Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Sniglakavíar framleiddur í fyrsta skipti á Norðurlöndunum
Fréttir 27. desember 2017

Sniglakavíar framleiddur í fyrsta skipti á Norðurlöndunum

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Rétt utan við Hróarskeldu á Sjálandi í Danmörku er eitt allra sérhæfasta bú Norðurlanda, en þar er starfrækt ræktun á sniglum til átu. Bú þetta er í eigu Ditte Ankjærgaard og Carstens Gydahl-Jensen, eiginmanns hennar, og kviknaði hugmyndin að þessu sérstaka búi í kjölfar þess að Carsten sá breska heimildarmynd um sniglabúskap í sjónvarpinu.

Þau hjónin fóru á fullt í það að kynna sér sniglabúskap og vinnslu á afurðum þeirra og komust fljótt í samband við aðra í þessari búgrein. Eftir kynnisferðir og góðan undirbúning í nærri því eitt ár hófust svo framkvæmdir við búið í vor og nú þegar er sniglaframleiðslan komin á fullt.

Ekki plássfrekur búskapur

Að vera með sniglaframleiðslu krefst í raun ekki mikils athafnasvæðis og er uppeldissvæði bús þeirra Ditte og Carstens rétt um 1.000 fermetrar að stærð, eða 50 metra langt og 20 metra breitt. Búsvæði sniglanna er þakið kálplöntum og grasi en svo eru sérstök fóðrunar-trébretti staðsett víða innan þessa litla svæðis, sem sniglarnir sækja í að vera á og í nánd við. Sniglar þurfa einnig að komst í vatn og raka og því er einnig vökvunarkerfi til staðar. Allt svæðið er svo undir þéttriðnu neti svo sniglarnir verði ekki fuglum að bráð og að sama skapi er sérstök innri girðing undir netinu sem varnar því að sniglarnir dóli sér út úr uppeldissvæðinu. Þá er sérstakt svæði einnig afgirt og er það fyrir eggjaframleiðslu.

Nota krásarbobba

Þó svo að afar algengt sé að nota aðrar tegundir af sniglum völdu þau Ditte og Carsten að nota sniglategund sem er nú þegar algeng í Danmörku og kallast í náttúrunni krásarbobbi en það afbrigði sem þau nota eru framræktaðir eldissniglar. Þessi snigill er afar stór og gulbrúnn og náttúrulegt afbrigði hans algengt víða í Evrópu. Á vef Náttúrfræðistofnunar Íslands segir að þessi snigill hafi fundist þrisvar sinnum hérlendis og þá eingöngu í Reykjavík og því væntanlega borist til landsins með innflutningi, m.a. frá Danmörku..

200 þúsund sniglar

Eftir að framkvæmdum við útisvæðið lauk voru keyptir inn sniglar sem voru nýkomnir úr eggjum sínum í uppeldisstöð í Búlgaríu og þeim komið fyrir víða á útisvæðinu. Svo tók við vinna við fóðrun og hirðingu í sumar en vaxtartími snigla er frá maí og fram í september.

Sniglarnir éta fyrst og fremst kál en þeim er þó afar mikilvægt að fá sérstakt viðbótarfóður sem gerir vöxtinn betri og kuðunginn sterkari. Þetta fóður flytja þau Ditte og Carsten inn frá Frakklandi, en þar í landi eru ótal framleiðendur á sniglum.

Fóðrið, sem samanstendur af hveiti, vítamínum, kalki og öðrum steinefnum, er grófmalað og að hluta til á duftformi og það er sett á sérstök fóðrunarbretti, sem sniglarnir skríða upp á og fá sér í svanginn.

Búskapurinn hefur stækkað nokkuð ört í sumar og nú í haust töldu þau hjónin að fjöldi sniglanna væri kominn í um 200 þúsund talsins, eða um 200 stykki á hverjum fermetra!

Kynbótasniglar

Í haust völdu þau hjónin sérstaka kynbótasnigla sem fengu það hlutverk að framleiða egg fyrir næstu kynslóð snigla. Alls völdu þau 1.000 snigla sem að þeirra mati báru af í vexti og þroska og voru þessir sniglar settir á sérstakt aflokað ræktunarsvæði innan búsins. Þessir sniglar þjónuðu svo bæði þeim tilgangi að framleiða egg fyrir komandi kynslóðir en einnig að framleiða egg fyrir sniglakavíar.

Beint frá býli

Öll vinnsla á sniglaafurðum, hvort heldur sem það er sniglakjöt eða sniglaeggjakavíar, er fullunnin á staðnum. Þetta var nauðsynlegt fyrir þau Ditte og Carsten enda ekki um aðra valkosti að ræða í landinu sem stendur. Vinnslan á þeim er nokkuð einföld í raun en eftir að sniglarnir hafa náð réttri stærð eru þeir tíndir og settir í sérstök búr og á sérstakt lokaeldisfóður. Eftir það er meltingarvegurinn hreinsaður með vatnsfóðrun og á sama tíma er dagsljósinu stýrt, þannig að líkami þeirra bregst við eins og komið sé haust þegar ekkert er lengur að éta og dagsbirtan minni. Þegar þetta gerist fara sniglarnir í dvala og draga sig inn í kuðunginn og þá eru þeir tilbúnir og eru settir í aflífun í gufuofni. Þar sem þeir eru í dvala er þetta talin afar góð aðferð við aflífun. Eftir stutta suðu er kjötið tekið úr skelinni, sett í lofttæmdar umbúðir og fryst.

Eggin hrein lúxusfæða

Þó svo að sniglarnir sjálfir séu mikilvægasta afurð þessa sérstaka bús þá eru egg þeirra afar verðmæt einnig. Fái sniglar rétt fóður og hitastig geta þeir framleitt 60–100 egg á tveggja vikna fresti og þarf egg frá 8–12 sniglum til þess að eiga nóg í lágmarks 30 gramma söluhæfa einingu af eggjum.

Ditte og Carsten eru með sérstaka bolla sem sniglarnir verpa í og svo eru eggin handhreinsuð og þvegin afar gaumgæfilega. Þau eru svo flokkuð í gæðaflokka og lögð í pækil áður en þeim er pakkað til sölu.

Þessi egg eru afar verðmæt og má nefna sem dæmi að svokallaður sniglakavíar, sem gerður er úr sniglaeggjum, kostar um 250 þúsund krónur kílóið. Svona lostæti er í dag aðallega framleitt í Frakklandi og Ítalíu og er oft á boðstólum á svokölluðum Michelin veitingastöðum.

Veðja í fyrstu á veitingahúsin

Ditte vonast til að þessi nýja búgrein eigi eftir að blómstra í Danmörku og dafna vel. Að hennar sögn er hægt að nota kjötið af sniglunum í margs konar veislurétti, bæði má grilla þá, nota í sósur, setja á pitsur eða hvað sem er. Þá sé kjöt snigla einkar heppilegt að samsetningu, bæði fitusnautt og próteinríkt. Í fyrstu er markmið hennar að selja sniglana á veitingastaði landsins en síðar meir er hugmyndin að koma sniglunum í sölu í verslunum sem sérhæfa sig í að selja hágæða matvörur.

Engin vetrarvinna

Það má hverjum vera ljóst að sniglabúskapur er afar sérhæfður og ein af mörgum ástæðum er sú að búskapurinn leggst í raun alveg af á haustin eftir afurðavinnsluna, þá fer búið í vetrardvala líkt og sniglarnir sjálfir á meðan eggin bíða þess að klekjast að vori og þá hefst vinnan að nýju við þessa áhugaverðu búgrein.

Skylt efni: Sniglar

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...