla reynslu á þessu sviði og áhuga á þessu samstarfi. Það eru nefnilega alveg einstakar aðstæður hér á landi til að fylgja þessu eftir, því markaðurinn er tiltölulega lokaður hér og íbúarnir aðeins um 340 þúsund. Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans sinnir þvagræktunum á höfuðborgarsvæðinu þar sem um tveir þriðju hlutar íbúanna eru,“ segir Karl.
Ekki hægt að undanskilja grænmeti og ávexti
Að sögn Karls er ekki hægt að undanskilja í sýnatökum stóran hluta matvæla eins og grænmeti og ávexti, þegar verið sé að skoða hversu mikið af bakteríum berst í fólk. Sérstaklega ekki þar sem þessi matvæli séu gjarnan borðuð hrá.
Lögformlega er ekki skylt að vakta reglulega öll fersk matvæli á Íslandi vegna hugsanlegra sjúkdómsvaldandi sýkla sem þar kunna að vera. Ekki er reglulegt eftirlit með lambakjöti, grænmeti og ávöxtum.
Í Bændablaðinu 24. ágúst síðastliðinn var fjallað um sýkingarhættuna sem stafar af innfluttu fersku grænmeti. Þar kom fram að árið 2016 hafi rúmlega 13.000 tonn verið flutt til landsins og hættan á að fjölónæmir sýklar bærust til landsins væri til staðar, meðal annars vegna þess að stór hluti grænmetisins kemur frá Spáni þar sem sýklalyfjanotkun í landbúnaði er hvað mest í Evrópu samkvæmt nýlegum upplýsingum frá evrópskum eftirlitsaðilum.
Karl segir að sumar af stærstu hópsýkingunum sem hafa komið upp á Íslandi hafi tengst innfluttu grænmeti. Því sé afar mikilvægt að það sé einnig rannsakað í þessu tilliti. „Við þurfum þessar upplýsingar til að geta sagt hvort og þá hversu mikið grænmeti sé mengað af kólíbakteríum, og svo hvort að líklegra sé að sýklalyfjaónæmar kólíbakteríur berist frá löndum þar sem sýklalyfjanotkun í landbúnaði er algeng. Hingað til hafa gögn skort til að hægt sé að segja til um það.“