Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Fréttir 14. ágúst 2020

Sigríður og Kristján prjóna lopapeysur í sameiningu

„Þegar við fórum að reka kaffi­húsið í Litlabæ var ákveðið að hafa þar eitthvað til sölu og í fram­haldi af því kviknaði hugmynd um að bjóða upp á prjónaðan varning,“ segir Sigríður Hafliðadóttir í Hvítanesi, en hún hefur í samvinnu við eiginmann sinn, Kristján Kristjánsson, prjónað lopapeysur í gríð og erg. Þær hafa um árabil verið til sölu í Litlabæ við Ísafjarðardjúp og verið vinsæll varningur hjá erlend­um ferðamönnum sem koma þar að á hverju sumri.
 
Kristján prjónar jafnan bolinn og Sigríður klárar verkið og gengur frá. Auk þess að vera liðtæk í lopa­peysuprjóni situr hún einnig við og prjónar vettlinga, sokka og húfur.„Ég hef gaman af því að prjóna og hef stundað þessa iðju mér til skemmtunar frá því ég var lítil stelpa,“ segir Sigríður. 
 
Mikilvægt að sýna líka kotbýli
 
Litlibær var á árum áður í eigu fjölskyldu Kristjáns en búskapur lagðist af árið 1969 og fór jörðin þá í eyði. Þrjátíu árum síðar gaf fjölskyldan Þjóðminjasafninu húsið og var það gert upp. Upphaflega húsið var reist árið 1895 af tveimur vinafjölskyldum sem báðar bjuggu í húsinu, en því var skipt í miðju með þvervegg. Það er úr timbri með steinhlöðnum veggjum upp að langhliðum og grasi á þökum. Sigríður segir að Þjóðminjasafnið hafi með því að gera býlið upp viljað sýna almenningi hvernig kotbýli fyrri tíma litu út, en þegar eru aðgengileg í landinu nokkur stór­býli höfðinga.  „Það er ekki síður áhugavert að fá innsýn í það hvernig þeir sem minna máttu sín bjuggu fyrrum,“ segir Sigríður en þegar mest var bjuggu yfir 20 manns í húsinu sem ekki er ýkja stórt. Lífið byggðist upp á sjósókn, ræktarland umhverfis býlið er lítið, en ábúendur höfðu alla tíð kýr og kindur í einhverjum mæli með sjómennskunni. 
 
Þjóðlegar veitingar
 
Hvítanes er í um eins kílómetra fjarlægð frá Litlabæ og þar hafa þau Sigríður og Kristján búið ásamt börnum sínum. Þau voru með fjárbú, 12 kýr og þó nokkuð af geldneytum þegar mest var, en hafa nú hætt búskap. 
 
Sigríður segir að alla tíð hafi ­mikið verið um að fólk á ferðinni hafi komið heim að Litlabæ og langað að skoða. Þau hafi verið á fullu við að sýna ferðalöngum bæinn og það vatt upp á sig á þann veg að eftirspurn varð einnig nokkuð eftir því að staldra við og fá kaffisopa. „Þannig að þetta endaði með að sett var upp kaffihús, í fyrstu með einföldum þjóðlegum veitingum eins og vöfflum, kleinum og hjónabandssælu svo dæmi séu tekin. Úrvalið hefur svo aukist í áranna rás og í boði er að jafnaði vegleg kaka dagsins sem jafnan nýtur vinsælda og þá eru pönnukökur bakaðar þegar koma hópar,“ segir Sigríður.
 
Kenndi Kristjáni að prjóna
 
„Síðan þróast allt og það bætist eitt og annað við, m.a. var sett upp söluhorn og ég fer að prjóna vettlinga, sokka, húfur og lopapeysur til að bjóða útlenda ferðafólkinu, en það er alltaf töluverð eftirspurn eftir varningi af því tagi,“ segir Sigríður. „Kristján fór líka að velta fyrir sér varningi og var hér úti í skemmu að renna ýmsa hluti en horfði öfundaraugum á mig sem sat inni í hlýjunni í notalegheitum með prjónana. Það varð úr að ég kenndi honum að prjóna og okkar samvinna við lopapeysuprjónið hófst. Það hefur gengið mjög vel og menn hafa á orði að enginn munur sé á handbragði eða áferð hvort heldur það er bolurinn sem Kristján prjónar eða ermar sem ég hef á minni könnu.“
 
Enn að baka og búa til sultur
 
Sigríður segir að rekstur veitinga­staðar í Litlabæ hafi nánast óvart komið upp í hendur þeirra hjóna fyrir 15 til 20 árum síðan. Þau hafi þá brugðið búi og ekki haft annað í hyggju en að hafa það náðugt meðan aldurinn færðist yfir. „En svona er nú lífið, það færir manni ýmis verkefni að takast á við og þetta hefur verið ánægjulegt,“ segir Sigríður en nú í vor hættu þau rekstrinum og Guðrún Fjóla dóttir þeirra tók við. „En við komum nú reyndar áfram við sögu í Litlabæ, veitum þá aðstoð sem þarf og ég er enn að baka,“ segir hún. Þá gera þau einnig sultur sem eru til sölu á palli niðri við sjó og hafa þann háttinn á að fólk tekur sultukrukku og greiðir í bauk sem þar er. Þau nýta ríkulegt aðalbláberjaland í námunda við sig og hafa að auki einnig bakað bláberjaköku sem í boði er á kaffihúsinu og þykir lostæti.
 
Útlendingar farnir að sjást á ný
 
Sigríður segir að um árin hafi mikil umferð verið á Litlabæ en farþegum skemmtiferðaskipa sem stoppa á Ísafirði er boðið upp á dagsferð m.a. með viðkomu þar. Eins hafi erlent ferðafólk í hópferðum staldrað við í miklum mæli. Mikið sé einnig um að fólk á ferðinni stoppi í Litlabæ. 
 
„Útlendingana vantaði alveg fram­an af sumri, en þeir eru aðeins farnir að sjást á ný, það kemur einn og einn og mér sýnist að þeim fari fjölg­andi,“ segir Sigríður. Hún bætir við að Íslendingar séu mikið á ferðinni og engu líkara en landsmenn hafi bara allir ætlað að skoða Vest­firði í sumar, slík er umferðin. „Undanfarna daga hefur verið mikið að gera, yfirfullt alla daga og greinilegt að landsmenn eru á faraldsfæti. Veðrið hefur leikið við okkur og stemningin er yndisleg,“ segir hún.