Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Ef margir bændur grípa til þess næsta haust að fækka sínu fé til að mæta hækkandi rekstrarkostnaði, þá gæti stefnt hratt í að færra fé verði á Íslandi en var um aldamótin 1800.
Ef margir bændur grípa til þess næsta haust að fækka sínu fé til að mæta hækkandi rekstrarkostnaði, þá gæti stefnt hratt í að færra fé verði á Íslandi en var um aldamótin 1800.
Mynd / HKr.
Fréttir 12. maí 2022

Stefnir í að sauðfjárstofninn á Íslandi verði sá minnsti í rúm 200 ár

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Sauðfé heldur áfram að fækka í landinu en samkvæmt fyrirliggjandi tölum matvæla­ráðuneytisins taldist ásett fé um síðustu áramót vera 385.194. Hefur sauðfé ekki verið færra á Íslandi í 161 ár, samkvæmt gögnum Hagstofu og dr. Ólafs R. Dýrmundssonar, eða síðan 1861, þegar talsverð fækkun varð vegna fjárkláða og stofninn fór þá niður í 327.000.

Sauðfé hefur aldrei verið færra á Íslandi frá aldamótunum 1900 en í fyrra. Meira að segja eftir gríðarlegan fjárfelli vegna mæðiveiki árið 1949 var stofninn stærri en nú, eða 402.000 fjár.

Um 18,3% fækkun fjár á tíu árum 

Þegar skoðuð er þróun sauðfjárfjöld á Íslandi síðustu 10 ár, eða frá 2012, þá kemur í ljós að vetrarfóðruðu sauðfé hefur fækkað úr 471.470 í 385.194 á síðasta ári, eða um 86.276. Það þýðir hátt í fimmtugs fækkun, eða um 18,3%.

Stefnir í minni fjárstofn en árið 1800

Miðað við rekstur sauðfjárbúa í dag og afurðaverð til bænda eru miklar líkur á að bændur muni enn fækka í bústofni sínum á komandi hausti. Fer þá að styttast í að fjöldi sauðfjár á Íslandi verði orðinn sá minnsti frá því eftir niðurskurð vegna fjárkláða árið 1861 þegar stofninn  fór í 327.000 fjár. Árin þar á undan hafði sauðfé fjölgað ört og var komið í 490.000 árið 1855.

Ef niðurskurður verður mjög mikill í haust, eins og margir tala um, fer fjöldinn að nálgast að vera sá minnsti í 221 ár, en hér voru 304.000 fjár árið 1800.

Þetta er greinilega alvarleg staða, sér í lagi nú þegar þjóðir heims horfa í auknum mæli til fæðuöryggis og að vera sem mest sjálfum sér nægar um matvælaframleiðslu.

Umræða um ofbeit ekki í samræmi við tölulegar staðreyndir

Þegar horft er á þessar tölur í sam­hengi við tal um ofbeit á afréttum, má segja að sú umræða sé orðin undarleg ef land á sumum stöðum gos­beltis Íslands er undanskilið. Allar mælingar sýna að gróðri hefur farið mjög fram á Íslandi á liðnum áratugum vegna hlýnandi loftslags. Bent hefur verið á að umtalsverður munur er t.d. á stöðu gróðurfars í dag en þegar vetrarfóðrað fé var flest á Íslandi árið 1977, eða 869.000 talsins. Því til viðbótar hafa bændur vísað til þess að þeir hafa verið mjög atkvæðamiklir við uppgræðslu lands á liðnum árum.

Neyddir til breyttrar hugsunar vegna versnandi afkomu 

Lágt afurðaverð og stórhækkandi rekstrarkostnaður er mikið í um­ræðunni hjá sauðfjárbændum um þessar mundir. Þar vegur hækkun áburðarverðs sem og eldsneytisverð og verð að tækjum og búnaði afar þungt. Breyttar rekstrarforsendur eru að neyða marga sauðfjárbændur til að hugsa málin upp á nýtt. Líklegasta útkoman á komandi mánuðum er að einhverjir bændur fækki við sig fé. Um leið gætu bændur jafnvel farið að sjá flöt á að ræða það hvort nauðsyn á afréttabeit heyri ekki sögunni til ef tekið er tillit til fækkunar í sveitum, kostnaðar og afkomu sauð­fjárbúanna. Horfa mætti til þess að vegna minnkandi sauðfjárstofns er orðið mikið af ónýttu ræktarlandi á láglendi. Það mætti augljóslega nýta til beitar. 

Stýrð beit í hólfum feimnismál?

Í samtölum Bændablaðsins við sauðfjárbændur á liðnum misserum virðist það þó af einhverjum ástæðum enn vera hálfgert feimnis­mál að ræða stýrða beit í hólfum innan girðinga.

Margir hafa þar áhyggjur af ímynd íslenska fjallalambsins. Lambakjötið hefur verið kynnt sem einstök vara á heimsvísu. Lömbin hafi allt frá landnámi gengið frjáls um úthaga frá burði til slátrunar. Fæðan er fjölbreyttur gróður sem fullyrt er að hafi áhrif á kjötgæði.

Hvort slíkt ímyndarmál vegur þyngra en hugsanlegt hagræði af hólfastýrðri beit á láglendi, þarf trúlega að leiða í ljós með faglegri rannsókn.

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa
Fréttir 31. janúar 2023

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur lokið við greiningu á rekstri 154 kú...

Skordýr sem fóður og fæða
Fréttir 31. janúar 2023

Skordýr sem fóður og fæða

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er unnið verkefni sem snýr að því að koma upp sko...

Arabískt fyrirtæki fjárfestir í Atmonia
Fréttir 30. janúar 2023

Arabískt fyrirtæki fjárfestir í Atmonia

Efnafyrirtækið Sabic Agri-Nutrients hefur keypt einkarétt á notkun tækni Atmonia...

35 kindur drápust í bruna
Fréttir 30. janúar 2023

35 kindur drápust í bruna

„Aðkoman var óhugnanleg og þetta er mikið áfall,“ segir Guðjón Björnsson, bóndi ...

Innflutningur erfðaefnis skilar góðum árangri
Fréttir 27. janúar 2023

Innflutningur erfðaefnis skilar góðum árangri

Samkvæmt niðurstöðum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) úr skýrsluhaldi na...

Verðskrá Skeljungs og Fóðurblöndunnar
Fréttir 27. janúar 2023

Verðskrá Skeljungs og Fóðurblöndunnar

Skeljungur og Fóðurblandan hafa birt verðskrá fyrir þær tegundir af áburði sem f...

Ekkert veiðibann á döfinni
Fréttir 26. janúar 2023

Ekkert veiðibann á döfinni

Veiðibann á grágæs hefur ekki tekið gildi á Íslandi og ekki stendur til að banna...

Stakkhamar 2 skýst upp á toppinn yfir afurðahæstu kúabúin miðað við meðalnyt
Fréttir 26. janúar 2023

Stakkhamar 2 skýst upp á toppinn yfir afurðahæstu kúabúin miðað við meðalnyt

Stakkhamar 2 í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi hefur skotist á toppinn ...