Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Ríflega 100 manns mættu á fyrsta LK-fund haustsins í Flóa.
Ríflega 100 manns mættu á fyrsta LK-fund haustsins í Flóa.
Mynd / TB
Fréttir 10. október 2014

Stærstu kúabúin draga vagninn í framleiðsluaukningu á mjólk

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

Stærstu 150 kúabú landsins eiga 70% af þeirri framleiðsluaukningu sem orðið hefur í mjólkurframleiðslunni síðustu 8 mánuði. Innvigtun mjólkur á ársgrundvelli er komin yfir 130 milljón lítra sem er 6,6% aukning á milli ára. Enn er mikil aukning í fitusölu og ljóst er að kúabændur þurfa að taka á honum stóra sínum til þess að svara kalli markaðarins í framtíðinni miðað við söluspár. Nautakjötsinnflutningur hefur snaraukist á síðustu mánuðum en á tímabilinu janúar til ágúst voru flutt inn 750 tonn af nautakjöti sem eru í verðmætum talið um 700 milljónir króna. Þetta kom fram á fyrsta fundi í fundaferð Landssambands kúabænda sem haldinn var í gær í Þingborg í Flóa.

Á fundinum hélt Sigurður Loftsson í Steinsholti og formaður Landssambands kúabænda framsögu ásamt Baldri Helga Benjamínssyni framkvæmdastjóra. Í máli þeirra kom meðal annars fram að lagt er til að reglugerð um kvótamarkað verði gerð óvirk árið 2015. Það þýðir í raun að viðskipti með greiðslumark verða með svipuðum hætti og fyrr á árum nema að Matvælastofnun verður falið að halda utan um upplýsingar um verð á hverjum tíma. Helstu rökin fyrir breytingunum væru þau að nú væru lítil sem engin viðskipti með greiðslumark við núverandi skipan mála.

Orðspor MS hefur beðið hnekki
Þónokkur umræða var um málefni Mjólkursamsölunnar og 370 milljóna króna sekt sem Samkeppniseftirlitið lagði á fyrirtækið í september. Formaður kúabænda lagði áherslu á að málið væri grafalvarlegt fyrir kúabændur og að orðspor fyrirtækisins hefði beðið hnekki á síðustu vikum. Mikilvægt væri að forsvarsmenn kynntu sín sjónarmið og svöruðu skilmerkilega þeim spurningum sem lagðar væru fyrir þá.  Sigurður sagði nauðsynlegt fyrir bændur að halda í þann trúnað og traust sem íslenskir neytendur hefðu sýnt þeim í gegnum tíðina. Nú væri verkefnið að endurheimta gott orðspor og það sem skipti mestu væri að koma fram með staðreyndir. Hann sagði að skoða þyrfti málin til hlítar áður en gerðar yrðu róttækar breytingar á regluverki mjólkurframleiðslunnar. Sigurður Loftsson lagði hins vegar áherslu á í máli sínu að það fyrirkomulag sem greinin hefði búið við síðustu 30 árin yrði ekki um aldur og ævi. Breytingar væru óhjákvæmilegar. Í umræðum um stöðu MS og atburði síðustu daga var ekki annað að heyra á bændum á fundinum en að þeir stæðu þétt að baki sínu fyrirtæki og stjórnendum þess.

