Sóknarfæri fólgin í því að auka samstarfið
Fréttir 12. september 2023

Sóknarfæri fólgin í því að auka samstarfið

Höfundur: Þórdís Anna Gylfadóttir

Nýlega kynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra áætlanir um aukið samstarf og mögulega sameiningu Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands.

Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, segir spennandi tíma fram undan.
Mynd / Gunnhildur Gísladóttir

Talið er að það séu sóknarfæri í því að auka samstarfið og með þeim hætti verði hægt að auka gæði námsins og efla samkeppnishæfni íslenskra háskóla.

Við Háskólann á Hólum er boðið upp á nám á þremur sérsviðum – hestafræði, ferðamálafræði ásamt námi í fiskeldis-, sjávar- og vatnalíffræði. Í frétt Morgunblaðsins er greint frá því að fiskeldis- og fiskalíffræðideild ásamt ferðamáladeild Háskólans á Hólum hafa nú í haust þegar hafið samstarfið með sameiginlegum námsbrautum með Háskóla Íslands. Þá hefur hestafræðideild hafið samstarf um uppbyggingu rannsókna á íslenska hestinum með Keldum - tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði. Með auknu samstarfi fær Háskóli Íslands einnig viðurkenningu á fræðasviði auðlinda og búvísinda, sem þá hefur skort hingað til.

Fyrirhugað samstarf

Rektor Háskólans á Hólum, Hólmfríður Sveinsdóttir, var tekin tali og spurð um fyrirhugað samstarf við Háskóla Íslands. „Það sem um ræðir er aukið samstarf milli háskólanna. Við horfum til erlendrar fyrirmyndar þar sem háskólasamstæður eru vel þekktar og hafa gefið góða raun. Til að taka af allan vafa þá mun Háskólinn á Hólum halda sínu sjálfstæði áfram og sinni starfsemi og sérþekkingu sem hér er. Stóra verkefnið fram undan verður að útfæra nákvæmlega með hvaða hætti aukin tengsl og formlegt samstarf skólanna verður.“

Aðspurð hver tilgangurinn sé með samstarfi skólanna segir Hólmfríður að samstarfið snúist um að auka gæði námsins með því að bjóða upp á fjölbreyttara nám og efla upplifun nemenda. „Ég trúi því að með auknu samstarfi munum við geta boðið upp á fjölbreyttari námsleiðir, betri aðstöðu til náms og rannsókna og öflugri stuðning við starfsfólk og nemendur skólans. Það mun skila sér í fleiri nemendum og fjölbreyttari rannsóknum. Auk þess munu tengingar milli landsbyggðar og höfuðborgar sem og tengingar milli háskóla og atvinnulífs eflast. Það hefur verið ein af sérstöðum Háskólans á Hólum hversu góðar og öflugar tengingar skólinn hefur haft við atvinnulíf þeirra námsbrauta sem hér eru kenndar.“

Spennandi tímar fram undan

Hólmfríður segir spennandi tíma fram undan og ljóst sé að aukið samstarf við Háskóla Íslands muni opna margar dyr. „Með auknu samstarfi getum við t.d. aukið framboð af þverfaglegu námi innan fræðasviða skólans en einnig boðið upp á frekara nám og sérhæfingu á meistarastigi fyrir þá sem hér útskrifast. Það eru t.d. möguleikar að útvíkka nám í kennslufræðum innan reiðkennslunnar, efla nám í viðskiptagreinum innan allra sérsviða Háskólans á Hólum og skoða tækifæri til náms og rannsókna á heilbrigðisvísindasviði í samstarfi við sérsvið skólans.“ Í því sambandi greinir Hólmfríður frá áhugaverðri rannsókn sem nýlega fór í gang og ber heitið „samhæfing barns og hests“ þar sem skoðað er hvort mögulegt sé að meta líffræðilegar og sálrænar breytingar á börnum sem umgangast hesta.

Fræðasvið fá styrki

Fyrr á þessu ári hlaut Háskólinn á Hólum þrjá stóra styrki úr „Samstarfi Háskóla“ sem er sjóður sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið setti á laggirnar til að efla samstarf milli háskóla á Íslandi. Öll fræðasvið Háskólans á Hólum hlutu styrk. Ferðamálafræðin hlaut styrk til að efla nám í ferðamálafræði á ensku í samstarfi við Háskóla Íslands. Fiskeldis- og fiskalíffræðin hlaut styrk til að setja á laggirnar nám og rannsóknir í sjálfbæru lagareldi í samstarfi við alla opinberu háskólana ásamt fleirum. Hestafræðideildin hlaut styrk til að byggja upp Akademíu íslenska hestsins sem hefur það að markmiði að efla rannsóknir á íslenska hestinum.

Hestafræðideildin leiðir verkefnið en samstarfsháskólarnir eru Landbúnaðarháskóli Íslands og Keldur - tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði. Í viljayfirlýsingu um aukið samstarf og mögulega sameiningu Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands, sem rektorar háskólanna tveggja og ráðherra skrifuðu undir í ágúst sl., er gert ráð fyrir að núverandi kennslu- og rannsóknaaðstaða á Hólum verði gerð upp ásamt því að reist verði sérhæft kennslu- og rannsóknahúsnæði á Sauðárkróki sem myndi m.a. hýsa rannsóknir og kennslu í sjálfbæru lagareldi en slíkt húsnæði er ekki til staðar á Íslandi í dag.

Að lokum segir Hólmfríður: „Ég er sannfærð um að fjölbreytni í námsleiðum, rannsóknum og staðsetningu skólanna (dreifbýli - þéttbýli) sem og aukin tengsl skólanna við samfélag og atvinnulíf muni vega þungt í að tækla áskoranir framtíðarinnar eins og fæðuöryggi, umhverfismál og byggðarþróun.“

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum
Fréttir 28. september 2023

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum

Algalíf, íslenska líftæknifyrirtækið, stefnir á að hasla sér völl í framleiðslu ...

Innviðauppbygging til 2025
Fréttir 28. september 2023

Innviðauppbygging til 2025

Fara á í 127 verkefni fram til ársins 2025 við uppbyggingu innviða til að mæta á...

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni
Fréttir 28. september 2023

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni

Sjávarútvegsráðstefnan 2023 verður haldin 2.–3. nóvember í Hörpu. Áhersluatriði ...

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu
Fréttir 27. september 2023

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins greindum við frá því að Halla Sigríður Steinól...

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi
Fréttir 26. september 2023

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi

Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands vinna fjölbreyttar rannsóknir og tilraunaver...

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar
Fréttir 26. september 2023

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar

25 af 33 eyfirskum bændum sem spurðir voru, sögðu að þeir myndu myndu nýta sér k...

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...

Ágúst verður forstöðumaður
Fréttir 25. september 2023

Ágúst verður forstöðumaður

Ágúst Sigurðsson hefur verið skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stof...