Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 ára.
Framsögumenn á málþinginu: Sigríður Bjarnadóttir, Edda Björnsdóttir, Ólafur Eggertsson, Bjarki Jónsson, Jóhann Gísli Jóhannsson, Björn B. Jónsson, Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, Logi Unnarson Jónsson, Gunnar Þorgeirsson, Eiríkur Þorsteinsson og fundarstjór
Framsögumenn á málþinginu: Sigríður Bjarnadóttir, Edda Björnsdóttir, Ólafur Eggertsson, Bjarki Jónsson, Jóhann Gísli Jóhannsson, Björn B. Jónsson, Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, Logi Unnarson Jónsson, Gunnar Þorgeirsson, Eiríkur Þorsteinsson og fundarstjór
Mynd / Hlynur Gauti
Fréttir 31. október 2019

Skógarbændur eru á áætlun varðandi viðarafurðir

Höfundur: smh

Málþing um viðargæði og afurðir var haldið á Hótel Kjarnalundi við Akureyri laugardaginn 12. október í tengslum við aðalfund Landssamtaka skógareigenda (LSE). Rætt var um viðargæði og -afurðir frá ýmsum hliðum.

Að sögn Hlyns Gauta Sigurðssonar, framkvæmdastjóra LSE, sem hafði veg og vanda af málþinginu, fór aðsókn fram úr væntingum skipuleggjenda og var húsfyllir í Kjarnalundi. Hann segir að lagt hafi verið upp með að halda málþing fremur en ráðstefnu einfaldlega af þeirri ástæðu að margar spurningar brenni á fólki sem farið er að vinna úr skógum landsins. Undanfarna áratugi hafi mesta vinnslan verið úr þjóðskógum landsins en um þessar mundir eru bæði skógar skógræktarfélaganna og elstu skógar skógarbænda að verða gjaldgengir til viðarvinnslu.

Framsögumenn málþingsins komu víða að og hafa víðtæka reynslu, hver á sínu sviði. Málþingið hófst á viðarfræði, um miðbikið var farið í afurðir og að endingu fjallað um framtíðarhugmyndir og nám.

Húsfyllir var á málþingi skógarbænda.

Framsýni, djörfung og frumkvæði

Edda Björnsdóttir, skógarbóndi og fyrsti formaður LSE, reið á vaðið með hvatningarræðu til skógarmanna. Hún sagði að einkunnarorðin „Framsýni, djörfung og frumkvæði“ væru lykilorð sem hafa leitt skógarbændur þangað sem þeir væru nú. Árangurinn væri góður og því hægt að líta björtum augum fram á veginn. Jóhann Gísli Jóhannsson, formaður LSE, tók í sama streng og taldi að greinin væri alveg á áætlun miðað við það sem lagt var upp með fyrir áratug síðan. Hann nefndi viðarafurðir í því sambandi, sem væru á leið á markað um þessar mundir.

Viðarfræðin eru grunnurinn

Ólafur Eggertsson, sérfræðingur hjá Skógræktinni, fjallaði um viðarfræði – sem í máli hans kom fram að væri grunnurinn að öllu öðru varðandi viðargæði og -afurðir. Með þekkingu á viðnum megi greina notagildi hvers viðar og hverrar tegundar. Umhirða skógarins skipti mestu máli þegar kemur að gæði viðarins en þannig megi til dæmis stýra þvervexti og uppvexti.

Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður á Hallorms­stað, skýrði frá viðarþurrkun. Viður í skógi er misjafnlega þurr eftir aðstæðum en til þess að hægt sé að vinna við áfram til vinnslu eru ýmis atriði sem vert sé að vita. Eina þumalputtareglu gaf Bergrún; ef viður er með yfir 20 prósent rakainnihaldi skal hann ekki afhentur til frekari vinnslu.

Burðarþol asparinnar

Eiríkur Þorsteinsson, sérfræðingur í timbri, rakti sögu viðarsögunar á Íslandi. Hann endaði á að fjalla um samvinnuverkefni Límtrés Vírnets, Skógræktarinnar og Nýsköpunarsmiðstöðvar Íslands, þar sem íslenskt timbur var notað og límt í burðarbita. Logi Unnarson Jónsson, ráðgjafi hjá Límtré Vírnet, útskýrði síðan frekar áhugaverðar niðurstöður úr því verkefni, þar sem tegundirnar stafafura, rússalerki, sitkagreni og alaskaösp voru notaðar ásamt hefðbundnu sænsku rauðgreni til viðmiðunar. Burðarþolsprófanir hafi leitt í ljós að allar tegundirnar megi nýta í burðarvið en óvænt hefði verið hvað öspin stóð sig vel.

