Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Haustið 1920 setti SS á laggirnar niðursuðuverksmiðju og rak í marga áratugi.
Haustið 1920 setti SS á laggirnar niðursuðuverksmiðju og rak í marga áratugi.
Fréttir 26. janúar 2017

Sláturfélag Suðurlands fagnar 110 ára afmæli

Höfundur: Vilmundur Hansen

Sláturfélag Suðurlands var stofnað 1907 og fagnar 110 ára afmæli um þessar mundir. Við stofnun félagsins var sauðfjárrækt ríkjandi í landbúnaði en gæðamálum var áfátt og alvarleg áföll höfðu orðið í útflutningi á lambakjöti. 110 árum síðar er SS í fararbroddi á sviði matvælaframleiðslu og umsvifamikið í innflutningi á matvælum og vörum tengdum matvælaframleiðslu á landinu.

Slagorð Sláturfélags Suðurlands hafa alltaf verið grípandi og hver man ekki eftir „Gæðafæða bragðast best“ og í seinni tíð „Fremstir fyrir bragðið“.

Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, segir að SS hafi frá upphafi verið samvinnufélag í eigu bænda og í dag séu virkir eigendur félagsins um 900.

„Það er merkilegt að hugsa til þess að fyrir stofnun SS hafi bændur víða að rekið fé til Reykjavíkur og freistast til að selja kaupmönnum. Fé sem ekki seldist þann daginn var rekið út fyrir bæinn á kvöldin til beitar og aftur í bæinn á morgnana í von um að það seldist. Seldist sláturféð alls ekki, sem dæmi voru um, var það rekið aftur heim síðla hausts.

Söltun var algengasta geymsluaðferðin á þeim tíma og töluvert af söltuðu lambakjöti selt úr landi. Gallinn var sá að ímynd kjötsins erlendis var mjög slæm. Fénu var oftast slátrað á blóðvelli og kjötið saltað utandyra af mönnum sem lítið kunnu til verka. „Er til útlanda kom var ástand kjötsins einatt þannig að aðeins fátæklingar lögðu það sér til munns og það jafnvel ekki talið mannafæða,“ eins og segir í 25 ára sögu Sláturfélags Suðurlands.

Við þessar aðstæður komu bændur saman við Þjórsárbrú 28. janúar 1907 og stofnuðu Sláturfélag Suðurlands. Stofnfélagar voru 565 og stofnfé samtal 11 þúsund krónur. Fyrsti forstjóri Sláturfélags Suðurlands var Hannes Thorarensen.

Fyrsti yfirslátrari félagsins var Tómas Tómasson og þótti hann hinn mesti röskleikamaður við öll störf.

Samvinnufélög bænda

Steinþór segir að á Norðurlöndunum séu samvinnufélög bænda, eins og Sláturfélag Suðurlands, ráðandi í kjötvinnslu og sölu í dag.

„Má þar nefna Danish Crown og DLG sem bæði eru samvinnufélög bænda og mjög stór, annars vegar á kjötmarkaði og hins vegar á fóðurmarkaði.

Á Íslandi voru á þessum tíma yfirleitt ekki stofnuð samvinnufélög bænda heldur opin samvinnufélög eins og kaupfélögin þar sem allir gátu verið félagsmenn. Undantekning á þessu var á Suðurlandi þar sem til urðu tvö öflug samvinnufélög bænda, SS, sem var samvinnufélag kjötframleiðenda og Mjólkurbú Flóamanna, sem var samvinnufélag mjólkurframleiðenda.“

Hröð uppbygging

Gríðarlegur kraftur var í uppbyggingu félagsins allt frá upphafi. Sett voru á fót sláturhús og verslanir undir merkjum SS og félagið náði fljótlega sterkri stöðu á markaði.

Strax fyrsta árið voru byggðar höfuðstöðvar og sláturhús við Skúlagötu í Reykjavík, sem á þeirra tíma mælikvarða var stórhýsi, og slátrun þar hófst haustið 1907. Í kjölfarið fylgdi kjötvinnsla og frystihús. Fyrsta matvöruverslun SS var opnuð 1908 og var til húsa í Hafnarstræti í Reykjavík og á þeim tíma var þegar búið að kaupa fyrstu pylsugerðarvélarnar.

Steinþór segir að SS hafi rekið sláturhús allt frá frá Kirkjubæjarklaustri að Borgarnesi í samkeppni við marga minni aðila sem hafi smám saman helst úr lestinni. Auk þess rak félagið sútunarverksmiðju og prjónastofu.

