Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sprenging í aðsókninni í ár
Líf og starf 24. júlí 2015

Sprenging í aðsókninni í ár

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Krakkarnir í Reiðskóla Reykjavíkur héldu sýningu fyrir foreldra sína á dögunum á hæfni sinni á hestbaki. Þar skein áhuginn úr hverju andliti og ekki ólíklegt að í þeim hópi megi finna einhverjar framtíðarstjörnur í hestaíþróttum. 
 
Reiðskóli Reykjavíkur var stofnaður árið 2001 og eru eigendur hans hjónin Edda Rún Ragnarsdóttir og Sigurður Vignir Matthíasson. Þau hafa stundað hestamennsku frá blautu barnsbeini, fyrst sem áhugamál en síðan sem aðalatvinnu. Reiðskóli Reykjavíkur er með aðsetur að Fákabóli 3 í Reykjavík, sem er staðsett fyrir framan Félagsheimili Fáks í Víðidal.
 
Námskeiðin hjá Reiðskóla Reykjavíkur hefjast um leið og skólum lýkur og standa þau þar til viku áður en skólar hefjast að nýju. 
 
Algjör sprenging í aðsókninni í ár
 
„Það eru hjá okkur um sex til sjö hundruð börn og það hefur verið algjör sprenging í aðsókninni í ár. Sjálfsagt er margt sem veldur því. Það er vel að öllu staðið og hjá okkur er frábært fólk sem sér um námskeiðin. Eins skiptir veðrið líka miklu máli, en í fyrra og hittifyrra var veðrið skelfilega leiðinlegt,“ sagði Edda Rún Ragnarsdóttir í samtali við Bændablaðið.
 
Með mikla reynslu og þekkingu
 
Edda Rún er fædd inn í mikla hestamannafjölskyldu og hefur stundað hestamennsku frá því hún man eftir sér með fjölskyldu sinni. Faðir hennar, Ragnar Hinriksson, er þekktur hestamaður og hefur starfað við tamningar og þjálfun frá unga aldri.
 
Edda Rún á að baki glæsilegan feril sem knapi og hefur unnið til fjölda verðlauna í hestamennsku bæði sem Íslandsmeistari, Landsmótsmeistari, Reykjavíkurmeistari og svo mætti lengi telja. Hún er stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og hefur starfað við tamningar og þjálfun frá árinu 1999.
 
Sigurður Vignir byrjaði kornungur í hestamennsku með fjölskyldu sinni og náði fljótt góðum tökum á reiðmennskunni. Hann hóf keppnisferil sinn í barnaflokki og hefur allar götur síðan verið í fremstu röð knapa hér á landi. Hann hefur einnig unnið til fjölmargra verðlauna, m.a. orðið heimsmeistari í fimmgangi, Íslandsmeistari, Landsmótsmeistari og Reykjavíkurmeistari ásamt því að hafa verið útnefndur hestaíþróttamaður ársins. Sigurður er í Félagi tamningamanna og er með þjálfarapróf félagsins, hann hefur starfað við tamningar og þjálfun frá árinu 1993.
 
Samhliða starfsemi Reiðskóla Reykjavíkur reka hjónin hestamiðstöðina Ganghestar, þar sem þau bjóða upp á þjónustu við hestafólk eins og kaup og sölu á hrossum, reiðkennslu, frumtamningar og þjálfun á kynbóta- og keppnishrossum. Edda Rún og Sigurður halda einnig fjölmörg reiðnámskeið um allan heim og fara reglulega til Noregs, Hollands, Svíþjóðar, Belgíu og Þýskalands.
 
Edda Rún segir að hver krakki á námskeiðunum sé með sérstakan hest fyrir sig þessar tvær vikur sem hvert námskeið stendur. Það hafi mikið að segja að þau geti hvert og eitt verið með „sinn“ hest.
 
Margir nemendur halda áfram í hestamennskunni
 
Edda Rún segir mörg dæmi um að krakkar sem stígi sín fyrstu spor í reiðmennsku hjá þeim haldi áfram í hestamennskunni.
 
„Sem dæmi þá er kennari hjá mér á byrjendanámskeiðinu búin að vera hjá mér frá upphafi. Hún kom hér sem nemandi 2001 og er orðin kennari í dag. Þó hún hafi valið þessa leið þá hafa hvorki foreldrar hennar né nokkrir aðrir í fjölskyldunni verið neitt í hestamennsku. Þannig er um mörg börn og unglinga sem komið hafa til okkar án þess að vera neitt tengd inn í hestamennskuna, en eru orðnir atvinnuknapar í dag. Það hefur verið mjög gefandi að fylgjast með þessu fólki. 
 
Það er mjög gaman að hitta fólk á förnum vegi sem hefur fyrst kynnst hestamennskunni hjá okkur. Í gegnum okkur hefur því orðið mikil nýliðun í greininni og það má eiginlega segja að við séum að framleiða knapa,“ segir Edda Rún Ragnarsdóttir. 

11 myndir:

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...