Birgir Kristjánsson, fram­kvæmda­stjóri Tandrabretti ehf., kynnti viðarvinnslustöð sem ætlað er að nýta ýmiss konar smávið, allt frá greinum upp í smærri tré. Birgir sagði stóran markað vera í viðarperlum og lífdísil á næstu árum og ef vonir ganga eftir gæti slík vinnsla hafist á næstu misserum. Björn Steinar Blumenstein vöruhönnuður fór yfir ýmsa möguleika fyrir íslenskan við og sýndi meðal annars húsgagnavörulínu sem hann vann í samvinnu við smíðaverkstæði og skógargeirann á landsvísu.

Öflugur tækjakostur

Bjarki Jónsson, eigandi Skógar­afurða ehf., rakti sögu fyrirtækisins í máli og myndum. Hann sagði að tækjakostur þeirra væri nú það öflugur að timburframboð úr skógum landsins dygði ekki upp í mögulega afkastagetu. Í skógum landsins leyndist töluvert af efni sem enn hafi ekki verið sagað eða dregið út úr skógum.

Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands garðyrkjubænda, sagði í sínu erindi að hagsmunir garðyrkju­bænda og skógarbænda lægju oft og tíðum náið saman og vert væri að efla frekara samstarf á ýmsum sviðum.

Innleiðing skógar­menningar Skandinavíu

Í síðasta erindinu fjallaði Björn B. Jónsson, skógarbóndi og settur verkefnisstjóri TreProX, um næstu skref í timburvinnslu á landinu. Hann sagði frá TreProX verkefninu sem felur í sér að mennta „fólkið á söginni“ og innleiða menningu frá okkar vinaþjóðum í Skandinavíu. Hann fjallaði um innleiðingu á stöðlum og vottunum ýmiss konar. Allt þetta væri í vinnslu sem verði forvitnilegt að fylgjast með.

Göngu- og skoðunarferðir

Að lokum gerði Sigríður Bjarna­dóttir skógarbóndi upp málþingið í örfáum orðum og að svo búnu var farið í göngutúr um Kjarnaskóg og skoðunarferðir um Gróðrarstöðina Sólskóga ehf. og Skógræktarfélag Eyfirðinga.

Að málþinginu stóðu Lands­sam­tök skógareigenda, Skóg­ræktin, Skógræktar­félag Íslands, Nýsköpunar­miðstöð Íslands, Landbúnaðar­háskóli Íslands og Sólskógar ehf. Fundarstjórn var í höndum ÁgústsÓlafssonar fjölmiðlamanns. 

Matvælastofnun veitir leiðbeiningar til dýraeigenda vegna eldgosa á Reykjanesi
Fréttir 19. apríl 2021

Matvælastofnun veitir leiðbeiningar til dýraeigenda vegna eldgosa á Reykjanesi

Matvælastofnun hefur gefið út leiðbeiningar til dýraeigenda vegna eldgosa á Reyk...

Mikilvægt að ráðast í endurbætur á versta vegarkaflanum
Fréttir 19. apríl 2021

Mikilvægt að ráðast í endurbætur á versta vegarkaflanum

Mikilvægt er að ráðast sem fyrst í þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru við hále...

Flateyjarjörðinni á Mýrum í Austur-Skafta­fellssýslu verður skipt upp í tvær jarðir
Fréttir 15. apríl 2021

Flateyjarjörðinni á Mýrum í Austur-Skafta­fellssýslu verður skipt upp í tvær jarðir

Stjórn Selbakka ehf., sem á og rekur Flateyjarbúið á Mýrum í Austur-Skaftafellss...

Styrkir til rannsókna og þróunarverkefna búgreina
Fréttir 15. apríl 2021

Styrkir til rannsókna og þróunarverkefna búgreina

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki til ranns...

Mælaborð landbúnaðarins markar tímamót varðandi samantekt og birtingu upplýsinga
Fréttir 15. apríl 2021

Mælaborð landbúnaðarins markar tímamót varðandi samantekt og birtingu upplýsinga

Mælaborði landbúnaðarins var hleypt af stokkunum af Kristjáni Þór Júlíussyni sjá...

Matvælið – Nýtt hlaðvarp Matís um rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu
Fréttir 14. apríl 2021

Matvælið – Nýtt hlaðvarp Matís um rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu

„Matvælið – hlaðvarp Matís“ er nafn á glænýjum hlaðvarpsþætti sem er nú aðgengil...

Er stórsókn í ylrækt fýsileg?
Fréttir 14. apríl 2021

Er stórsókn í ylrækt fýsileg?

Eimur stendur fyrir svokallaðri vefstofu (fjarfundi) á morgun undir yfirskriftin...

BYKO og Lely Center Ísland í samstarf um fjósalausnir
Fréttir 14. apríl 2021

BYKO og Lely Center Ísland í samstarf um fjósalausnir

Nýlega ákváðu BYKO og Lely Center Ísland að hefja samstarf í því að bjóða kúabæn...