Fulltrúar mjólkuriðnaðarins fóru yfir stöðu mála
Fleiri mál voru til umræðu. Greint var frá því að Landssamband kúabænda og Bændasamtökin væru í viðræðum um yfirtöku eða kaup á Nautastöðinni á Hesti. Ef til þess kemur yrði kynbótastarfið á hendi LK sem sæi alfarið um rekstur á „Nautgriparæktarmiðstöð Íslands“. Þá stigu í pontu fulltrúar mjólkuriðnaðarins, þeir Einar Sigurðsson, Pálmi Vilhjálmsson og Guðni Ágústsson. Einar fór yfir sektardóm Samkeppniseftirlitsins og rakti málsvörn MS að hluta. Þar á bæ eru menn fullvissir um sigur í málinu og vísaði Einar til nýgengins hæstaréttardóms í máli Vífilfells máli sínu til stuðnings. Pálmi fór yfir þann árangur sem náðst hefur í hagræðingu hjá fyrirtækinu síðustu ár sem er umtalsverður. Í máli hans kom meðal annars fram að árið 1990 voru 17 mjólkurvinnslur í landinu en nú væru þær fimm. Verðþróun á mjólkurvörum hefði verið neytendum í hag og töluvert undir hækkunum vísitölu neysluverðs síðustu ár. Fullyrti Pálmi að ávinningur af hagræðingu í iðnaðinum hefði skilað sér bæði til neytenda og bænda. Guðni Ágústsson, fyrrum landbúnaðarráðherra og framkvæmdastjóri SAM, hvatti bændur til dáða með sínum hætti. Taldi hann að friður og ró á fundinum væri til merkis um það að menn væru vel upplýstir um gang mála síðustu daga.

Ýmis mál brenna á bændum
Bændur sem tóku til máls ræddu um starfsumhverfið og fleiri hagsmunamál. Bjarni Stefánsson í Túni taldi að mjólkuriðnaðurinn þyrfti að ráða til sín sérstakan fjölmiðlafulltrúa til að annast almannatengsl. Það hefði sannað sig í umræðunni síðustu vikur og að menn væru að reyna af veikum mætti að „gera hlutina sjálfir“. Hann gerði líka að umtalsefni menntun í landbúnaði og slæma stöðu Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar þyrfti verulega að gera bragarbót ef ekki ætti að fara illa fyrir skólanum. Nokkrir kúabændur gagnrýndu hugmyndir um breytingar á verðhlutföllum á mjólk en til stendur að breyta 50/50 reglunni og greiða 75% fyrir fitu og 25% fyrir prótein. Jórunn Svavarsdóttir bóndi á Drumboddsstöðum spurði um áhrif neikvæðrar umræðu um málefni MS á sölu afurðanna. Í svari Egils Sigurðssonar, stjórnarformanns Auðhumlu og bónda á Berustöðum, kom fram að áhrifin væru vart mælanleg. September hefði verið söluhærri í ár en í fyrra og þau gögn sem hann hefði bentu ekki til marktækt minni sölu nú en áður.

Langur fundur
Eins og oft er á bændafundum teygðist dagskráin umfram áætlanir. Til stóð að Jarle Reiersen dýralæknir héldi erindi um dýravelferð en því varð að fresta vegna tímamarka. Nokkuð var kvartað yfir löngum ræðum fulltrúa mjólkuriðnaðarins og sagði Páll Jóhannsson, bóndi í Núpstúni, það ekki gott að fyrsti bóndinn hefði tekið til máls klukkan korter í ellefu á fundi sem hófst klukkan hálf níu. Ríflega 100 manns mættu til fundarins sem lauk skömmu eftir miðnætti.

22 myndir:

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...

Sólarsellustyrkir
Fréttir 22. júlí 2024

Sólarsellustyrkir

Orkusetur Orkustofnunar hefur auglýst eftir umsóknum um sólarsellustyrki.

Gæðingafeður og mæður
Fréttir 19. júlí 2024

Gæðingafeður og mæður

Skýr frá Skálakoti átti flest afkvæmi á Landsmóti hestamanna í ár, 31 talsins.

Kúakaup fyrir dómi
Fréttir 19. júlí 2024

Kúakaup fyrir dómi

Kúakaup milli tveggja bænda rötuðu til héraðsdóms á dögunum.

Úthlutun aflamarks
Fréttir 18. júlí 2024

Úthlutun aflamarks

Nýverið fundaði stjórn Byggðastofnunar vegna fyrirhugaðrar úthlutunar sértæks by...

Lóga þarf hrúti
Fréttir 18. júlí 2024

Lóga þarf hrúti

Bóndi þarf að afhenda Matvælastofnun ákveðinn hrút til að kanna útbreiðslu á rið...

Árangurinn kom á óvart
Fréttir 18. júlí 2024

Árangurinn kom á óvart

Fjölskyldan í Strandarhjáleigu í Rangárþingi eystra átti góðu gengi að fagna á n...