Ísskápar voru óþekktir á heimilum landsmanna á fyrstu áratugum tuttugustu aldar og frystigeymslur fáar. Haustið 1920 setti SS á laggirnar niðursuðuverksmiðju og rak hana í marga áratugi. Fyrstu tvö árin var eingöngu soðið niður beinlaust kindakjöt og kæfa en síðar bættust við fiskbollur og lax og seinna fleiri matvæli.

SS geymdi smjör og sá um útflutning þess á síðustu árum smjörbúanna auk þess sem félagið seldi mjólkurafurðir frá Mjólkurbúi Flóamanna og Deildársmjörbúinu í verslunum sínum.

Breytingar á markaði

„Með þróun markaðarins og milli 1950 og 1960 urðu aðrir aðilar öflugir í smásöluverslun. Má þar nefna Silla og Valda, Víðir og Hagkaup. SS var því farið að keppa við kúnnana sína með því að reka sjálft matvöruverslanir.

Sláturfélag Suðurlands lenti þar í erfiðri stöðu og var of seint að bregðast við henni. Það leiddi til þess að félagið komst í talsverðar ógöngur og stóð tæpt árið 1988.

Í kjölfar þess endurskilgreindi félagið sig og markaði sér nýja stefnu sem fólst í því að einbeita sér að framleiðslu og verslun á heildsölustigi. Í framhaldi af því var annarri starfsemi hætt í áföngum.

Frá þeim tíma hefur mikil áhersla verið lögð á hagræðingu og í því sambandi má nefna að frá árinu 1985 hefur sauðfjársláturhúsum verið fækkað úr sjö í eitt. Á sama tíma hefur frystihúsum félagsins verið fækkað úr sex í tvö.

Eftir nokkur erfið ár tók hagur félagsins að vænkast á ný og í dag stendur SS traustum fótum og er leiðandi á sínu sviði.

Félagið hefur þróað starfsemi sína inn á nýjar brautir. Í dag er SS umfangsmikið í innflutningi á matvælum og búrekstrarvörum. Það á að fullu Reykjagarð, sem er stærsta kjúklingafyrirtæki á landinu, og Hollt og gott sem er stærsta fyrirtæki landsins á sviði unnins grænmetis,“ segir Steinþór.

Umfangsmikill innflutningur

Starfsemi Sláturfélags Suðurlands er umfangsmikið þegar kemur að innflutningi á matvöru og vörum tengdum búrekstri.

„Stærstu umboðin sem við erum með tengd búrekstri eru Yara, sem er mjög stór áburðarframleiðandi og DLG, sem er stærsta fóðurfyrirtækið á Norðurlöndum, auk þess sem við flytjum líka inn rúlluplast og sáðvörur og erum að skoða fleiri vöruflokka.

Sláturfélagið er einnig með umboð fyrir McCormick, sem er stærsta kryddfyrirtæki í heimi, Barilla, sem er stærsta pastafyrirtæki í heimi og Mars, sem er eitt stærsta matvælafyrirtæki í heimi og framleiðir meðal annars Mars og Snickers súkkulaði, M&M og Uncle Bens-hrísgrjón og sósur og dýramat svo dæmi séu nefnd.“

Steinþór segir að SS reyni að stýra innflutningnum þannig að hann sé ekki í samkeppni við þær vörur sem þeir framleiða á innanlandsmarkaði. „Auðvitað getur alltaf átt sér stað skörun en við reynum að velja vörur sem eru ekki í andstöðu við okkar eigin framleiðslu.“

Vöruþróun á lambakjöti

Því er stundum haldið fram að takmörkuð vöruþróun standi í vegi fyrir aukinni sölu á lambakjöti. Steinþór segir þetta ekki alls kostar rétt. „Hjá SS hafa verið þróaðir margs konar tilbúnir og auðmatreiddir réttir úr un á lambakjötilambakjöti. Vandamálið er að koma þeim inn í yfirfullar verslanir. Þegar við komum með nýjar vörur, sem við viljum koma inn, erum við spurðir hvað við ætlum að taka út í staðinn.

Í dag er tilbúinn eldaður kjúklingur gríðarlega vinsæll og til þessa hefur okkur einfaldlega ekki tekist að búa til eitthvað hliðstætt úr lambi. Víðast er samt sem áður boðið upp á margskonar útfærslur á lambakjöti sem búið er að skera til og krydda.

