Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Umhverfið á Mógilsá hefur breyst mikið og nú er alltaf logn þar sem áður gnauðaði vindurinn ofan af Esju.
Umhverfið á Mógilsá hefur breyst mikið og nú er alltaf logn þar sem áður gnauðaði vindurinn ofan af Esju.
Mynd / Edda S. Oddsdóttir.
Á faglegum nótum 11. maí 2017

Skógrannsóknir í hálfa öld

Höfundur: Pétur Halldórsson
Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá fagnar á þessu ári hálfrar aldar afmæli sínu. Afmælinu er fagnað með tvennum hætti á árinu, annars vegar með Fagráðstefnu skógræktar sem haldin var nýverið í Hörpu í Reykjavík og hins vegar með hátíð á Mógilsá í ágústmánuði þegar fimmtíu ár verða liðin frá vígslu stöðvarinnar.
 
Í kjölfar heimsóknar Ólafs V Noregskonungs til Íslands árið 1961 barst Íslendingum þjóðargjöf frá Norðmönnum og var hluti hennar nýttur til að koma upp aðstöðu til skógrannsókna í landi Mógilsár við Kollafjörð. Stöðin var vígð í ágústmánuði 1967. Á þeim tíma var Mógilsá vindasamur staður og skóglaus. Nú hreyfir þar varla hár á höfði því upp er vaxinn gróskumikill skógur en gróskan hefur líka verið mikil í rannsóknarstarfinu. Edda Sigurdís Oddsdóttir jarðvegsvistfræðingur veitir stöðinni forstöðu sem sviðstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar.
 
Starfsmenn tveir í upphafi
 
Í Alþýðublaðinu 21. febrúar 1967 er fjallað um starfsemi Skógræktarinnar og meðal annars rannsóknastöðina nýju sem þá var í smíðum. Fram kemur að framkvæmdirnar hafi kostað fimm milljónir króna. Stöðinni sé ætlað:
 
„... að vera miðstöð fyrir tilraunir, sem gerðar eru víðs vegar um landið, en þær eru þegar komnar nokkuð á stað. Skógræktinni barst mikið af rannsóknartækjum að gjöf frá Þýzkalandi. Einnig gáfu Norðmenn 1 mill kr. Á Mógilsá eru nú tveir fastráðnir starfsmenn.“
 
Í Morgunblaðinu 16. ágúst 1967 er síðan fjallað um vígslu stöðvarinnar undir fyrirsögninni „Óska Íslandi til hamingju með skógræktina og hina nýju skógræktarstöð“. Sagt er frá því að Haraldur ríkisarfi Norðmanna hafi daginn áður vígt til afnota „Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins sem reist hefur verið að Mógilsá á Kjalarnesi fyrir þjóðargjöf Norðmanna til Íslendinga, er Ólafur V Noregskonungur afhenti Íslendingum, er hann heimsótti Ísland árið 1961.“
 
Þjóðargjöf Norðmanna var annars vegar ætlað að verja til eflingar skógrækt á Íslandi og hins vegar til eflingar menningartengsla milli Íslands og Noregs. Sérstök stjórnarnefnd var skipuð til að ákveða hvernig fénu skyldi varið og sat Hákon Bjarnason skógræktarstjóri í nefndinni ásamt Myklebost, sendiherra Norðmanna á Íslandi, og Hákoni Guðmundssyni yfirborgardómara. Ákveðið var að verja fjórum fimmtu hlutum gjafarinnar til að reisa tilraunastöð fyrir skógrækt.
 
Þekking forsenda árangurs
 
„Með þekkingu ræktum við skóg“ var yfirskrift Fagráðstefnu skógræktar á afmælisári Mógilsár en líka í ljósi umbrotatíma á jörðinni. Fram undan er það gríðarlega verkefni að bægja frá eins og mögulegt er þeirri ógn sem lífi á jörðinni stafar af loftslagsbreytingum. Fyrir 500 milljónum ára var magn koltvísýrings í lofthjúpi jarðar fimmtán sinnum meira en nú. Við þær aðstæður gæti fátt lifað af þeim lífverum sem byggja jörðina nú. Upp uxu fyrstu skógarnir og við eigum skógum jarðar að þakka þá tilveru sem við þekkjum á okkar dögum. Skógarnir bundu kolefnið og bjuggu í haginn fyrir þá þróun lífvera sem varð.
 
Binding er nauðsyn
 
Nú er svo komið að mannkyn hefur eytt skógum í stórum stíl og losað á fáeinum öldum út í andrúmsloftið ógrynni af kolefni sem lífverur á landi og sjó höfðu bundið á hundruðum milljóna ára. Hröðust hefur losunin verið frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Mál er að linni. Grípa þarf til aðgerða og draga úr losun. Einnig þarf að fela skógunum á ný það hlutverk sem náttúran fól þeim í öndverðu, að binda kolefni svo að lífið á jörðinni geti haldið áfram. Hér höfum við Íslendingar mikið hlutverk, bæði vegna þess að við eyddum nær öllum skógunum okkar með geigvænlegri jarðvegseyðingu í kjölfarið og vegna þess að losun á hvert mannsbarn er óvíða meiri en á Íslandi. Við höfum mikið landrými og það hefur sýnt sig að skógar hér á landi binda mikið kolefni.
 
Hvernig vitum við það? Jú, meðal annars vegna þess mikla og góða rannsóknarstarfs sem unnið er á Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá. Stöðin sér Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna fyrir tölum um bindingu í íslenskum skógum með verkefninu Íslenskri skógarúttekt. Viðamiklar og reglubundnar mælingar liggja þar að baki og byggð hefur verið upp mikil þekking sem meðal annars segir okkur að íslenskir nytjaskógar bindi að meðaltali 7,7 tonn af koltvísýringi árlega á hverjum hektara.
 
Leitin að betri efniviði
 
Á vegum stöðvarinnar á Mógilsá er unnið að margvíslegum öðrum rannsóknum og stór hluti af því er að finna þann efnivið trjátegunda sem best getur hentað til skógræktar á Íslandi. Unnið er að trjákynbótum sem borið hafa góðan ávöxt, til dæmis hraðvaxta lerki sem þrífst vel við úthafsloftslag, asparklóna sem hafa mikla mótstöðu gegn ryðsveppi og kynbættan fjallaþin til jólatrjáaframleiðslu. 
 
Margt er ótalið sem þó væri vert að tíunda, rannsóknir á skaðvöldum, þjónusta á sviði landupplýsinga, árhringjarannsóknir, skóg­hagfræðilegar rannsóknir og fleira. Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá er þekkingarsetur skógræktar á Íslandi. Þar njóta nemendur í skógfræði leiðsagnar og starfsþjálfunar, stöðin tekur þátt í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi auk samstarfs við innlenda háskóla, stofnanir og fyrirtæki. 
 
Þegar hugað verður að aukinni skógrækt á landinu til að binda kolefni og efla byggðir landsins er nauðsynlegt að huga um leið að eflingu skógræktarrannsókna. Efla þarf rannsóknir og landupplýsingaþjónustu sem gagnast skógarbændum og öðrum skógræktendum beint, hlúa að trjáplöntuframleiðslu í landinu með gæði að leiðarljósi og á allan hátt efla og bæta skógrækt í landinu landsmönnum til heilla.
 
Pétur Halldórsson,
kynningarstjóri Skógræktarinnar 

5 myndir:

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...