Megnið af kjúklingi, svína- og nautakjöti er selt sem ferskt af nýslátruðu og lítur því betur út en lambakjöt sem er búið að þíða upp af því að gripunum sem er nánast öllum slátrað á haustin og afurðirnar geymdar eru frosnar stóran hluta ársins.

Fyrir vorið ætlum við að setja á markað nýja vöru úr lambakjöti sem er foreldað lambalæri í sneiðum og í brúnni sósu fyrir tvo sem tekur tuttugu mínútur að elda. Það sem meira er, þessi réttur verður á svipuðu verði og tilbúinn kjúklingur.“

Margs konar áskoranir fram undan

Steinþór segir að SS og landbúnaður í heild standi frami fyrir margs konar áskorunum í framtíðinni.
„Innflutningur á matvælum mun aukast í náinni framtíð og við verðum að mæta honum með enn meiri hagræðingu en þegar hefur átt sér stað.

Við munum að sjálfsögðu endurmeta aðstæður með tilliti til þess að það er búið að gera tollasamning við Evrópusambandið. Í kjölfar þess mun innflutningur á matvælum aukast verulega í náinni framtíð og við tapa hluta markaðarins vegna þess. Áhrifin verða mest í upphafi en ég reikna með að áhrifin minnki er frá líður og innlendur markaður stækkar svo fremi sem stjórnvöld geri ekki einhverjar meiri breytingar.
Alvarlegasta ógnin við kjötmarkaðinn í dag, að mínu mati, er ef það verður leyft að flytja inn ferskt kjöt. Það mun stórauka innflutning og einnig hættuna á að hingað berist dýrasjúkdómar.

Framtíðin býður einnig upp á margs konar tækifæri sem meðal annars er að finna á erlendum mörkuðum þar sem neytendur eru tilbúnir að borga hátt verð fyrir gæði og sérvörur. Sláturfélagið er að selja inn á nokkra slíka markaði, meðal annars í Bandaríkjunum og Japan, en magnið þarf að aukast verulega til að þetta telji að ráði í heildina.“

Ímyndarmál landbúnaðarins

„Í mínum huga er deginum ljósara að landbúnaður og íslensk landbúnaðarframleiðsla hefur farið hallloka í ímyndarumræðunni undanfarin ár. Þeim, sem hafa hag af því að flytja inn matvöru, hefur tekist að hafa sterk áhrif á almenningsálitið og snúa því gegn íslenskum landbúnaði og matvælaframleiðslu.

Vegna þessa er mjög mikilvægt að hagsmunaaðilar í landbúnaði vinni saman við að bæta ímynd greinarinnar. Síðastliðið sumar tókst að ná miklum fjölda fyrirtæja og samtaka saman í slíkt átak sem kallaðist Sumarilmur.

Landbúnaður snýst ekki bara um framleiðslu á kjöti og mjólk. Hann er einnig grunnurinn að búsetu og þeirri þjónustu sem er að finna um allt land. Án landbúnaðar hefði ekki verið hægt að taka á móti öllum þeim erlendu ferðamönnum sem eru að heimsækja landið. Hvað þá veita þeim þjónustu nema af því að það er landbúnaður og byggð í sveitum landsins. Vöxtur ferðaþjónustunnar byggir því að hluta til á landbúnaði og virðisauki sem því fylgir réttlætir fyllilega að stutt sé við innlendan landbúnað.

Annað sem skiptir máli og mun skipta mun meira máli í framtíðinni eru umhverfismál og hið svokallaða kolefnisspor. Þriðja atriðið sem ég vil nefna er að ef horft er lengra fram á veginn þá er greinilegt að landbúnaður víða erlendis stefnir í miklar ógöngur vegna vatnsskorts.

Aðstæður á Íslandi til matvælaframleiðslu eru mjög jákvæðar fyrir framleiðslu á gæða matvælum og mikið glapræði að kasta því fyrir róða vegna hugsanlegs skammtímaávinnings,“ segir Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands.

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...

Samdráttur í sölu á fræi
Fréttir 8. júní 2022

Samdráttur í sölu á fræi

Samkvæmt lauslegri könnun Bændablaðsins er búið að flytja inn rúm tvö tonn a...

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu
Fréttir 8. júní 2022

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu

Rúmlega tuttugu íslensk fyrirtæki sem tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu ...